08.11.1977
Sameinað þing: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög 1978

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Ég stóð nú fyrst og fremst upp til þess að þakka hæstv. fjmrh. mjög fróðlegan fyrirlestur um það, hvernig var umhorfs í ríkisfjármálunum þegar hann tók við starfi sínu, og samanburðinn, sem hann gaf okkur þm. á því, hvernig árið 1974 hafi komið út, síðasta ár áður en hæstv, ráðh. tók við embætti fjmrh., samanborið við árið 1975. En ég vek athygli hæstv. ráðh. og hv. þm. á því, að ég tel varla að mikil þörf hafi verið á því fyrir hæstv. ráðh. að fræða okkur stjórnarandstöðuþm. á þessum staðreyndum, sem ef marka má hans mál eru t.d. notaðar sem eins konar námsefni við viðskiptadeild Háskóla Íslands um það, hvernig ekki eigi að stjórna ríkisfjármálum. Ég held að hæstv. fjmrh. hefði miklu frekar átt að nota tækifærið þegar viðstaddur hefði verið á þingfundi sá einstaklingur úr hópi þm., sem fór með fjármálaráðherraembættið árið 1974, og fræða hann þá um hvernig núv. hæstv. fjmrh. gerir úttekt á fjármálastjórninni það ár. Ég vona það einlæglega, þó að ráðh. samstarfsflokksins hafi ekki sýnt þann ábuga á þessum umr, að vera viðstaddir nema við brot af þeim í upphafi umr., að þá geri þó sá eini þm. úr samstarfsflokki hæstv. fjmrh., sem tekið hefur til máls í þessum umr. og verið viðstaddur þær til loka, það þó fyrir hæstv. ráðh. að koma þessum mjög athyglisverðu ábendingum hans til skila til réttra aðila.