02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4306 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess einfaldlega, að ég átti í hreinskilni sagt von á því, að formenn tveggja þeirra stærstu flokkanna, er nú styðja ríkisstj., tækju til máls og ítrekuðu yfirlýsingu sína, er þeir sögðu í sjónvarpi í haust rétt áður en Alþ. kom saman, að þeir hefðu fullan hug, á því, að breyting á kosningalögunum ætti sér stað. Nú hefur þetta þing liðið svo, að ekkert hefur skeð. E. t. v. hefur það verið yfirvarp að kalla saman nefndina, einu sinni skilst mér, er fjallaði lítils háttar um þessi mál á einum eða tveimur tímum. En ég vil fá það skýrt fram hér úr ræðustóli í Sþ., að það sé raunverulegur vilji fyrir þessari breyt., því sé hann ekki fyrir hendi og mennirnir — þessir ágætu leiðtogar — staðfesti hann ekki, þá gerir næsta stjskrn. lítið að mínu mati. Við getum ályktað um að endurnýja hana í fimmta sinn, held ég, en sjálfsagt rennur hún sömu slóðir og aðrar á undan.

Ég fullyrði að hinir þrír flokkarnir hafa á þessu mikinn og einarðan áhuga. Formenn þeirra hafa staðfest það aftur og aftur. Og þó að hér séu frv. í gangi sem ekki hafa verið tekin til afgreiðslu í n., er sýnt þar með að menn úr öllum flokkum hafa áhuga á þessum málum, þá er það að mínu mati ekki nægilegt. Þess vegna vildi ég beina þeim tilmælum í fullri vinsemd og einlægni til þessara tveggja ágætu leiðtoga, sem nú eru hæstv. forsrh. og dómsmrh., að þeir staðfesti það, að þeir muni hafa áhuga á því eftir næstu kosningar, að þetta nái fram að ganga, því þeir hafa viðurkennt að það viðgengst ranglæti í dag í þessum málum, a. m. k. varðandi kosningalögin og þeir muni ekki láta ranglætið vara að eilífu.