14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég saknaði þess á sínum tíma að svo mjög snöggt skyldi skorið á umr. um þessi mál, þar sem mér virtist að deildarfundur hefði þann dag gjarnan mátt vera lengri.

Það er e.t.v. óeðlilegt að ræða hér um kjarna þessa máls, sem hlýtur að vera fréttaflutningur, ekki heilbrigði í mataræði, án þess að hér sé inni neinn fulltrúi frá útvarpinu. Samt er það svo, að hér hafa komið fram nokkur atriði sem ég tel rétt að ræða, og þar er m.a. fullyrðing hv. 2. þm. Reykn. þess efnis, að stjórnvöld ýti undir kjötneyslu á kostnað fiskneyslu. Eins og þessum málum er hagað í dag er söluskattur greiddur af kjöti og sú upphæð er ekki fjarri því sem fer í niðurgreiðslu. Aftur á móti er fiskurinn niðurgreiddur um 10–20%, gæti ég trúað. Sú niðurgreiðsla er ekki framkvæmd af ríkisvaldinu, heldur eru það útgerðarmenn og sjómenn sem framkvæma hana beint.

Á sínum tíma bar ég fram þá till., að við skyldum afnema Olíusjóð fiskiskipa. Hann var þá að upphæð á ársgrundvelli um 3 milljarðar. Þegar þetta var sett fram var hann um helmingur af sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem er fengið með tekjum af útflutningi, skattlagningu útflutnings. Það fjármagn er aftur á móti í engu tekið af hinni daglegu neyslu á fiskafurðum hér innanlands. Ef þessi skattlagning yrði lögð niður ætla ég að fiskverð gæti hækkað aliverulega eða nálægt þeirri upphæð sem ég gat um að væri niðurgreiðsla á fiski til innanlandsneyslu hér í dag.

Þetta ætlaði ég samt ekki að gera að aðalatriði máls míns og ekki heldur hvað sé skynsamlegt mataræði, en býst þó við að það verði bið á því, að ég sjálfur leggi það til umr. að tala um kjöt og áfengi í sömu setningu. Ég held aftur á móti að kjarni þessa máls, sem hér er til umr., hljóti að vera fréttaflutningur fjölmiðla.

Þar vil ég geta þess fyrst, að að mínu viti er það grundvallaratriði að við getum fengið ómengaðar fréttir, þ.e.a.s. að við fáum staðreyndirnar og ekkert nema staðreyndirnar, þegar svo á að framkvæma blöndu af staðreyndum og ályktunum verði þess sérstaklega getið að hér sé um fréttaskýringar að ræða, en ekki beinar fréttir. Ég held að flestir séu þannig gerðir að þeir vilji eiga þess einhvern kost að draga ályktanir af umhverfi sínu og vilji eiga þess kost að geta áttað sig á því, hver sé orsök t.d. að verðhækkunum, hver sé ástæðan fyrir þeim, en ekki að þeir fái þetta þannig matað, að það sé kannske einhver einstaklingur sem hafi haft það eins og krossgátu fyrir fréttatímann að reyna að gera sér einhverja hugmynd um það, hver sé ástæðan fyrir þessu eða hinu.

Ég minnist þess, að það var einu sinni gerð kvikmynd um Vestfirði þar sem fréttamaður héðan að sunnan var sendur til að taka kvikmyndir og að fræða landslýð um þetta hrjóstruga land þar vestur frá. Þar vék hann m.a. að litlu sjávarþorpi, Súðavík. Hann gat þess alveg sérstaklega, að þessi staður hefði fengið hlutfallslega sinn skerf úr þjóðarbúinu gegnum fjárveitingar. Var það einhver höll, sem hann rakst á þarna, sem sannfærði hann um þetta? Nei, hann sá aftur á móti að þarna var komin höfn, við innfjörð þar sem hafnarkostnaður er í lágmarki á Íslandi miðað við það að gerð sé höfn við strönd eins og t.d. suðurströndina. Ætli þessi fréttamaður hafi lagt það á sig að reikna það út í prósentum, hverjar fjárveitingar hefðu verið til þessa staðar um eitthvert tímabil og hverjar fjárveitingar væru í prósentum á einstakling úti á landi eða á Íslendinga almennt? Það er engin ástæða til að ætla, að svo hafi verið. Það verk hefði orðið að vinnast af Þjóðhagsstofnun eða Hagstofu. Auðvitað væri fróðlegt að vinna það. Svona gestakafréttamennska eins og þarna kom fram rændi mig öllum áhuganum á þessum þætti, einfaldlega vegna þess að maður á svo erfitt með að sætta sig við að þekkingarleysið sé látið drottna í fjölmiðlum Íslands. Alveg eins og hverjum einstaklingi er það hollt að gera sér grein fyrir því, hvað það er sem hann veit og hvað það er sem hann heldur sig vita, alveg eins held ég að það sé nauðsynlegt að fjölmiðlar fjalli um þessi mál þannig að almenningur fái ómengaðar fréttir, bara staðreyndirnar, og svo mega gjarnan vera fréttaskýringarþættir og sennilega þó frekar um útlend málefni en íslensk.

Ég get ekki stillt mig um það, þegar rætt er um þessa fáfræði sem víða kemur fram og er blandað saman til fróðleiks, að í Háskóla Íslands, að mig minnir á s.l. vetri frekar en veturinn þar á undan, var verið að ræða um sjávarútveg og Már Elísson fiskimálastjóri mun hafa verið kallaður á fundinn til að fræða nemendur. Kennarinn byrjaði á því að spyrja hann að því, hvort hann teldi, að ekki væri of mikið að hafa 5 skuttogara í Súðavík. Már vildi bera á móti því að þeir væru 5. Hann vildi halda því fram, að Ísafjörður og Hnífsdalur væru sérstök sjávarþorp. En það var varla að það fengist viðurkennt sem staðreynd annað en þetta væri bara eitt og hið sama. Ef þetta eru upplýsingarnar sem menn fá þegar verið er að miðla fréttum, hvort sem það er verið að miðla þekkingu innan Háskólans um þetta land og um það líferni, sem hér er, eða ef fréttir verða áfram í svipuðu formi og þær birtast okkur stundum í fjölmiðlum og menn eru forheimskaðir með þeim fréttaflutningi, þá held ég að það sé eins gott að leggja fréttaflutning alveg niður.