21.11.1977
Neðri deild: 16. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

69. mál, söluskattur

Flm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt, nr. 10 frá 1960, á þskj. 79. Á síðasta þingi flutti ég frv. eins og þetta og það fékk afar litla meðferð og enga fullnaðarafgreiðslu. Þess vegna geri ég nú enn tilraun til að koma á þessum breytingum á þessu þingi, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, hversu margir og stórir aðilar í þjóðfélaginu hafa einmitt tekið undir þessa kröfu, að söluskattur verði felldur niður af kjöti og kjötvörum og söluskattur verði felldur niður af raforku.

Sú breyting, sem felst í þessu frv., er við 6. gr, laganna, 15. tölul. Í þeirri grein eru taldar upp þær vörur og sú þjónusta sem er undanþegin söluskatti, og vil ég bæta við þá upptalningu kjöti og kjötvörum annars vegar, en hins vegar raforkusölu frá rafmagnsveitum. Kjöt til neyslu innanlands er greitt niður úr ríkissjóði, en sú upphæð, sem til þess fer, er aftur tekin í ríkissjóð með álagningu söluskatts á þessar vörur. Þannig má segja að ríkið greiði í raun lítið sem ekkert af sinni hálfu til niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum til þess að gera algengustu matvörur landsmanna ódýrari. Það er hins vegar sannað mál, að lækkun á þessari matvöru gerir það að verkum að neyslan eykst, auk þess sem lækkun af þessu tagi bætir fyrst og fremst kjör þeirra sem nota mestan hluta tekna sinna til kaupa á brýnustu nauðsynjum. Lækkun kjötverðs kemur þeim lægst launuðu best og manni hefur heyrst að það væri það sem flestir segjast styðja.

Ég vil enn undirstrika að með þessari flötu skattheimtu af kjöti er hreinlega ekki um neina raunverulega niðurgreiðslu að ræða af ríkisins hálfu. Niðurgreiðslur eru hins vegar nauðsynlegar, ekki aðeins af áður nefndum ástæðum, heldur einnig vegna þess að þeim mun meiri sem innanlandsneyslan er, þeim mun minna fjármagn þarf að koma til til þess að greiða niður kjötið fyrir útlendinga. Það kjöt, sem flutt er út á ári hverju, er orðið býsna mikill hluti af kjötframleiðslu þjóðarinnar, og þær útflutningsbætur eru að mínum dómi afar röng aðferð til þess að greiða með landbúnaðarafurðir.

Nú hafa forsvarsmenn landbúnaðarins, m.a. síðasta Búnaðarþing, lagt áherslu á að söluskattur af þessum vörum verði lagður niður, svo að bak við þennan tillöguflutning minn standa þar með æðimargir.

Þegar um það er að ræða að fella niður söluskatt af rafmagni, þá mætti auðvitað nefna ýmislegt því til stuðnings. Niðurfelling á þeirri skattheimtu felur m.a. í sér að það dregur auðvitað úr verðbólgu að leggja niður slíka skatta, og það léttir undir með þeim sem minnst hafa milli handa. Það léttir gjöldum af framleiðsluiðnaði landsmanna sem flestir þykjast nú styðja í orði a.m.k. Auk þess styður það kröfu sambandsins ísl. rafveitna og margra fleiri aðila um nauðsyn þess að afnema þennan skatt, og þess vegna má enn segja að flm. þessarar till. er ekki ber að baki gagnvart þessu máli. Það eru margir sem standa þar á bak við.

Herra forseti. Þetta mál er að sjálfsögðu ekki mjög stórt, en það stefnir þó að mínum dómi í rétta átt. Hins vegar er fyrir löngu kominn tími til að ræða af viti um verðbólgupláguna og efnahagsöngþveitið í þessu þjóðfélagi. Það mál er hins vegar því miður enn ekki til alvarlegrar umr, Tími þessarar hv. d. hefur farið í allt aðra hluti og að mínum dómi oft miklu lítilvægari enn sem komið er og menn allt of litið fjallað um það vandamál sem er raunverulega eina vandamálið sem við þarf að eiga í þjóðfélaginu í dag. Það er sem sagt ekki til umr. í dag. En þetta er örlitill angi af því vandamáli, og það væri sannarlega kominn tími til að fara að ræða efnahagsmálin meira almennt, eins og ég nefndi áðan. En til þess að ná árangri í þeim alvarlegu efnum þurfa stjórnvöld a.m.k. að hafa vilja til að ráða þeim þáttum efnahagslífsins sem nauðsynlegt er að hafa stýringu á, ef eitthvað á að gerast í að verðbólgan verði skorin niður í hæfilegt mark og upp verði tekin skynsamleg stefna í efnahagsmálum í stað eyðslulánabúskapar og búskapar taumlausrar verðbólgufjárfestingar og óhóflegrar þenslu á öllum sviðum. En nóg um það. Þetta er hins vegar annað mál.

Ég vil óska þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr, og fjhn. hv. deildar.