09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um atvinnumöguleika ungs fólks ásamt þeim hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, Ragnhildi Helgadóttur, Pétri Sigurðssyni og Albert Guðmundssyni. Ályktunin er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera athugun á vinnuaflsþörf íslenskra atvinnuvega í nánustu framtíð með sérstöku tilliti til atvinnumöguleika ungs fólks. Við gerð þessarar athugunar verði lögð áhersla á að ganga úr skugga um, hvort æskilegt jafnvægi sé milli menntunar ungs fólks annars vegar og eðlilegra þarfa atvinnuveganna hins vegar í þeim efnum. Athugun þessari skal lokið fyrir árslok 1978.“

Ályktuninni til stuðnings segir m.a. í grg.: Eitt mesta vandamál nútímaþjóðfélaga er að tryggja ungu fólki atvinnu í samræmi við menntun og hæfni. Í svonefndum velferðarríkjum hafa á síðustu árum komið fram alvarlegir gallar í skipulagningu og samræmingu mennta- og atvinnumála með þeim afleiðingum, að milljónir ungra manna 25 ára og yngri fá enga atvinnu að námi loknu eða eiga í miklum erfiðleikum með að fá viðunandi atvinnu.

Á ráðherrafundi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, sem haldinn var í París s.l sumar, var fjallað um þessi mál, enda hafa forráðamenn þátttökuríkjanna miklar áhyggjur vegna vaxandi atvinnuleysis ungs fólks í viðkomandi ríkjum. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni munu nú um 7 millj. manna undir 25 ára aldri vera atvinnulausir í OECD-ríkjunum. Það eru um það bil 40% allra atvinnuleysingja í þessum ríkjum. Meðal ástæðna fyrir þessari þróun er of hröð iðnvæðing og uppbygging atvinnufyrirtækja sem byggjast á mikilli vélvæðingu og háþróaðri tækni. Sjálfvirkni og tölvutækni hefur víða leyst mannshöndina af hólmi án þess að samsvarandi atvinnumöguleikar hafi skapast á öðrum sviðum. Þá hefur reynst erfitt að stilla saman menntun og breytta atvinnuhætti, með þeim afleiðingum að ungu fólki hefur ekki nýst menntun þess sem skyldi.

Hérlendis hefur sem betur fer ekki orðið vart þessarar þróunar í ríkum mæli enn sem komið er. Til þessa hafa þarfir íslensku þjóðarinnar fyrir menntað fólk á flestum sviðum verið svo miklar, að flestir hafa fengið starf við hæfi að námi loknu, hvort sem um hefur verið að ræða háskólanám eða nám á öðrum sérsviðum atvinnulífsins. Þó má búast við því, að á næstu árum verði hreyfing til hins verra í þessum efnum, ef ekki er hugað að þessum málum í tæka tíð. Ljóst er, að í ýmsum atvinnugreinum er vinnumarkaðurinn að mettast. Í flestum þeirra er ungt fólk í miklum meiri hluta, þannig að ekki er breytinga að vænta til hins betra í nánustu framtíð. Nægir í því sambandi að vísa til takmörkunar Háskóla Íslands á námsmöguleikum í ákveðnum greinum. Hið sama er upp á teningnum hjá fjöldamörgum háskólum erlendis.

Það hlýtur að vera keppikefli sérhverrar þjóðar, að sem flestir geti notið mikillar og góðrar menntunar. En sú viðleitni getur verið unnin fyrir gýg eða haft takmarkaða þýðingu ef menntunin kemur ekki að þeim notum sem stofnað er til með löngu og erfiðu námi, auk þess sem það hlýtur að valda viðkomandi einstaklingi fjárhagslegu tjóni og sársauka að sjá vonir ekki rætast að námi loknu.

Það er því mikilvægt að jafnvægi sé milli menntunar annars vegar og atvinnumöguleika hins vegar á hverjum tíma. Til þess að unnt sé að gera sér skynsamlega grein fyrir ástandi þeirra mála er nauðsynlegt að jafnan liggi fyrir sem gleggstar upplýsingar um eftirspurn atvinnuveganna eftir starfskröftum.

Árið 1958 flutti Ragnhildur Helgadóttir till. til þál. um upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk, og var efni till. sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að koma á fót starfsemi, sem miði að því að jafnan séu tiltækar sem gleggstar og nýjastar upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.“

Í grg. með þessari þáltill. sagði svo m.a.: „Árlega hverfur fjöldi fjöldi æskufólks úr skólum landsins út í atvinnulífið. Sumir hafa lagt á sig langt og strangt sérnám, aðrir ekki. Áður en lagt er á þá braut að sérmenntast til ákveðins starfs, veitir það hverjum og einum leiðbeiningu og öryggi að vita með nokkurri vissu þörf manna í það starf, sem um er að ræða, og þá um leið afkomumöguleika.

Á hinn bóginn eru ýmsar greinar atvinnulífsins sem beinlínis komast ekki af án þar til sérhæfðra manna. Og þeim mun betur er hverri atvinnugrein borgið sem starfsliðið er betur að sér á sínu sviði.

Þess vegna er það nauðsyn, að jafnan séu tiltækar á einum stað nokkurn veginn nýjar upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.“

Markmiðið með flutningi þeirrar till. sem Ragnhildur Helgadóttir flutti á sínum tíma, var að nokkurt liðsinni yrði veitt í þessu efni.

„Til þess að þetta yrði framkvæmt á sem auðveldastan hátt mætti fela það stofnun, sem stendur í beinu sambandi við hinar ýmsu atvinnugreinar og getur starfað að skýrslugerð um þessi mál. Þar yrðu þá að jafnaði fyrir hendi þær upplýsingar, sem hér er um að ræða“

Er þá lokið tilvitnun í grg. sem fylgdi þáltill. Ragnhildar Helgadóttur sem flutt var árið 1958. Þessi þáltill. var samþykkt á sínum tíma og athugun gerð af hálfu opinberra stofnana á umræddu máli. En frá því að niðurstöður hennar lágu fyrir hafa orðið miklar breytingar í atvinnu- og þjóðlífi landsmanna, auk þess sem athuganir á þessu sviði hafa ekki átt sér stað með reglubundnum hætti.

Á næstu árum munu fjölmargir árgangar ungs fólks koma inn á vinnumarkaðinn. Í því sambandi er eftirtektarvert, hversu stór hluti þessa fólks stundar menntaskóla- og háskólanám. Eftir því sem næst verður komist munu á fimmta þúsund Íslendingar vera við háskólanám heima og erlendis, en menntaskólanemar skipta þúsundum.

Sé haft í huga, hvernig atvinnuháttum er hagað á Íslandi og vilji menn á annað borð að nám og störf fari saman á raunhæfan hátt einstaklingum og þjóð til heilla, hlýtur sú spurning að vakna, hvort eðlilegt jafnvægi sé milli náms og atvinnumöguleika.

Er það skoðun flm. þessarar þáltill., að ekki sé seinna vænna að gerð sé ítarleg úttekt á þessum málum á grundveili framangreindrar þáltill. Niðurstöður hennar gefa væntanlega viðhlítandi svör um atvinnumöguleika ungs fólks í framtíðinni og segja til um það, hvort og hvaða ráðstafanir þarf raunverulega að gera til að forða því frá atvinnuleysi.

Það hlýtur að vera skylda stjórnvalda á hverjum tíma að eiga frumkvæði í þessu máli. Þá er bað ekki síður þýðingarmikið, að jafnan séu handbærar upplýsingar um atvinnumöguleika og þróun vinnumarkaðarins. Í því felst veigamikil leiðbeining, án valdboðs, um framtíðarmöguleika ungs fólks á atvinnusviðunum.

Val á starfi og námi verður við það raunhæfara en nú er, auk þess sem fjölda ungmenna verður væntanlega forðað frá því að elta mýrarljós í skólakerfi nútímans, eins og því miður á sér of oft stað.

Ég legg til, herra forseti, að þáltill. þessari verði vísað til allshn.umr. lokinni.