15.12.1977
Neðri deild: 31. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

35. mál, alþjóðasamningur um ræðissamband

Utanrrh. Einar Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er komið frá hv. Ed. og hefur hlotið meðmæli þeirrar deildar samhljóða.

Hér er um að ræða heimild fyrir Íslands hönd að gerast aðili að alþjóðasamningi um ræðissamband. Sá samningur var gerður í Vínarborg 24. apríl 1963 og er prentaður sem fskj. með frv. svo og viðbótarbókanir varðandi ríkisborgararétt og skyldubundna lausn deilumála.

Hér er um það að ræða, að árið 1963 boðuðu Sameinuðu þjóðirnar til ráðstefnu í Vínarborg til að ræða um samningsgerð um ræðissamband, en drög að slíkum alþjóðasamningi höfðu þá verið gerð af þjóðréttarnefnd.

Með lögum nr. 16/1971 var ríkisstj. heimilað að gerast aðili fyrir Íslands hönd að Vínarsamningnum um stjórnmálasamband frá 1961, og gekk sá samningur í gildi gagnvart Íslandi hinn 17. júní 1971. Ráðgert var að Ísland gerðist fljótlega einnig aðili að Vínarsamningnum um ræðissamband frá 1963, en staðið hefur á íslenskri þýðingu samningstextans þar til nú, eins og í aths. segir. Hinn 20. apríl á þessu ári höfðu 84 ríki gerst aðilar að þeim samningi.

Talið er að ræðismönnum Íslands sé það í hag, að Ísland gerist aðili að Vínarsamningnum um ræðissamband. Samningurinn hefur að geyma skrásetningu á gildandi reglum alþjóðaréttarins varðaneti ræðismenn, svo sem um störf þeirra, réttindi og skyldur og um stofnun, meðferð og slit ræðissambands.

Með hliðsjón af því, að langflestir ræðiserindrekar Íslands erlendis, raunar allir nema einn, eru kjörræðiserindrekar, þ.e. ólaunaðir ræðismenn, er ráðgert að gefa svo hljóðandi yfirlýsingu þegar Ísland gerist aðili að Vínarsamningnum um ræðissamband:

„Með skírskotun til 22, gr. samningsins lætur ríkisstj. Íslands í ljós þá ósk, að í löndum, þar sem venja hefur verið að leyfa ríkisborgurum viðtökuríkisins eða þriðja ríkis að taka við skipun sem kjörræðiserindrekar fyrir Ísland, verði þeirri venju haldið áfram. Íslenska ríkisstj. lætur einnig í ljós þá von, að önnur ríki, sem taka upp ræðissamband við Ísland, muni fylgja sömu venju og veita samþykki til skipunar kjörræðiserindreka í samræmi við 2. og 3. málsgr. 22. gr. samningsins.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til lengri framsögu og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.