29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3478)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef undirritað þetta nál. með fyrirvara. Ég mun nú ekki fara ítarlega út í að útskýra þann fyrirvara og tíunda einstök atriði í frv. sem ég hef gjarnan viljað að væri með örlítið öðrum hætti.

Fyrst og fremst var fyrirvari minn vegna þess atriðis sem mest stakk í augun þegar ég sá þetta frv. fyrst, og má vel vera að þar sé um að kenna rótgróinni ráðstjórnarandstöðu minni. Mér þykir sem sagt dálítið einkennilegt að þegar ljóst liggur fyrir að Heilbrigðisráð Íslands hafi ekki þótt starfhæft eða ekki getað starfað þann tíma sem það hefur lögum samkv. átt eða mátt gera það, þá skuli menn sjá nauðsyn til að lögfesta skipan 8 nýrra heilbrigðisráða og til viðbótar undirbyggja og styrkja umrætt Heilbrigðisráð Íslands og sjá hvort það mundi ekki taka til starfa ef það fengi ríkisfé til þess að launa ritara og greiða hugsanlegan kostnað af störfum sínum. Vissulega stendur í frvgr. að ráðið skuli starfa án þóknunar, en samt er það nú svo að fjárskortur er talinn hafa staðið því fyrir þrifum. Meginröksemd mín í þessu sambandi er þó sú, að ég tel og hef alla tíð talið að stofnun sú, sem heitir Heilbrigðismálaráð Íslands, sé ekki nauðsynleg. Með því er ég ekki að segja, að það geti ekki gert gagn, að þeir skynsömu menn, sem þar sitja, tali saman og ráði ráðum sínum öðru hverju þegar þeim þykir ástæða til. Vissulega er slíkt alltaf gagnlegt. En ég sé ekki minnstu ástæðu til að binda það í lögum, hvað þá að kosta af ríkisfé. Þeir, sem umrætt Heilbrigðisráð Íslands skipa, eru fulltrúar þeirra aðila sem við ráðfærum okkur við hvort sem er þegar við fjöllum um heilbrigðis- eða tryggingamál, en það er höfuðverkefni þessa ráðs að gefa umsagnir um heilbrigðis- og tryggingamál. Ég kann ekki að meta það að það sé fest í lögum að starfa skuli með ríkisstyrk sérstök n. til þess að gefa umsagnir um lagafrv. á Alþingi. Það hafa menn hingað til gert án sérstaks ríkisstyrks, og ég sé ekki að við höfum ráð á að fara inn á þá braut.

Það eru allt önnur rök sem liggja að baki stofnun hinna nýju heilbrigðismálaráða að vísu. En hitt er ljóst, að þau eru málamiðlunarlausn sem varð til í endurskoðunarnefnd laga um heilbrigðisþjónustu, einhvers konar millivegur milli þess fyrirkomulags, sem gert hefur verið ráð fyrir í núgildandi lögum og ekki hefur komið til framkvæmda, og svo þess fyrirkomulags, sem upp verður tekið með nýrri læknishéraðaskipun, samkv. þessu frv. Þótt við tökum upp nýja læknishéraðaskipun, þá er ég svo íhaldssöm að ég get alls ekki séð nauðsynina á því að festa í lög að í hverju slíku héraði skuli vera heilbrigðismálaráð sem skipað sé með þeim hætti sem segir í frvgr. Fljótt á litið hljómar það allvel að sveitarstjórnir skuli kjósa þar fulltrúa. En það er sveitarstjórnum engan veginn frjálst hvaða fulltrúa þær kjósa. Í fyrsta lagi er það lögbundið, að héraðslæknir skuli vera formaður ráðsins, og í öðru lagi er það lögbundið, að fulltrúarnir, sem sveitarstjórn kýs, skuli vera úr stjórnum heilsugæslustöðva. Með þessu er ég ekki að segja að þessi skipun geti ekki oft og tíðum verið mjög skyn.samleg og sennilega yrði þetta oft niðurstaðan. En ekki kann ég því vel, að þetta sé bundið í lögum. T. d. er það svo hér í Reykjavíkurborg, þar sem um nokkurra ára skeið hefur starfað heilbrigðismálaráð, að þar hefur verið farið eftir þeirri meginreglu, að það eru fulltrúar í borgarstjórn eða varaborgarfulltrúar sem eru í heilbrigðismálaráðinu, og n. tók upp samkv. ósk heillbrigðismálaráðs Reykjavíkurborgar þá brtt. sem frsm. n. kynnti, að í Reykjavík skuli heilbrigðismálaráð kosið óbundinni kosningu, svo að þetta ákvæði verður skaplegra að því er Reykjavík varðar. En eftir stendur það, að ekki minnkar báknið eða skriffinnskan við að skipa ný heilbrigðismálaráð, 8 talsins, lögum samkv. með kostnaði greiddum úr ríkissjóði. Ég tel að það hefði verið betra að sveitarstjórnum væri það frjálst, hvort þær setja á laggirnar heilbrigðismálaráð eða ekki.

Í þessu var fólgið það fyrsta sem ég sá athugavert við fljóta athugun málsins, og mér hefur ekki dugað sá tími, sem við höfum haft til stefnu, til að láta af þessari skoðun minni og hef einhvern veginn ekki getað kyngt þessari meginreglu. En mér er ljóst að hæstv. heilbrmrh. leggur á það mikið kapp að koma máli þessu í gegn og telur þar við liggja að töluverðu leyti stolt sitt. Ég mun því ekki reyna að standa í vegi fyrir framgangi þess máls á neinn hátt, enda hafa þær skoðanir, sem ég hef á þessum heilbrigðismálaráðum, að því er virðist ekki fylgi meðal hv. þm. sem til þess dugi að þeir vilji sleppa því að lögfesta þau. Ella hefði verið fylgi fyrir því að gera þá breytingu á frv. að fella öll þessi ráð burt, láta frv. e. t. v. halda sér að öðru leyti með ýmsum öðrum minni háttar breytingum, m. a. þeim sem hér hefur þegar verið gerð grein fyrir.

28. mars s. l. barst heilbr.- og trn. Nd. Alþingis svo hljóðandi bréf, ef ég má — með leyfi hæstv. forseta — lesa það:

„Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur þann 16. þ. m. var samþ. að fara þess á leit við Alþingi, að breyting verði gerð á lögum nr. 56/1973, 32. gr. 2, þannig að inn í greinina komi svo hljóðandi viðbót:

„Heilbrigðismálaráð Reykjavíkur kýs fulltrúa borgarinnar í stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar.“

Í trausti þess, að þér neytið atbeina yðar til þess að ofangreind lagabreyting nái fram að ganga, sendist yður hjálögð till. að frv. til l. um breyt. á l. nr. 56 frá 1973.

Birgir Ísl. Gunnarsson.“

Eftir að við fengum þetta bréf var lagt fram frv. sem við fjöllum um hér nú, þannig að mér þykir hlýða að flutt verði brtt. sem formuð er með sama efni við þetta frv., en grg. borgarstjóra fyrir þessari till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1969 ákvað borgarstjórn að taka upp nýja skipan að því er varðaði stjórn heilbrigðismála á vegum borgarinnar. Stofnað var heilbrigðismálaráð, kjörið af borgarstjórn, er fór með stjórn heilbrigðismála borgarinnar í umboði borgarstjórnar og undir yfirstjórn hennar. Tilgangur þessara breytinga innan þessa málaflokks var heildarstjórn og samræming aukin til muna. Voru heilbrigðismálaráði fengin í hendur þau verkefni, sem stjórn Heilsuverndarstöðvar, sjúkrahúsanefnd Reykjavíkur og heilbrigðisnefnd höfðu áður haft. Þessar breytingar voru gaumgæfilega undirbúnar með því að afla upplýsinga um fyrirkomulag þessara mála í öðrum löndum.

Heilbrigðismálaráð Reykjavíkurborgar tók til starfa að loknum sveitarstjórnarkosningum árið 1970. Með lögum um heilbrigðisþjónustu var stjórn sjúkrastofnana borgarinnar klofin frá ráðinu aftur, jafnvel þótt Alþ. hefði ítrekað verið sendar óskir um að slíkt yrði ekki gert.

Það frv., sem hér er flutt, miðar að því“ — ég skýt hér inn í lesturinn að þá er borgarstjóri að tala um drög að frv. sem hann lagði til að flutt yrði áður en þetta frv, hér var lagt fram, — ég held áfram lestri grg. borgarstjóra, með leyfi hæstv. forseta: „Það frv., sem hér er flutt, miðar að því að færa skipan mála í svipað horf aftur, þó þannig, að fremur yrði um yfirstjórnarhlutverk að ræða af hálfu heilbrigðismálaráðs. Samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 56/1973, gr. 32.2, skal stjórn sjúkrastofnana sveitarfélaga skipuð 5 mönnum, þremur fulltrúum kjörnum af sveitarstjórn og tveimur kjörnum af starfsmannaráði. Með þessu ákvæði var rofin sú heildarstjórn heilbrigðismála sem Reykjavíkurborg hafði komið á 1970, og vegna ákvæðis í samþykkt um borgarstjórn frá 10. 8. 1964 var ekki kleift að tengja stjórn sjúkrastofnana og heilbrigðismálaráð saman að nýju með því t. d. að fela ráðinu kjör fulltrúa borgarinnar í þá stjórn.

Nokkurs misræmis gætir í lögum um heilbrigðisþjónustu, þar sem varðar heilbrigðismálaráð, þar sem það fær lögformlega viðurkenningu sem stjórn heilsugæslustöðva í Reykjavík. Ráðinu er þó ekki ætlað að stjórna heilsugæslustöð við Borgarspítalann, heldur félli hún saman við stjórn sjúkrastofnana, sbr. gr. 23.2. Það er álit borgarstjórnar Reykjavíkur, að sú heildarstjórn heilbrigðismála, sem komið var á 1970, sé heppilegust skipun að því er borgina varðar og hefur hún því óskað eftir að frv. þetta yrði flutt.“

Ég leyfi mér, herra forseti, að flytja skriflega brtt. í samræmi við þessa ósk borgarstjóra og bið um, að leitað verði afbrigða fyrir henni. Það er frá mínu sjónarmiði nægilegt að það verði gert þegar að atkvgr. kemur, en brtt. er formuð við 30. gr. frv. og er um að 2. tölul. orðist svo:

„Sjúkrahúsum sveitarfélaga skal stjórnað af 5 manna stjórnum. Starfsmannaráð sjúkrahúsa kjósa tvo menn í stjórn og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða stjórnir þrjá. Heilbrigðismálaráð Reykjavíkurborgar kýs fulltrúa borgarinnar í stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar. Þegar um einkasjúkrahús eða sjálfseignarstofnun er að ræða kýs starfsmannaráð einn stjórnarmann, viðkomandi sveitarstjórn einn, en eigendur þrjá.“

Aðra litla skrifl. brtt. langar mig að kynna. Vegna þess að frsm. n. var svo mjög tímabundinn, þá bað hún mig að koma þessari brtt. á framfæri og það vil ég gjarnan gera. Brtt. er við 41. gr. frv., 2. tölul., og hljóðar svo:: „Í stað orðsins „læknisþjónusta“ komi: heilbrigðisþjónusta.“ Mér virðist þessi brtt, skýra sig sjálf og ég þurfi ekki frekar að gera grein fyrir henni.

Ég hef gert grein fyrir þeim atriðum sem ég vildi sérstaklega víkja að í sambandi við þetta mál efnislega. Mér er þó ljóst að nokkur atriði eru í sambandi við ákvæðin um rekstur sjúkrahúsa þar sem óskir eru uppi um frá heilbrigðisstéttum, fyrst og fremst hjúkrunarkonum og yfirlæknum, að gerð séu skýrari mörk milli verkefnasviðs þessara stétta. Yfirlæknar óska þess mjög, að gerð verði gleggri grein í lögum fyrir verksviði yfirlæknis. Þessar till. og þessar aths. eru fyrst og fremst fram komnar og berast svo seint til okkar vegna þess að n. gaf sér í rauninni ekki tíma til þess að senda málið formlega til umsagnar, eins og vissulega hefði verið æskilegt. Í stað þess völdum við þá leið að fá til viðtals fulltrúa nokkurra aðila sem málið snertir. Þó er það vitanlega ekki nægilegt, og við höfum e. t. v. ekki haft samband við nægilega marga til þess að við getum talist hafa unnið vel að málinu. Með þessar staðreyndir í huga þykir mér heldur leitt að standa að afgreiðslu málsins, en vil þó vegna þess, hver áhersla er lögð á framgang þess af hálfu ráðh., og vegna þess, að nokkrir kaflar í því þurfa sem fyrst að komast í lög, þá mun ég greiða atkv. með frv. En ég verð að áskilja mér rétt til að sitja hjá við atkvgr. um heilbrigðismálaráðin, og hv. þdm. mega flokka það undir sérvisku ef þeim sýnist svo. En ég legg fram hér þessa skrifl. brtt.