13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

1. mál, fjárlög 1978

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég flyt fjórar brtt. við fjárlagafrv. ásamt hv, þm. Benedikt Gröndal. Ég tel að ég hefði þurft helst að flytja brtt. við hvern lið, sem snertir byggðarlögin á Vesturlandi, og gera tilraun til þess að fá breytt hverjum lið, sem er í frv. um framlög til skólamála og hafnamála og annarra almenningsmála á Vesturlandi, til þess að þetta frv. sýndi einhvern lit á því, að það væri æskilegt að byggð héldist á Vesturlandi.

Mér finnst að hæstv. ríkisstj. og hennar þingmeirihluti hafi látið fallerast fyrir síbyljuáróðri síðdegisblaðanna — eins og sagt var í þessum ræðustól í gær — á svipaðan máta og fréttamenn útvarps og sjónvarps, og að fjárl. eða þau framlög sem ætluð eru til hinna dreifðu byggða á fjárl. a.m.k. á Vesturlandi, beini raunverulega þeirri áskorun til okkar, sem þar búum, að þar sé ekki rétt að halda áfram byggð. Þeir þættir, sem snúa að okkur, framlög til skóla, hafnamála, heilsugæslu, eru allir á þann veg, að það er raunverulega ekki hægt að halda þar áfram neinum framkvæmdum.

Eins og ég sagði áðan flyt ég hér fjórar brtt. og ætla, um leið og ég ræði þær, að ræða um þau framlög, sem lagt er til í fjárlagafrv. að veitt séu til annarra staða á Vesturlandi, og fara um það nokkrum orðum, hvernig þau geti nýst eða ekki nýst.

Það er í fyrsta lagi till. okkar um framlag til nýrrar skólabyggingar á Akranesi. Þar leggjum við til, að í staðinn fyrir 3 millj. til nýrrar skólabyggingar verði lagðar 50 millj. Eins og hv. þm. mun vera kunnugt hófst kennsla í nýjum fjölbrautaskóla á Akranesi nú í haust. Sú starfsemi fer fram í skólum sem fyrr voru á staðnum, þ.e.a.s. í gagnfræðaskóla og iðnskóla. Við það að þessi skóli var stofnsettur, sem hefur vitaskuld verið vitað og samþykkt af menntmrn. og ríkisstj., þurfti ákveðið pláss fyrir þá kennslu sem fram fór í gagnfræðaskóla og iðnskóla. Eins og stendur er fjölbrautaskólanum haldið uppi á fjórum stöðum á Akranesi.

Það var þegar orðið of þröngt um gagnfræða- eða grunnskólann á Akranesi þegar fjölbrautaskólinn var tekinn inn, og það var þörf á því að byggja nýjan skóla. Þeir á Akranesi fóru fram á það, að veittar yrðu 100 millj. til nýrrar skólabyggingar. Svarið, sem þeir fá frá fjvn., er 3 millj. Við teljum að þær 3 millj, komi vitaskuld að engu gagni, hvorki fjölbrautaskólanum né grunnskólanum, en upphæð, sem væri um 50 millj., gæti orðið byrjun að framkvæmdum við grunnskóla sem væri þá hugsanlega til notkunar á vetrinum 1979–1980. Í millitíðinni þyrfti að leysa þetta vandamál með lausum stofum. Eins og stendur í frv. á dag er vandamálum Akurnesinga raunverulega ekki ansað. Það vandamál, sem er verið að skapa Akurnesingum með þessu, er raunverulega um leið verið að skapa öllum Vestlendingum, vegna þess að með því að starfsemi fjölbrautaskóla hófst á Akranesi var verið að skapa grundvöll að því, að við á Vesturlandi gætum byggt okkar grunnskóla upp í auknum mæli eða bætt þar við nýjum bekkjardeildum og námið í þeim bekkjardeildum gæti síðan nýst við fjölbrautaskólann á Akranesi. En svarið sem við Vestlendingar fáum fyrir þennan framgang Akurnesinga í því að koma af stað fjölbrautaskóla, er að raunverulega er með þessari afgreiðslu á fjárl. til skólans á Akranesi verið að segja að þessi starfsemi, sem þarna er hafin, hafi verið óþörf. Og það er varla hægt að sjá að Akurnesingar geti haldið þeirri starfsemi áfram á næsta vetri ef ekki verður bætt úr.

Til okkar á Hellissandi voru veittar 10 millj. á síðasta ári í nýjan skóla, og út frá þeim 10 millj. hófum við framkvæmdir við grunnbyggingu fyrir skólann. Sá kostnaður var það mikill, að raunverulega höfum við eytt tvennum 10 millj. af framlagi ríkisins. Við gátum komist af stað og byggt grunn, en þar skulum við stoppa, og 10 millj. til þessara framkvæmda eru vitaskuld sama og ekki neitt. Nákvæmlega sama sagan gerðist í Ólafsvík, þar eru áætlaðar 12 millj. til nýs skóla. Sú upphæð gagnar vitaskuld ekki neitt. Á báðum þessum stöðum og þó sérstaklega hjá okkur á Hellissandi, er ástandið þannig að kennsla fer fram — ja, það mætti nærri því segja hingað og þangað um þorpið, aðallega þó í félagsheimilinu, við mjög erfiðar aðstæður.

Mér finnst að svona trakteringar til heilla byggðarlaga jafngildi yfirlýsingu um það, að þarna skuli ekki halda uppi byggð. Það er raunverulega ekkert verið að gera annað en lýsa því yfir, bæði gagnvart Akurnesingum, okkur á Hellissandi og þeim í Ólafsvík, að það skuli ekki haldið áfram með skólaframkvæmdir og það skuli verða stungið upp í þá þróun, að fjölbrautaskóli geti starfað, það sé verið að segja að á þessum stöðum sé ekki þörf að halda áfram byggð. Vitaskuld kemur þar við sögu þessi góði síbyljuáróður um það, að hvorki landbúnaðarstörf né sjávarútvegsstörf séu nauðsynleg í þjóðfélaginu, heldur sé það allt annað, og auðvitað vitum við Vestlendingar mætavel hvað við er átt með því. Það er átt við byggingu Grundartangaverksmiðju, og þangað renna nógir peningar.

Ef við höldum áfram inn í Grundarfjörð, þá er áætlaðar til skólabyggingar þar 3 millj. Vitaskuld er þetta bara sýndartillaga og ekki neitt annað. Það má segja reyndar um Grundfirðinga, að ekki brennur eins á þeim í sambandi við sjálfan skólann og okkur á Hellissandi, Akranesi og í Ólafsvík, en aftur á móti vantar þá sárlega íþróttahús. Grundfirðingar eru þeir einu á Snæfellsnesi sem ekki hafa íþróttahús við sinn skóla. Við erum reyndar nýbúnir að fá slíkt á Hellissandi, en það er búið að vera lengi í Stykkishólmi og nokkur ár í Ólafsvík. Staða Grundfirðinga er þannig, að þeir hafa þegar byggt upp við sundlaug alla aðstöðu fyrir íþróttahúsið, þ.e.a.s. hreinlætisaðstöðu og búningsklefa, þannig að það er ekki eftir að hyggja þar annað en íþróttasalinn, sem er, eins og við vitum, ekki nema tiltölulega lítill hluti af kostnaðinum, miðað við þær gerðir sem yfirleitt eru byggðar af íþróttahúsum. Sú traktering, sem Grundarfjörður fær, er 300 þús. til þessara hluta. Það er að vísu viðurkenning á því, að þarna þurfi að gera eitthvað, en það er ekki til neinna nota.

Ef haldið er áfram ? Stykkishólm er nákvæmlega það sama á seyði. Þar er ástandið þannig, að meginhluti kennslunnar fer fram í húsnæði fyrir utan skóla. Reyndar mun rn. eða ríkið hafa stutt og hjálpað við að koma þeirri kennsluaðstöðu fyrir í nýja félagsheimilinu, en þar fer núna fram meginhluti grunnskólakennslunnar í Stykkishólmi. Það, sem Stykkishólmur fær til byggingar skóla, eru 6 millj., vitaskuld aðeins sýndartill. Fyrir það verður ekkert gert.

Þannig er útkoma skólamálanna á Vesturlandi. Ég get því miður ekki alveg upplýst hvernig ástandið er varðandi heimavistarskólana og aðra skóla. Ég geri ráð fyrir að þetta sé aðeins spegilmynd af þeim.

Ef litið er til hafnarmannvirkja, þá kemur í ljós að miðað við þarfir er alls staðar farið af stað með upphæðir sem ekki koma að gagni. Það má segja jafnvel á þeim stöðum tveimur í Vesturlandskjördæmi sem smávegis upphæðir fá, að þær séu það litlar og svo mikið skornar niður að þær nýtist ekki. 100 millj. kr. í Akraneshöfn nýtist ekki að fullu, vegna þess, að það, sem þarf að gera í Akraneshöfn, er svo mikið, að meginhlutinn af þessari framkvæmd færi raunverulega í sjóinn. Sama er að segja um Ólafsvíkurhöfn. 72 millj. til Ólafsvíkurhafnar nýtast ekki til fullnaðarframkvæmda, vegna þess, að sú framkvæmd, sem þarf að gera næst við Ólafsvíkurhöfn, er það stór að þessi framkvæmd yrði aðeins liðlega grunnurinn undir þeirri framkvæmd. Um Borgarneshöfn er það að segja, að þar eru áætlaðar 11,9 millj., en við Borgarneshöfn þarf bæði að koma upp hafnarvog og gera ákveðnar framkvæmdir bæði til þess að afstýra því, að höfnin skemmist, og einnig til þess að raunverulega sé hægt að nota hana. Sú fjárveiting, sá peningur, sem þarna kemur, mætti kannske segja að dygði fyrir voginni. Ég hef þann grun, og sá grunur staðfestist við þessa upphæð sem hér er, að það sé hugur ráðamanna að leggja Borgarneshöfn niður, þó að Borgarneshöfn sé í dag líkast til stærsta innflutningshöfn landsins á eftir Reykjavík, hýru auga sé rennt til nýju hafnarmannvirkjanna við Grundartanga og eigi kannske að nota okkar ágætu væntanlegu brú yfir Borgarfjörð til þess að flytja vörurnar, sem koma frá útlöndum, til Borgarness frá Grundartanga. Það er mikil öfugþróun, ef þannig á að vinna, og staðfestir enn, að síbyljuáróður þeirra síðbótarmanna og síðdegisblaðanna grefur víða um sig.

Til Grundarfjarðar eru áætlaðar 700 þús. kr. til hafnarmannvirkja. Mikil lifandis skelfing! Það hlýtur að vera hægt að gera mikið fyrir 700 þús. kr. En vitaskuld er þarna aðeins sett tala. Ég veit ekki einu sinni hvort hægt er að kalla svona tölu sýndartölu.

Í Stykkishólm er í till. reiknað með 9 millj., en við leggjum til, að sú upphæð verði hækkuð upp í 25 millj. Dráttarbrautin í Stykkishólmi er gott mannvirki. Hún er stór liður í atvinnuuppbyggingu Stykkishólms og þörf stofnun fyrir allt Snæfellsnes, sinnir viðgerðarþjónustu fyrir bátaflotann þar. En aðstaðan við dráttarbrautina er þannig, að þar er ekki hægt að geyma skip við viðlegu. Það veldur því, að ekki er hægt að fara með skip til viðgerðar í Stykkishólmi eða kostnaður verður of mikill við að fara í viðgerð þar með skip sem ekki þarf að taka í slipp. En vitaskuld er fjölda framkvæmda þannig háttað við viðgerðir skipa, að æskilegt er að hægt sé að vinna að þeim við viðlegukant við dráttarbrautina. Það er verið að gera þetta stóra og myndarlega fyrirtæki, dráttarbrautina í Stykkishólmi og fyrirtækið Skipavík, raunverulega að miklu leyti óarðbært með því að koma ekki þessari framkvæmd í gang. Við teljum að þessi aukning á framlagi geti orðið til þess að þarna verði hægt að byrja á framkvæmdum. Sú aukning, sem við leggjum til. nægir ekki til þess, að þarna geti orðið um fullnaðarframkvæmdir að ræða, en gæti verið hvati að byrjun á framkvæmdum. Með þessari upphæð, sem á fjárlagafrv. er, má segja að það sé svipað og í Borgarnesi, með þessu væri kannske hægt að koma upp hafnarvog, sem þá Hólmara vantar líka. En ansi finnst mér skrýtin sú hugmynd, ef aðeins hafnarvogin á að nægja höfnum við Breiðafjörð og Borgarfjörð, en ekki þurfi hafnarmannvirki.

Vitaskuld eru aðrir póstar í sambandi við Vesturland og sjálfsagt aðra landshluta á svipaðan máta og ég hef lýst hér hafna- og skólamálum. Og það er, eins og ég sagði áðan, sárgrætilegt að sjá að það sé raðað upp tölum í fjárl. hverri á fætur annarri sem raunverulega eru ekki til annars en að sýnast. Meginhluti þessara upphæða er þannig, að við þær verður ekkert hægt að gera. Það er sjálfsagt hægt að ná þeim einhvern veginn út úr ríkissjóði, en ekki er hægt að tala um það, að þær fari til þeirra framkvæmda sem þær eru ættaðar, því þær eru engar eða næstum engar svo stórar að hægt sé að nýta þær.

Til viðbótar við þær till., sem ég hef nefnt, eru svo aðrar tvær. Það er í fyrsta lagi till. um það, að Tónlistarskóla Neshrepps verði veittar 400 þús. kr. Á fjárl. síðasta árs voru veittar 400 þús. kr. til Tónlistarskóla Neshrepps, byggingarstyrkur. Eins og ég sagði frá við 2. umr. fjárl. á síðasta ári, tók Tónlistarfélagið í Neshreppi eða á Hellissandi sig til á árinu 1976 og byggði yfir tónlistarskólann þar og gerði það með mjög miklum myndarbrag og fór svo fram á að ríkið stæði að þessari skólabyggingu með 800 þús. kr. Fjvn. tók þetta upp í fjárl. milli 2. og 3. umr. í fyrra. Ég vænti þess að svo verði gert enn þá og þetta mál hafi aðeins dottið upp fyrir nú á svipaðan hátt og í fyrra.

Í öðru lagi er svo till. um það, að veittar verði til Hafrannsóknastofnunar, vegna útibús Hafrannsóknastofnunar í Ólafsvík, 3 millj. kr. Í Ólafsvík er búið að byggja búsnæði fyrir Hafrannsóknastofnun, en það hefur ekki verið nýtt vegna þess að þar hefur enginn maður komið til starfa. Þessi upphæð væri til þess, að hægt væri að byrja á starfsemi í því nauðsynlega fyrirtæki.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að mikið verði breytt till. um fjármagn til Vesturlands. Það má segja kannske að þá ætti maður ekki að vera að flytja brtt., enda verður sú oftast raunin, að till. minni hl. eru gjarnan felldar, og ég geri ráð fyrir því, að meginhluti af till. okkar verði felldur. En ég vil undirstrika það, að ég harma mjög að þannig skuli vera, að mynd fjárlagafrv. skuli vera þannig, eins og ég hef getið um, að raunverulega sé verið að segja við okkur, að það sé ekkert hægt að gera, það sé ekki efni til að gera eitt eða neitt. Og það, sem fjárlagafrv. segir við okkur Vestlendinga, er einmitt þetta: Við höfum ekki efni á þessu. Við skulum sletta í ykkur nokkrum krónum ef þið getið notað þær, en við höfum ekki efni á því að láta meira.

Mér finnst raunverulega að verið sé að segja það, eins og ég sagði áður, að við höfum ekki efni á því að halda uppi landbúnaði eða sjávarútvegi. Ef við getum ekki veitt því fólki, sem vinnur að þessum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, aðstöðu til að láta skipin sín liggja í höfn eða koma í höfn, ef við höfum ekki aðstöðu til þess að láta börnin okkar læra í skólum heima í héruðum okkar, þá er verið að segja við okkur:

Þið skuluð ekki búa þarna. — Og mér finnst að með þessum fjárl., sem hér liggja fyrir, sé einmitt verið að segja þetta. Ég vona að þau fjárl., sem sjá dagsins ljós næsta haust að loknum kosningum, sýni ekki sömu hugsun eða verði í sömu mynd og þessi fjárlög.