08.11.1977
Sameinað þing: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög 1978

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. sem ég tel nauðsynlegt að gera hér út af þeim ummælum hv. þm. Inga Tryggvasonar áðan, þar sem hann sagði að það væri rangt hjá mér, að þau ummæli mín, að ég vissi ekki til að gerðar hefðu verið ráðstafanir samkv. gildandi bráðabirgðaákvæði hafnalaga um sérstakar ráðstafanir til þess að létta greiðslubyrði hafnarsjóða sem verst væru settir. Ég sagði áðan að mér vitanlega hefði þetta ekki verið gert undanfarin tvö ár, þ.e.a.s. árin 1976 og 1977, og ekkert henti til þess að slíkt ætti að gerast samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1978. Þetta bráðabirgðaákvæði hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Gera skal sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af lánum, sem verst eru settir, og skal þá miðað við lánin eins og þau eru, er lög þessi taka gildi.“

Hér er um að ræða sérstakar ráðstafanir umfram þær venjulegu ráðstafanir sem Hafnabótasjóður hefur haft heimild til um áraraðir til þess að styrkja einstök hafnarmannvirki. Í hafnalögum er einmitt tekið fram í sambandi við Hafnabótasjóð, að sjóðnum er heimilt að veita styrk til nýrra hafnarframkvæmda sem nemi allt að 15% umfram ríkisframlag, og það er það sem þessi hv. þm. var að tala um þegar hann nefndi dæmi eins og Bolungarvík og Bíldudal. Þetta ætti bann að vita miklu betur, því að þessi hv. þm. á einmitt sæti í samstarfsnefnd um hafnamál sem er nokkurs konar toppur á því kerfi sem lýtur að hafnamálum í landinu. Enn standa því fullkomlega þau ummæli mín, að mér vitanlega hafa engar ráðstafanir verið gerðar undanfarin tvö ár til að standa við þetta að mínu viti mikilvæga ákvæði gildandi hafnarlaga um sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði hafnarsjóða sem verst eru settir. Það er allt annað sem hv. þm. Ingi Tryggvason var að tala um þegar hann benti á Bolungarvík og Bíldudal. Það er samkv. hinum venjulegu reglum sem Hafnabótasjóður hefur haft heimild til um áraraðir.