15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ætlar hæstv. iðnrh. ekki að vera viðstaddur? Það er að vísu ítrekun og önnur útfærsla á spurningum sem ég þyrfti að leggja fyrir hann. Ég get þá byrjað á þeim hluta ræðu minnar sem ég mun ekki beina fyrst og fremst til hæstv. iðnrh.

Ég vil ítreka það í upphafi máls míns, að ég er þeirrar skoðunar, að Vestfirðingar eigi að fá sinn hluta nú sem áður af verðjöfnunargjaldinu og hann óskertan. En brtt. mín, sem ég ber hér fram, er til komin af þeim sökum, að ég tel að forsendurnar fyrir því að hlutfallið á milli Orkubús og Rafmagnsveitna ríkisins, 20 á móti 80, sé ekki nægilega rökstutt til þess að við kveðum á um slíkt í lögum. Ég hef fullkomna ástæðu til þess að ætla, að hlutfall Vestfirðinga eigi, ef tekið er tillit til orkunotkunarinnar og þarfar.þar af leiðandi, að vera í kringum 20%, en ég sé enga ástæðu til þess að við kveðum á um það í lögum núna beinlínis, vegna þess að með þeim hætti væri Alþ. að leggja blessun sína yfir eignaskipti sem Alþ. hefur alls ekki um fjallað.

Ég vil mótmæla þeirri skoðun hv. formanns iðnn., að skýrsla sú, sem lá fyrir iðnn. þegar fjallað var um frv. um Orkubú Vestfjarða, skýrsla frá framkvæmdastjóra Rafmagnsveitnanna og skrifstofustjóra, hafi ekki haft nein áhrif á störf n. Sannleikurinn er sá, að flestar staðhæfingar þeirra, fyrrv. framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins og skrifstofustjóra hans um þá vá sem Vestfirðingum væri búin af frv., af málinu eins og það var lagt fyrir, — flestar þær fullyrðingar framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra eru staðfestar í samningnum sem hér liggur fyrir okkur sem fskj., og útskriftin er fundargerð ríkisstj. frá 25. okt. þessa árs, vegna þess að í þessari skýrslu var lögð áhersla á það, að ef Vestfirðingar ættu að taka við eignum og skuldum Rafmagnsveitnanna vestra og reka Orkubú Vestfjarða með þeim kvöðum sem þar hlytu að fylgja, ef Orkubúið tæki við sínum hluta af eignum og skuldum, þá væri Vestfirðingum búinn sá fjárhagsbaggi sem þeir mundu ekki risa undir. Þar var sem sagt ekki reiknað með því, að Vestfirðingar mundu njóta þeirra kjara, sem þeim eru ætluð hér, þ.e.a.s. að fá eignir, sem nú munu vera metnar vel yfir 3 milljarða, með því að taka að sér skuld upp á 700 millj. Með því var ekki reiknað þá.

Ég ítreka það, að ég tel mig ekki hafa aðstöðu til þess í sambandi við afgreiðslu frv. um verðjöfnunargjald af raforku að gagnrýna þessi eignaskipti. En ég tel alveg fráleitt að Alþ. staðfesti þau með því að samþykkja hlutföllin 20 á móti 80 nú við umr. um þetta lagafrv. Ég tel alveg fráleitt að Alþ. geri slíkt, heldur er hitt nauðsynlegt, að fjallað verði um þennan eignaskiptasamning alveg sérstaklega. Og ég vil ítreka spurningu, og þá á öllu víðari grundvelli, sem hv. þm. Jón Helgason bar fram til iðnrh. áðan. Hann spurði um það, hvernig brugðist yrði við ef fram kæmi ósk Sunnlendinga um að stofna sitt Orkubú og taka við virkjunum sem væru á Suðurlandi, hvort Sunnlendingar mundu njóta þá sams konar kjara og Vestfirðingar njóta nú um eignayfirtöku. Nú hefur hæstv. ráðh. komið sér hjá því að svara þessari spurningu með því að vitna til óljósrar óskar einhverra aðila um að gerast eignaraðilar að Landsvirkjun. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvað um fyrirhugaða Norðurlandsvirkjun, ef af henni verður, því að varla getur það verið skilyrði að taka upp Orkubúsnafnið? Hvað um fyrirhugaða Norðurlandsvirkjun? Mun hún, ef af verður, njóta þess háttar kjara að fá til eignar orkuver á þessu svæði með þessum hlutföllum 3000 á móti 700 eða 3 milljörðum á móti 700 millj. í skuldayfirtöku? Þetta er ákaflega brýn spurning í raun og veru, ef við ætlum að ganga út frá því, að hér sé gert rétt í þessum eignaskiptum.

Við umr. um frv. um Orkubú Vestfjarða hygg ég að rétt hafi verið, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði, að gerð frv. sem slíks sætti ekki gagnrýni — gerð frv. sem slíks. En ræðumaður eftir ræðumann lagði áherslu á þetta atriði, að hér mætti ekki binda hendur Alþ. og ríkisstj. um stefnuna í skipulagi orkumála annars staðar — það mætti ekki gera. Og m.a.vegna þess að þetta sjónarmið kom mjög greinilega fram af hálfu eins ráðh., sem á sæti í þessari hv. d., Einars Ágústssonar utanrrh., og vegna óttans við að hér yrðu hendur orkumálayfirvalda bundnar, þá var frv. breytt í heimildarlög. Þess vegna stendur í 1. gr.: „Ríkissjóði Íslands og sveitarfélögum á Vestfjörðum skal heimilt að setja á stofn.“ Kostaði talsverð átök að fá þessu breytt í heimildarlög, en það var gert af þessum ástæðum.

Ég fæ nú ekki betur séð en það hafi komið í ljós sem ýmsa uggði, að samþykkt laga um Orkubú Vestfjarða, í þeirri mynd sem þau voru samþykkt, sé tekin að hefta nokkuð för okkar í orkumálum að öðru leyti og sé farin að ráða nokkuð ferðinni. Ég ítreka enn, að ég tel eðlilegt að Vestfirðingar fái sinn hluta af verðjöfnunargjaldi raforku núna, þannig að þeir njóti kjara til jafns við aðra Íslendinga. En ég tel að þetta hlutfall sé hvergi nærri rökstutt.

Samkv. útskriftinni af fundargerð ríkisstj. frá 25. okt., samkv. ljósriti af samningi um Orkubú Vestfjarða, sem fylgir með í þessum skjölum, má ætla að við þessi eignaskipti og skuldayfirtöku, eins og skýrt er kveðið að orði í bókun ríkisstj. að gera þurfi, hafi Orkubúi Vestfjarða verið séð fyrir rekstrargrundvelli. Ég vil fá að vita það, hvort rekstrargrundvöllur Orkubús Vestfjarða samkv. þessum samningi, samkv. þessari bókun ríkisstj., sé slíkur, að Vestfirðingar þurfi ekki á sínum hluta af verðjöfnunargjaldinu að halda. Þetta vil ég fá að vita. Þetta verður að koma fram. Ég vil að Vestfirðingar fái sinn réttláta hlut af verðjöfnunargjaldinu, sem þeir eiga að fá. En ég vil ekki renna blint í sjóinn með það, hvert það hlutfall eigi að vera. Það er ekki nægilega rökstutt. Og ég vil ekki að Alþ. þurfi nú með því að samþykkja þetta hlutfall, lögfesta þetta hlutfall í sambandi við afgreiðslu frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku, — að Alþ. þurfi með því að samþykkja þetta hlutfall að leggja blessun sína umræðulaust á þennan eignaskiptasamning og meðferð málsins eftir að lög um Orkubú Vestfjarða voru samþykkt.

Eitt er það sem ég sakna, hæstv. ráðh., í skjölum sem hér fylgja með. Það eru upplýsingar um það, hvað varð um nýjasta raforkuver á Vestfjörðum, sem er til komið eftir að Jakob Gíslason gerði úttekt sína 1975. Ég sé ekki að yfirtökuskuldir Orkubús Vestfjarða hafi aukist neitt við tilkomu þessa nýja og stærsta orkuvers Vestfjarða. Það er eins og það hafi bara fylgt með. Ég sem sagt óska þess innilega að Alþ. fái tækifæri til að fjalla um þetta eignaskiptamál, alveg sérstaklega, og ég óska eftir upplýsingum um það, hvort Norðurlandsvirkjun séu búin slík kjör sem Vestfirðingum eru fengin hérna — og geta þá Austfirðingar dregið sínar ályktanir af því svari.