18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki í einu eða neinu að svara síðasta ræðumanni öðru en því, að ég held að við getum öll verið sammála um að það skemmir ekki fyrir málum að alþm. hafi persónulega reynslu af þeim þegar þau eru borin hér fram, og mætti kannske oft vera meira um það, þó í þessu tilfelli harmi ég að alþm. hafi persónulega reynslu af þeim stofnunum sem við tölum um. En það segir sig sjálft, að við höfum ákveðnum skyldum að gegna, skyldum fram yfir ýmsa aðra við þá sem þurfa sérstaklega á aðstoð að halda á einn eða annan hátt í þjóðfélaginu. En það er ekki það sem ég ætlaði að tala um, heldur einungis að staðfesta það hér enn einu sinni úr þessum ræðustól, að borgarstjórn Reykjavíkur er einhuga um þessa framkvæmd. Borgarstjórn Reykjavíkur lét skipuleggja sundlaug við Grensásdeildina strax og undirtektir hér á Alþ. voru ljósar, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að eftir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram í dag, að á fjárlögum sé ákveðin fjárhæð ætluð til framkvæmda, þá mun borgarstjórn haga fjárhagsáætlun sinni í samræmi við það.

Ég mun að sjálfsögðu flytja borgarstjóra þau boð sem hér hafa komið fram, því að borgarstjóri hefur persónulega sýnt þessum málum mjög mikinn velvilja, og það vita þeir, sem á aðstoð borgarstjórnar hafa þurft að halda í þessum málum og öðrum, og þá á ég við blinda líka.

Ég skal stytta mál mitt og koma að öðru því sem ég vil gera athugasemd við og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, Magnúsi Kjartanssyni, 3. þm. Reykv. Þó að menn séu að einhverju leyti í vanda staddir, þá er alls ekki þar með sagt að fatlað fólk geti ekki starfað á Alþingi Íslendinga. Ég vil mótmæla þessu, af því að mér fannst þetta vera talað til þess fólks sem ég vissi ekki fyrr að hafði fjölmennt hér á pallana. Og ég vil þá tala til þess líka: Látið ekkert slíkt tal draga úr ykkur kjark ef hugur ykkar stefnir að pólitík. Það, sem er á borðinu fyrir framan hv. fyrirspyrjanda, sýnir það best að Alþingi Íslendinga gerir þær ráðstafanir sem til þarf. (Gripið fram í.) Það yrðu þá gerðar þær ráðstafanir sem til þarf.