18.10.1977
Sameinað þing: 6. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

6. mál, starfshættir Alþingis

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Till. sú, sem hv. þm. Benedikt Gröndal hefur flutt hér um bætta starfshætti Alþingis, á vafalaust fyllsta rétt á sér. Hann leggur til, að kosins sé 7 manna n, þm. til að endurskoða þingsköpin, og tiltekur þar nokkur atriði sem hyggja þurfi að. Sum þessara atriða skipta vafalaust verulegu máli, og ég á þar fyrst og fremst við 1., 2. og 3. lið till., en hin atriðin eru ýmist minna um verð eða þá þegar svo venjuhelguð að það mun ekki skipta miklum sköpum í starfi Alþ. þó þar verði einhver bið á breytingum.

Ég tel að 4. liðurinn, það atriði að stytta þann tíma sem fer í umr. um annað en beina lagasetningu, sé kannske það atriði sem hæpnast er í till. og fjærst mér að hægt sé að samþykkja. Ég er hins vegar mjög sammála því sem fram kemur í 1., 2. og 3. lið.

Í fyrsta lagi tel ég að fastanefndir þingsins séu of margar og það væri mjög æskilegt að gera hverjum þm. kleift að einbeita sér að einni til tveimur n. Og ég held að fastanefndir þingsins þurfi að starfa milli þinga og fylgjast með framkvæmd laga hver á sínu sviði, eins og segir í till. Þetta eru góðar hugmyndir. Hitt er ljóst, að hugmyndir þessar tengjast óhjákvæmilega þeirri spurningu, hvort Alþ. á að starfa áfram í tveimur deildum eða verða ein málstofa, og vissulega yrði miklu auðveldara að breyta þessu í það horf, sem till. gerir ráð fyrir, ef um yrði að ræða að þingið starfaði í einni málstofu.

Hitt atriðið, sem er í 3. lið og ég vil taka sterklega undir, er það, að settar verði í þingsköp reglur varðandi umr. utan dagskrár. Ég er hv. þm. algjörlega sammála um að þess er þörf, Ég er líka sammála honum um það, sem kemur fram í grg., að slíkar umr, eru einn veigamesti þáttur allra þingstarfa og það má fyrir hvern mun ekki taka fyrir umr. utan dagskrár. Ég er líka sammála því, sem kemur fram í grg., að umr. verður að sjálfsögðu að takmarka með einhverjum hætti, ef við á annað borð ætlum að gera ráð fyrir að umr. fari fram eftir dagskrá, og það á að takmarka þær við mál sem ber skyndilega að höndum og þola ekki bið eins og önnur þingmál eða eiga ekki heima í formi frv. eða till. Þessu er ég mjög sammála.

Mér þykir vegna þessara þörfu ábendinga að ekki sé úr vegi að nefna eitt dæmi um það, hvernig umr, utan dagskrár ber að höndum á þann hátt sem ég býst við að við hv. þm. séum sammála um að flokkist ekki undir að málið þoli ekki bið. Mér virðist að Alþfl. hafi einmitt nú nýverið haft í frammi nokkra sýnikennslu hér á Alþ. um það, hvernig ekki eigi að standa að umr. utan dagskrár.

Eins og þm, er kunnugt, komu hér fram í þingbyrjun tvö mál sem bæði snertu breytingar á kosningalögum. Önnur till. var flutt af nokkrum þm. Alþb. og er á þskj. 4. Hin till. var frv. flutt af hv. þm. Jóni Skaftasyni í Nd. Alþingis, um breytingar á kosningalögum, sem átti að miða að því að gera kjósendum betur fært en nú er að velja milli manna á framboðslista um leið og þeir velja sér lista. Það er svo að sjá að hv. þm. Alþfl. hafi fengið nokkurn sting í hjartað þegar þessar till. komu fram, eins og þeim fyndist að væri verið að stela frá þeim hugmyndum og þeim þætti illt að einhverjir aðrir bæru slík mál hér fram í þinginu, því að það gerðist öllum á óvart á öðrum degi eftir þingsetningu, áður en nokkrar umr. um till., sem fluttar höfðu verið hér í þinginu, voru leyfðar, að form. þingflokks Alþfl. krafðist þess, að umr. færu fram utan dagskrár, og erindi hans í ræðustól reyndist vera að lýsa yfir að ef ríkisstj. beitti sér ekki fyrir því að umr. færu fram um endurskoðun kosningalaga, þá mundi Alþfl. flytja till. um þetta efni. Þetta var það erindi sem þoldi ekki bið. Og hvernig átti svo sú þáltill. að vera sem þm. boðaði að hér yrði flutt. Jú, að hálfu leyti var um nákvæmlega sömu till. að ræða og þegar voru komnar fram till. hér í þinginu um, og að hálfu leyti var um að ræða sams konar mál og höfðu verið rædd á mörgum undanförnum þingum, ég má segja á hverju þingi á þessu kjörtímabili, en höfðu ekki hlotið afgreiðslu.

Mér finnst vel við hæfi, úr því að hv. form. Alþfl. hefur hér tímabæra umr, um umr. utan dagskrár, að æskilegt væri að fá skoðun hans á því, hvað hann segi um umr. utan dagskrár af þessu tagi, og það væri gott í þessu sambandi að fá skoðun fleiri aðila um þetta mál. Ég veit með vissu að þessi óvenjulega ýtni hneykslaði marga þm., og satt að segja voru margir sem furðuðu sig á að forseti Nd. skyldi á þessu stigi þingstarfa leyfa umr. um fsp. af þessu tagi.

Ég vil upplýsa það hér, að á öðrum degi þingsins ræddi ég lauslega við hæstv. forseta Sþ, um möguleika á því, að umr. urðu hér á þingi utan dagskrár um verkfall BSRB. Þetta var lauslegt tal okkar í milli. En ég skildi hann svo, að hann teldi óeðlilegt að umr, færu fram utan dagskrár áður en nokkur þingmál hefðu verið sett á dagskrá, enda væri það verkefni þessa fundar, á miðvikudeginum s.l., að kjósa nefndir þingsins og væri því eðlilegra að bíða með slíkar umr. til fimmtudags a.m.k. Þó var um ræða mjög einstæðan atburð. Þarna var um að ræða atburð sem aldrei hefur áður gerst á Íslandi. Það var mjög mikið í húfi að hnútur yrði leystur og stórkostlegir erfiðleikar og óþægindi sem þúsundir manna bjuggu við af völdum þeirra átaka sem upp voru komin milli ríkisins annars vegar og BSRB, og ég efast ekki um að allir þm. eru sammála um að umr. af því tagi, sem hér fóru fram í gær um verkfall opinberra starfsmanna, áttu fyllsta rétt á sér og hefðu átt rétt á sér miklu fyrr en þær fóru fram. En þær umr., sem form. þingflokks Alþfl. beitti sér fyrir, gegnir öðru máli. Í fyrsta lagi var þar ekki um að ræða mál sem tengist ákveðinni stund og er þess eðlis að það þolir ekki nokkurra daga bið. Það sést best á því, að Alþ. hefur verið að ræða þessi mál á hverju einasta ári í mörg ár. Í öðru lagi voru þetta mál sem líkur voru á að umr. yrðu hér um síðar, vegna þess að þessi mál höfðu þegar verið flutt og voru meðal fyrstu mála sem ætlunin var að ræða hér.

Ég held þess vegna að nokkuð sé ljóst, að þessar umr. flokkuðust ekki undir þess háttar umr. sem form. Alþfl, leggur áherslu á í till. sinni að eigi að geta farið fram utan dagskrár. Umræður af þessu tagi bera fyrst og fremst vott um óviðfelldna auglýsingamennsku sem að mínum dómi er ekki samboðin störfum Alþ., og slíkar umr. bera eiginlega fyrst og fremst þess vott, að menn una ekki þeim leikreglum sem settar hafa verið, enda held ég að þessar umr. séu nokkuð einstæðar, a.m.k. í síðari ára þingsögu.

Menn kunna nú að spyrja, hvort það skipti í sjálfu sér nokkru máli hvort umr. um mikilsvert mál fer fram hér í þinginu fyrr eða síðar. Aðalatriðið sé hvað menn segja, en ekki hvenær þeir segja það og af hvaða tilefni þeir segja það. Þetta gæti virst mikill sannleikur. En málið er ekki alveg svona einfalt. Þess vegna eru mál tekin á dagskrá með þinglegum hætti, að allir eiga að hafa jafna aðstöðu til að búa sig undir umr. og til að taka með sér á þingfundi þau gögn sem þeir telja sig þurfa að hafa. Ég á ekki sæti í Nd. og var ekki viðstaddur þessa umr., en þeir, sem þekkja til, sögðu mér, að það hefði verið ákaflega áberandi að sumir höfðu verið svo heppnir að vita af þessari umr. fyrir fram og aðrir ekki. T.d. er mér sagt að fyrir utan frummælanda, sem kom víst með langa skrifaða ræðu, hafi einn hv. þm., Ingólfur Jónsson, einnig verið með mikið skrifað mál meðferðis sér til stuðnings í þessari umr. En margir aðrir þm., sem þessi mál hafa hugleitt, sögðu aðeins örfá orð eða þá að þeir létu umr. alveg fram hjá sér fara, því þeim þótti ekki við hæfi að ræða efni þessa máls utan dagskrár.

Umr, utan dagskrár gera ekki boð á undan sér. Þannig verður þetta að sjálfsögðu að vera þegar það þolir litla bið að mál sé tekið til umr. Venjulega er það svo, að aðeins fyrirspyrjandi, forseti og viðkomandi ráðh., sem svara á fsp., vita um að umr, eigi að fara fram. En þegar hafnar eru efnislegar umr. utan dagskrár um mál sem þegar er búið að flytja í þinginu og það á degi þegar enginn reiknar með að slíkar umr. fari fram, þá er bersýnilega verið að fara aftan að hlutunum, verið að læðupokast í kringum rétt þingsköp á mjög óviðfelldinn hátt. Og auðvitað skilja allir til hvers svo óvenjuleg vinnubrögð eru við höfð. Þau eru við höfð vegna þess að frumkvöðull að slíkri umr. sættir sig ekki við, að aðrir flokkar eigi frumkvæði að ákveðnum umr, í þinginu og viðkomandi vill þá koma því svo fyrir, að svo líti út sem hann og hann einn hafi átt frumkvæðið að því að umr. um tiltekið mál fari hér fram. En sem sagt, spurningin er aðeins sú, hvort mönnum líki svona starfsaðferðir og hvort við eigum að gera þetta að almennum vinnubrögðum hér í þinginu.

Ég vil taka það fram, að þessi tiltekna umr. utan dagskrár er í sjálfu sér ekkert stórmál. Og ég held að margt athyglisvert hafi komið fram í þessari umr., svo að ég harma það í sjálfu sér alls ekkert að hún skyldi fara fram. Ég á ekki sæti hér í hv. Nd., og mér er nokkuð sama hvort umr. um þetta mál hér í d. fara fram að frumkvæði hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar eða að frumkvæði hv. þm. Jóns Skaftasonar. Við Alþb.- menn höfum lagt fram þingmál sem snertir þetta mál, og afstaða okkar liggur því ljós fyrir. Það skiptir okkur í sjálfu sér ekki neinu máli til eða frá hvenær umr. um þá till. fer fram. Ég hef ekki enn mælt fyrir þessari till., þó að ég hafi átt þess kost, vegna þess að ég er að bíða eftir gögnum sem snerta þetta mál og tel því rétt að doka aðeins við.

En sem sagt, vegna þess að form. Alþfl. hefur hafið hér umr. um rétt manna til að hefja umr. utan dagskrár, þá þótti mér rétt að vekja athygli á því, að þetta hefði borið upp á sama daginn, að form. Alþfl. flutti þessa till., þar sem gert er ráð fyrir að umr. utan dagskrár séu ákveðin takmörk sett, og form. þingflokksins óskaði síðan umr. utan dagskrár af þessu tagi. Mér sýnist að það sé ekki mikið samræmi í þessu hjá Alþfl., ef þessir tveir menn hafa ekki haft neitt samráð sín í milli um hvernig að máli skyldi standa hér í þinginu. Og ég tel að við verðum að gera okkur grein fyrir því, ef við erum að tala um bætta starfshætti í þinginu í fullri alvöru, hvort við teljum eðlilegt að mál, sem er borið hér upp í þinginu með eðlilegum, þinglegum hætti, sé tekið upp til umr. af öðrum þm., kannske daginn áður en umr. um það á að fara fram, í þeim tilgangi einum að sá, sem á undan er, geti merkt sér málið með einhverjum sérstökum hætti. Mér þætti mjög forvitnilegt að heyra hvort hæstv. forseti Sþ. mundi t.d. leyfa umr. af því tagi sem ég hef hér nefnt. Og sérstaklega þætti mér æskilegt að fá skoðun formanns Alþfl. um þetta efni.