19.10.1977
Efri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

23. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum um almannatryggingar er til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 28. júní á s.l. sumri. Þau voru gefin út í samræmi við ákvörðun ríkisstj. til þess að greiða fyrir samkomulagi um lífeyrismál sem heildarlausn í þeim kjarasamningum sem undirritaðir voru 22. júní, til þess að sú hækkun lífeyrisgreiðslna, sem leiðir af því samkomulagi, valdi yfirleitt ekki lækkun tekjutryggingargreiðslna frá almannatryggingum. Því voru þessi ákvæði sett, að fjárhæð annarra árstekna lífeyrisþega en lífeyris varðandi þetta verði hjá einstaklingi 180 þús. kr. í staðinn fyrir 120 þús. kr. og fyrir hjón 252 þús. í staðinn fyrir 168 þús. kr.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að skýra þetta nánar, það liggur alveg ljóst fyrir. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn.