09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tel að það sé rétt, sem hv. 2. þm. Austurl. heldur fram, að það séu ýmis vandkvæði á því að vinna störf eins og till. gerir ráð fyrir í sambandi við langtímaspár um þróun atvinnuvega. Auðvitað verður að taka tillit til þeirra, og gagnrýni hans á e.t.v. meira við þjóðfélagið sem heild og hvernig það hefur lagt þessa hluti niður fyrir sér. Ég nefndi hins vegar í fyrri ræðu minni og vil ítreka þörfina á því, að slíkar athuganir haldi áfram með stuttu millibili og þær miðist við styttri tíma.

Ég get nefnt honum dæmi sem ég þekki úr daglegu lífi, að nú á s.l. hausti tóku þrír piltar, sem ég þekki alla persónulega, þá ákvörðun að hætta við að byrja bóklegt nám í MH, Menntaskólanum við Hamrahlíð, og fóru einn í járnsmíði og ég held tveir í bifvélavirkjun. Það var dálítið skemmtilegt að fylgjast með þessu, sérstaklega sambandi þeirra við hina skólafélaga sina meðan á þessu stóð. Fyrst í stað var það talið skref niður á við að hætta við hið dýrðlega stúdentspróf. En af því að drengirnir héldu áfram að hittast og voru nágrannar, fóru þeir, sem höfðu farið yfir í verknámið, að segja frá vinnunni við járnsmiðanám og bíladundið. Þá var eins og þetta breyttist.

Ég hef það á tilfinningunni að stúdentsprófstískan sé að hverfa, unga fólkið sé opnara fyrir því að fara í iðngreinar heldur en það hefur lengi verið. Þess vegna mundi upplýsingastarfsemi byggð á athugunum, sem till. þessi gerir ráð fyrir, geta haft veruleg áhrif og gæti þá líka speglað breytingar sem verða á tiltölulega stuttum tíma, þegar fram kemur eins og núna, að skortur er á mönnum í járnsmiðum, en járnsmíðaiðnaðurinn allur er einn af þeim sem auðvitað þarf að efla og er einn af okkar vaxtarbroddum. Ég vildi aðeins benda á þetta, að veðrabrigði á þessu sviði geta verið nokkuð skjót, og til þess að ráðleggingar og aðhald að ungu fólki og aðstoð við að finna rétt störf komi að gagni þarf þessi starfsemi að vera lifandi og fylgjast vel með því sem er að gerast frá ári til árs.