05.05.1978
Efri deild: 99. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

136. mál, veiting ríkisborgararéttar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Síst vil ég tefja afgreiðslu þessa máls um veitingu ríkisborgararéttar, en finn þó ástæðu til þess að taka hér aðeins til máls og heiti hv. forseta því að tala ekki lengi. En tilefnið er í 2. gr. frv., þar sem segir:

„Nú fær maður, sem heitir erlendu nafni, íslenskt ríkisfang með lögum, og skal hann þá taka sér íslenskt fornafn. Börn hans skulu taka sér íslensk nöfn samkv. lögum um mannanöfn.“

Ég hef áður við afgreiðslu frv. samkynja þessu gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að við gerumst hér harla dreissugir að óþörfu við það fólk sem heiðrar okkur með því að óska eftir íslensku ríkisfangi, að gera kröfu til þess að það skipti um nöfn. Ég er ásáttur um að kveðið verði á um það, að börn þessara nýju ríkisborgara fædd á Íslandi skuli skírð samkv. íslenskum lögum um mannanöfn. En mér finnst harla fráleitt að gera kröfu til þess, að maður, sem er, eins og George Bernard Shaw orðaði það forðum daga, orðinn hluti af nafninu sínu í gegnum allt það sem hann hefur gert undir því, sé skyldaður til þess að leggja niður nafnið sitt og taka upp annað nafn. Þessu er ég algerlega mótsnúinn og blygðast mín raunar fyrir það, að ég skuli ekki vera búinn að bera fram frv. um breytingu á þessum lögum. Því verður auðna að ráða, hvort ég lifi það eða hvort einhver annar fróður maður tekst það á hendur fyrir mína hönd að beita sér fyrir slíku. En alveg burt séð frá því vil ég nú leggja til, — ég kom ekki auga á þennan málgalla í 2. gr. frv. fyrr en rétt áðan og hafði ekki tíma til þess að semja brtt., — að hér verði vikið við orðalagi. Hér stendur í 2. gr.: „Nú fær maður, sem heitir erlendu nafni íslenskt ríkisfang með lögum og skal hann þá taka sér íslenskt fornafn.“ Ég hygg, að hér muni vera átt við skírnarnafn. Fornafn hefur, að því er ég best veit, allt aðra merkingu. Fornöfn er orðflokkaheiti og fornöfnin eru býsna mörg. En ég reikna fastlega með því að höfundur frv., þ. e. a. s. ef höfundurinn er ekki Koo litli Man Suk, fæddur 27. desember 1973 í Suður-Kóreu, eða, — sem kannske væri sennilegra — Yamagata Nobuyasu, sem er eldri, — ef það eru ekki þeir sem hafa orðað þetta svona, þá hygg ég að það, sem fyrir frv.-smið vaki, sé skírnarnafn. Ég vil að þetta verði athugað og þá jafnframt tekið til athugunar, ef menn vilja raunverulega láta þetta með fornafnið standa, að þetta verði takmarkað að einhverju leyti. Ég tel það æskilegt t. d., að afturbeygilega fornafnið yrði þá útilokað, það mætti orðast: „að afturbeygilegu fornafni undanskildu“, eða jafnvel mætti útiloka óákveðnu fornöfnin líka. Sum þeirra gætu orkað ákaflega tvírætt og óákveðið í stað nafns hins erlenda nafns. Afturbeygilega fornafnið „sig“ gæti beinlínis valdið misskilningi. Menn gætu ímyndað sér að þetta væri skammstöfun fyrir „Sigurður“ eða „Sigurlaug“ eða eitthvað þess háttar, og sama væri með óákveðnu fornöfnin. Sem sagt, ef þessi breyting fæst ekki fram, þá vísa ég því til hv. þm., hvort þeir gætu ekki fellt sig við að þetta yrði þá takmarkað við persónufornöfnin og þá t.d. eignarfornöfn.

Ég sé nú að tímans vegna verð ég líklega að beina því til hæstv: forseta, að ef honum þykir málið þess efnis, og ég held að það hljóti raunverlega að vera það hjá löggjafarþingi þeirrar þjóðar sem setur sig á svo háan þjóðlegan hest að heimta að erlendir ríkisborgarar, sem ætla að fá ríkisfang á Íslandi, skipti um nöfn og taki upp íslensk nöfn, þá finnst mér nú einhvern veginn að löggjafarþingið geti ekki verið þekkt í fyrsta lagi fyrir annað en að láta það koma ljóst fram í 2. gr. frv., hvað löggjafarþingið á við, hvort það á við það, að hinir erlendu ríkisborgarar, sem nú verða íslenskir ríkisborgarar, skuli taka sér fornafn í stað skírnarnafnsins eða hvort ætlast er til þess, að þeir taki sér íslenskt skírnarnafn. Ég tel alveg bráðnauðsynlegt að þetta komi ljóst fram, þannig að ekki fari á milli mála. Ég vildi sem sagt fá tóm til þess, fáist n. ekki til þess að gera þá brtt., að leggja fram skrifl. brtt. fyrir 3. umr.