28.11.1977
Neðri deild: 20. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

94. mál, læknalög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um það, að við 3. gr. læknalaga komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Ráðh. getur einnig veitt mönnum takmarkað lækningaleyfi, ef þeir hafa til þess næga þekkingu að dómi landlæknis og hann mælir með leyfisveitingunni.“

Á árinu 1973 voru endurskoðuð læknalög og samkv. því, sem þáv. heilbr.- og trmrh. sagði í sinni framsögu, gátu samkv. þágildandi lögum þeir einir fengið lækningaleyfi hér á landi sem voru íslenskir ríkisborgarar. Þótti nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði, fella það niður, því að ákvæðið hafði sætt vaxandi gagnrýni, enda höfðu samsvarandi ákvæði verið felld úr lögum á hinum Norðurlöndunum.

Enn fremur voru gerðar nokkrar breytingar á læknalögum við þessa endurskoðun. Það þótti rétt að færa nokkur atriði þessara laga í nútímalegra horf, eins og sagði í grg. með frv., og þess vegna voru nokkrar mgr. umskrifaðar, enda voru þessi lög að stofni til frá 1932. Hins vegar féll niður það, sem var í gildandi lögum frá 1969, þetta ákvæði um að ráðh. geti veitt mönnum takmarkað lækningaleyfi að fengnum tilmælum landlæknis.

Nú hefur landlæknir bent á að umrætt ákvæði hafi fallið burtu og hann hafi ekki gert ráð fyrir þessu afnámi í till. sínum frá 1973, enda telji hann að ákvæði þetta þurfi að verða áfram í lögum. Þess vegna er lagt til í þessu frv. að þetta ákvæði verði aftur lögfest og það alveg eins frá orði til orðs og var í lögunum frá 1969. Því er ekki að neita, að þetta hefur ekki haft nein áhrif fyrr en nú, að umsögn hefur borist heilbrigðisyfirvöldum um takmarkað lækningaleyfi eða starfsleyfi fyrir nýja grein, og það er starfsleyfi fyrir kíropraktor sem hefur lokið námi, sem er um það bil 5 ára nám, og hefur sótt um takmarkað lækningaleyfi. Samkv. læknalögum, eins og þau eru nú, er heilbrigðisstjórninni ekki leyfilegt að veita nein slík leyfi, og því er lagt til að þetta ákvæði verði aftur tekið upp. Og það gildir auðvitað um aðra nýmenntun, sem hefur ekki öðlast starfsheiti eða starfssvið, að slíkt starfsleyfi verði veitt ef landlæknir telur viðkomandi menn hafa þekkingu til að sinna þeim störfum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og heilbr: og trn.