16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

28. mál, útvarpslög

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég hef enn á ný lagt fram á Alþ. frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 19 frá 1971. Meginefni frv. felur í sér að einkaleyfi ríkisins á útsendingum til viðtöku almennings á tali, tónum, myndum og öðru efni, hvort sem er þráðlaust, með þræði eða á annan hátt, verði afnumið. Jafnframt verði ráðh. heimilað að veita öðrum leyfi til útvarpsrekstrar, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, er ráðh. setur í reglugerð. Tilgangur frv. er að tryggja að eitt af grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar, tjáningarfrelsið sé virt með þeim hætti að mönnum sé veitt frelsi til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri með þeirri fjölmiðlunartækni sem fyrir hendi er. Óeðlilegt er, miðað við nýja þróun í tækni og rekstri hljóðvarps og sjónvarps, að binda þetta rekstrarform við ríkiseinokun sem stjórnað er af fáum útvöldum stjórnmálamönnum og embættismönnum. Þess háttar einokun stríðir á móti grundvallaratriðum lýðræðislegrar stjórnskipunar og stenst ekki við nútímaaðstæður.

Almenningur krefst meira frelsis á öllum sviðum, og þarfir nútíma þjóðfélags krefjast meiri fjölbreytni í útbreiðslu þess efnis sem hljóðvarp og sjónvarp hafa að bjóða. Tilkostnaður og tækni eru ekki lengur hindrun í framkvæmd. þessara mála. Á ótrúlega einfaldan og ódýran hátt er unnt að setja á stofn og reka útvarpsstöð. Flestallar lýðræðisþjóðir viðurkenna þessar staðreyndir í raun. Stjórnvöld heimila ýmsum aðilum, einstaklingum og stofnunum, að starfrækja sjálfstæðar útvarps- og sjónvarpsstöðvar við hlið hinna ríkisreknu. Sem dæmi má nefna að á Bretlandi er starfræktur mikill fjöldi sjálfstæðra útvarps- og sjónvarpsstöðva, sem ná til ákveðinna svæða. Það er álit kunnugra að hin mikla breidd, sem ríkir á þessu sviði á Bretlandi, styrki mjög lýðræðislega stjórnarhætti jafnframt því sem stöðvarnar veiti ómetanlega þjónustu við almenning. Þá má ekki gleyma hinum miklu möguleikum sem skapast á sviði kennslu og menningarmála við fjölgun hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva. Geta má þess, að í Bandaríkjunum hefur frelsi ríkt í þessum efnum í áratugi með góðum árangri.

Á s.l. vori urðu þau tíðindi í hinu „hálfsósíalíseraða“ landi Svíþjóð, að stjórnarnefnd mælti með því í álitsgerð um breytta starfshætti hljóðvarps og sjónvarps, að ákveðið frelsi væri gefið einstaklingum og öðrum aðilum til að hefja slíkan rekstur sem hér um ræðir. Meðal þeirra atriða, sem nefndin leggur til í álitsgerð, eru: Í fyrsta lagi, að sendingar sænska útvarpsins og sjónvarpsins, þ.e.a.s. hins ríkisrekna, verði lengdar. Í öðru lagi, að skipulagi sjónvarpsins verði breytt þannig, að útsendingar verði frá fleiri stöðvum en nú. er. Álitsgerð sænsku stjórnarnefndarinnar og svo umræðan, sem er orðin í Svíþjóð um þessi mál, bera þess greinilegan vott að Svíar eru orðnir þreyttir á ríkisfjölmiðlunum einum á þessu sviði tjáningarforms. Róttækar hugmyndir eru á lofti sem fela í sér gjörbyltingu þessara mála í Svíþjóð, ef að veruleika verða. Eins og nú háttar eru starfræktar tvær ríkisreknar sjónvarpsrásir í Svíþjóð, þ.e. TV1 og TV2, sem senda að mestu út frá Stokkhólmi um allt land. Till. er um að í staðinn komi ein TV rás, sem sendi um allt land, og níu TV rásir, sem sendi um ákveðna landshluta. Þá er rætt um það þar í landi og kemur fram í hugmyndum nefndarinnar að hugsanlegt sé að stofnsettar verði 200 sjálfstæðar svæðisbundnar útvarpsstöðvar. Sænska ríkisútvarpið á að sjálfsögðu að starfa eftir sem áður og er lagt til að útsendingarstundum þess verði fjölgað úr 360 í 400 á viku og dagskrám eða útsendingarrásum verði fjölgað úr 3 í 4.

Allar till. sænsku stjórnarnefndarinnar hníga í átt til aukins frelsis í rekstri útvarpsfjölmiðla. Till. hafa, eins og áður var sagt, hlotið góðar undirtektir hjá almenningi í Svíþjóð, enda er þjóðin orðin lagþreytt á ofríki sænsku sósíalistanna í stjórnkerfi þjóðarinnar, sem best mátti sjá af því, að fyrir sænsku þingkosningarnar haustið 1976 skrifaði hinn þekkti sænski rithöfundur Astrid Lindgren grein í blaðið Expressen, sem fól í sér harða ádeilu á drottnunarvald sænsku sósíalistanna í sænsku þjóðlífi. Hún sagði m.a. í grein sinni að nú væri svo komið fyrir Svíum að hún saknaði orðsins frelsi. Astrid Lindgren hafði áður fyllt flokk sænskra jafnaðarmanna, en viðurkenndi að þróun hans og valdakerfi var orðið hættulegt.

Allir muna ósigra sænskra jafnaðarmanna í þingkosningunum 1976, þannig að ekki þarf að fjölyrða um það. En það, að mér skuli verða svo tíðrætt um þessi mál í Svíþjóð stafar m.a. af því, að hér á Íslandi er rík tilhneiging til þess að líta alltaf upp til Skandínava um flest það sem til bóta mætti horfa í þjóðlífi okkar. Menn verða náttúrlega að taka mið af því sem gott er og þess vegna tók ég þessi dæmi. Í sjálfu sér hefði verið fróðlegt að þýða grein þessarar merku sænsku skáldkonu og lesa fyrir þingheim hvað hún segir um það, hvernig hægt er að fara með frelsið og stöðu einstaklingsins þar sem valdakerfið er allt meira eða minna í höndum eins flokks, eins og átti sér stað og hefur átt sér stað í Svíþjóð í áratugi.

Við Íslendingar búum við hálfrar aldar gamalt skipulagsform í rekstri útvarps. Segja má, að fyrir fámenna þjóð með takmörkuð fjárráð á sínum tíma hafi verið eðlilegt að ríkið annaðist rekstur útvarpsins. Er óhætt að segja að Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp, hafi gegnt hlutverki sínu af mikilli prýði og þar hafa margir góðir starfsmenn verið. En nú eru bara tímarnir breyttir. Fólk krefst meira frelsis á þessu sviði, á sambærilegan hátt og á sér stað í útgáfu dagblaða, vikurita o.s.frv. Af hálfu einstaklinga og alls konar hagsmunahópa eru gerðar stöðugt meiri kröfur um óheft tjáningarfrelsi. Nægir í því sambandi að vísa t.d. til stúdenta og hliðstæðra hópa, sem vilja láta mikið að sér kveða. Er allt gott um það að segja. En jafnframt er vert að vekja athygli á því, að núverandi form ríkiseinokunar hljóðvarps og sjónvarps takmarkar mjög aðgang alls almennings að rekstri og afskiptum þessarar tegundar fjölmiðla. Því fer víðs fjarri að þeir fullnægi í núverandi formi þörf fólksins fyrir aukið tjáningarfrelsi og fjölbreytni í efnisvali. Til að leggja frekari áherslu á þessa skoðun vil ég vísa til ummæla eins núverandi útvarpsráðsmanns, sem fram komu í dagblaði einu hér í Reykjavík í ágúst s.l., þar sem útvarpsmaðurinn sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil aftur á móti benda á þá hættu að sjónvarpið, einkum hvað dagskrárgerð snertir, er að detta í allfastmótaðar skorður, er býður heim mikilli hættu á stöðnun. Mikilvægur fjölmiðill eins og sjónvarpið er þarf að vera í stöðugri þróun og taka breytingum í takt við þjóðfélagsbreytingar“.

Þetta eru vissulega orð að sönnu. En besta ráðið til að afstýra stöðnun og vera í takt við tímann er að gefa rekstur hljóðvarps og sjónvarps frjálsan, gefa fleirum möguleika til að reyna sig í þessum efnum. Íslendingar eru mikið hæfileikafólk á sviði tjáningar, bókmenntir okkar og listir bera þess órækan vott. Tjáning í hljóðvarpi og sjónvarpi er fjölbreytileg og getur verið og er list í höndum hæfra manna, um það er ekki deilt.

Ég hef orðið var við sérstakan áhuga hjá ungu fólki á þessu máli. Sem dæmi get ég nefnt, að á miðvikudaginn í síðustu viku komu á minn fund tveir ungir menn sem tjáðu mér að þeir væru áhugamenn í félagsskap ungs fólks hér í Reykjavík á aldrinum 17–20 ára, sem hefði áhuga á því að reka sjálfstæðar litlar hljóðvarpsstöðvar, og það efni, sem þetta unga fólk hafði áhuga á, var sérstaklega tengt æðri tónlist. Fyrir þá, sem eru mikið fyrir allt slíkt, hlýtur það að teljast framlag til listar þegar ungt fólk sýnir slíkan áhuga og vilja til þátttöku. Á mánudaginn, þegar ég kom hingað í Alþ., afhentu þessir ungu menn mér lista með rúmlega 600 nöfnum ungs fólks á þessum aldri sem höfðu skrifað undir áskorun til hæstv. Alþ. um að samþykkja þetta frv. sem ég er að kynna hér. Ég vil segja það, að virðingarvert er þegar ungt fólk, sem vinnur af slíkum áhuga að máli þessu, gjörsamlega ótengt flokkum eða sérhagsmunum, leggur það á sig að leggja á ráðin, vil ég segja, og mæla með því, sem til framfara horfir og hlýtur að koma hérlendis sem annars staðar.

Ég leyfi mér að fullyrða, að öll skilyrði séu fyrir hendi hérlendis til að framkvæma þann frjálsa rekstur í sambandi við útvarp og sjónvarp sem frv., sem ég mæli hér fyrir, gerir ráð fyrir, verði það að lögum. Það er ástæðulaust að skýra einstakar lagagreinar, þær skýra sig sjálfar, en ég vanti þess, að hv. Alþ. samþ. frv., og legg til, að að umr. lokinni verði því vísað til menntmn.