13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

1. mál, fjárlög 1978

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja hér langa ræðu við 2. umr. um fjárlagafrv., í aðalatriðum gera stutta grein fyrir nokkrum brtt. sem ég ber hér fram eða stend að. Ég hlýt þó þegar í upphafi að vísa til þess, sem sagt hefur verið um brtt., sem fram hafa verið bornar af öðrum Alþb: mönnum um niðurskurð á fjárveitingum sem að dómi okkar Alþb.- manna mega missa sig og meira en það, niðurskurð á fjárveitingum sem vega upp á móti till. okkar og þ. á m. þeim till. sem ég mun gera grein fyrir hér um auknar fjárveitingar til annarra mála, sem við teljum fremur stefna að þjóðarheill.

Ég mun gera grein fyrir nokkrum till. um auknar fjárveitingar til fiskihafna í Norðurlandskjördæmi eystra, sem ég ætla auðvelt að sýna fram á að hafa á undanförnum árum, þrátt fyrir það að sum byggðarlaganna séu fremur fámenn, stuðlað að öflun meiri fjármuna í þjóðarbúið, hver þeirra um sig, meiri fjármuna í þjóðarbúið en þeirra, sem í það fara að standa undir augljósum halla, fyrirsjáanlegum halla af rekstri þeirrar hafnar sem nú eru veittar til hundruð millj. kr. að upp komist við Grundartanga hérna uppi í Hvalfirði. Samtímis því eru fjárveitingar til fiskihafnanna okkar skornar niður í lágmark. Í þessum brtt. mínum er líka kveðið á um auknar fjárveitingar til skóla- og menntamála í Norðurlandskjördæmi eystra. Og loks er ég aðili að brtt. ásamt Ragnari Arnalds um auknar fjárveitingar til grænfóðurverksmiðja á Norðurlandi, þ.e.a.s. fóðurverksmiðju í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í S- Þingeyjarsýslu.

Ég veit ekki, hvernig þm. bænda, framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, hafa tjáð fyrir kjósendum sínum rökin fyrir því, að þeir hafa greitt atkv, með járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, hvernig þeir hafa útskýrt það fyrir þeim að þeir hafa stutt að þessu óskapamáli, hvernig þeir ætla að fara að því að fá kjósendur sína til þess að sætta sig við það, að niður eru skornar á fjárl. nú stórkostlegar fjárveitingar til stuðnings íslenskum atvinnuvegum, til þess að stuðla að vexti og viðgangi okkar þjóðlegu atvinnuvega sem við höfum byggt velferð þessa samfélags á. Ég get ekki beinlínis sagt að ég hafi áhyggjur af því, að þeim muni farast þetta klaufalega, að tjá þetta fyrir fyrrverandi kjósendum sínum. En ég óska þess innilega, að Sjálfstfl. og Framsfl. í Norðurl. e. fallist nú á að sá háttur verði upp tekinn að nýju, sem um árabil hefur niðri legið og síðan ég fór að taka þátt í kosningabaráttu í Norðurl. e., að haldnir séu sameiginlegir fundir fyrir kosningar til Alþingis. Ég er þess fýsandi að fá að horfa framan í fjvn: manninn Inga Tryggvason, bændaleiðtogann Stefán Valgeirsson, postula hins frjálsa framtaks Jón G. Sólnes og fjárvitringinn Lárus Jónsson í kosningabaráttunni á sumri komanda, þegar þeir útskýra fyrir kjósendum í Norðurl. e. hve mörg þjóðþrifamál á því landshorni eru nú látin sitja á hakanum vegna þess að þeir réttu upp höndina við atkvgr. um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Og þó umfram allt fýsir mig að horfa framan í líflega og oft og tíðum glaðlega ásjónu hv. þm. Jóns G. Sólness þegar hann endurtekur frammi fyrir kjósendum í Norðurl. e. grg. fyrir atkv. sínu, sem hann flutti hér á Alþ. er hann galt jáyrði sitt við málmblendiverksmiðjunni við síðari afgreiðsluna, þar sem hann sagðist vera á móti þessu fyrirtæki, hann vissi að af því mundi stafa illt eitt, en hann gyldi málinu jáyrði sitt vegna þess hversu mikið traust hann bæri til iðnrh. Gunnars Thoroddsens.

Eins og ég sagði áður byggi ég till. mínar um auknar fjárveitingar til fiskihafnanna í Norðurl. e. á þeirri von minni, að hv. alþm. fáist til þess að stuðla að því að hætt verði við hafnargerðina á Grundartanga og við getum fremur notað fjármunina, sem fjvn. ætlar að sóa þar, til þess að bæta fiskihafnir kringum landið.

Ég ber fram á þskj. 163 till. um það, að í stað 21.3 millj. kr. fjárveitingar, sem mest fer upp í skuld, til Hjalteyrarhafnar verði veittar 30 millj., þannig að hægt verði að ganga þannig frá litla hafnargarðinum, sem búið er að koma upp þar við eyrina, að hann nýtist sjómönnum á Hjalteyri, svo að þeir geti lagt fiskinn sinn upp á þennan garð og hamið bátana sina við hann.

Ég legg til, að í stað 46.5 millj. kr., sem ætlaðar eru til bóta á Akureyrarhöfn, aðalvöruflutningahöfn Norðurlands, komi 80 millj. kr. framlag.

Ég legg til, að í staðinn fyrir 15 millj. kr. fjárveitingu til hafnarbóta á Kópaskeri komi 30 millj. kr. framlag, ef verða mætti til þess, að við fengjum höfn fyrir bátaútveginn í Norðurl. e. á milli Raufarhafnar og Húsavíkur, og ef verða mætti til þess að koma upp alhliða útgerð frá Kópaskeri, þar sem nú er eingöngu gert út á rækju, því það er algjört skilyrði fyrir viðhaldi byggðar og vexti í Axarfirði og Kelduhverfi að Kópasker fái að dafna á eðlilegan hátt.

Þá legg ég til, að í staðinn fyrir 4.5 millj. fjárveitingu til Raufarhafnar, til hafnarinnar á Raufarhöfn, komi 10 millj. fjárveiting. Ég geri mér fyllilega ljóst, að ég þarf ekki að tjá það fyrir meiri hl. fjvn. að gjaldeyrisframleiðsla tæpra 500 manna, sem byggja Raufarhöfn, samsvarar því, að Reykjavíkurborg legði þjóðarbúinu til í gjaldeyrisvöru sem svaraði 80 milljörðum kr. Og ég veit að hv. meiri hl. fjvn. gerir sér einnig grein fyrir því, að með því að metið sé í gjaldeyri, þá skilar höfnin þarna norður á hjaranum við Raufarhöfn þjóðarbúinu álíka upphæð og þeirri sem við blasir að nema mundi tapinu af rekstri Grundartangahafnar á þessu ári. Ég geri mér sem sagt fyllilega grein fyrir því í hvílíkri óskaga þröng stjórnarmeirihl. í fjvn. hefur verið, við hvers konar stórvanda meiri hl. fjvn. hefur átt að stríða í störfum sínum núna, þar sem er aumingjaskapur þeirrar ríkisstj. sem þeir þm. styðja sem mynda meiri hl. fjvn. Þessir hv. þm., sem skipa meiri hl. fjvn., áttu náttúrlega ekki margra kosta völ. Þeir hlutu að vinna úr því sem fyrir þá var lagt. Og ég þarf ekki orðum að því að eyða, að ég efast ekki um að þeir hafi gert það samkvæmt bestu vitund og skammast sín fyrir hina endanlegu niðurstöðu. Þeir hafa sem sagt ekki verið öfundsverðir.

Ég ber hér fram á þskj. 166 till. um 10 millj. kr. fjárveitingu til grunnskóla á Dalvík til viðbótar við þær fáu krónur sem ráðgert er í till. meiri hl. fjvn. að varið verði til undirbúnings byggingu grunnskóla á Dalvík. Þetta mun vera fimmta árið sem varið er hungurlús til undirbúnings grunnskólasmiði á Dalvík og nú tími til kominn að þeim Dalvíkingum verði gert kleift að hefjast handa við að steypa grunn undir þennan skóla sem þeir þurfa svo mjög á að halda.

Á þskj. 163 ber ég fram till. um 10 millj. kr. fjárveitingu til sundlaugargerðar í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit. Þetta mál hefur einnig verið mjög lengi á döfinni, og sannarlega er tími til þess kominn að fram komi efndir á loforðum um stuðning við það mál.

Loks vík ég enn að brtt., sem ég flyt ásamt Ragnari Arnalds, um fjárveitingar til fóðurverksmiðjanna í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu og Hólminum í Skagafirði, þar sem við leggjum til að veittar verði 20 millj. til hvorrar verksmiðju um sig og 35.8 millj. að auki til annarra framkvæmda við verksmiðjur þessar. Við höfum núna síðustu vikurnar haft nokkrar fréttir af því, með hvaða hætti þessi litli vísir að grænfóðurframleiðslu á Íslandi, sem þegar er kominn, þar sem um er að ræða u.þ.b. 8 þús. lesta framleiðslu, hefur verið settur í hættu með innflutningi á niðurgreiddum erlendum fóðurbæti. Ég lagði fram strax í þingbyrjun fsp. til hæstv. landbrh. hér á Alþ. Fsp. var í fyrsta lagi um það, hvert væri það orkuverð sem graskögglaverksmiðjurnar íslensku greiddu, í öðru lagi, hvað ríkisstj. hygðist gera til þess að sjá þessari innlendu kraftfóðurframleiðslu farborða í samkeppni við óeðlilega niðurgreiddan, erlendan fóðurbæti. Hæstv. ráðh, hefur enn ekki fengið tóm til þess að svara þessum fsp. mínum. Það tel ég slæmt, því ég hefði verið nokkru fróðari um stöðu graskögglaverksmiðjanna ef hann hefði gefið sér tóm til þess arna. Svo sem kunnugt er átti hann í svokallaðri forkosningabaráttu um þetta leyti í kjördæmi sínu á Vesturlandi, þar sem hann stóð mjög í því og virtist ekki hafa tíma til annars en að tryggja sér sæti á framboðslista Framsfl. — og svör þessi hef ég ekki fengið enn þá þótt svona sé nú áliðið. Hitt heyrðum við í hádegisútvarpi nú fyrir nokkrum dögum, að graskögglaverksmiðja ríkisins í Gunnarsholti auglýsti framleiðsluvöru sína á samkeppnisfæru verði, miðað við afgreiðslu við verksmiðjuvegg, á við það sem nú er boðinn þessi niðurgreiddi erlendi fóðurbætir hér í Rvík. Það er mér kunnugt að stjórnarþm. í mínu kjördæmi, a.m.k. þm. Framsfl., hafa svarið alldýra eiða um stuðning við fóðurverksmiðjumálið í Saltvik, og einnig þetta mál örvar eftirvæntingu mína að horfa á svipbrigði þeirra svarabræðra á væntanlegum sameiginlegum fundum í kosningabaráttunni nyrðra næsta vor.

Ég hlýt að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, Odds Ólafssonar, þar sem hann vék að málefnum fatlaðra, endurhæfingarmálunum hér á landi, og þeirri höfuðnauðsyn sem á því er að ríkisvaldið styðji við bakið á félagasamtökum fatlaðra í þeim málum sem lúta að endurhæfingu og eflingu hinna fötluðu einstaklinga. Vil ég í því sambandi taka með í hópinn, þar sem ég er alveg viss um að hv. ræðumaður mun fúslega fallast á það, gamla fólkið okkar, þetta fólk sem á ekki að baki sér í lífsbaráttunni afl neinna stéttarsamtaka, en á kröfu á stuðningi allra góðra manna og þó fyrst og fremst stuðningi þeirra manna sem fjalla nú um skiptingu á þeim fjármunum sem ríkisvaldið mun lögum samkv. verja á næsta ári til samfélagsþarfa. Ég hygg að hv. þm. hafi síst ýkt er hann brýndi fyrir alþm. þann hag, þann beina fjárhagslega hag sem þjóðfélagið hefur af því að hjálpa þessu fólki til þess að verða sjálfbjarga, að stuðla að því að það geti nýtt afl sitt, sem í mjög mörgum tilfellum er mikið, til framkvæmda, til dáða, ef því er aðeins hjálpað til þess að komast í aðstöðu til að beita því. Ég hygg að þetta sé rétt, að hér sé um að ræða stórkostlegt fjárhagslegt hagsmunamál fyrir þjóðarheildina, auk þess sem þessu fólki yrði þá hjálpað til þess að taka eðlilegan þátt í lífi þjóðarinnar og baráttu hennar og hjálpað til þess að njóta lífsins á ný og þeirrar gleði sem fylgir því að láta nokkuð gott af sér leiða.

Aftur á móti hygg ég að ástæðan fyrir því, að nú eru fluttar inn þúsund stúlkur frá Ástralíu til þess að vinna í frystihúsunum okkar, skrifist ekki fyrst og fremst á það allt í einu, í grænum hvelli, að endurhæfingarmál fatlaðra liggi í láginni, — að við skulum flytja inn þúsund stúlkur frá Ástralíu til þess að vinna í frystihúsunum okkar, samtímis því sem málmblendiverksmiðjukórinn hefur kyrjað það yfir okkur vetrum saman, að nauðsyn sé að koma upp erlendri stóriðju vegna þess að okkur muni skorta verkefni fyrir starfsfúsar hendur á Íslandi ef ekki komi til erlend stóriðja. (Gripið fram í.) Sannleikurinn er náttúrlega sá, að ekki mundi skorta fólk til vinnu í frystihúsunum okkar ef goldið væri hæfilegt kaup fyrir starfið, sem þar er unnið, og sæmilega búið að fólkinu, sem vinnur þessi störf. En í beinum tengslum við vandann í fjárlagafrv., — en mér virtist að vísu í kvöld, þegar ég heyrði fjvn: menn tala, þ.e.a.s. ræðumenn meiri hl. fjvn., að sá vandi væri að verulegu leyti blandaður á staðnum, í þessu fjárlagafrv. og brtt. fjvn., — sé hugað að þeirri afstöðu sem fram hefur komið í málgögnum ríkisstj. hina síðari daga og í ræðum forsvarsmanna ríkisstj., þá virðist manni að enn sem fyrr sé í þá áttina miðað að vanmeta störf fólksins, sem vinnur við framleiðsluna, en meta störf annarra ekki aðeins hærra til verðs, heldur og til virðingar.

Ég hef ekki til að bera þá reynslu sem einstakir ræðumenn hafa vitnað til varðandi afgreiðslu fjárl. hér á hv. Alþ. Hv. þm. Steinþór Gestsson, form. fjvn., getur vitnað til persónulegrar reynslu sinnar í fjvn, allar götur til ársins 1971, hv. þm. Lárus Jónsson einnig til mikillar reynslu í sambandi við störf í fjvn. Þeir nefndu það sjónarspil af hálfu formælanda minni hl. fjvn. þegar hann gerði grein fyrir því, að minni hl. treysti sér nú ekki til, eins og að væri staðið, að skila nál. Mér var það efst í huga þá, að lokinni ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar, að sæmst hefði verið, eins og að hefur verið unnið, að stjórnarandstaðan gengi úr salnum og léti stjórnarþm. það eftir undir forustu þeirra aurabræðra að afgr. þessi fjárl. Það virðist mér við blasa, eins og fjárl. þau, sem afgr. voru í hittiðfyrra, og enn fremur þau fjárl., sem afgr. voru fyrir atbeina þeirra hv. þm. í fyrra, að langtum fremur munu þau fjárl., sem nú er ætlunin að afgr. fyrir jól með þessum fororðum, reynast ómerkt plagg og aðstandendum þeirra til lítils sóma.