12.12.1977
Neðri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég sé mig til neyddan að hefja umr. utan dagskrár til að átelja fréttaflutning Ríkisútvarps og Sjónvarps, er þessar stofnanir greindu frá síðustu verðhækkunum á landbúnaðarvörum í síðustu viku. Ég tel mér þetta skylt þar sem ég er formaður landbn. þessarar hv. d. Þetta er ellefta árið sem ég á sæti hér á hinu háa Alþ., en þetta er í fyrsta skipti sem ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, þannig að ekki er hægt að segja að ég hafi misnotað þennan rétt sem hv. alþm. hafa þegar sérstakt tilefni er til sem knýr á að hefja umr. hér á hv. Alþ. án þess að málefnið sé á dagskrá.

Það má segja að það sé ekkert nýtt fyrirbrigði, að þessir fjölmiðlar gæti ekki þeirrar óhlutdrægni sem þeir eiga að gæta samkv. lögum, og að full ástæða hafi verið oft áður til að fjalla um starfsemi þessara áhrifamiklu fjölmiðla og benda alþjóð á ýmis dæmi þess, að óhlutdrægni hafi oft ekki verið gætt, og eins hitt, að hlutdrægni er iðulega beitt í sambandi við val á mönnum í einstaka þætti. Ég stend Líka í þeirri trú, að þessir fjölmiðlar hafi gengið lengra að þessu leyti að undanförnu en áður fyrr, og ég set það í samband við þann gegndarlausa, órökstudda áróður sem uppi hefur verið hafður gegn bændastéttinni og framleiðslu hennar t.d. í síðdegisblöðunum og miklu víðar, hvernig fréttamenn þessara beggja stofnana greindu frá og matbjuggu fréttir af þessu tilefni. Það bendir allt til þess, að hin gamalreynda aðferð nasistanna: að endurtaka nógu oft það sama, sé farin að hafa áhrif á starfsmenn þessara stofnana, þeir séu hættir að gera sér fulla grein fyrir hvað er hlutlaus frásögn.

Maður hrekkur við þegar svo er komið að eins ágæt kona og Sigrún Stefánsdóttir fréttamaður er virðist hafa orðið fyrir áhrifum frá þessum gegndarlausa áróðri, ef dæma má af hlut hennar í uppsetningu umræddrar fréttar. Ég ætla þá fyrst að lesa hluta af umræddri frétt eins og hún var í hljóðvarpinu 6. þ.m., fréttamaður var Vilhelm G. Kristinsson, með leyfi forseta:

„Veruleg hækkun á verði flestra tegunda landbúnaðarvöru tekur gildi í fyrramálið. Hækkunin er mismunandi eftir tegundum, og með ákvörðuninni er greinilega gerð tilraun til þess að breyta neysluvenjum neytenda. T.d. er reynt að draga úr sölu undanrennu með mikilli verðhækkun, en auka smjörsölu. Undanrennan hækkar í verði um 68%, en mikil eftirspurn hefur verið eftir undanrennu að undanförnu. Verð á nýmjólk hækkar um tæplega 24%. Hins vegar hækkar smjör ekki í verði, miklar smjörbirgðir hafa safnast fyrir í birgðageymslum í landinu á þessu ári. Rjómi hækkar aðeins í verði um 1.4%, ostur um 16.9%, kindakjöt um 17–18% og nautakjöt yfirleitt um 20%.

Nú verða tekin nokkur dæmi um verðhækkun landbúnaðarvöru sem tekur gildi í fyrramálið. Hver lítri af undanrennu hækkar, eins og fyrr sagði, í verði um tæplega 68%. Hver lítri kostar á morgun 100 kr., hækkar um 40 kr. Verð á mjólk í tveggja lítra fernum hækkar um tæplega 24%, hækkar úr 184 kr. fernan í 228.“

Fréttamaðurinn segir að með verðákvörðuninni sé greinilega gerð tilraun til þess að breyta neysluvenjum neytenda. Ég vil spyrja: Er þetta óhlutdrægni í frásögn? Er það viðeigandi af fréttamanni að nota tækifærið, sem hann fær um leið og hann segir frá verðhækkun á þessari vöru, til að segja hver sé skoðun hans á hvað liggi á bak við þá ákvörðun — í þessu tilfelli framleiðsluráðs — að verðleggja hinar ýmsu afurðir mjólkurinnar eins og var gert þessu sinni? Og hann heldur áfram: T.d. er unnt að draga úr sölu undanrennu með mikilli verðhækkun, en auka smjörsölu. — Ég átel harðlega svona framkomu fréttamanns. Það er hvorki viðeigandi né í hans verkahring að leggja mat á það, hvað liggi að baki slíkri verðákvörðun. Hans verksvið er það eitt og annað ekki að segja frá þessum hækkunum, ef honum finnst það þá frétt. En mat fréttamanna hvað sé frétt og hvað ekki getur verið umdeilanlegt, ekkert síður en margt annað, en ég mun koma að því síðar.

Þá er það sjónvarpið 7. þ.m., fréttamaður Sigrún Stefánsdóttir.

„Að undanförnu hafa heilbrigðisstéttir víða um land rekið áróður fyrir breyttum neysluvenjum almennings í þá átt, að neysla grænmetis og ávaxta sé aukin svo og neysla á grófu korni og mögrum kjöt- og fisktegundum. Hins vegar er mælt með því, að dregið sé úr neyslu sykurríkra fæðutegunda og fituríkra og aukin neysla fitusnauðra mjólkurafurða á kostnað feitra. Manneldisfræðingar bæði vestanhafs og austan hafa í stórum dráttum verið á einu máli um þessi ráð og telja að með því að fara eftir þeim megi draga úr ýmsum þeim sjúkdómum sem nú höggva stór skörð, svo sem hjartasjúkdómum og æðasjúkdómum.

Í okt. s.l. kom það fram í fréttum sjónvarpsins, að sala á undanrennu hefur aukist um 130% fyrri hluta ársins miðað við sama tíma í fyrra. En á sama tíma minnkaði sala á nýmjólk um 0.9%. Hér á landi er fituinnihald mjólkur um 3.8–3.9%, en undanrennan er með 0.05% feiti, og var því þessi aukning á sölu undanrennunnar í fullu samræmi við þær breytingar, sem taldar eru nauðsynlegar á fæðu kyrrsetufólks nútímans.

Í gær gerðist það, að Framleiðsluráð landbúnaðarins tilkynnti 18.4% meðaltalshækkun á landbúnaðarvörum og gekk hún í gildi í morgun. Hækkunin á mjólkurvörunum er mjög mismunandi, en það, sem mesta athygli vekur, er að mjólk hækkar um 23.9%, en undanrennan hvorki meira né minna en 66.7%. Þessar verðhækkanir stefna að þróun sem gengur í berhögg við það, sem manneldisfræðingar mæla með. En hver er þá skýringin?“

Fréttamaður notar tækifærið til þess að koma fram með ákveðna prédikun gegn fituneyslu um leið og sagt er frá umræddri verðhækkun, hefur samband við m.a. landlækni og Bjarna Þjóðleifsson lækni, sem er þekktur að því að beita áróðri gegn neyslu á fituríkri fæðu, og fréttamaður spyr vegfarendur um álit þeirra. Spurningarnar eru alltaf á þann veg að reyna að fá svör gegn þessari verðákvörðun á undanrennunni, og raunar gerðist alveg það sama í fréttaauka útvarpsins, þegar Helgi H. Jónsson spurði hina ýmsu í sambandi við þetta mál. Og enn segir fréttamaður sjónvarpsins, eftir að hafa sagt frá því að undanrennan hafi hækkað um 66.7%: „Þessar verðhækkanir stefna á þróun sem gengur í berhögg við það sem manneldisfræðingar mæla með?" Er þetta óhlutdrægni í frásögn? Er fréttatími sjónvarpsins réttur vettvangur fyrir fréttamenn til að prédika um einhverjar ákveðnar neysluvenjur sem taldar eru af einhverjum æskilegar fyrir almenning? Það væri fróðlegt, að hæstv. menntmrh. segði sitt álit á því hér á eftir. Annað mál er það, þó að fréttamaður spyrji lækni eða einhverja bóklærða menn um álit þeirra.

Hins vegar er engin marktæk, afgerandi niðurstaða til á því, hvað er hollt og hvað er óhollt í þessu tilliti. Einn segir þetta og annar hitt, aðeins staðhæfingar sem sannarlega er nóg af. Ég veit ekki betur en læknar og aðrir þeir, sem telja sig þess umkomna að segja til um hvað sé hollt og hvað sé óhollt, segi eitt í dag og annað á morgun, og væri það allt rifjað upp, sem ýmsir, sem telja sig þess umkomna á þessu sviði að vera leiðandi, hafa sagt um hollt og óhollt mataræði, mundi koma í ljós að einhvern tíma á síðustu tveimur áratugum hafa verið uppi kenningar um að flest það, sem við leggjum okkur til munns, sé a.m.k. óhollt, ef ekki baneitrað. Og svo reyna menn að kalla slíkt og þvílíkt vísindi!

Þann áróður, sem hefur verið rekinn gegn neyslu á feitu kjöti, smjöri og jafnvel mjólk, er varla hægt að flokka undir annað en atvinnuróg, og slíkt er tæplega hægt að þola af fréttamönnum sjónvarps og útvarps. Ég vil mælast til þess við hæstv. menntmrh., að hann sjái til þess að fréttamönnum þessara stofnana sé gert ljóst, hvert starfssvið þeirra sé, og af þeim krafist óhlutdrægni í hvívetna.

Ég vil undirstrika það sérstaklega, að það liggur ekki fyrir nein afgerandi vísindaleg niðurstaða um það, hvað sé hollt og hvað ekki til neyslu, og ekki er ósennilegt að það sé einstaklingsbundið. Það er talið óæskilegt, að menn fitni a.m.k. að ráði. En fitnar fólk ekki fyrst og fremst af því að það borðar of mikið, frekar en hvað það borðar? Það er sagt að fólk í vissum héruðum Rússlands verði mjög gamalt, allt að því 150 ára, og það lifi mjög mikið á mjólkurafurðum. Sé það rétt bendir það ekki til þess að mjólkin hafi óæskileg áhrif á heilsu þessa fólks.

Ég varð fyrir þeirri reynslu fyrir einum 5 eða 6 árum, eftir skoðun hjá Hjartavernd, að mér var tjáð að allt of mikil fita væri í blóði mínu og ég yrði að breyta um mataræði. Ég brást nú þannig við, að ég sagði við lækninn, sem var enginu annar en Ólafur Ólafsson, núv. landlæknir: „Ef ég hefði alltaf farið eftir ráðleggingum lækna um mitt mataræði, þá væri ég löngu dauður“ — ég mundi engu breyta um mataræði og enginn borðaði feitara kjöt en ég eða meira smjör. Og við það sat. Ég borðaði það sama og áður. Eftir tvö ár, er ég kom aftur í skoðun, var fitan í blóðinu komin í eðlilegt horf. Ef ég hefði breytt matarvenjum mínum samkv. ráðleggingum læknisins, hefði þá ekki verið sagt við mig í síðara skiptið: Þú ert orðinn góður, þarna sérðu, þetta er árangurinn af hreyttu mataræði, og þessu verður þú að halda áfram ef þér er annt um heilsu þina? Mín reynsla sannar auðvitað ekkert annað en það, að blóðfitan komst í eðlilegt horf án breytinga á lífsvenjum, og bendir til þess, að það sé annað en hvað menn borða sem veldur of mikilli blóðfitu, þótt eitt slíkt tilfelli segi að vísu ekki mikið.

En hvers vegna fer fram endalaus umr, um það, hvað sé hollt og hvað sé óhollt af framleiðslu landbúnaðarins, þótt það liggi fyrir að það séu heilsusamlegustu neysluvörurnar sem á boðstólum eru? Skiptir þá engu þessa prédikara allt annað sem menn leggja sér til munns, og hvað um verðlag á öllum öðrum neysluvörum? Það kann að vera að fyrir komi að sagt sé frá verðbreytingum á ýmsum vörum í þessum fjölmiðlum, en það hefur þá farið fram hjá mér. Einn er t.d. sá drykkur sem börn og unglingar drekka ekki minna af en mjólk, og á ég þar við Coca-Cola. Heyrt hef ég að í Bandaríkjunum sé bannað að nota litarefni í það, eins og hér er gert, vegna þess að það sé talið skaðlegt heilsu manna. Sé það rétt, hví er þá ekki krafist breytinga á því af þessum mönnum? Og hvað um verðið? Er það talið engu skipta? Er verð á Coca-Gola í eðlilegu samræmi t.d. við verð á undanrennu og nýmjólk?

Í erlendum blöðum hefur komið fram; að í ljós hafi komið að í þeytikremi séu efnasambönd sem talin séu skaðleg heilsu manna. Þetta þeytikrem er notað hér í staðinn fyrir rjóma og sett á rjómakökur. Eru þetta ekki vörusvik, að selja þeytikrem sem rjóma? Er það fyrir það að þetta þeytikrem er ekki framleiðsla íslensks landbúnaðar sem fjölmiðlar yfirleitt hafa ekki áhuga á að upplýsa, hvernig þessi feitt er notuð og um álit erlendra aðila á því til neyslu? Eða er þetta e.t.v. spegilmyndin af því, hvers konar hlutleysi þessir aðilar tileinka sér?

Í ljós hefur komið að ýmis eiturefni, sem talin eru skaðleg heilsu manna, eru notuð erlendis við ræktun á grænmeti og ávöxtum. Hefur verið kannað, hvort slík eiturefni kunni að vera notuð við ræktun á því grænmeti og þeim ávöxtum sem til landsins eru flutt? Eða nær áhuginn ekki svo langt hjá þessum aðilum? Og hvað um sólargeislann frá Flórída? Hann er talinn íslenskur iðnaður, þó að ekkert sé gert nema blanda vatni saman við þennan ávaxtasafa og setja hann í nýjar umbúðir. Gaman væri að heyra álit hæstv. ráðh. á því, hvort auglýsingabrellan, sem virtist fyrst og fremst hafa verið gerð til þess að fela verðhækkun, sem orðið hefur á þessari íslensku „iðnaðarvöru“, samrýmist lögum um óréttmæta verslunarhætti, að láta nokkurs konar happdrættisvinning í milljónustu fernuna. Er þetta ekki hliðstætt flautugallabuxunum sem bannað var að selja á Akureyri fyrir nokkrum árum, þar sem plastflauta fylgdi með í kaupbæti fyrir hvern þann sem þessar buxur keypti? Það kann að hafa farið fram hjá mér eins og margt annað í þessum fjölmiðlum, en hvergi hef ég heyrt um það eða séð á prenti, að þess hafi verið getið að verðhækkun á hverjum lítra af Tropicana hafi orðið síðan í sumar fyllilega eins mikil og á undanrennunni og er nú um það bil þrisvar sinnum dýrari hver lítri, hvorki hækkunin né hin augsýnilega auglýsingabrella sem virðist hafa verið gerð til þess að fela þessa verðhækkun.

Virðulegi forseti. E.t.v. er ég um of viðkvæmur fyrir hvernig umræddar fréttir bárust mér í gegnum þessa fjölmiðla. En það er þá vegna þess að ég veit, að a.m.k. sumir þessara fréttamanna hafa fullan skilning á þessum málum og eru hliðhollir í raun og veru landbúnaðinum, þó að svona tækist til að mínu mati. Þess vegna stakk þetta mig meira en ella og ég átti síst von á slíku frá þeim.

Annað mál er það, þó að síðdegisblöðin séu með endalaust skítkast út í landbúnaðinn, samvinnuhreyfinguna og Framsfl. Þá hljómar það eins og lofsöngur í mínum eyrum. Það er ekki hægt að fá betra siðferðisvottorð en óhróðursskrif frá slíkum aðilum, enda kom það fram í prófkjörinu í Norðurlandi v., að menn meta þar slíkt á réttan hátt. Ég vænti þess, að þessi nýja siðfræði fái einnig annars staðar sambærilegar viðtökur, enda væri annaðhvort ef allur almenningur kynni ekki að meta þennan nýja boðskap þessara vitringa sem að eigin sögn eru að springa af réttlætiskennd, heiðarleika og fórnarlund, enda er það í samræmi við skrif þessara manna.

Til að finna orðum mínum stað ætla ég að síðustu að koma með sýnishorn af þessum skrifum, með leyfi forseta, kjallaragrein s.l. föstudag: „Ólafur Jóhannesson aðstoðaði afbrotamenn, sem sannanlega stóðu í vafasömum viðskiptum við flokk hans, svo að fleira sé ekki talið.“ Úr sama blaði á s.l. sumri:

„Klúbburinn, sem áður hét Glaumbær, Framsóknarhúsið.“ Og úr leiðara sama blaðs 5. des. s.l.; „Óvinir bænda eru nefnilega mennirnir sem hvöttu þá til framleiðsluaukningar þvert ofan í heilbrigða skynsemi og eingöngu til að þjóna hagsmunum vinnslustöðva og sölufélaga. Þetta eru ráðamenn Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands.“

Og svo að þessi sviðsetning „heiðarleikans“ verði enn áhrifameiri, þá ættu þessir félagar að boða til fundar niðri á Lækjartorgi, stíga þar upp á kassa og syngja dúett, og væri þá við hæfi, að þeir notuðu sér vísu eftir Sölva Helgason:

„Ég er gull og gersemi,

gimsteinn elskuríkur.

Ég er djásn og dýrmæti,

drottni sjálfum líkur.“

Blindir menn mundu þá e.t.v. öðlast sýn hvers konar mikilmenni eru þarna á ferðinni.