15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

317. mál, úrvinnsla áls á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þegar ríkisstj. á sínum tíma lagði fram frv. um staðfestingu á samningnum við Alusuisse um byggingu álversins fylgdi því máli allítarleg grg. Þar var einn kafli undir fyrirsögninni: „Áhrif til aukinnar iðnvæðingar: “Í þeim kafla segir:

„Bygging álbræðslu mun skapa mikilvæg ný tækifæri þar sem ál gæti orðið hér jafnódýrt eða ódýrara en í nágrannalöndunum. Þetta ætti ekki aðeins að skapa góða aðstöðu til samkeppni við innfluttar álvörur, heldur einnig betri aðstöðu til að byggja upp útflutningsiðnað en á flestum öðrum sambærilegum sviðum.“

Í samræmi við þessa skoðun þáv. ríkisstj. sá hún til þess, að í 37. gr, samningsins um álverksmiðjuna eru ákvæði, sem lúta að þessu. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Alusuisse og ÍSAL eru reiðubúin til að aðstoða íslenska iðnaðaraðila við þróun úrvinnslu áls á Íslandi með því að leggja fram tæknikunnáttu og aðstoð og með fjárhagslegri þátttöku í slíkum fyrirtækjum með þeim kjörum og skilmálum, sem ríkisstj. og Alusuisse kunna að verða ásátt um.“

Það leynir sér ekki hver hugur manna var á þessum tíma. Nú hefur mér skilist að erfitt hafi verið að framkvæma þetta vegna þess hvernig tollamálum var þá háttað, t.d. ef flytja átti út vöru, sem unnin væri úr hrááli hér á Íslandi, En tollamál hafa stöðugt þróast og orðið hagstæðari þannig að nú hygg ég að ekki geti verið um að ræða alvarlegar hindranir á því sviði, eða a.m.k. getum við eygt það að tollar ættu ekki að verða því til fyrirstöðu að við getum framleitt útflutningsvörur úr hráefninu þar sem álið er hér á landi. Í tilefni af þessu hef ég leyft mér að flytja fsp. til hæstv. iðnrh. Hún er í tveim liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hefur verið rannsakað, hvort grundvöllur er fyrir stofnun og rekstur íslenskra iðnfyrirtækja til úrvinnslu áls, sem framleitt er í landinu?

2. Ef svo er, hver er niðurstaðan?“

Þar sem í álsamningnum er talað um þann möguleika, að Svisslendingar taki fjárhagslega þátt í slíkum fyrirtækjum, lagði ég í lestri áherslu á orðið íslenskra iðnfyrirtækja, því að ég tel að það eigi fullkomlega að vera innan þess, sem við getum ráðið við, og ætti að vera algerlega í okkar höndum, ef tæknilegir og viðskiptalegir möguleikar eru á að við getum keypt ál fljótandi úr verksmiðjunni við Straumsvík og framleitt úr því eitthvað af þeim gífurlega fjölda vörutegunda sem gerðar eru úr áli.