07.11.1977
Efri deild: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Enn er hér flutt á hv. Alþ. frv. til l. um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Eru það þm. Alþfl. hér í d. sem flytja þetta frv. Það er ekki nema rúmt ár síðan hér á hv. Alþ. voru samþ. lög sem höfðu það einmitt að markmiði, að eignarhald á jörðum yrði í höndum þeirra sem þyrftu að nota landið. 1. gr, hinna svokölluðu jarðalaga, sem samþ. voru á alla. 1976, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.“

Nú hlýtur það auðvitað að vera svo, að það séu skiptar skoðanir um það, hverjir skuli hafa eignarhald á landi. En ég hygg að það sé eðlilegt að á hverjum tíma reyni menn að mynda sér hugmyndir um hvernig þessu eignarhaldi, þessum umráðum á vissulega mikilsverðum eignum sé hagað. Og tilgangur þeirra jarðalaga, sem sett voru fyrir hálfu öðru ári á Alþ., var einmitt að tryggja að dómi Alþ. þá að landið væri í eigu þeirra sem hefðu hagsmuni af því að gæta þess og fara þannig með það að því væri vel borgið.

Ég ætla ekki nú að gera nema fá atriði að umtalsefni í frv. þeirra Alþfl: mannanna, en mig langar til að nefna örfá. Í 3, gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir 1. gr. laga þessara skal bændum frjálst, ef og meðan þeir svo kjósa, að eiga jarðir til eigin búrekstrar.“

Þetta er sjálfsagt góðra gjalda vert frá sjónarmiði þeirra sem flytja þetta frv. En í raun og veru felst sú hugsun í þessu, að það sé óeðlileg ráðstöfun á jörðinni sem eign að hún sé í höndum bóndans sem nytjar bana Annars væri ekki tekið svona til orða, enda staðfestist það í skýringum við lagagr., að hugmyndin er sú, að eðlilegast sé að þessi lönd séu í eigu ríkisins. Ég er einn þeirra manna, sem telja mjög mikilvægt að jarðir lendi ekki í braski. Ég tel það mjög mikilvægt, og ég tel einmitt að það hafi verið eitt mikilvægasta atriðið í þeim jarðalögum sem ég nefndi áður, að þar er gerð a.m.k. mjög ákveðin tilraun til þess að koma í veg fyrir slíkt þrask með jarðir. Það er kannske rétt að rifja það aðeins upp, að svokallaðar jarðanefndir, sem nú hafa verið skipaðar í öllum sýslum landsins, eftir því sem ég veit best, eiga að hafa m.a. það hlutverk með höndum að koma í veg fyrir að jarðir séu seldar til annarra nota heldur en þeirra sem samrýmast hagsmunum viðkomandi sveitarfélaga. Þar er beinlínis tekið fram, að það þarf samþykki jarðanefndar til þess að sala á jörðum fari fram. Og þarna er líka frá því gengið að þeir, sem selja jarðir og þurfa að selja jarðir, gjaldi þess ekki þótt þessi ákvæði séu fyrir hendi. Þá kemur til sveitarsjóður eða ríkissjóður til að kaupa þessar jarðir, ef þær seljast ekki öðruvísi samkv. fyrirmælum laganna.

Nú er það svo og það er á allra vitorði, að það hefur komið fyrir að slíkt verð hefur verið boðið í jarðir að það hefur verið mjög erfitt eða nær útilokað fyrir einstaka bændur að kaupa jarðirnar því verði til búrekstrar. En þessum ákvæðum í jarðalögunum er einmitt ætlað að tryggja að verðlag á jörðum sé í samræmi við það notagildi, sem hægt er að hafa af þeim, og ekki sé hægt að sprengja verð á jörðum upp með aðkomnu fjármagni sem ekki er hugsað að notist til þess að halda jörðunum í byggð.

Nú er það, eins og ég sagði áður, auðvitað umræðuefni og ekkert undarlegt við það, þó að mismunandi skoðanir séu á því, hvort heppilegra sé að jarðeignir séu í höndum bænda eða ríkisins. Ég get alveg fallist á það, að það sé ekkert við því að segja þó að menn greini á um þessi mál. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé heppilegra og jarðarinnar sé yfirleitt betur gætt ef bóndinn telur hana svo nákomna sér, að hún sé hans eign. Kannske getur hugsunarháttur breyst með árunum og með tímanum, þannig að bændur láti sig þetta ekki miklu skipta. En ég tel að a.m.k eins og nú er sé allur þorri bænda þess sinnis, að hann vilji heldur búa á eigin jörð, sem hann kallar eign sína, og honum sé betur trúandi til þess að fara vel með þessa eign, ef hann telur sig eiga hana sjálfur, heldur en ef hún er ríkiseign. Í þessu sambandi langar mig til þess að minna á það sem hv. alþm. er vafalaust kunnugt, að þegar verðlagðar eru framleiðsluvörur landbúnaðarins, þá er aldrei gert ráð fyrir kostnaði af landinu sjálfu óræktuðu. Bóndinn tekur ekki gjald í verði landbúnaðarvara fyrir þann jarðargróða sem búpeningurinn aflar sér af óræktuðu landi. Að því leyti nýtist hið óræktaða beitarland allri þjóðinni jafnt og bændunum ekkert sérstaklega fremur en öðrum, því að það er alls ekki tekið tillit til þessarar eignar þegar verð er ákveðið á landbúnaðarvörum.

Það er öllum ljóst, að það eru skiptar skoðanir um hvernig skuli vera eignarhald á svokölluðum afréttarlöndum. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði, en hitt er víst, að það er mjög misjafnt með skjöl sem til eru fyrir eignaraðild að afréttarlöndum. Ég held að ég viti það t.d. rétt, að mitt sveitarfélag á engar afréttir aðrar en gamlar fyrrverandi bújarðir sem sveitarfélagið keypti á sínum tíma — misjöfnum tíma. Það eru öll þau afréttarlönd sem mitt sveitarfélag ræður yfir. Annars staðar er þessu öðruvísi varið. Þarna kemur auðvitað spurningin um af hverjum er keypt. Allir vitum við að enginn var til að taka við greiðslunni þegar landnámsmennirnir komu í upphafi. En gegnum aldirnar hefur þessi eignarhefð myndast, og ég hygg að með þeim hugsunarhætti, sem nú er ríkjandi yfirleitt gagnvart umgengni við landið, sé landið ekki betur komið annars staðar en í eigu bændanna.

Annað atriði, sem mig langaði til að minnast aðeins á hér, eru veiðiréttindin. Ég er manna fúsastur til að viðurkenna það, að mikil og verðmæt veiðiréttindi á jörð geta hækkað jörðina svo í verði að bændur eigi erfitt með að keppa við aðra hugsanlega kaupendur um kaup á jörðinni. Eitt af því, sem jarðalögin áttu að gera og gera vonandi, var einmitt að koma í veg fyrir þau alveg sérstaklega að þessar jarðir lentu í braski. Ég held að hvað sem öllum hugmyndum um nýtingu þessara auðæfa líður, þá sé alveg augljóst mál að nú tryggir eignarréttur bændanna á þessum hlunnindum mjög mikið búsetuna í sveitunum. Landbúnaður á að ýmsu leyti undir högg að sækja eins og nú er. Það eru örðugleikar á því að flytja landbúnaðarvörur til útlanda með þeim árangri að viðunandi verð fáist fyrir vöruna, og stafar það einkum af því að þær landbúnaðarvörur, sem við framleiðum, sérstaklega þó dilkakjöt og kjötvörur, eru stórlega greiddar niður í þeim löndum sem við höfum viðskipti við. Það eru fleiri orsakir að þessu, eins og t.d. mjög mikil verðbólga í landinu sem hefur átt sinn þátt í því að á tiltölulega fáum árum hefur samkeppnisaðstaða t.d. dilkakjöts hér í nágrannalöndum okkar, en við seljum þessa vöru aðallega til Noregs og Svíþjóðar, versnað mjög mikið. En það er fleira sem kemur til. Einmitt í þessum löndum hafa niðurgreiðslur á dilkakjöti aukist mjög mikið. Þannig er t.d. ástatt nú, að bændur í Noregi, svo að nefnt sé dæmi, fá til muna hærra verð fyrir dilkakjötið heldur en íslenskir bændur Ég hef ekki tiltækar nákvæmar tölur um þennan mun, en mér hefur verið sagt að sá munur væri milli 4 og 5 þús. kr. fyrir það sem kallað er meðaldilkur, kringum 14–15 kg dilkur, sem norskur bóndi fær meira fyrir dilkinn heldur en íslenskur bóndi. Hins vegar þegar frændur okkar kaupa af okkur dilkakjötið, þá eru þeir ekki tilbúnir nú að greiða nema nokkuð innan við helming af framleiðslukostnaðarverðinu hér. Þarna eru að verki öfl sem eru okkur erfið, og þetta stafar af því, eins og ég nefndi áður, að Norðmenn verja landbúnað sinn, þeir verja miklu fé til þess að efla landbúnað sinn og koma í veg fyrir að mikill fjöldi fólks flytjist frá landbúnaðinum, sérstaklega núna vegna aukinnar atvinnu og aukinna tekjumöguleika í sambandi við olíuna. Þetta gera þeir m.a. með því að hvetja bændur mjög til framleiðslu á dilkakjöti. Við höfum ýmiss konar viðskipti við Norðmenn. Við kaupum af þeim margs konar vörur. Og til fróðleiks vil ég geta þess hér, að á s.l. vori átti ég þess kost að skoða tvær verksmiðjur í Noregi sem framleiða mjög verulegt magn af vörum fyrir Íslendinga. Önnur þessi verksmiðja framleiðir fiskkassa. Hin framleiðir ýmsan útbúnað í skip. Hvort tveggja þetta gætum við vitanlega framleitt hér sjálfir. Við borgum Norðmönnum fullt verð fyrir allar þær framleiðsluvörur sem við kaupum af þeim. Við seljum þeim lítið annað en dilkakjöt, og ég hef lýst því áður hvaða kjörum við verðum að sæta þar.

Þess vegna er það, að ef við viljum viðhalda í aðalatriðum byggð í landinu öllu, þá þurfum við að styðja það fólk, sem vill búa í hinum dreifðu byggðum, m.a. með því að unna þessu fólki þess að það hafi arð af veiðihlunnindum. Þessi arður er vissulega mikill. Verulegur hluti þess arðs hefur því miður flust til fólks sem nú býr ekki lengur í sveitunum, en enn er þarna mikið eftir. Ég held að við getum alls ekki gengið fram hjá þessu atriði þegar við tökum afstöðu til þess, hvort við viljum þjóðnýta veiðirétt almennt í landinu eða ekki.

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem hefði verið ástæða til að ræða um í þessu frv. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi mál hljóti alltaf að verða til umræðu og endurskoðunar og athugunar í sambandi við breytta tíma og breyttar aðstæður. Hið háa Alþ. hefur nýlega samþykkt sérstök lög sem hafa þann tilgang, sem ég gat um áður, að koma í veg fyrir að jarðir lendi í braski, og reyna að tryggja að þeir, sem nytja landið, hafi umráð yfir því, og raunar reyna að tryggja það líka, það eru einnig ákvæði í þessum lögum sem eiga að tryggja að landið sé vel nýtt og það sé ekki ofnýtt eða því ofgert á annan hátt. Ég tel að sú reynsla, sem þegar hefur fengist af þessum jarðalögum. sé jákvæð og að það sé ekki að svo komnu máli ástæða til að gera þar á verulegar breytingar.

Þetta frv, þeirra hv. þm. Alþfl. gerir ráð fyrir mjög róttækum breytingum. Ég tel að þessar breytingar séu hvorki tímabærar né heppilegar. Ég mun því greiða atkv. gegn því að þetta frv., eins og það er nú, verði samþykki hér frá hinu háa Alþingi.