17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við það, sem ég sagði hér áðan, en sé mig þó til knúinn að fara hér nokkrum orðum um afstöðu hæstv. forsrh. og fjmrh. sem kom fram í ræðum þeirra áðan. Ég held að fleiri en ég hljóti að hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með orð hæstv. forsrh., því að afstaða hans var bersýnilega ekki sérlega vel til þess fallin að stuðla að lausn þessarar deilu. Hann virðist bíta sig enn fast í þá fullyrðingu sína, að samkv. lögum um verkfallsrétt opinberra starfsmanna sé óheimilt að semja um endurskoðunarrétt. Hann las hér upp 18. gr. laganna og það ætla ég líka að gera, með leyfi herra forseta, til þess að ljóst megi vera að í þessari grein er ekkert ákvæði þess efnis, að óheimilt sé að semja um þetta atriði. Hún er á þessa leið:

„Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna, er Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilum um aðalkjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum, sem sett eru í lögum þessum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Ég læt mér ekki detta í hug að hæstv. forsrh. haldi því fram, að hér sé skýrum orðum talað um þetta meinta bann á samningum aðila um þetta atriði. Hann heldur því hins vegar fram, að hér megi lesa á milli línanna, hér megi lesa eitthvað á milli línanna, sem ekki stendur þar. Ef ætlun löggjafans hefði verið að banna samninga af því tagi, þá hefði að sjálfsögðu þurft að vera um ótvírætt ákvæði að ræða — algerlega ótvírætt ákvæði. (Forsrh.: Vill hv. þm. lesa aths.?) Já, ég hef líka lesið aths., sem ég hef nú að vísu ekki hér fyrir framan mig. En ég sé ekki að hún feli það í sér, — það er alveg sjálfsagt að lesa hana líka, (Fjmrh.: Hvernig væri að lesa 18. gr.) Ég var að enda við að lesa hana. (Gripið fram í: Lesa hana aftur. Hér er gert ráð fyrir að BSRB sé heimilt að gera verkfall, þó eingöngu við gerð aðalkjarasamnings.) En í þessum orðum er ekkert sem felur það í sér, að aðilar geti ekki samið um að haga málum á þann veg, að hægt sé að gera verkfall, ef má segja að riftað sé samningum með gerðum ríkisvaldsins, Og ég vil vekja athygli á því, af því að menn eru að hengja sig í þessi orð grg. og reyna að finna þar eitthvað til að styðja þá skoðun sína, að þarna megi lesa eitthvað á milli línanna, að við skulum ekki orðlengja um þessa lagakróka út af fyrir sig. Ef hæstv. ríkisstj. er reiðubúin til að fallast á þetta, þá er henni að sjálfsögðu í lófa lagið að semja með fyrirvara um að ríkisstj. afli ótvíræðrar lagaheimildar um þetta umdeilda atriði. Auðvitað hengja menn sig ekki í lagakróka af þessu tagi nema vegna þess, að menn vilja endilega láta allt standa fast í þessu atriði. Ríkisstj. er auðvitað hægur leikurinn að afla heimildar sem tekur af skarið um þetta atriði, ef hún stendur fast á því að þetta megi skilja á fleiri en einn veg.

Ég vek á því athygli, að afstaða hæstv. fjmrh. var nokkuð á annan veg, a.m.k. það sem fram kom hjá honum áðan, vegna þess að í máli hans var raunverulega ekkert sem gekk í bága við það sem ég hafði sagt hér áður. Hann las upp úr Ásgarði, málgagni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hver hefði verið aðdragandi þessara samninga, og það er í sjálfu sér ekkert nýtt, það er flestum kunnugt hvernig þetta gekk til. Afstaða ríkisins lá fyrir. Ríkisvaldið var á þessum tíma ekki reiðubúið að ganga lengra en það, að endurskoðunarréttur væri heimill, ef um væri að ræða að hækkanir hefðu orðið á launum almennu verkalýðsfélaganna. Þá var ríkisstj. tilbúin til að samþykkja að gerðardómur kvæði upp lokadóm í málinu. Um þetta atriði varð ekkert samkomulag. Um þetta atriði er þess vegna ekkert sagt í lögunum til eða frá. Þetta var látið opið og það stendur enn opið. Það stendur enn opið fyrir samningsaðila að semja um þetta á annan veg. Ég lít svo á, að úr því að hæstv. fjmrh. hagaði orðum sínum á þennan veg hafi hann nokkurn vilja til þess að skoða þetta atriði betur. Hann las að vísu upp orðalag þess ákvæðis sem fólst í samningstilboði ríkisstj., ef um yrði að ræða breytingar á vísitöluákvæðum samninga eða aðrar mikilvægar breytingar, — ég hef þetta orðalag ekki fyrir framan mig, — en að þá væri ríkisstj. reiðubúin til þess að taka upp viðræður. Halda menn að opinberir starfsmenn geti sætt sig við það, að það sé algerlega á valdi gagnaðilans hvort þær viðræður leiða til nokkurrar jákvæðrar niðurstöðu?

Ég vil svo að lokum segja það eitt, að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. er auðvitað að allra dómi búin að kalla býsna mikinn vanda yfir þjóðina og hún verður að sýna nokkurn sveigjanleika í þessu máli. Þessi deila er bersýnilega komin á það stig, að hún verður ekki leyst, ef menn hengja sig fasta í ímyndaða lagakróka sem hvergi er að finna, en menn telja sig geta lesið einhvers staðar á milli línanna.