29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, er það minn skilningur, þó að hans skilningur sé kannske ofar og æðri, að heimild sé heimild, bein lagafyrirmæli lög, og af því sé ákvæði sett sem heimild í lög, en ekki fyrirmæli, að það eigi að meta hvort heimildina skuli nota eða ekki.

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að það sé ekki eðlilegt að láta einstakar ríkisstofnanir bera uppi slíkar greiðslur af aflatekjum sínum, það eigi að vera ríkisvaldið sjálft sem það annist. Ég minnist þess, og ég hygg að hv. 5. þm. Vestf. hafi verið einn af þeim sem töldu það til verri hluta í sambandi við kjaradeilur á s.l. vori hvað símgjöld væru há. En Landssíminn hefur ekki aðrar tekjur en þær sem hann aflar, og fyrir það verður hann að framkvæma það sem gert er.

Þetta vona ég að hv. 5. þm. Vestf. skilji og virði þegar hann hugsar málið rólega, en lætur ekki kappið hlaupa með sig.