05.12.1977
Efri deild: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Ég hlýt þó að vekja athygli hans á því, að einmitt vegna þess, sem fram kom á fundi þm. kjördæmisins þar sem ég var því miður forfallaður, — einmitt vegna þess, sem þar fram kom og ég hef sannfrétt, taldi ég fullkomna ástæðu til að inna eftir því núna hvað síðan hefði verið gert í málinu. Í ljós kom, að enda þótt vilji hæstv. forsrh. sé góður og ég efast ekki um hæstv. ríkisstj. allrar hefur þessu máli ekki verið ráðið til lykta, ákvörðun hefur ekki verið tekin um hvað eigi að gera til að leysa þennan vanda Þórshafnarbúa. Það liggur í augum uppi, að það er ekki hægt að láta það á vald stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins hvort eitthvað gert verði til þess að leysa þennan vanda Þórshafnarbúa. Nú er ég alveg viss um að hæstv. forsrh. vill ekki heldur láta málið liggja á þann veg.

Svo vikið sé aðeins að verksmiðju þeirri sem Þórshafnarbúar bjóða nú sér til höfuðlausnar, þá má geta þess, að hún hefur vegna fjárskorts, vegna þess að Þórshafnarbúar hafa ekki haft til þess fjárhagslegt bolmagn, verið ónotuð á þessum liðnu árum, ekki verið notuð til loðnubræðslu, vegna þess að fjármunir, sem fyrst munu hafa numið í kringum 25 millj. kr., en fyrir áhrif verðbólgu mundu nú sennilega nema 100–150 millj. kr., — fjármunir, sem nota hefði þurft til þess að endurbæta verksmiðjuna, fengust ekki. Nú eru Þórshafnarbúar neyddir til að bjóða þessa verksmiðju sína, sem ella gæti efalitið lagt plássinu til fé og orðið til stuðnings atvinnulífinu þar heima, — bjóða hana til sölu, vitaskuld í því fulla trausti að verksmiðjan verði rekin af Síldarverksmiðjum ríkisins þar á staðnum, þó að heimamenn muni ekki setja nein skilyrði um tímamörk í því skyni. Hver dagur, sem líður, kostar Þórshafnarbúa sennilega um það bil 30% atvinnuleysi, geysilega mikið fé og mikið angur. Þjóðina alla kostar hver dagur, sem líður án þess að þetta góða frystihús með duglegu fólki sé rekið, einnig stórfé. Mundi ekki láta fjarri að það næmi um það bil hálfri annarri millj, í gjaldeyri á dag. Þess vegna tel ég ákaflega þýðingarmikið að sem fyrst verði ráðið fram úr því, með hvaða hætti Þórshafnarbúum verði hjálpað. Og það er ég efalaus um að það mál hvílir á ríkisstj. fremur en Byggðasjóði, og þá náttúrlega langtum fremur á ríkisstj. heldur en stjórn Síldarverksmiðja ríkisins.