06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4651 í B-deild Alþingistíðinda. (4036)

58. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er rætt dálítið um meðferð þessa máls, og ég er nú satt að segja undrandi á því, að síðustu mínútur þingsins skuli vera notaðar til þess að ræða þetta mái. Ég er þá ekkert að finna að þessu út af fyrir sig við hæstv. forseta, en ég er dálítið hissa á því. En þó er ég enn meira hissa á því, að það er mikið talað um það í umr. um þetta mál, að meðferð þess nú og hliðstæðra mála áður sé eitthvað óvenjuleg, þ. e. a. s. að þegar hv. þm. lenda í því, að mál þeirra koma ekki til meðferðar á þingfundum fyrr en á síðustu dögum þings, jafnvel á síðasta degi þings, í mesta annríkinu í þinglokin, þá undrast menn það, að þau verði ekki útrædd, og tala um að hér sé um eitthvert einsdæmi að ræða. Við, sem höfum verið lengi á þingi og sumir meira en aldarfjórðung meira og minna, höfum náttúrlega orðið vitni að slíku á hverju einasta þingi svo að segja. Ef deilumál fæst ekki tekið fyrir af einhverjum ástæðum fyrr en á allra síðustu dögunum, þá nær það ekki fram að ganga. Þetta er eins og náttúrulögmál. Þetta eru eiginlega örlög sem þm. hafa til þessa og sjálfsagt þurfa að búa við, nema þá breytt verði um starfshætti. Það er ekkert óvenjulegt við þetta. Bæði ég og fjöldamargir aðrir, sem nú sitja á þingi og áður hafa setið á þingi, hafa orðið að sæta þessum örlögum. Það er nánast barnalegt að heyra menn gera veður út af því, að þetta skuli henda nú með þetta mál og það hafi áður hent með hliðstæð mál, því þetta er ekkert óvenjulegt, þvert á móti mjög venjulegt. Hins vegar finnst mér það mjög skiljanlegt, að slíkt valdi gremju einstakra hv. alþm. Þeir hafa kannske flutt sín mál og lagt þau fram á Alþ. snemma á þingi það sinn og það vefst svo fyrir n. að afgreiða málið langt fram eftir vetri. Það er út af fyrir sig eðlilegt að þm. gremjist það. En menn eiga ekki að vera með svona óraunsætt tal hér á hv. Alþ. að ræða um þetta sem einhver einsdæmi.

Ég get nefnt nýjasta dæmið frá mér sjálfum. Ég — eða menntmrh. er það nú víst kallað á frv. — er a. m. k. tvívegis, ef ekki þrisvar búinn að flytja frv. mitt um meðferð stafsetningarmála, hversu með stafsetningarmál skuli fara. Þar er mótaður ákveðinn rammi. Það kom ekkert nál. fram um það á síðasta þingi og núna kemur nál. fram alveg á síðustu dögum þingsins og það seint, að mér er ljóst að það er hvorki von til þess, að það verði afgreitt, né heldur að það sé eðlilegt að krefjast þess, miðað við þau vinnubrögð sem tíðkast hafa á Alþ. svo lengi sem ég hef haft kynni af þeim og ég var sem sagt áðan að lýsa. Séu þrætumál svona seint á ferðinni, mál einstakra þm., jafnvel þó það séu ríkisstjórnarmál, ef stjórnarandstaðan setur sig hastarlega á móti því og komið er í þröng, þá nær það ekki fram að ganga.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti hér snarpa ræðu í gærkvöld. Hann t. d. líkti niðurfellingu z-unnar við þjófnaðarmál sem náttúrlega sýnir það, að þetta er sótt meira af kappi en forsjá, málflutningur út af þessum ágæta bókstaf. Það vita allir, að það er bannað bæði í sjöunda boðorðinu og í lögum landsins að stela, en það er ekki enn þá búið að setja nein slík ákvæði og viðeigandi viðurlög um þennan ágæta bókstaf. Þetta er fráleitt, ég skil ekkert í mönnum að viðhafa svona talsmáta. En auðvitað er þetta eins og hvert annað grín.

En svo talaði þessi hv. þm. töluvert um valdníðslu af hálfu tveggja síðustu menntmrh. og að þeir höfðu ekki framkvæmt þingvilja sem ýmist hefði komið fram í samþykkt þáltill. ellegar í sendibréfum til þeirra frá alþm. — ég man ekki hvort hann minntist líka á það frv. sem ekki varð útrætt og hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni og talaði um valdníðslu, bolabrögð o. s. frv. En þó tók hann það alveg kirfilega fram, þessi hv. þm., eins og hann hefur gert áður, að á því léki enginn vafi, að ráðh. væru í fullum rétti til að gefa út auglýsingar — þó ekki væri það gert samkv. lagafyrirmælum, þá væri komin á það hefð. Og við vitum að það er um það bil 50 ára hefð komin á þessa tilhögun. Mér finnst þetta ekki samrýmast, að viðurkenna það annars vegar, að ráðh. hafi rétt á þessu vegna hefðarinnar, en svo jafnframt að hann brjóti stórkostlega af sér þó að hann fari t. d. ekki eftir bréfum frá þm. Já, ég fékk slíkt bréf í hendur t. d. En ég kem nánar að þessu atriði síðar með afstöðu ráðh. og afstöðu Alþingis, ef tími vinnst til.

Ég vil nú algerlega vísa því á bug, sem sagt var hér í gærkvöld af þessum sama hv. alþm., að menntmrh. hefði misnotað aðstöðu sína hér á þingi undanfarna daga í sambandi við meðferð þessa máls. Ég hef engin afskipti haft af því, hvenær þetta mál var tekið hér á dagskrá. Það er ekki vani minn að ganga í verk forseta og gera tilraun til að segja þeim fyrir verkum hér á hv. Alþ. Ég held að þeir mundu ekki taka því vel, enda fer því fjarri að ég hafi gert það. Það hafa allir hv. alþm. séð það undanfarna daga, að hér hefur verið mikið annríki, dagskrár hafa verið gífurlega langar og það hafa t. d. verið á dagskrá Sþ. mjög mörg mál sem gengið var í að afgreiða. Ég vísa þessu algerlega á bug sem hreinni markleysu, að ég hafi verið að misnota aðstöðu sem ég auðvitað enga hafði til þess að hafa áhrif á það í hvaða röð forsetar tækju fyrir mál hér í Alþingi.

En út af þessum umr., sem ekki eru nýjar, um stöðu Alþingis gagnvart stafsetningarmálunum annars vegar og stöðu rn. eða ráðh. hins vegar, þá vil ég minna á það, að Alþ. hefur ekki enn þá tekið málið í sínar hendur með því að setja um það lög. Það var komið áleiðis frv. til 1. um það, hvernig ætti að skrifa íslenskt mál. En á síðustu stundu sá meiri hl. þm. í hv. Ed. sig um hönd og ákvað að það væri réttara að skoða þetta nánar, og málinu var þá vísað frá. Alþ. hefur því ekki enn þá tekið málið í sínar hendur með því að setja um það lög, hvorki um það, hversu rita skuli sérhvert orð, né heldur hversu með skuli fara stafsetningarmálin í heild.

Út af þessum umr. öllum um stöðu Alþ. og stöðu rn., þá aflaði ég mér á sínum tíma lögfræðilegrar álitsgerðar um þetta efni, stöðu þessara tveggja aðila. Þessi álitsgerð er undirbyggð nokkuð ítarlega með því að rekja sögu stafsetningarmálsins frá því að fyrst voru gefnar út opinberar tilskipanir um stafsetningu, og ég vil gjarnan rifja þessa álitsgerð upp hér ef hæstv. forseti telur að tími leyfi það en í henni segir svo:

„Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld hefur oft verið deilt hart um íslenska stafsetningu og greinarmerkjasetningu.

Hinn 27. mars 1918 gaf dóms- og kirkjumálaráðh. út auglýsingu nr. 15/1918 um eina og sömu stafsetningu í skólum og skólabókum. Í auglýsingu þessari eru lagðar til grundvallar stafsetningarreglur þær er þeir beittu sér fyrir Björn Jónsson og Valdimar Ásmundsson. Samkv. auglýsingunni skal nota þá stafsetningu, sem þar er boðin, í öllum skólum, sem kostaðir eru eða styrktir af landssjóðsfé, á þeim bókum, sem notaðar eru við kennslu í þessum skólum, og á þeim bókum, sem gefnar verða út á kostnað landssjóðs. Ekki hef ég séð að mál þessi hafi áður verið rædd á Alþ., en þó hef ég ekki hirt um að kanna það til hlítar.

Hinn 25. febr. 1929 gaf dóms- og kirkjumálaráðh. út auglýsingu um íslenska stafsetningu, sem birtist í Lögbirtingablaði er út kom 28. sama mánaðar, 22. árg., 9. tbl. Gildissvið er hið sama og auglýsingar nr. 15/1918. Auglýsing þessi skyldi taka gildi 1. okt.1929. Ekki hef ég fundið umr. á Alþ. sem telja mætti hvata til þessarar auglýsingar, en ekki hef ég þó gerkannað það.

Með bréfi 30. júlí 1964 setti menntmrh. á stofn n. er bar nafnið Íslensk málnefnd. Settar voru reglur um starfsemi nefndarinnar, nr. 49 10. mars 1965. Í 3. mgr. 1. gr. reglnanna segir m. a., að rn. geti falið nefndinni ýmis verkefni, svo sem stafsetningarmál. Breyting á reglum þessum nr. 32 1966 skiptir hér ekki máli.

Á árinu 1972 setti menntmrh. á stofn nefnd sem kölluð hefur verið stafsetningarnefnd. Sú n. mun hafa skilað álitsgerð sem mynda grunn auglýsinga þeirra um þessi mál sem síðar verður vikið að.

Hinn 4. sept. 1973 gaf menntmrh. út auglýsingu nr. 272/1973 um afnám z. Reglur samkv. auglýsingu þessari skyldu gilda um kennslu í skólum, um kennslubækur útgefnar og styrktar af ríkisfé svo og um embættisgögn sem út eru gefin. Ég vek athygli á því, að hér vikið frá því sem var í hinum fyrstu auglýsingum, þar sem gert var ráð fyrir því, að hin ákveðna stafsetning skyldi vera á öllum bókum sem gefnar væru út á vegum landssjóðs, eins og það var þá orðað.

Hinn 29. apríl 1974 var samþ. á Alþ. þáltill. um bókstafinn z í ritmáli, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar, að hrundið skuli þeirri ákvörðun að feila z niður í íslensku ritmáli.“

Þáv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, mun hafa látið í ljós það álit sitt, að hann mundi ekki fara eftir þessari þáltill.

Menntmrh. gaf 3. maí 1974 út auglýsingu nr. 132 1974, um íslenska stafsetningu. Hér er um heildarreglur að ræða og eldri reglur felldar úr gildi, þ. á m. reglur samkv. auglýsingu nr. 272/1973, en efni þeirrar auglýsingar um afnám z er tekið í hina nýju auglýsingu. Gildissvið þessarar auglýsingar og reglna samkv. henni er hið sama og gildissvið auglýsingar nr. 272/1973. Auglýsingin skyldi öðlast gildi 1. sept. 1974. Sama dag gaf menntmrh. út auglýsingu nr. 133/1974, um greinarmerkjasetningu. Gildissvið þessarar auglýsingar svo og gildistaka er hin sama og auglýsingar nr. 132/1974. Ekki er ástæða til að ræða þessa auglýsingu sérstaklega.

Alþingiskosningar fóru fram í júnímánuði 1974. Ný ríkisstj. var mynduð um hausið 1974. Það mun hafa verið 1975, að 5. þm. báru fram í Sþ. till. til þál. um löggjöf um íslenska stafsetningu, 96. löggjafarþing, 289. mál Sþ., þskj. 715. Þáltill. var samþ. á Alþ. 16. maí 1975 og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu.“

Á Alþingi 1975 lögðu 6 þm. fram frv. í Nd. um íslenska stafsetningu, 97. löggjafarþing, 115. mál Nd., þskj. 140. Í frv. þessu er lagt til að tekin verði upp aftur stafsetning sú er boðuð var með auglýsingunni frá 25/2 1929, a. m. k. í meginatriðum. Reglur þessar skyldu gilda um kennslu í öllum skólum ríkisins og þeim er styrks nytu af almannafé. Þá skyldi sú stafsetning, sem þar var lögð til, vera notuð í öllum textum, sem ríkið og ríkisstofnanir gæfu út, og í öllum kennslubókum. Í grg. er vísað til þál. frá 16. maí 1975, áskorunar 33 alþm. til ráðh. um að hann gerði ráðstafanir til að stafsetning sú, sem gildi tók 1929, verði notuð við prentun þeirra skólabóka sem nú er verið að undirbúa til nota á næsta vetri. Þá fylgdi frv. þessu áskorun til menntmrh. um að nema úr gildi auglýsingu nr. 132/1974. Áskorun þessi var undirrituð af 100 merkismönnum. Ég vek athygli á því, að með þessu frv. til l. um íslenska stafsetningu er í fyrsta sinn, að ég hygg, lagt til að setja lagafyrirmæli um það, hversu rita skuli íslenskt mál á tilteknum sviðum sem nánar er skilgreint hér. Og ég vek jafnframt athygli á því, að nú er farið nokkru víðar en áður var, þegar skilgreint er til hverrar útgáfu þessi lögbundna stafsetning skuli ná.

Snemma á árinu 1976 lagði menntmrh. fram í Nd. Alþingis frv. til l. um setningu reglna um íslenska stafsetningu, 97. löggjafarþing, 194. mál Nd., þskj. 406. Í frv. þessu er gert ráð fyrir að menntmrh. setji reglur um stafsetningu með sama gildissviði og auglýsing nr. 132/1974, um setningu stafsetningarreglna skuli leitað tillagna sérfræðinganefndar og áður en stafsetningarreglur séu settar eða þeim sé breytt skuli aflað heimildar Sþ. í formi þál“

Hér er greint frá því lagafrv. mínu, sem ég vék að áðan. Það hefur eftir þessu að dæma legið tvívegis fyrir Alþ., ekki hlotið afgreiðslu n. í fyrra skiptið, má ég segja, núna hins vegar verið afgreitt úr n. shlj. og mælt með samþykkt þess, þó að nokkrir einstakir nm. hafi áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. Ég tel það mjög miður farið með mál, sem virðist þó þetta mikil samstaða um, að tekist skuli hafa til á þann veg, að það hafi ekki hlotið afgreiðslu, því að ef hv. alþm. hefðu afgreitt þetta mál, þá væri þessi meðferð stafsetningarmálanna komin í fastan farveg og við þyrftum væntanlega ekki lengur að deila um það hér á hv. Alþ.

„Meiri hl. menntmn. Nd. lagði til að frv. til sexmenninganna, 115. mál, yrði samþ. með nokkrum breytingum. Minni hl. lagði til, að það yrði afgreitt með rökst. dagskrá, þannig að það yrði tekið af dagskrá, en í þess stað yrði frv. menntmrh., 194. mál, tekið á dagskrá. Var frv., 115. mál, síðan samþ. í Nd. í samræmi við till. meiri hl. menntmn. Frv. fór síðan til Ed. Þar varð menntmn. sammála um að leggja til að frv. yrði vísað til ríkisstj. Jafnframt benti n. á að rétt væri að menntmrh. efndi til fundar með sérfræðingum þar sem reynt yrði að ná sem víðtækustu samkomulagi um meginstefnu varðandi stafsetningarreglur og ákvarðanatöku um breytingar á þeim. Þessi till. menntmn. Ed. var samþykkt. Frv. menntmrh., 194. mál, varð aldrei útrætt.

Í samræmi við ábendingu menntmn. Ed. efndi menntmrh. til mikillar ráðstefnu 30. okt. 1976. Hefur fundargerð þessarar ráðstefnu nú verið birt, þegar þetta er skrifað.“

Enn segir í nefndri álitsgerð:

„Ég mun ekki ræða álit mitt á efni þeirra reglna sem hér er um fjallað. Þá mun ég ekki ræða skoðanir mínar á því, hvort eðlilegur eða heppilegur sé sá setningarháttur, sem hafður hefur verið á reglum þessum allt frá upphafi. Enn mun ég ekki ræða um gildissvið auglýsinga þeirra er hér skipta máli. Ef athuga á stjórnskipulega aðstöðu menntmrh. í þessu deilumáli vil ég benda á þetta:

Stafsetningarreglum hefur um langt skeið verið skipað með einhliða ákvörðun ráðh. sem síðan hefur verið auglýst. Telja verður þennan setningarhátt venjubundinn og gildan þar til öðruvísi kann að verða ákveðið með lögum af Alþingi. Þál. eru yfirlýsingar Alþingis sem ekki hafa lagagildi, enda ekki undirritaðar af þjóðhöfðingja.

Þær víkja fyrir lögum og breyta ekki settum lögum, sbr. t. d. hæstaréttardóm 1943, nr. 92. Þær geta og haft stjórnskipulega þýðingu, sbr. t. d. þál. frá 10. apríl 1940, um meðferð konungsvalds, og þál. frá 16. júní 1944, um niðurfellingu dansk-íslenska sambandslagasamningsins. Í sérflokki eru þær ályktanir Alþingis sem gert er ráð fyrir í stjórnarskránni. Þáltill. frá 29. apríl 1974 hefur ekki lagagildi og bindur því ekki hendur ráðh. stjórnskipulega. Hins vegar getur verið að hún hafi lagt stjórnmálalega ábyrgð á herðar ráðh. og hann hafi mátt vænta vantrausts meiri hl. alþm. ef hann færi eigi eftir henni. Þáltill. frá 16. maí 1975 lagði þá stjórnmálalegu skyldu á herðar ríkisstj. að leggja fram nýtt frv. um heildarskipan þessara mála. Menntmrh. fullnægði þessari skyldu að sínu leyti með framlagningu frv. 1976, 97. löggjafarþing, 194. mál. Afgreiðsla Ed. á frv. sexmenninganna, 97. löggjafarþing, 115. mál, sýnir, að sú deild taldi rétt að unnið yrði meira að þessum málum áður en Alþ. tæki bindandi afstöðu. Einkabréf alþm. hafa enga stjórnskipulega þýðingu og ekki heldur áskoranir einstaklinga þótt merkir séu.

Þegar á allt þetta er litið er það álit mitt, að menntmrh. hafi fullnægt öllum stjórnskipulegum skyldum sínum í máli þessu og reyndar stjórnmálalegum líka. Hitt er svo annað mál, að það verður að móta fasta stefnu í stafsetningarmálum, svo að sæmilegur friður fáist um þetta. Það athugast,“ segir svo hér að lokum, „að ég hef ekki lagt í það verk að lesa allar umr. um þessi mál, en vona að það skipti ekki máli.“

Mér þótti rétt út af þeim margendurteknu ummælum og umr. æ ofan í æ um það, að menntmrh. fyrrv. og núv. hafi brotið af sér, mér skilst stjórnskipunarlega, gagnvart Alþ. að rifja upp þessa umsögn. Nú eru slíkar álitsgerðir vitanlega ekki óyggjandi frekar en önnur mannanna verk. En hér er á mjög skilmerkilegan hátt um það fjallað eða frá því greint í meginatriðum og það rakið, hversu með þessi mál hefur verið farið á undanförnum árum og ályktanir síðan dregnar í framhaldi af slíkri yfirferð. Það er ekki nógu gott, að hv. þm. þurfi að vera að ræða ítrekað sín á milli og ár eftir ár ágreiningsatriði eins og það, hver hafi rétt til þess í raun og veru að skipa stafsetningarmálunum og hver ekki og t. d. í þessu tilviki hver sé staða viðkomandi ráðh. og rn. og hver sé staða Alþ. í þessu máli. Ég ætla ekki að bæta hér við frá eigin brjósti, en tek það fram, að ég álít persónulega að þetta sé eðlileg niðurstaða.

Þessi till., sem liggur fyrir núna og verið er að ræða hér, fjallar um það, að Alþ. skuli mæla fyrir um stafsetningu í einstökum atriðum, sem sagt um það, hversu rita skuli tiltekin orð og orðasambönd í kennslubókum og þeim bókum sem ríkissjóður gefur út — eins og komið hefur hér fram. Ég verð að segja það og árétta það, sem ég hef áður sagt, þó í stuttu máli væri þá, að ég tel það algerlega óeðlilegt, að Alþ. færi sitt verksvið út yfir þennan vettvang. Ég tel það algerlega óeðlilegt. Ég tel að til þess skorti Alþ. og hv. alþm. margt. Alþingi skortir tíma til þess, álít ég, og hv. alþm. ýmsa þekkingu. Ég veit a. m. k. um sjálfan mig, að ég tel að mig skorti algerlega þekkingu til þess að fjalla um þessi mál á þennan hátt, að setja málfræðilegar og flóknar ritreglur. Það getur vel verið að ég sé sá eini, en það er a. m. k. alveg víst, að ég hef ekki slíka þekkingu til að bera að ég treysti mér til að vinna að þeim verkum á þann hátt.

Í síðasta lagi er svo spurningin: Hvar á að nema staðar? Ef Alþ. á að taka að sér að setja ritreglur og þá væntanlega, miðað við það sem nú er orðið álit margra, að fylgjast með því, að þeim sé framfylgt út í æsar, þá náttúrlega fer ekki hjá því að við verðum að fara ofan í kennslubækurnar hverja um sig o. s. frv. Ég sagði það víst þegar rætt var um þetta á Alþ. áður, að það þyrfti þá að fylgja Alþingistíðindum leiðarvísir um þetta hverju sinni. Alltaf þarf að fylgjast með. Þó að menn reyndu að vera íhaldssamir um beinar breytingar, þá þarf stöðugt að fylgjast með að aðrir séu þá ekki að fikta við slíkt — kannske hálfgert á laun.

Mér finnst þetta augljóst allt saman, þessi þrjú atriði sem ég nefndi. Alþ. hefur gífurlega mikið verksvið þó það bæti ekki þessu við. Þekkingu mun skorta hjá okkur ýmsum. Og svo verður erfitt að fóta sig á hvar eigi að nema staðar ef farið er út í þessa sálma. Þetta er svo augljóst, að mér finnst nánast erfitt að rökstyðja það í löngu máli. Auðvitað gæti ég gert það. Það er hægt að minna á þau svið sem löggjöfin spannar yfir. En mér finnst í sjálfu sér fáránlegt að fara að telja það allt saman upp, öll þau viðfangsefni sem alþm. og Alþ. sem stofnun hljóta að fjalla um, eins og nú er háttað málum, þó það fari ekki inn á svið eins og þetta, að setja löggjöf um hversu skuli rita hvert orð og orðasamband, því að það náttúrlega leiðir af sjálfu sér, að ekki mundi Alþ. láta sér nægja að fjalla aðeins um einn einasta staf, þó kær sé Sverri Hermannssyni, hv. þm., og raunar fleirum. Það hlyti að taka fleira fyrir. Það er útilokað annað. Og ég er alveg ófáanlegur til þess að fallast á þetta sjónarmið. Hitt er mér auðvitað ljóst að ef Alþ. vill breyta þessari allt að hálfrar aldar gömlu hefð sem hér hefur viðgengist, þá getur það auðvitað hvenær sem er gert það, þó svona hafi tekist til í tvö skipti, að mál hafi komið það seint fram að það hafi ekki náð afgreiðslu. Ef vilji er fyrir því á Alþ. að gera slíkt, þá er náttúrlega hvenær sem er hægt að vinda sér í það. Það geta alþm. gert — og þá það. En þannig verður að fara að ef á að breyta þessari grónu hefð, að því er ég hygg, og álitsgerðin, sem ég vitnaði til, staðfestir það eða rennir stoðum undir þá skoðun, að þessu verði ekki breytt með eðlilegum og lögformlegum hætti öðruvísi en gera það með lögum, ekki með einföldum þál. og þaðan af síður með því að skrifa bréf í rn. Hitt er svo annað mál, og það kemur auðvitað fram í mínum tillöguflutningi og frv. sem ég nefndi áðan, að ég tel rétt og nauðsynlegt að settar séu ákveðnari reglur um meðferð stafsetningarmála, ekki um það, hvernig skuli rita orðin, heldur hvernig með þessi mál skuli fara.

Hæstv. forseti hefur nú óskað þess, að ég stytti heldur mál mitt, og ég skal verða við því. En ég vil aðeins í framhaldi af þessum ummælum um frv. mitt um stafsetningarmál árétta, að það er ekki einasta álit mitt, heldur augljóslega margra alþm., að þörf sé slíkra laga, því þegar þetta mál hefur fengist rætt í þinginu, þá hafa menn tekið því jákvætt og svo er nú komið út nál. þar sem allir mæla með samþykkt frv. Og ég held, að fyrirvari nm. sé ekki um málið efnislega, heldur um annað atriði.

Ég vil svo árétta það sem ég hef áður sagt, að ég tel óráðlegt að taka upp bókstafinn z á ný. Það eru 5 ár liðin frá því að hún var afnumin. Það hefur sýnt sig, að breytingar á stafsetningunni valda gríðarlega miklu fjaðrafoki — það er ekki ofsögum af því sagt. Þessi breyting nú hefur orðið erfið. Breytingin 1929 var líka erfið, því að það tók áratugi fyrir blöð landsins aða fella sig við þá breytingu. Nei, það er ekkert gaman á ferðum, þegar ráðist er í breytingar. Þar að auki sýnist mér það alveg ljóst af öllum þeim mörgu umsögnum, sem hafa komið um þessi mál, samþykktir hafa gengið um það o. s. frv., að það er ekki vilji fyrir því hjá því fólki, sem í raun annast framkvæmd þeirra auglýsinga, sem settar hafa verið, og svo laga, sem kynnu að verða sett síðar, — það er óvilji hjá þessu fólki að breyta nú til á þennan hátt og taka upp z-una. Ég vil leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., að það hefði komið fram till. á ráðstefnunni um að taka upp z í stofn orða. Þetta er ekki rétt. Það er kirfilega fram tekið í ræðu þess manns, sem hreyfði þessu, að hann væri hér með hugmynd, en þetta er ekki tillaga, sagði hann. Ég vil að þetta komi fram.

Ég skal svo að síðustu segja það, að ég get út af fyrir sig vel skilið það og auðvitað þykir manni vænt um það, að hv. þm. sem og aðrir Íslendingar láti sig ekki litlu varða, heldur miklu íslenska stafsetningu, því að ég álit að hún sé einn af þáttunum í meðferð móðurmálsins, að sjálfsögðu, já, og þýðingarmikill þáttur. En ég held að það væri óráðlegt að gera nú þær breytingar sem tillögumenn leggja til. Og ég fyrir mína parta er samþykkur þeirri málsmeðferð, sem minni hl. n. leggur til, að vísa málinu frá nú til frekari athugunar.