17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil biðja um leyfi til þess að fá að leggja orð í belg um það viðkvæma mál sem hér er rætt nú. Ég hef hugleitt það mikið, eins og flestir aðrir borgarar landsins, og það er sannarlega rétt, sem einn hv. þm. sagði hér áðan: það hefur valdið erfiðleikum og óþægindum, það ástand sem hefur skapast. Það er víst enginn sem efast um það. Það hefur ekki aðeins valdið erfiðleikum og óþægindum. Það hefur líka valdið vonbrigðum, undrun og hneykslun.

Tvenn ummæli eru mér efst í huga af öllu því flóði viðtala og yfirlýsinga sem birtar hafa verið í sambandi við þetta verkfall og þann verkfallsrétt sem opinberum starfsmönnum var veittur með lögum á s.l. vori. Ég nefni ummæli hæstv. fjmrh. daginn sem verkfallið hófst. Ég held að ég muni þau rétt, svo fast grópuðust þau í hug minn.

Hæstv. fjmrh. sagði í viðtali sem birt var í Morgunblaðinu: Mér eru það mikil vonbrigði að þetta verkfall skyldi skella á. Engin ríkisstj. hefur sýnt opinberum starfsmönnum meiri trúnað en þessi. Um hetta held ég að menn deili ekki. Hæstv. fjmrh, bætti við: Ég hafði vonast til þess að opinberir starfsmenn sýndu þá þjóðhollustu að til þessa verkfalls þyrfti ekki að koma.

Það hlýtur að vera ljóst, að hinn almenni félagsmaður í BSRB sé en engan veginn ánægður með framvindu mála, og ég leyfi mér að fullyrða, að fjöldi félagsmanna í BSRB er mjög óánægður með það að verkfall skyldi skella á, hrátt fyrir að hann greiddi atkv. gegn sáttatillögunni á sínum tíma. Ég held að fólk hafi búist við, þegar svo lítið bar á milli sem raun bar vitni síðasta daginn, að þá yrði ekki farið í verkfall. En það varð engu síður staðreynd. Þessi réttur var notaður, þó takmarkaður væri, eins og segir í lögunum, „þessi mannréttindi“ eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði. En um leið og þessi réttur var notaður, var hann ofnotaður og misnotaður. Og það voru ekki aðeins mannréttindi sem beitt var, heldur hafa mannréttindi verið fótum troðin í framkvæmd verkfallsins. Og ég kalla það að mannréttindi séu fótum troðin, þegar menn í verkfalli hika ekki við að brjóta lög og hindra löglega starfsemi. Hv. þm. biður um orðið af þessu tilefni, sé ég. Það er nefnilega svo, að verkfallsbrot, sem verkfallsverðir kalla oft svo, er ekki sama og lögbrot. Það er því miður svo, að þeir, sem að verkföllum standa, telja oft að allur réttur sé sín megin. Og það er líka því miður svo, að það er allt of sjaldan látið á það reyna hve mörg lögbrot ern framin þegar verkföll standa yfir. Þetta verður til þess að fjöldi, fjöldi fólks í landinu heldur að það sé heilagur sannleikur, sem sagt er við það í verkfalli, að örfáir menn megi stöðva starfsemi stórra stofnana. Þó er öðrum samkv. lögum heimilt að vinna það verk sem þeir hafa lagt niður. Það er samt svo, að menn skilja ekki að nauðsynlegt sé að starfsemi stórra og dýrra stofnana sé stöðvuð af þessum sökum, — ekki heldur að oft og tíðum geti örfáir menn stöðvað einhverja dýrustu atvinnugrein í þjóðarbúinu, og ýmiss konar framleiðslugreinar sem færa okkur björg í bú, eyðilagt mikil verðmæti. En það er eins og þetta verkfall, þegar opinberir starfsmenn eiga í hlut, hafi opnað augu manna fyrir því, að mörg lögbrot séu framin í verkföllum. Og það er einhvern veginn svo, að reiði margra manna beinist gegn opinberum starfsmönnum yfirleitt. Mönnum hættir til að álykta sem svo: Opinberir starfsmenn áttu aldrei að fá leyfi til að „fara í verkfall“, rétt eins og opinberum starfsmönnum væri enn síður trúandi til þess að fara með þann rétt heldur en öðrum launþegum í landinu. Ég held að þetta sé ekki rétt niðurstaða. Hitt er annað mál, að þeir, sem að framkvæmdinni hafa staðið, hafa farið rangt að ráði sínu.

Í þessu sambandi vil ég víkja að einu atriði, sem hv. 3. landsk. þm. vék raunar að, og það er hringlandahátturinn starfsemi skólanna. Þetta tel ég svo alvarlegra en við verði unað. Hvað um uppeldisáhrif skólanna? Hvað á ungt fólk í skólum landsins að halda þegar það kemur til náms í skóla sínum, kennararnir eru komnir, skólastjórinn er kominn, en verkfallsverðir hindra það að skólastjórinn geti hleypt nemendum sínum inn í skóla sinn? Þetta er ekkert annað en lögbrot sem ekki á að líða. Hins vegar átta nemendurnir sig ekki á því, þegar stuðningur við þetta athæfi kemur úr hörðustu átt, sjálfu menntmrn. — eins og gerðist í síðustu viku, vafalaust fyrir mistök, en mjög alvarleg mistök. Þar var talið rétt að halda friðinn, eins og sagt var. En ég leyfi mér að segja og segi það áreiðanlega fyrir hönd margra: Við skulum halda lögin. Og sagt var fyrir mörg hundruð árum á Íslandi, með öðrum orðum þó, að það væri skilyrði þess, að friður héldist.

Í dag, nokkrum dögum eftir að ríkisstj, lýsti því yfir að starfsemi skyldi hefjast í framhaldsskólum landsins, gerist það, að nemendurnir eru enn sendir heim. Nokkuð óljósar upplýsingar eru um það, hvaða ástæður lágu hér að baki. Sums staðar er sagt að verkfallsvörður f.h. húsvarðar hafi meinað nemendum inngöngu. Ég efast ekki um að húsverðir þessara skóla séu allir hinir ágætustu menn. Og þeir telja trúlega samkv. upplýsingum sinna forustumanna í félögunum að rétt sé farið að. Þeim, húsvörðunum, er líka misbeitt í þessu sambandi.

Í öðrum skólum er sagt að kennararnir, sem ekki eru í BSRB, séu allt í einu komnir í samúðarverkfall. Ég veit ekki heldur hvaða reglur í þjóðfélaginu leyfa þetta athæfi og hvernig þeir hyggjast fullnægja þeirri skyldu sinni að uppfræða æskulýðinn með því að koma svona fram. Ég þykist vita að hér eigi hlut að máli menn úr ýmsum stjórnmálaflokkum, og ég veit það, að vafalaust líkar þeim illa að þm, í borginni skuli vera að agnúast út í þetta e.t.v. gagnvart einhverjum sínum flokkssystkinum. En mér þykir hitt mikilvægara, að það verður að vera ljóst, bæði í verkfalli, sem opinberir starfsmenn standa að, og í verkföllum þeim, sem aðrir aðilar vinnumarkaðarins standa að, að lögbrot séu ekki venjuhelguð og að ofbeldi sé ekki löghelgað.

Reynslan af þessu verkfalli, og reynslan af öðrum verkföllum, sem háð hafa verið á Íslandi og líka hafa sett í strand mestalla starfsemi í þjóðfélaginn, hefur sýnt að nauðsynlegt er að taka upp nýja hætti. Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. ríkisstj., að endurskoðuð verði löggjöfin um réttindi manna til verkfalla, hvar sem þeir vinna, hvort sem þeir vinna hjá ríkinu eða öðrum aðilum í þjóðfélaginu. Þessi löggjöf verði rækilega endurskoðuð í heild og samhengi, með það fyrir augum að stórfelldu tjóni, sem hvert mannsbarn sér að okkar viðkvæma efnahagslíf þolir ekki, slíku tjóni verði afstýrt. Ég veit að ég þarf ekki að tíunda hér einstök atriði í þessu sambandi. Það sér hver maður, að hér er t.d. um jafnaugljósa hluti að ræða og millilandaflug, tengsl Íslands við umheiminn, sem er einhver dýrasti þátturinn og mikilvægasti í rekstri okkar ríkis. Ég ætla ekki heldur að fara sérstaklega að tala um það þegar ríkið er að skipta sér af atvinnustarfsemi sem aðrir gætu annast og ríkinu er valdið tjóni vegna þess að sá rekstur stöðvast. Og þá þarf ekki heldur að telja upp viðkvæmar framleiðslugreinar þjóðarinnar, þar sem verðmæti eru sótt með ærinni fyrirhöfn og miklum tilkostnaði og menn verða að horfa á það aðgerðarlausir, að slík verðmæti, sem aflað er á okkar dýrustu atvinnutækjum, séu eyðilögð vegna verkfalls.

Ég ítreka það, herra forseti, að það er ósk mín og vafalaust fjölmargra annarra, að það að augu almennings hafa nú opnast enn betur fyrir því en áður, hvað það er sem raunverulega gerist í stórum verkföllum, það verði til þess að öll vinnulöggjöfin, löggjöfin um kjarasamninga opinberra starfsmanna og yfirleitt löggjöfin um þau atriði, sem stöðvað geta reksturinn í okkar þjóðfélagi, verði rækilega endurskoðuð í heild.