15.12.1977
Neðri deild: 31. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

47. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Það hefur oft borið á góma í sambandi við breytingar á almannatryggingalögunum að taka aukinn þátt í ferðakostnaði samlagsmanns til sjúkrahúss eða sambærilegrar stofnunar vegna fyrirmæla læknis um eftirmeðferð. Er hér um ákaflega erfitt mál að ræða í framkvæmd. Það hefur oft strandað á því, hvernig eigi að túlka slík ferðalög. Það er í fyrsta lagi að ferðakostnaður sjúklinga, sem þurfa að fara til útlanda, er greiddur samkv. núgildandi löggjöf, og jafnsjálfsagt og eðlilegt að sá ferðakostnaður sé greiddur frá heimastað viðkomandi sjúklings, ef hann kemur utan af landi. Hins vegar eru almannatryggingalögin í endurskoðun og hafa verið það nú hátt á annað ár og er sú endurskoðun nokkuð langt á veg komin eða hluti hennar, þannig að nú er í prentun almannatryggingafrv, varðandi slysatryggingarnar, og eftir því sem formaður n. hefur nýlega tjáð mér mun verða lagt fram í vetur, ef engar óvæntar tafir verða, frv. um breytingar á þeim kafla sem fjallar um sjúkratryggingar. Hins vegar verður ekki lögð fram breyting á lífeyristryggingunum vegna þeirrar umfangsmiklu endurskoðunar sem á sér stað varðandi lífeyrissjóðina almennt og þar kemur hin svokallaða stóra lífeyrissjóðsnefnd inn í, og því þótti rétt að leysa þessa n., sem fjallar um almannatryggingar, undan því að endurskoða lífeyristryggingarnar um sama leyti og þessi heildarendurskoðun fer fram.

Það ákvæði, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hefur verið til umfjöllunar og umr, í þessari n. Ég veit ekki hver verður endanleg niðurstaða n. hvað þetta snertir, en þetta er mjög vandmeðfarið. Það er til að öll slík leyfi, öll slík réttindi eru misnotuð, og þarf að reyna að koma í veg fyrir það, alveg eins og það þarf að sýna fyllstu sanngirni því fólki sem þarf í raun og veru að leita læknis um langan veg. Enn fremur verður veruleg breyting í þjóðfélaginu hvað þetta snertir með tilkomu heilsugæslustöðvanna og þá um leið verður þar í ríkum mæli aukin sérfræðiþjónusta. Allt þarf þetta mjög vandlegrar íhugunar við. Ég vil ljúka þessum orðum með því að segja, að efni þessa frv. út af fyrir sig er eftirtektarvert, og það er mjög eðlilegt að þessi mál séu afgreidd eftir mjög gaumgæfilega athugun. Ég vonast til að einhver till. um þau komi frá n. sem mun skila áliti, eins og ég sagði í upphafi, eftir að þing kemur saman úr jólafríi. Þá vænti ég þess, að frv. um þessi efni eða sjúkratryggingarnar verði lagt fram.