03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4400 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

299. mál, jöfnunargjald

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég fagna fram komnu frv. til l. um jöfnunargjald. Ég held að það sé vafalaust, eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., að þörf er á aðgerðum til þess að jafna aðstöðumun milli íslensks iðnaðar og erlends, sem nú fær að flytja inn í landið án tollverndar og nýtur forréttinda. Ég þarf ekki að rekja það, það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., á hvern máta þetta verður. Fyrst og fremst valda mismunandi söluskatts- eða virðisaukakerfi sem gilda í viðskiptalöndum okkar.

Frv. þetta hefur verið nokkuð lengi á döfinni og hefur verið mikið áhugamál Félags ísl. iðnrekenda. Það var til umr. manna á meðal hér á þinginu áður en það var lagt fram. M. a. hefur í þeim umr. verið töluvert um það rétt, á hvern máta beri að ráðstafa þessu jöfnunargjaldi, og fyrir hafa legið till. frá Félagi ísl. iðnrekenda um það, sem mér er kunnugt um að hafa verið ræddar við hæstv. ráðh. og ég efast raunar ekki um í hæstv. ríkisstj.

Í frv., eins og það liggur nú fyrir, kemur hins vegar ekkert fram um þessa skiptingu. Ég vil því leyfa mér að bera fram spurningar til hæstv. fjmrh. um hugmyndir hans, ef ég má kalla það svo, um ráðstafanir hans á þessu jöfnunargjaldi eða, ef fyrir liggja um hugmyndir hæstv. ríkisstj.

Í frv., 3. gr. þess, er gert ráð fyrir því, að tekjum af gjaldi þessu, er til falla árið 1978, verði ráðstafað samkv. ákvörðun ríkisstj. Um það hefur verið rætt, að uppsafnaður söluskattur verði endurgreiddur. Það var gert fyrir árið 1974 og ákveðið hefur verið að gera það fyrir árið 1977. Árin 1975 og 1976 hafa ekki verið verið endurgreidd, en um það hafa hins vegar komið fram óskir og raunar kröfur. Um það hefur jafnframt verið talað við undirbúning þessa frv., að jöfnunargjald það, sem innheimtist nú í ár, verði að hluta notað til þess að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt 1975 og 1976. Nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hann sé því fylgjandi og muni leggja til að uppsafnaður söluskattur 1975 og 1976 verði endurgreiddur.

Einnig, eins og raunar kemur fram í frv., hefur verið gert ráð fyrir að verja hluta af þessu gjaldi til eflingar iðnþróun. Í till., sem fyrir liggja frá Félagi ísl. iðnrekenda um það efni, er sú skipting gefin sem Félag ísl. iðnrekenda leggur áherslu á. Ég ætla ekki að spyrja um einstaka liði, en ég vil þó spyrja um fjármagn til tæknistofnunarinnar, sem heitir eftir meðferð Nd. Iðntæknistofnun Íslands. Í frv. til l. um Iðntæknistofnun Íslands er beinlínis gert ráð fyrir tekjum af þessu jöfnunargjaldi og í trausti þess gert ráð fyrir því að fella niður tekjur sem Rannsóknastofnun iðnaðarins hefur nú. Það er því mikilvægt fyrir þessa hv. d. að vita hvort ráð muni vera gert fyrir því, að Iðntæknistofnunin fái af þessu jöfnunargjaldi fjármagn sem a. m. k. nemur þeim tekjum sem stofnunin missir, sem munu vera, ef ég veit rétt, um 23 millj. kr.

Í þessu frv. er jafnframt gert ráð fyrir því, að á fjárl. hvers árs verði jöfnunargjaldinu ráðstafað. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geri ráð fyrir því, a. m. k. ef hann verður fjmrh. áfram, að hluti af þessu jöfnunargjaldi fari til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti og hluti að sjálfsögðu til eflingar iðnþróun, eins og fram er tekið reyndar í frv.

Ég vil taka það fram, að ég tel ekki óeðlilegt að ríkissjóður hafi einhvern hluta af þessu jöfnunargjaldi til eigin þarfa. Aukin launahækkun, sem af þessu stafar, mun valda aukinn greiðslubyrði ríkissjóðs, svo að mér finnst það vera skiljanlegt. Ég tel hins vegar að eðlilegt sé að nota meginhluta þessa jöfnunargjalds til þess að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt og efla íslenska iðnþróun.