28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4166 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv, til laga um tekju- og eignarskatt, N. hefur rætt þetta frv. nú að undanförnu á allmörgum fundum sínum og það voru í fyrstu sameiginlegir fundir með fjh.- og viðskn. Ed. Þessa fundi n. hafa einnig setið þeir Árni Kolbeinsson deildarstjóri í fjmrn., Ólafur Nilsson löggiltur endurskoðandi, svo og hafa komið á fund n. Sigurbjörn Þorbjörnsson ríkisskattstjóri og dr. Þorkell Helgason dósent. Þessir menn hafa veitt nefndunum margháttaðar upplýsingar varðandi frv. og útskýrt það, komið með reiknuð dæmi sem sýna breytta skattbyrði og önnur áhrif frv.

Þetta frv. er að stofni til og efnisskipan byggt á því frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem lagt var fyrir síðasta þing, en varð þá eigi útrætt. Mörg efnisatriði þessa frv. eru óbreytt frá hinu fyrra. Eins og kunnugt er, var á síðasta þingi lögð mikil vinna í fjh.- og viðskn. þingsins í athugun þess frv. sem þá var til umr. N. héldu þá fjölmarga fundi um málið og áttu viðræður við fulltrúa flestra þeirra aðila og samtaka sem sendu umsagnir, en umsagnir bárust frá yfir 20 aðilum þá. Sú athugun, sem nú hefur farið fram á þessu frv., er þess vegna beint framhald þeirrar vinnu, sem innt var af hendi á síðasta þingi.

Formenn fjh.- og viðskn. beggja þd. fóru á s. l. sumri ásamt sérfræðingum yfir allar umsagnirnar, sem bárust um fyrra frv., og þessir aðilar gerðu till. til fjmrh. um breyt. með hliðsjón af ýmsum atriðum, sem komið höfðu fram í umsögnum og á fundum fjh.- og viðskn., og einnig lögðu þeir þar til, að frv. yrði endursamið með tilliti til þess, að staðgreiðslukerfi skatta yrði komið á. Síðan hefur verið unnið að þessu máli í fjmrn. og frv, endursamið á grundvelli þessara aths. og tillagna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að rekja frv. nú, það gerði hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir því á sínum tíma, en mér þykir rétt vegna hinnar miklu umr., sem fram fór á s. l. ári um fyrra frv., að gera sérstaka grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrra frv.

Það er þá í fyrsta lagi um skattlagningu einstaklinga, en þar er lögð til gerbreyting á reglunum um skattlagningu hjóna. Í stað helmingaskiptareglu fyrra frv. er lögð til takmörkuð sérsköttun hjóna. Hvort hjóna um sig telur fram og er skattlagt af launatekjum sínum og atvinnurekstrartekjum. Eignartekjur beggja eru skattlagðar með tekjum þess hjóna er hærri hefur launatekjurnar. Hvort hjóna um sig hefur sama skattstiga og persónuafslátt og einstaklingar. Sá hluti persónuafsláttar, sem öðru hjóna nýtist ekki, færist yfir til hins hjóna. Barnabætur skiptast til helminga á milli hjónanna. Til eignarskatts eru eignir hjónanna lagðar saman og helmingur heildareignanna síðan skattlagður hjá hvoru um sig eftir sama eignarskattsstiga og gildir um einstaklinga.

Þá er lagt til að launatekjur barna verði sérskattaðar hjá þeim með lágu föstu skatthlutfalli, 5% af tekjum, en börn njóta ekki persónuafsláttar. Í fyrra frv. var gert ráð fyrir algjörri samsköttun foreldra og barna. Þá er horfið frá afsláttarkerfi fyrra frv., en tekið upp frádráttarkerfi svipað ákvæðum gildandi laga. Frádráttarliðum er þó fækkað nokkuð og gjaldendum gefið val um að nota fastan frádrátt sem áikveðið hlutfall af launatekjum í stað þess að tíunda og njóta frádráttar vegna lífeyrisiðgjalda, stéttarfélagsiðgjalda, vaxtagjald og sérstakra gjafa til menningarmála. Er talið að um 75% af framteljendum — einstaklingum — muni notfæra sér þessa heimild í frv.

Ýmsum öðrum atriðum er breytt, svo sem reglum um söluhagnað ófyrnanlegra fjármuna og reglum um söluhagnað íbúðarhúsnæðis, reglum um frádráttarbærni meðlaga, reglum um skattlagningu utanríkisþjónustumanna, tekjuuppgjör af útleigðu húsnæði o. s. frv.

Um skattlagningu atvinnurekstrarins vil ég taka þetta fram. Reglum um fyrningar og söluhagnað er gjörbreytt. Í stað ákvæða fyrra frv. um fyrningu lausafjár af bókfærðu verði og fyrningu fasteigna að upphaflegu kostnaðarverði eru ákvæði um að fyrning skuli reiknuð af endurmetnu stofnverði fyrnanlegra eigna. Stofnverðið er framreiknað með verðbreytingastuðli sem miðast við breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar milli ára, og árleg fyrning er reiknuð af hinu framreiknaða stofnverði. Fengnar fyrningar eru endurmetnar á sama hátt, þannig að fengin fyrning hvers árs er margfölduð með verðbreytingastuðli fyrningarársins. Fyrningahlutföll eru lækkuð frá því sem nú er. Kveðið er á um 10% niðurlagsverð mannvirkja og lausafjár. Í ákvæði til bráðabirgða eru sérstakar reglur um endurmat á stofnverði þeirra eigna, sem skattaðili hefur eignast fyrir gildistöku laganna, og um endurmat á fengnum fyrningum þeirra vegna. Söluhagnaður allra eigna annarra en íbúðarhúsnæðis innan vissra stærðarmarka í eigu manna er samkv. frv. skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma. Hins vegar er ákvæðum um útreikning hans breytt frá fyrra frv. að því er lausafé varðar. Þannig er upphaflegt kaup- eða kostnaðarverð endurmetið miðað við byggingarvísitölu og söluhagnaðurinn telst munur söluverðs og þannig endurmetins stofnverðs, að teknu tilliti til endurmetinna fyrninga, ef um er að ræða sölu á fyrnanlegum eignum. Þá er heimiluð útgáfa jöfnunarhlutabréfa miðað við raunverulegt verðmæti hreinnar eignar hlutafélags í árslok 1978, en útgáfa jöfnunarhlutabréfa vegna eignabreytinga eftir það er bundin almennum verðhækkunum. Ákvæðum um frádráttarbærni þeirra fjárhæða, sem samvinnufélög greiða félagsmönnum sínum eða færa þeim til séreignar í stofnsjóð, er breytt frá fyrra frv. Eru þau nú líkari ákvæðum gildandi laga um þetta efni. Vaxtatekjur félaga af innstæðum í innlendum bönkum eru gerðar skattfrjálsar að vissum skilyrðum fullnægðum, en voru ávallt skattskyldar samkv. fyrra frv. Þá er heimiluð 5% niðurfærsla útistandandi viðskiptaskulda og er þar um nýmæli að ræða. Skilgreiningu á hugtakinu vörubirgðir er breytt, þannig að heimild til 30% niðurfærslu nær til fleiri hluta en samkv. fyrra frv.

Ýmis önnur atriði hafa sætt breytingum. T. d. er skilgreiningu á rekstrarkostnaðarhugtökum breytt frá fyrra frv., þannig að orðið „nauðsynlegir“ er fellt út, dráttarvextir af opinberum gjöldum verða frádráttarbærir, ákvæði er til að forðast tvísköttun við úthlutun arðs milli félaga og fleira mætti telja.

Um framkvæmdakaflann er það að segja, að innheimtukaflinn er tekinn út vegna staðgreiðslukerfisins og er hann að finna í frv. um staðgreiðslu skatta. Ákvæði um heimild til að leita fyrirframúrskurðar ríkisskattanefndar er fellt niður. Frumálagning á grundvelli hálfendurskoðaðra framtala nær samkv. frv. til allra einstaklinga, en náði samkv. fyrra frv. einungis til þeirra sem ekki stunduðu atvinnurekstur. Beiting álaga vegna vanrækslu á að skila framtali eða telja fram allar eignir og tekjur er ekki lengur skilyrðislaus skylda skattstjóra. Ýmis önnur atriði hafa tekið breytingum.

Í frv. eru óbreytt ákvæði um skyldu þess er vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila, sbr. 7. gr., 1. tölul., 2. mgr. Í 59. gr. frv. eru ákvæði um hvernig með skuli fara ef ætla má að viðkomandi telji sér lægri tekjur af starfinu en launatekjur hans hefðu orðið ef hann hefði unnið starfið hjá óskyldum aðila sem launþegi Þau ákvæði eru einnig óbreytt frá fyrra frv., en bætt hefur verið við ákvæðum sem varða viðmiðunartekjur þeirra er landbúnað stunda. Ríkisskattstjóri skal árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til þessarar tekjuákvörðunar. Um þessi ákvæði hafa orðið nokkuð skiptar skoðanir. Því hefur verið haldið fram, að með framangreindum heimildum verði skattyfirvöldum gefnar of frjálsar hendur með álagningu skatta á hina ýmsu aðila sem stunda alls konar smáatvinnurekstur. Meiri hl. n. telur ekki ástæðu til að óttast ranglæti af hálfu skattyfirvalda á þessu sviði eða óréttmæta skattlagningu láglaunafólks í smáatvinnurekstri. Lýsir meiri hl. n. þeim skilningi sínum á 59. gr., að með henni sé lögð skilyrðislaus skylda á herðar skattyfirvalda að taka tillit til þeirra atriða sem upp eru talin í greininni og áhrif hafa á launaupphæðina sem skattþegn ákveður sér sjálfur. Einnig er bent í þessu sambandi á þá reynslu sem þegar er fyrir hendi um hliðstæðar viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra að því er varðar grundvöll að ákvörðun launaskatts þessara aðila svo og lækkun vergra tekna til skatts til takmörkunar á nýtingu persónuafsláttar til greiðslu útsvars. Ríkisskattstjóri hefur lýst því yfir, að viðmiðunarreglur verði hliðstæðar vegna þessara launaákvarðana þótt grunnurinn kunni að verða endurskoðaður. Með þessari breytingu er stigið skref í þá átt að skattleggja allan atvinnurekstur með hliðstæðum hætti án tillits til þess, hvort hann er rekinn í félagsforn;i eða af einstaklingum. Meiri hl. n. telur að veigamestu áhrif breytinganna verði þau, að tap af atvinnurekstri í eigu einstaklinga verði ekki frádráttarbært frá öðrum tekjum eigendanna, svo sem launatekjum.

Ákvæði 44. og 45. gr. frv. gera ráð fyrir því, að stofnverð eigna sé árlega endurmetið til fyrninga. Ekki hefur þótt rétt að heimila fulla fyrningu af endurmetnu stofnverði í þeim tilvikum sem fyrnanlegar eignir eru fjármagnaðar að einhverju eða öllu leyti með lánsfé, en frv. gerir ráð fyrir því, að fjármagnskostnaður, þar með taldar verðbætur og gengistap af lánum, sé gjaldfært óháð fyrningum. Ótakmarkaðar endurmatsfyrningar samhliða gjaldfærslu alls fjármagnskostnaðar mundi í reynd auka mismuninn milli þess atvinnurekstrar, sem fjármagnar fyrnanlegar eignir með eigin fé, og hins, sem fjármagnar þær með lánsfé. Í þessum greinum eru sett fram skerðingarákvæði til að draga úr þessari mismunun. Í þeim tilvikum, sem skuldir skattaðila í heild fara fram úr eignum hans að undanskildum fyrnanlegum eignum og eignarhlutum í félögum, er gert ráð fyrir því, að fyrnanlegar eignir séu að hluta til fjármagnaðar með lánsfé. Skerðing á fyrningum er síðan reiknuð út frá þessum mismun eigna og skulda. Reiknað er árlega tillag í sérstakan reikning, mótreikning fyrninga, sem er ákveðið hlutfall af þeirri fjárhæð sem skuldir eru umfram þessar tilteknu eignir. Hlutfallið miðast við sama verðstuðul og endurmat eigna, og er mótreikningurinn eða eftirstöðvar hans síðan framreiknaðar árlega með verðbreytingastuðli. Í lok hvers árs er síðan reiknuð fyrning á mótreikningum sem er tekjufærð á móti almennum fyrningum.

Meiri hl. n. telur að frekari athugun þurfi að fara fram á áhrifum þessara ákvæða. Hér er um algjört nýmæli að ræða sem ekki hefur fengist reynsla af hér á landi eða meðal nágrannaþjóðanna þótt margir hafi íhugað sams konar vandamál. Er því nauðsynlegt að kanna áhrif þessara greina frekar á hinar ýmsu greinar atvinnurekstrar, en til þess gefst nægur tími áður en lögin koma til fullra framkvæmda.

Eins og fram hefur komið miðast frv. þetta við að staðgreiðsla skatta verði lögfest og þess vegna er flutt frv. um það efni samhliða þessu. Ljóst er að staðgreiðslufrv. verður ekki afgreitt á þessu þingi, til þess er ekki nægur tími, enda er málið viðamikið og nýtt í augum þm., þrátt fyrir áratuga umr. í þjóðfélaginu um upptöku staðgreiðslukerfis. Fjh.- og viðskn, mun því ekki gefa út álit um það mál nú, en leggur áherslu á að frv. verði kynnt þeim sem best þekkja til innheimtu opinberra gjalda, þ. e. a. s. innheimtumönnum ríkissjóðs og innheimtum sveitarfélaga. Jafnframt verði óskað umsagnar þessara aðila um málið, þótt sveitarfélögin hafi oft tjáð sig meðmælt því, að staðgreiðsla yrði upp tekin. Þá mundi við það miðað, að frv. um staðgreiðslu yrði lagt fram þegar í upphafi næsta þings og stefnt að afgreiðslu þess fyrir áramót.

Það hafa komið fram efasemdir um það, hvort raunhæft sé að ætla að staðgreiðsla komist á. 1. jan. 1979 eins og gert er ráð fyrir í þessum frv., en þótt sú skipulagsbreyt. komist ekki á fyrr en ári síðar, eða 1. jan. 1980, þá breytir það engu um gildistöku og önnur ákvæði þessa frv. um tekju- og eignarskatt. Í báðum tilvikum taka lögin samkv. þessu frv. gildi 1. jan. 1979, en álagning 1979 vegna tekna 1978 færi þá eftir núgildandi lögum.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að þetta frv. verði samþ., en flytur allmargar brtt. sem eru á þskj. 764, og mun ég nú gera nokkra grein fyrir þeim brtt.

Í fyrsta lagi eru hér brtt. við 13. og 14. gr. frv., en samkv. ákvæðum þeirra greina í frv. er með vissum skilyrðum heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar um 2 ár frá söluári. Sá söluhagnaður sem frestað er að tekjufæra samkv. þessari heimild skal samkv. frv. hækka samkv. verðbreytingarstuðli frá söluári til tekjufærsluárs. Sé þessum skilyrðum ekki fullnægt innan tveggja ára skal söluhagnaðurinn teljast til skattskyldra tekna þannig upphækkaður að viðbættum 20% álagi. Meiri hl. n. telur óeðlilegt að vextir af þannig verðtryggðri frestun á tekjufærslu sé mun hærri en almennt gerist um vexti af verðtryggðum lánum, og þess vegna er lagt til að álagið lækki í 10%. Þetta á við bæði um 13. og 14. gr. frv.

Þriðja brtt. er við 16. gr. frv., en þar eru lögð til breytt stærðarmörk til viðmiðunar. Það er álit meiri hl. n., að þau stærðarmörk íbúðar­ húsnæðis, sem hljóta skulu sérmeðferð umfram það sem eðlilegt getur talist um einkaeign til eigin nota skattþegns, séu of há. Þess vegna leggur n. til að þau séu lækkuð þannig að sérreglur 16. gr. gildi einungis um íbúðarhúsnæði undir 600 rúmmetrum í eigu einhleypings og 1200 rúmmetra í eigu hjóna. En þrátt fyrir þessa lækkun stærðarmarka má telja að sala íbúðarhúsnæðis í eigu einstaklinga muni almennt falla undir þessa sérreglu 16. gr.

Fjórða brtt. er við 18. gr.: Í stað „65“ í 2. mgr. komi: 55%, en þessi breyting kemur til vegna breyttra reglna í 72. gr. um skatthlutfall lögaðila og þarfnast ekki nánari skýringa.

Fimmta brtt. er svo við 27. gr. frv., en þar er breytt frá frv., þar sem segir í 27. gr.: „Nú selur skattaðili eign með skattskyldum söluhagnaði og helmingur söluandvirðis hennar eða meira er greiddur með skuldarviðurkenningum til 5 ára: ` Þessu er breytt þannig: „Nú selur skattaðili eign með skattskyldum söluhagnaði og hluti söluandvirðis hennar er greiddur með skuldarviðurkenningum til 3 ára“ o. s. frv. Með þessari brtt. er lagt til að almennt verði tekið tillit til hlutfalla milli lána og útborgana við sölu á eignum. Það er alkunna, að söluverð eigna ræðst almennt af hlutfalli útborgunar og lána í heildarfjárhæð söluverðs. Þess vegna verður að telja eðlilegt að tillit sé tekið til þessa atriðis með heimild til frestunar á skattlagningu þess hluta söluhagnaðar sem samsvarar hlutdeild skuldaviðurkenningar í heildarsöluverði eignarinnar. Hliðstæð regla þessari hefur hefur verið í norskum skattalögum um alllangt skeið, og má ætla að vegna sérreglna 16. gr. um sérmeðferð söluhagnaðar íbúðarhúsnæði s þurfi almennt ekki að koma til beitingar þess ákvæðis um söluhagnað af íbúðarhúsnæði því sem almenningur á og notar til eigin þarfa.

Sjötta brtt. er svo við 30. gr., en hún gerir ráð fyrir að við d-lið gr. bætist nýr tölul., sem verði 3. tölul. og orðist svo: „Iðgjald af lífsábyrgð sem maður hefur keypt sér. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 40 þús. kr.“

Þrátt fyrir þá stefnu frv. að fækka frádráttarliðum, þá telur meiri hl n. ekki æskilegt að draga úr vilja almennings til kaupa á líftryggingum til tryggingar á fjárhagslegri afkomu sinni eða fjölskyldu sinnar, og þess vegna er lagt til að frádráttarbærni líftryggingariðgjalda verði áfram í lögum, en hámarkið hins vegar lækkað nokkuð.

7. brtt. er svo við 31. gr., 2. tölul., 1. mgr., en með þeirri breytingu eru tekin af tvímæli um að skattaðilum sé í sjálfsvald sett hvort þeir draga aðstöðugjöld eða landsútsvör frá tekjum þess rekstrarárs, þegar stofn gjaldanna myndaðist, eða tekjum næsta rekstrarárs á eftir. Greinina má skilja svo að skattaðili hafi þarna ekki val

8. brtt. er við 38. gr. frv. sem fjallar um fyrningarhlutföll, og þar er lögð til sú breyting á 1. tölul 38. gr. að hækka fyrningarhlutfall skipa og skipsbúnaðar úr 8% í 10% og á 3. tölul. að hækka fyrningarhlutfall véla og tækja til jarðvinnslu og mannvirkjagerðar, bifreiða og fleiri tækja úr 15% í 18%. Um þetta má segja, að með tilliti til hinnar öru tækniþróunar, jafnt í fiskveiðum sem iðnaði, telur meiri hl. n. að rétt sé að hækka þetta fyrningarhlutfall skipa og véla þannig að það sé í betra samræmi við raunverulegan endingartíma þessara eigna. Við leggjum áherslu á að endingartími eigna sem þessara ræðst ekki einungis af sliti þeirra, heldur hefur úrelding vegna tækninýjunga einnig veruleg áhrif á þann tíma sem nýting þeirra er hagkvæm.

Þá kem ég að 9, brtt., sem er við 44. gr. frv., um takmörkun á fyrningum vegna skulda. Meginefni 44. gr. er haldið, en 1. mgr. er nokkuð breytt með þessari brtt. Færsla í mótreikning fyrninga fer ekki aðeins fram þegar heimildir til fyrninga eru notaðar, heldur skal færslan gerð þegar skattaðili getur notið fyrninga. Þessi breyting er gerð til að koma í veg fyrir frestun á myndun mótreiknings meðan skuldastaða er óhagstæð með því að fresta því að nota fyrningarheimildir. Þá eru eignarhlutar í félögum lagðir að jöfnu við fyrnanlegar eignir, þegar mótreikningur er myndaður. Síðustu mgr. greinarinnar er breytt, en meiri hl. n. telur eðlilegt að tillag í mótreikning fyrninga miðist við stöðu eigna og skulda í byrjun reikningaárs, en ekki í lok þess, en það er í samræmi við reglur 36. gr. um endurmat eigna.

10. brtt, er svo við 45. gr. Efnisbreyting felst í breytingu á hlutfalli því sem færa skal árlega af mótreikningi fyrninga, en það er hækkað úr 10% í 15%. Þessi neikvæða fyrning, ef svo má að orði komast, er reiknuð á bókfærðu verði mótreiknings, þ, e. nettóverði, en fyrningar eigna eru reiknaðar af framreiknuðu kostnaðarverði. Verður því að telja eðlilegt að hundraðshluti árlegrar færslu á mótreikningi sé nokkru hærri, svo að komist verði hjá óeðlilegri uppsöfnun mótreikningsins.

11. till. er við 56. gr. sem fjallar um sameiningu félaga. Þessi brtt., 11. till., felur ekki í sér efnisbreytingu, en 57. gr. frv, er gerð að 2. mgr. 56. gr. og nýrri gr. er bætt inn í sem verður 57. gr., og það er 17. brtt., en hún fjallar um sameignarfélög. Meiri hl. n. telur eðlilegt að sambærilegar heimildir sétt opnaðar fyrir sameignarfélög til sameiningar eða breytingar yfir í hlutafélög og frv. leggur til að gildi um samvinnufélög og hlutafélög, að það séu sambærilegar heimildir fyrir sameignarfélögin. Á undanförnum árum hefur það orðið æ algengara, að sameignarfélög, sem vaxið hafa upp úr því félagsformi, hafi lent í vandræðum þegar breyta hefur átt formi félagsins í hlutafélag. Brtt. gerir ráð fyrir því, að sameignarfélög geti sameinast, breyst í hlutafélög eða sameinast hlutafélögum án þess að slík breyting hafi í för með sér skattskyldu fyrir eignaraðila eða félagið sem slíkt. Heimild til slíkrar breytingar er því skilyrði bundin, að ekki verði um útborgun fjár að ræða úr félaginu og að hlutabréf eða eignarhlutdeild í hinu nýja félagi komi að fullu í stað eignarhluta í félagi því sem slitið er.

Þá er 13. brtt. við 69. gr. Við leggjum til að áður en barnabætur komi til útborgunar verði frá þeim dregnar skuldir skattaðila við sveitarsjóði vegna útsvars eða aðstöðugjalds fyrri ára. Verður ekki séð hvaða rök liggja til að fara öðruvísi með gjöld til sveitarsjóðs að þessu leyti en gjöld til ríkissjóðs, og því er till. flutt.

14. till. er svo við 72. gr., en hún fjallar um það, að tekjuskattur lögaðila verði 45% í stað 48% samkv. frv. Vegna fyrirhugaðs staðgreiðslukerfis verður hundraðshluti skattsins að lækka vegna fyrirsjáanlegrar tekjubreytingar milli ára, ef skattbyrðin á ekki að þyngjast verulega. Með þessari breytingu verður svipað hlutfall milli hluta jaðarskatts einstaklinga og félagaskattsins í frv. og er í gildandi lögum.

15. till. er svo við 74. gr., 4. tölul., en þar eru tekin af tvímæli um að aðilum sé heimilt að draga allt að 30% frá vörubirgðum, en ekki skylt að nota þann hundraðshluta að fullu. Þetta er síðasti málsl. í 4. tölul. í frv.: „Þó skal heimilt að draga 30% . ..„ en breytingin er: Þó skal heimilt að draga allt að 30% ...

16. brtt. er við 91. gr. Við teljum nægilegt að stjórnir félaga undirriti ársreikninga þá sem fylgja skattframtölum, en ekki sé þörf á þeirri skyldu, að stjórnir félaga undirriti framtalið sjálft. Framtalsskyldan hvílir engu að síður á stjórnum félaganna þó að þær þurfi ekki að undirrita framtalið.

17. till. er svo við 94. gr., en þar er lagt til, að síðasta mgr. falli niður. Meiri hl. n. telur þessa mgr. óþarfa. Hún fjallar um skyldu lögreglu til að veita ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra nauðsynlega aðstoð í þágu rannsóknar skattamáls. Við teljum þessa grein óþarfa, en að sjálfsögðu ber lögreglu að veita eðlilega og nauðsynlega aðstoð í þágu rannsóknar skattamála.

18. brtt. er svo við 116, gr., en þar kemur viðbót sem leiðir af 6. brtt. sem ég hef hér gert grein fyrir og fjallar um að iðgjöld af líftryggingu verði frádráttarbær eins og þau eru í gildandi lögum. Það leiðir af þeirri breytingu að þessi till. kemur fram.

19. og síðasta brtt. er svo við ákvæði til bráðabirgða, 4. ákvæðið. Þar við bætist ný mgr. sem verði 9. mgr. Þessi breyting er nauðsynleg til að taka af tvímæli um það, hvaða verðbreytingarstuðul skuli nota á árinu 1979 við útreikning á tillagi í mótreikning fyrninga, en þetta er ekki nein efnisbreyting.

Hæstv. forseti. Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur, og gert frekari grein fyrir málinu. Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég ræði ekki á þessu stigi um þær brtt. sem þegar hafa komið fram, enda hefur ekki verið mælt fyrir þeim. En meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir.