21.11.1977
Neðri deild: 16. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

69. mál, söluskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa stuðningi mínum við hugmynd þá sem hér kemur fram í þessu frv., þ.e.a.s. um afnám söluskatts á kjöti og kjötvörum. Það hefur komið fram margsinnis, að það er eindregin ósk bændasamtakanna að þetta verði gert, og þess vegna er það nauðsynjamál að þessu máli sé hreyft. Ég hefði frekar kosið að sjá þessa hugmynd í stjórnarfrv., en allt um það kann þetta að vera undanfari þess og væri þá vel.

Landbúnaður á við erfiðleika að etja, ekki óyfirstíganlega erfiðleika, ég hef ekki trú á því, en erfiðleika sem þarf að takast á við og þarf að sigrast á. Það þarf að gera það með góðvilja og skynsemi. Sjálfkjörnir sérfræðingar í landbúnaðarmál, m.a. vegna yfirstandandi prófkjörs hjá sjálfstæðismönnum hér í Reykjavík, og satt að segja finnst mér að í þeim umr., sem þeir hafa haft sín á milli, og í þeim skoðunum, sem þeir hafa látið í ljós, sé sannarlega ekki von á farsælli lausn á þeim vanda sem við er að glíma, því að sumt er þar sagt af vanþekkingu og sumt af takmarkaðri góðgirni. En það sér náttúrlega hver maður, að það er að fara aftan að síðunum að innheimta söluskatt af kjöti og verja honum síðan til niðurgreiðslu á sömu vöru. Í sumum tilfellum, t.d. eins og á nautakjöti, er þessi upphæð, sem innheimt er í söluskatt, hærri en niðurgreiðsluupphæðin. Þetta niðurgreiðslukerfi og útflutningsbótakerfi, sem notað hefur verið sem hagstjórnartæki hér á landi, er nauðsynlegt og sett á með fullum rökum, en það er ástæðulaust að vera að hafa það víðfeðmara eða stærra í sniðum heldur en nauðsyn ber til. Það hefur verið bent á það, að vegna vinnslu og breytinga, sem kjötvörurnar taka í búðum, séu tormerki á því að hafa þær söluskattslausar, En ég hygg að það hljóti að vera hægt að komast fram hjá þeim vandkvæðum, þeim agnúum sem væru á framkvæmd þess að undanþiggja þessar vörur söluskatti, og nauðsynlegt að gera það. Landbúnaðurinn stendur frammi fyrir því núna að nokkurt magn hefur safnast upp af vörum sem ekki hefur tekist að selja, og þess vegna er mikilvægt að örva söluna og hafa þessar vörur á skaplegu verði, þannig að fólkið í landinu, neytendur, geti keypt þær. Þess vegna fagna ég þessari hugmynd um að afnema söluskattinn af kjöti og kjötvörum.