18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil út af fyrir sig fagna því að þessi fsp. hefur komið hér fram. Ég hygg að hún geti ekki orðið til annars en að minna á og ýta á eftir mikilvægu nauðsynjamáli, eins og talað hefur verið um í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Mér finnst þó að ég þurfi að leggja áherslu á, af því að það kom fram í fyrra þegar þetta mál var lagt fyrir Alþ., að það var jafnvel fundið að því við Alþ. að viðtökurnar hefðu almennt ekki orðið nógu eindrægar og afdráttarlausar með því að afgreiða málið, að sannleikurinn er auðvitað sá, að okkur öllum alþm. er fyllilega ljóst að þarna er eitt af þessu stóru, viðkvæmu nauðsynjamálum sem öll okkar vildum ekkert frekar en geta lagt okkar lið.

En á hitt ber að minna einnig, að málið bar að með nokkuð óvenjulegum hætti. Það var borið upp utan fjárlaga, og það er, þegar um svo stórar fjárhæðir er að ræða, heldur óvenjulegt. Það lá einnig fyrir að könnun borgaryfirvalda á umfangi verkefnisins lá alls ekki fyrir, þannig að á ýmsan hátt virtist þessi þáltill. borin fram með ótímabærum hætti. Ég get ekki heldur komist hjá því að nefna það, að sum okkar og ég hygg mörg hafi haft í huga, þegar talað var um þessi mál, að 4 flm., sem stóðu að því, voru allir fyrrv. ráðh, og áttu allir sameiginlegt að hafa dvalist á Grensásdeildinni. Manni fannst, og kunni varla við þann hugsunarhátt, að þess vegna ætti þetta mál að fá forgang fram yfir önnur mál. Ég veit að þetta hefur ekki verið ætlun flm., ég tek það fram, heldur leit þetta þannig út í augum almennings.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það eru mörg nauðsynjamál sem biða okkar alþm.afgr., og þó að sagt sé hér í ræðustóli með nokkrum þunga, að við eigum stundum að hugsa fremur með hjartanu heldur en kerfinu, þá eru þetta orð sem duga okkur þegar á hólminn kemur harla lítið. Það dugir líka harla lítið að vitna til Svía og annarra stórríkra þjóða í þessu tilliti. Við erum 218 þús. sálir sem þurfum að standa undir okkar margþætta velferðarríki. þannig að það er ekki furða þó að ýmislegt gangi hægar hjá okkur heldur en hinum ríku nágrönnum okkar.

En ég vil taka undir það, að ég fagna því að þetta mál hefur komið hér fram. Ég óska þess, vegna þeirra fjölmörgu sem þurfa á aðstöðu þessari við Grensásdeildina að halda, að það komist í höfn. Hins vegar er auðvitað alrangt að segja að þarna hafi einróma vilji Alþ. legið fyrir. Forsrh. hefur skýrt það og það þarf ekki að skýra það fyrir okkur alþm., að viljayfirlýsing fjvn. þýðir ekki það sama og fullnaðarafgreiðsla alls Alþingis. (Gripið fram í.) Þáltill. sem slík kom alls ekki til atkvgr., það vitum við öll. (Gripið fram í.) Ja, ég skal ekki orðlengja þetta lengur, ég hef talað minn tíma og lengur, en ég vil að hið rétta komi fram í málinu og að meðferð Alþ. á þessu máli hefur með öllum hætti verið í fyllsta máta eðlileg og í samræmi við mikilvægi málsins. Það kom fram í afstöðu fjvn. Og ég vona, eins og hér hefur komið fram, að þessi framkvæmd sé með í hinum hartnær 1500 milljónum sem eru veittar á fjárl. til sjúkrahúsbygginga.