28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

Varamaður tekur þingsæti

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið, sem mér þykir þó vera þannig að það segi ekki alla sögu.

Hæstv. forsrh. sagði í svari sínu, að þetta mál hefði ekki verið til umr. í ríkisstj. Það svarar vitanlega ekki spurningu minni að fullu og öllu. Hann sagði líka, að það hefði engin beiðni komið fram frá hálfu Bandaríkjanna. Það svarar málinu ekki heldur að fullu að mínum dómi. Spurningin er sú, hvort sú hugmynd, sem þarna kemur fram, hefur verið hér á ferðinni einhvers staðar eða hvort það er þannig, að hún hafi fæðst hjá hæstv. forsrh. sjálfum í sambandi við þessa ræðusmið, hann finnur það út, að ef til mála kæmi að gera hernaðarflugvöll á Austurlandi, þá sem sagt gæti margt litið öðruvísi út.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði að í rauninni gæti hann ekki svarað því, hvort hann teldi að þetta kæmi til mála eða ekki, fyrr en fram hefði farið mat á varnarþörfum okkar. Og hann undirstrikaði, að hann teldi að slíkt mat þyrfti alltaf að fara fram með vissu millibili. Ég tel að það ætti ekki að vera nokkur minnsti vafi á því, að hæstv. forsrh. hafi gert sér talsverða grein fyrir því, hvernig varnarmál landsins standa og hvort um það gætt verið að ræða að það þyrfti að fara út í einhverjar nýjar framkvæmdir af þeirri tegund, sem hann gerði þarna að umtalsefni, eða ekki, því þarna er ekki um neinar smáræðisframkvæmdir að gera.

Við erum orðin vön því, að fréttir af meiri háttar málum, ekki síst varðandi þau mál sem hér er verið að ræða um, hin svonefndu varnarmál, — slíkar fréttir berist til okkar á skotspónum, oftast nær erlendis frá eða eftir krókaleiðum. Jafnan hefur það orðið svo, að þegar slíkar fréttir berast er þeim afneitað í fyrstu eða menn vilja ekki kannast við þær a.m.k. í þeim búningi, sem fréttirnar koma fram í upphafi. En því miður hefur farið svo, að æðioft hafa fyrstu fréttir um mál af þessu tagi reynst byggðar á meiri vitneskju en þeirri sem við höfum búið yfir hér heima.

Ég verð að segja það, að mér fannst að hugmynd af því tagi sem var sett fram í ræðu sjálfs forsrh., um hugsanlegar hernaðarframkvæmdir í sambandi við flugvallargerð í nafngreindum landshluta, gætt ekki komið fram án þess að þetta hefði verið rætt af ábyrgum aðilum eða þá að hæstv. forsrh. sjálfur hefði einhverjar meiningar í málinu. En eins og málið liggur fyrir hafa ekki fengist neinar frekari skýringar á þessu, annað en það, að forsrh. segir að það þurfi að fara fram mat á þessu og þá komi að sjálfsögðu til athugunar að gera það upp, hvort hér sé nauðsyn á frekari framkvæmdum í þessa átt eða ekki.

Ég endurtek það sem ég sagði hér áður, að ég tel að Alþ. eigi kröfurétt á því að fá upplýsingar um mál eins og þetta, um það hvort til umr. eru á einhverju stigi málsins hugmyndir um að koma upp fleiri hernaðarflugvöllum í landinu og í sambandi við það við kannske meir í háttar vegagerð á milli slíkra stöðva. Ég vil vara hæstv. forsrh. við því að gera nokkra minnstu tilraun til þess að leyna þjóðina slíku. Slíkt er vitanlega ekki sæmandi. Ef hugmyndir um þessi efni hafa komið fram, þá er rétt að þjóðin fái að vita um slíkar hugmyndir og mynda sér síðan skoðun á því, hvernig við á bregðast. Það er engin ástæða til þess að halda umræðum um slíkar hugmyndir leyndum.

Hæstv. forsrh. hefur sagt að hér sé um hans hugrenningar að ræða. Hann er með þessar hugmyndir og leggur þær fram, vill að það fari fram nýtt mat á varnarmálunum, og eftir að slíkt mat hefur farið fram, þá sé hann tilbúinn að svara til um það, hvort hann aðhyllist framkvæmd á hugmynd af þessu tagi eða ekki. En það virðist a.m.k. vera svo, að málið sé ekki orðið það þróað enn þá að þarna sé um formlega beiðni af hálfu Bandaríkjamanna að ræða. Hins vegar hefur ekkert verið sagt afgerandi um það, hvaða hugmyndir þeir kunna að vera með.