23.11.1977
Efri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

89. mál, gleraugnafræðingar og sjónfræðingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er lagt fram, var lagt fram á næstsíðasta þingi, en varð þá ekki útrætt og á því hefur verið gerð smávægileg breyting.

Engin löggjöf hefur verið hér á landi um það efni, sem þetta frv. fjallar um, og því þótti tímabært að setja lög um réttindi og skyldur þeirra, sem framleiða og selja sjónhjálpartæki, og reyna með því mótt að stuðla að því, að þeir, sem slíkra tækja þurfa með, fái hverju sinni sem besta þjónustu.

Við gerð þessa frv. hefur verið annars vegar haft til hliðsjónar það sem tíðkast á Norðurlöndum, hins vegar hefur verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem komið hafa frá þeim aðilum sem málið var á sínum tíma sent til umsagnar, en það eru m.a. Félag gleraugnaverslana á Íslandi, Optikarafélag Íslands og ráðunautar þess, Páll S. Pálsson hrl., Ólafur Ólafsson landlæknir og Guðmundur Björnsson yfirlæknir augndeildar Landakotsspítala og nú síðast fyrir framlagningu þessa frv. starfshópur íslenskra gleraugnafræðinga. Yfirleitt hafa umsagnir þessara aðila verið á þann veg, að rétt væri og nauðsynlegt að setja lög um þessi efni, en að sjálfsögðu hefur menn nokkuð greint á um, hvernig slík lög ættu að vera.

Hingað til hefur ekkert í íslenskri löggjöf hindrað það að gleraugnafræðingar gætu afgreitt gleraugu eftir eigin mælingu. Hins vegar hefur yfirleitt sú hefð skapast, að þeir gerðu það ekki og afgreiddu gleraugu eftir mælingum læknis. Í álitsgerð sinni bendir Guðmundur Björnsson augnlæknir á kosti þess, að læknar einir geri sjónmælingu og gefi út ávísun á gleraugu, og mælir á móti því að frá þessari hefð verði vikið. Í frv. er hins vegar valin sú leið að gera greinarmun á gleraugnafræðingum og sjónfræðingum og gefa sjónfræðingum heimild til að framleiða og selja sjónhjálpartæki eftir eigin sjónmælingu á sjúklingi með ákveðnum takmörkunum sem raktar eru í 5. gr. frv. Vafalaust er að þessi ákvæði frv. eru líklegust til að valda deilum, og vænti ég þess, að þau verði rædd ítarlega þegar frv. verður tekið til athugunar í nefnd. Hins vegar vil ég benda á að það eru langir biðlistar hjá augnlæknum landsins og því er rétt að nota þjónustu þessara manna, sem hafa lært til þess, í stað þess að biða mánuðum saman eftir að komast að hjá augnlæknum, og það verða þeir góðu menn einnig að skilja.

Um einstakar greinar þessa frv. er annars það að segja, að í 1. gr. þess er gert ráð fyrir því, að til þess að mega kalla sig gleraugnafræðing eða sjónfræðing og starfa sem slíkur þurfi leyfi heilbrrh. Hér eru tekin upp orðin gleraugnafræðingur fyrir orðið optiker og sjónfræðingur fyrir orðið optometrist.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því, að þeim einum megi veita leyfi sem aflað hefur sér menntunar sem er viðurkennd af íslenskum yfirvöldum, og gegnir þar sama máli um gleraugnafræðinga og sjónfræðinga.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir því, eins og venja er þegar lög eru sett um ákveðnar starfsstéttir, að tekið sé sérstakt tillit til starfsreynslu þeirra sem að þessu starfa þegar lögin eru sett. Er hér gert ráð fyrir því, að heimilt sé að veita manni, sem hefur a.m.k. þriggja ára starfsreynslu að baki og stenst hæfnispróf og fjögurra ára starfsreynslu eða fær meðmæli landlæknis, heimild til þess að kalla sig gleraugnafræðing og starfa sem slíkur. Hins vegar er ekki slík heimild fyrir hendi í sambandi við sjónfræðinga.

Í 4. gr. eru ákvæði um það, að framleiðsla og sala sjónhjálpartækja, og er þar bæði átt við gleraugu og snertilinsur, séu óheimil öðrum en þeim, sem hafa starfsréttindi samkvæmt þessum lögum, eða þeim, sem hafa í þjónustu sinni gleraugnafræðing eða sjónfræðing með full réttindi. Þetta ákvæði er sjálfsagt til að fyrirbyggja að sala og meðferð gleraugna og snertilinsna sé í höndum annarra en þeirra sem fulla menntun hafa til að framleiða þau.

Í 5. gr. er ákvæði þess efnis, að framleiðsla og sala sjónhjálpartækja sé einungis heimil gleraugnafræðingum eftir fyrirsögn augnlækna, en hins vegar megi sjónfræðingur, auk þess sem þeir geti framleitt og selt sjónhjálpartæki eftir fyrirsögn augnlæknis, selja slík tæki eftir eigin s,jónmælingu með takmörkunum sem taldar eru upp í 8 liðum í þessari grein. Þessar takmarkanir ætla ég ekki að ræða nánar, en hér hefur verið reynt að fylgja þeim reglum sem gilda á Norðurlöndum í dag.

Um lokagrein frv. get ég verið fáorður. Gert er ráð fyrir því, að eftir því sem við getur átt gildi ákvæði læknalaga um þessa starfsemi heilbrigðisþjónustunnar eins og aðrar og sömu viðurlög gildi um brot í starfi.

Eins og ég sagði í upphafi er hér um nýmæli að ræða í lagasmið. Hins vegar er hér um að ræða málefni sem tímabært er orðið að setja löggjöf um, og ég vænti því þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu hér í hv. þd., og legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn.