08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Ég vil ljúka máli mínu með því að minna á að samkvæmt opinberum skýrslum, sem fyrir liggja, störfuðu hér á Íslandi á síðasta ári 1600 fyrirtæki sem greiddu hvert um sig annaðhvort engan tekjuskatt til ríkissjóðs eða svo lítinn tekjuskatt að það var um að ræða innan við hundrað þús. kr. á hvert fyrirtæki eða eins og um væri að ræða verkamann með heldur lélegar tekjur. Velta þessara fyrirtækja var engu að síður meira en tvöföld á við veltu ríkissjóðs á því sama ári, eða 130–140 milljarðar, þegar fjárlagafrv. gerði ráð fyrir 60 milljörðum hjá ríkissjóði á árinu 1976, síðasta ári. Og ég vil undirstrika þetta vegna þess að hér er verið að ræða um það, hvort hægt sé að komast yfir þann þröskuld sem menn telja sig standa frammi fyrir varðandi svo brýnar opinberar framkvæmdir sem uppbyggingu flugvallakerfisins. Það er sagt:

Þetta er ekki hægt, það eru ekki til peningar.

Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, að ef vilji væri fyrir hendi þyrfti ekki að láta nægja að gera það sem þessi þáltill. leggur til, að athuga málin, heldur væri hægt að gera meira og framkvæma það sem þarf að framkvæma til að koma fram þeim góða vilja sem að baki þessari þáltill. býr. Ég lýsi stuðningi mínum við till. og vænti þess að hún verði til þess að ekki fari aðeins fram athugun, heldur sjáum við einnig fram á það að veitt verði það fjármagn, ef ekki á fjárlögum næsta árs, þá á fjárlögum ársins 1979, það fjármagn sem verulega munar um til að koma fram þeim úrbótum sem þörf er á í flugsamgöngum Vestfirðinga.