22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess, eins og síðustu tveir ræðumenn, að láta í ljós furðu mína yfir þeim svörum sem hæstv. fjmrh, veitir við fsp. sem hér eru til umræðu.

Þegar maður kemur að Grundartanga núna, þá er orðin mikil breyting á frá því sem var fyrir tveim árum, m.a. rammger girðing komin um svæðið og á skilti stendur þar: „Óviðkomandi bannaður aðgangur:` Og þarna standa verðir og gæta svæðisins nótt og dag. Þegar spurt er hér í Alþingi um aðeins eitt atriði varðandi rekstur þessarar verksmiðju, þ.e.a.s. laun forstjóra Járnblendifélagsins, þá er sett upp skiltið: „Óviðkomandi bannaður aðgangur.“ Og ástæðan til þess, að ekki er hægt að veita svör við þessari spurningu, er sú, að þarna er um hlutafélag að ræða, sem ríkið á að vísu meiri hl. í, en sá meiri hl. dugar ekki!

Ljóst er að ekkert er til sparað á þessu svæði. Það vantar sannarlega ekki neitt þarna. Má segja að Grundartanginn hafi algeran forgang hjá þessari ríkisstj. Það var sagt einhvern tíma um daginn, að vegamál ættu að hafa algjöran forgang. Þau hafa að því leyti algjöran forgang, að það stendur ekkert á að leggja vegi fyrir járnblendiverksmiðjuna. Og nú spyr ég: Ef maður hefur rökstuddan grun um að þarna sé um að ræða sukk, þarna sé um að ræða óstjórn og sóun á fjármunum, getur þá nokkur ráðh. svarað ef maður legði fram fsp. um það? Gilda ekki sömu rök varðandi slíkt, að alþm. geti engin svör fengið varðandi framkvæmdir á Grundartanga, fjárhagshliðar eða annað? Ef þessi rök gilda um laun forstjórans, gilda þau þá ekki um framkvæmdina alla, m.ö.o.: „Óviðkomandi bannaður aðgangur.“