28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

49. mál, hlutafélög

Frsm. (Ólafur G. Einarsson) :

Hæstv. forseti. Þetta frv. var flutt snemma á þessu þingi og lagt fyrir hv. Ed., þar sem það hefur verið afgreitt.

Fjh.- og viðskn. beggja d. unnu saman að athugun málsins og nutu aðstoðar Gylfa Knudsens deildarstjóra í viðskrn.

Hér er um að ræða yfirgripsmikið mál. Gildandi lög um hlutafélög eru frá árinu 1921 og litlar breytingar hafa verið gerðar á þeim lögum allan þennan líma, í meira en hálfa öld. Lögin eru því að mörgu leyti orðin úrelt. Löggjöf sem þessi verður að sjálfsögðu að fullnægja þörfum atvinnu- og viðskiptalífsins á hverjum tíma, en á þessum tíma, sem liðinn er síðan lögin voru sett, hefur atvinnu- og viðskiptalíf tekið miklum breytingum og hlutafélögum að sjálfsögðu fjölgað mjög. Þess vegna er orðið tímabært að setja nýja hlutafélagalöggjöf. Á síðustu árum hefur verið sett ný löggjöf um hlutafélög á Norðurlöndum og nú er sem sagt komið hér nýtt frv. um hlutafélög.

Við yfirferð á frv. eftir að það kom frá hv. Ed., þar sem gerðar voru margar breytingar, komu í ljós nokkur atriði sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þar er einkum um að ræða prentvillur, rangar tilvitnanir og minni háttar breytingar. Vegna þessa flytur fjh.- og viðskn. brtt. á sérstöku þskj., þ. e. á þskj. 691. Þessar breyt. eru allar smávægilegar og eins og ég sagði einkum um að ræða ritvillur og rangar tilvitnarnir. Ég sé því ekki ástæðu til að fara að telja þær sérstaklega upp. Það er ekki heldur sérstök ástæða til að rekja að öðru leyti breytingarnar sem gerðar voru í hv. Ed. á upphaflega frv. Það fylgir greinargott yfirlit eða umsögn um þær breyt. með nál. hv. fjh.- og viðskn. Ed. á þskj. 476 og vísa ég til þess.

Ég vil taka sérstaklega fram varðandi 2. mgr. 1. gr. frv., sem segir að hlutafélag merki í lögum þessum félag þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins, að með þessari skilgreiningu er ekki ætlunin að breyta skilgreiningunni eða breyta möguleikum til stofnunar annarra félaga en hlutafélaga með takmarkaðri ábyrgð, svo sem samlaga eða sölusamtaka. Þetta tek ég fram fyrir hönd n., vegna þess að um þetta hefur verið spurt, en n. þótti ekki ástæða til að breyta orðalagi greinarinnar þess vegna og telur það nægilega skýrt.

Nál. er á þskj. 690 og þar kemur fram að n. mælir einróma með samþykkt frv.