16.12.1977
Efri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt öðrum þm. Alþb. í Ed. till. til þál. á þskj. 115 um nýtt skipulag á verðlagsmálum landbúnaðarins. Þessi till. var lögð fram í okt. síðla, en ekki hefur verið hægt að mæla fram með henni, fyrst og fremst sökum anna hér í þinginu og einnig af því að skjöl, sem ég hafði beðið um hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins á annatíma þar, fengust ekki fyrr en liðið var fram á annatíma Alþingis. Till. okkar Helga F. Seljans, Geirs Gunnarssonar og Ragnar Arnalds, hv. alþm., hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta undirbúa frv. um breyt. á I. nr. 101 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl., er miði að því að Stéttarsamband bænda semji milliliðalaust við ríkisstj. a.m.k. til eins árs í senn um verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara og heildsöluverð þeirra og önnur mál er varða réttindi og kjör bænda.

Gert skal ráð fyrir því, að bændur hafi óskoraðan samningsrétt um málefni sín til jafns við aðrar stéttir.

Frv. þetta skal lagt fyrir Alþ. eigi síðar en í febrúarlok n.k. svo tími gefist til að afgreiða það fyrir þinglok.“

Ég vil lesa grg. sem fylgir þessari till. til þál.:

„Fyrirkomulag það, sem nú gildir um verðlagningu búvöru, hefur þegar fyrir löngu gengið sér til húðar. Sex manna nefndin, er tryggja skyldi umfjöllun framleiðenda og neytenda um sameiginleg hagsmunamál, er ekki lengur skynsamlegur umfjöllunaraðili þar eð fulltrúar neytenda í n. eru orðnir umboðslausir. Gerðardómurinn hefur í raun reynst skálkaskjól ríkisvaldsins með þeim afleiðingum að bændastéttin má una skertum launum frá því sem kveðið er á um í lögum svo að nú munar ríflega fimmtungi frá þeim launum sem tilgreindar viðmiðunarstéttir njóta.“

Það skal tekið fram, að komið hefur í ljós við umfjöllun um þessi mál nú síðustu vikurnar, að munurinn er enn þá meiri, þannig að láta mun nærri að þriðjung vanti upp á að bændur hafi laun viðmiðunarstéttanna. — Svo að ég haldi áfram að lesa upp úr grg.:

„Efalaust er, að ríkisvaldið er eini aðilinn, sem bændur geta samið við um verðlagsmál framleiðsluvöru sinnar og önnur kjaramál. Verðlagningarkerfi það, sem nú er stuðst við, hefur leitt til þess að landbúnaðarframleiðslan, sölumálin og þar með kjaramál bænda í heild hafa lent í vítahring í efnahagskerfinu, og er nú svo komið, að fulltrúar bænda sjálfra virðast vera farnir að trúa því, að offramleiðsla sé helsta vandamál stéttarinnar. Hið sanna í málinu er hins vegar að framleiðsla búvöru hefur ekki aukist síðustu árin, þótt slíkt hefði raunar verið eðlilegt þegar tekið er tillit til fólksfjölgunar. Aftur á móti hefur verðlagning búvöru með skertum niðurgreiðslum, ásamt sveiflum í kaupmætti, valdið því að kaupgeta launastéttanna hefur orkað á neyslu búvöru innanlands. Tvísvar hefur það gerst á þessu tímabili, hið fyrra sinnið í samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., hið síðara sinnið nú í samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., að kaupmáttur launastéttanna hefur verið skertur svo, samtímis því sem verðlag á búvöru hefur verið hækkað, að fólk hefur orðið að spara við sig neyslu þessarar hollu fæðu. Afleiðingin hefur orðið sú, að fyrir hafa safnast birgðir af landbúnaðarafurðum. Reynslan hefur sýnt, að þegar kaupgeta fólks er sæmileg samtímis því sem verðlagi búvöru er haldið í eðlilegu horfi, hefur markaðurinn innanlands reynst meira en nógur fyrir framleiðsluvörur bænda. — Af þessum sökum má telja augljóst, að alls ekki sé ástæða til þess að hvetja bændur til að draga úr framleiðslu sinni, heldur brýn nauðsyn til að koma verðlagsmálum landbúnaðarins í eðlilegt samhengi við kaupgetu alþýðu. Liggur þá beint við að hugleiða hvort ekki sé betur varið því fé, sem nú rennur til útflutningsbóta á búvöru, með því að auka niðurgreiðslur vörunnar innanlands og auðvelda landsmönnum þannig framfærslu samtímis því sem vandamál útflutnings yrðu leyst. Eðlilegt er að reikna með nokkurri umframframleiðslu búvöru í góðæri og má því búast við að jafnan þurfi að grípa til útflutningsuppbóta öðru hverju. Þyrfti þá að koma málunum fyrir á þá lund, að miðað verði við ákveðna hlutfallstölu — 10–15% — af verði hlutaðeigandi framleiðsluvöru á viðkomandi verðlagsári, fremur en við heildarframleiðslu búvöru.

Að dómi flm. er varla ástæða til að ætla að samningar geti ekki tekist milli Stéttarsambands bænda og ríkisvaldsins um kjaramálin. Fari hins vegar svo að samkomulag takist ekki, verður að ætta bændum sama rétt og öðrum stéttum til þess að knýja á um kjör sín.

Að endingu leggja flm. megináherslu á það, að fulltrúar stéttarsamtaka bænda þurfi að taka ríkara tillit, framvegis en hingað til, til þess órjúfanlega samhengis, sem hlýtur að verða milli kaupgetu launastéttanna yfirleitt og hagsmuna bændastéttarinnar, og telja að erindrekum bænda sé nú sæmra að rýna eftir póltískum orsökum þeirra þrenginga, sem bændastéttin á nú í, heldur en telja kjark úr bændum í kjarabaráttunni með því að velta yfir á þeirra herðar ábyrgð á rangri ríkisstjórnarstefnu.“

Ég hef látið gera athugun á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins á samhenginu, sem er á milli verðlags og kaupgetu annars vegar og neyslu á dilkakjöti og öðrum landbúnaðarafurðum hins vegar, til stuðnings þeirri staðhæfingu að þarna sé að því er virðist órjúfandi samband, þó að fleiri atriði kunni að grípa inn í jafnframt. Vil ég lesa hér upp lauslegt yfirlit um neyslu á kindakjöti á landi hér frá því 1967, þ.e.a.s. árinu fyrir samdráttinn sem varð í kaupgjalds- og kjaramálum almennings á landi hér vegna verðfallsins mikla á fiskmörkuðum okkar vestanhafs.

Árið 1967 var kindakjötsneysla á íbúa hér á landi 48.5 kg. Árið 1963, er samdrátturinn varð, hrapaði hún niður í 39.9 kg og enn meira árið 1969 í framhaldi af efnahagsþrengingunum og kjaraskerðingunum ofan í 36.4 kg. Árið 1970, er heldur fór að lifna á dalnum í kaupgetumálum alþýðu, fór neyslan aftur að aukast og varð 38.9 kg á mann. 1971, þegar vinstri stjórnin tók við um vorið og þegar tók að rýmkast um hag alþýðu hvað launakjör snerti, hækkaði neyslan á kindakjöti upp í 46.7 kg á mann. 1972 — og kem ég hér að því sem ég drap lauslega á áðan, að enda þótt kaupgetan og verðlagið valdi mestu, þá spila hér inn í aðrir þættir. — 1972 var neyslan 44 kg á mann. 1973, þegar enn fremur hafði gætt hinnar nýju stefnu í tíð vinstri stjórnarinnar í kjaramálum, var neyslan 46.4 kg á mann. 1974, þegar hagur almennings var hvað rýmstur jafnframt því sem haldið var niðri verðlagi á landbúnaðarafurðum, komst neyslan á kindakjöti upp í 49.2 kg á mann. 1975 var neyslan 46.6 kg á mann.

Í riti Rannsóknaráðs ríkisins um þróun landbúnaðarins, yfirlit yfir stöðu íslensks landbúnaðar og spá um þróun fram til 1985 er að finna niðurstöður af athugunum á áhrifum kaupgjalds og verðlags á sölu landbúnaðarafurða hér á landi og reiknað í 5 ára tímabilum. Er þá vert vegna þess samdráttar, sem nú hefur orðið í sölu á smjöri, að athuga hvað gerist á tímabilinu frá 1960–7975, á þessum 5 ára tímabilum.

Árin 1960–1964 varð neyslan 7.1 kg á mann, 1965–1969 varð hún 7.3 kg á mann, 1970–1974 7.7 kg á mann, en lækkaði þegar árið 1975 niður í 6.9 kg á mann.

Hér getur einnig að finna úttekt á neyslu kindakjöts á hverju 5 ára tímabili eftir 1960: Árin 1960–1964 var neyslan 49.5 kg á íbúa, 1965–1969 var hún 43.2 kg, árin 1970–1974 varð hún 45 kg á mann og 1975 varð hún 46.6 kg á íbúa.

Hér hafa farið fram fyrir skemmstu í deildinni umr. um áhrif fjölmiðla á neyslu búvöru, um þann áróður, sem haldið hefur verið uppi gegn búfjárafurðum, og þó e.t.v. fyrst og fremst um þann áróður sem haldið hefur verið uppi gegn bændastéttinni í heild, bæði leynt og ljóst, og að því vikið með hvaða hætti þessi áróður hefur þrengt sér inn í ríkisfjölmiðlana. Ég er efalaus um það, að skilningsleysið á stöðu landbúnaðarins, skilningsleysið á kjörum bænda, hinn almenni skilningsskortur hefur valdið miklu um þau blaðaskrif sem átt hafa sér stað gegn bændastéttinni, og vafalaust hefur þessi skilningsskortur haft sín áhrif á túlkun á málefnum bænda í ríkisfjölmiðlunum. Vegna þess að einn hv. þm. hér í d. vakti athygli mína á því, að vera kynni að ummæli mín kynnu að misskiljast, sem ég viðhafði um fréttaflutning í ríkisfjölmiðlunum er þau mál voru til umr. hér um kvöldið, þá vil ég aðeins taka fram þessi atriði, taka af allan vafa um það að ég hafi sveigt að fréttastjórum deilda Ríkisútvarpsins í þessu sambandi er ég ræddi um verkstjórn – skort á verkstjórn. Þá vil ég vekja athygli á þessum atriðum:

Yfirleitt berast tilkynningar frá verðlagsráði landbúnaðarins um breytingar á verðlagi á búvörum síðdegis. Svo hefur verið í flest skipti sem ég minnist frá störfum mínum á fréttastofu útvarpsins. Þar er greint frá hinum nöktustu staðreyndum varðandi búvöruverðbreytinguna, en yfirleitt ekki frá því í með hvaða hætti þessar breytingar eru reiknaðar út. Gjarnan hafa þessar tilkynningar borist þegar annir eru mestar undir aðalfréttatíma kvöldsins, sem nú er kl. 7, og starfsliði þannig háttað, að þá er ógjarnan hægt að fela sérstökum manni að ganga frá öðrum störfum, sem þegar eru aðkallandi fyrir fréttatíma, og helga sig eingöngu því að grafa upplýsingarnar um það, með hvaða hætti þessi breyting á verði búvörunnar er reiknuð út. Oft hefur það komið fyrir, að fréttatilkynningin hefur borist eftir að skrifstofutíma er lokið og óhægt er um vik að ná tali af þeim mönnum sem útskýrt gætu breytingarnar á hlutlægan hátt. Verkstjórnaratriðið, sem lýtur að því að gæta þess að sagt verði á hlutlægan hátt, þ.e.a.s. óhlutdrægan hátt, frá þeim atriðum í verðlagsbreytingunni sem lúta að kjörum bænda, sem lúta beint að kjörum bænda, felst fyrst og fremst í því, að hinn eiginlegi þingkjörni vörður um fréttaframkvæmd á lögum og reglum um rekstur Ríkisútvarpsins, þ. á m. óhlutdrægnina, þ.e.a.s. útvarpsráð, sjái til þess í fyrsta lagi að fréttastofur Ríkisútvarpsins sé þann veg menntar, að þetta starf verði unnið, og í öðru lagi að gæta þess, að vakandi sé sá skilningur á kjörum stéttanna og hagsmunahópanna, einstaklinganna og annarra aðila, sem nauðsynlegur er til þess að óhlutdrægni sé gætt.

Eins og hv. þm. má vera í fersku minni, var það eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj., er hún settist að völdum, að breyta lögum um Ríkisútvarpið á þá lund að gera henni kleift að skipta um útvarpsráð. Það var eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstj., er hún kom til valda, að breyta lögum um Ríkisútvarpið á þá lund, að hún gæti skipt um meiri hl. í útvarpsráði. Þessi lagabreyting var samþykkt, og það var kosið að nýju í útvarpsráð, nýir menn, nýr meiri hl. kjörinn, og það er þessi nýi meiri hl. í útvarpsráði undir hinni nýju forustu Þórarins Þórarinssonar og Ellerts Schram, sem ber ábyrgð á gæslu og óhlutdrægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins einmitt um þessar mundir og á þessum missirum þegar kvartað hefur verið hvað sárast hér um hlutdræga afstöðu ríkisfjölmiðlanna til málefna bænda.

Ég get tekið undir þau ummæli, sem fram komu hjá hv. þm. Inga Tryggvasyni í lokaræðu hans um utandagskrármálið, þegar fjallað var um meðferð á málefnum bænda í fréttatíma útvarpsins, þar sem hann lét í ljós þá skoðun sína að e.t.v, væri Alþ. of afskiptalítið um málefni ýmissa stofnana sinna, ekki bara Ríkisútvarpsins, heldur ýmissa annarra stofnana sinna og ætlaði milligöngumönnum að gæta þar síns hluta. Undir þetta sjónarmið hv. þm. Inga Tryggvasonar get ég tekið. Ég hygg að það sé mjög æskilegt, að Alþ. sem slíkt og einstakir alþm. láti opinberlega á réttum vettvangi í ljós skoðanir sínar á því, hvernig til tekst um rekstur þessara stofnana, og er Ríkisútvarpið þar ekki undanskilið.

Ég tel eðlilegt að alþm. ræði þessi atriði við ráðh. útvarpsmála, þar sem er hæstv. menntmrh., og óski þess af honum sérstaklega, þar sem Ríkisútvarpið heyrir undir hans rn., að hann láti þau mál til sín taka. Þetta tel ég eðlilegt og æskilegt. En á hitt vil ég minna, að svo hefur það gjarnan orðið þessi rúm 30 ár, sem ég hef fylgst allnáið með rekstri Ríkisútvarpsins, og þar af þan 25 ár, sem ég var beinlínis starfandi hjá þeirri góðu stofnun, — svo hefur það gjarnan viljað verða, að krafa hins pólitíska valds um óhlutlægni af hálfu Ríkisútvarpsins hefur í reynd orðið krafa um nýja hlutdrægni. Svo hefur þetta gjarnan viljað fara, og ég held því ekki fram að ég kunni ráð við því. Við hljótum að ætla yfirstjórn Ríkisútvarpsins ákveðið afl, siðferðilegt afl til þess að standa gegn utan að komandi kröfum um hlutdrægni, jafnframt því sem við verðum að ætla yfirstjórn Ríkisútvarpsins þann heiðarleika og dug sem þarf til þess að framfylgja settum lögum .og reglum um rekstur stofnunarinnar.

Ég lít ekki svo á, að hv. þm. Ingi Tryggvason og Stefán Valgeirsson, sem vöktu þetta mál utan dagskrár í báðum þd. hér á hv. Alþ., hafi verið að koma á framfæri neins konar þrýstingi eða fyrir þeim hafi vakað að hafa neins konar óeðlileg áhrif á rekstur stofnunarinnar eða fréttaflutning, heldur þótti mér þeir aðeins vera að vekja athygli á misbresti, sem þar varð, og höguðu málflutningi sínum þannig, að ég tel, að Ríkisútvarpið megi þar vel við una eðlilega gagnrýni, og vona, að viðbrögðin við þeirri eðlilegu gagnrýni verði jafnframt með eðlilegum hætti.

Hitt er annað mál, að ég tel að það blasi við okkur, að ástæðan fyrir samdrætti í neyslu á landbúnaðarafurðum, sú sem orðið hefur nú, sú sem orðið hefur áður, á þeim stjórnartímum þegar dregið hefur verið úr niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum samtímis því sem launakjör í landinu hafa verið skert, — ástæðan fyrir þessum samdrætti sé beinlínis efnahagslegs eðlis að langmestu leyti. Það mun láta nærri, að dilkakjötsframleiðslan í ár mundi nægja landsmönnum til innanlandsneyslu, ef hver 5 manna fjölskylda í landinu neytti dilkakjöts þrjá daga í viku og ætlaði rösk 300 g af kjöti á mann til neyslunnar og eru þá beinin meðtalin. Ég tel að hér sé alls ekki ofætlað, mér finnst það ekki mikil kjötneysla á heimili. En hitt er annað mál, að enn þá, þrátt fyrir launahækkanirnar sem urðu í síðustu kjarasamningum, mun nokkuð á það skorta að þær fjölskyldur, sem minnstu hafa úr að spila, hafi efni á því að bjóða börnunum sínum, bjóða fólkinu sínu þó þetta lítið kjöt þrisvar sinnum í viku.

Ég las fyrir hálfum mánuði blaðagrein eftir einn af forsvarsmönnum iðnverkafólks, sem láta mun nærri að hafi í mánaðarlaun á mann í kringum 100 þús, kr., hið lægst launaða verkafólk á Íslandi, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni, að nú væri, guði sé lof, þannig komið kjaramálum Íslendinga, að þeir þyrftu ekki á því að halda, þeir væru ekki neyddir til þess að borða þann mat. Ég hlýt að taka það fram, að ég undraðist það stórum að þessi ágæti maður skyldi reikna með því, að umbjóðendur hans með um það bil 100 þús. kr. mánaðarlaun hefðu efni á því að kaupa nægju sína af dýrari eða betri mat heldur en dilkakjöti.

Ég vék lítillega áðan að breytingunum á smjörverði með tilliti til neyslu, samtímis því sem ég las upp nokkrar tölur varðandi breytingar á neyslu í tengslum við verð á dilkakjöti og kaupgetu. Þegar farið er í gegnum skýrslurnar um neyslu mjólkur á þessu sama tímabili kemur í ljós, að sveiflurnar í neyslu nýmjólkur verða ekki jafnmiklar á þessum tímabilum og í neyslu á kjöti, og að því er fróðir menn, sem um þessi mál hafa fjallað, tjá mér er orsökin sú, að verðlagi á mjólk hefur verið haldið það vel niðri allan þennan tíma, að hún hefur undantekningarlítið verið ódýrasti eggjahvítugjafinn sem fólkið hefur átt kost á.

Þar sem vikið er í grg. með till. þessari að hættunni á því, að bændur séu sjálfir farnir að trúa því að eitt helsta vandamál þeirra í sambandi við búskapinn núna og afkomuna sé offramleiðsla, skal þess getið, að fulltrúar bænda ýmsir, — ég vil taka fram í því sambandi að hér er ekki sveigt að hv. þm. Inga Tryggvasyni, — en fulltrúar bænda ýmsir hafa haldið því fram í erindrekstri sínum er þeir hafa verið að tjá vandamál landbúnaðarins fyrir bændasamtökunum, bændum úti um land, að eitt af vandamálunum væri offramleiðsla, þrátt fyrir að við okkur blasi að landbúnaðarframleiðslan hefur ekki aukist síðustu 10 árin í hlutfalli við aukningu íbúatölu, þrátt fyrir það að liggi á borðinu fyrir framan okkur að þegar kaupgeta almennings hefur verið sæmileg, samtímis því sem þess hefur verið gætt að halda verði landbúnaðarafurða nokkuð eðlilega niðri, þá hefur landbúnaðurinn ekki gert öllu betur í meðalári en halda í við eftirspurnina. Aftur á móti þegar landbúnaðarafurðir hafa verið látnar hækka óeðlilega mikið með því að skerða niðurgreiðslurnar samtímis því sem hert hefur verið að almenningi og raunverulegar neyslutekjur almennings skertar, þá hafa menn af eðlilegum ástæðum farið að spara þessi matvæli við sig.

Í grg, er víkið að þeim möguleika að verja fremur því fé, sem nú er ætlað til útflutningsuppbóta, til þess að greiða niður verðið á landbúnaðarafurðunum innanlands, til þess að bæta kjör almennings í landinu samtímis því sem stuðlað er að lausn á vandamálum útflutningsins. Það er að vísu ljóst, að útflutningsuppbæturnar mundu ekki, þótt þær yrðu notaðar til niðurgreiðslu innanlands, leysa allan vanda í þessu sambandi, til þess þarf meira fé. En þá yrði þessu fé þó varið í fyrsta lagi til þess að lækka verð á búvörunni á markaði innanlands, í öðru lagi til þess að lækka dýrtíð í landinu, til þess að snúast á jákvæðan hátt við verðbólguvanda innanlands í staðinn fyrir að nú verka þessar greiðslur raunverulega öfugt. Í þessari þáltill. er farið mjög inn á þær brautir sem bændur og bændasamtökin hafa lagt til á liðnum mánuðum, liðnum vikum, að farið yrði inn á í sambandi við verðlagsmálin, að hafnir verði beinir samningar stéttarsamtaka bænda við ríkisvaldið, ekki bara um, verðlagsmál landbúnaðarins, heldur um kjaramál bænda yfirleitt. Þetta að bændur taki upp beina samninga og milliliðalausa við ríkisvaldið, er gamalt stefnumál Alþb. Hér er ekki verið að víta á neinn hátt það kerfi sem notað hefur verið fram að þessu.

Aðferðin í sambandi við verðlagsmál landbúnaðarins fyrir tilstuðlan sex manna nefndarinnar var á sínum tíma mjög góð. Eftir að sá háttur var upp tekinn var ekki eins auðvelt og áður var að etja saman framleiðendum og neytendum þegar að því kom að semja um verðlag á búvörum. Í upphafi, fyrir tilstuðlan sex manna nefndarinnar, tókst einmitt að efla þann skilning milli bændastéttarinnar og fulltrúa launþegar að verð á landbúnaðarafurðum hlýtur, ef vel á að vera, að tengjast launakjörum neytenda, launakjörum í landinu yfirleitt. Einmitt með þessari aðferð við verðlagninguna tókst að efla betur en áður hafði verið þann skilning, að kjör bændastéttarinnar eru nátengd kjörum launastéttanna í landinu. En þetta kerfi er orðið 30 ára gamalt og grundvöllurinn fyrir því er brostinn að því leyti til, að þeir fulltrúar, sem nú eru kallaðir fulltrúar neytenda í sex manna nefndinni, eru ekki til þess kjörnir af hálfu launasamtakanna að fara með slíkt umboð í sex manna nefndinni. Síðan hefur til komið gerðardómurinn og afleiðingin hefur orðið sú, að yfir á oddamann í gerðardómi hefur verið veit hinni endanlegu ákvörðun hverju sinni um hið endanlega verð. Er nú svo komið að þriðjungi munar að bændur hafi í sinn hlut hinna svokölluðu viðmiðunarstétta. Hér hefur hallað ár frá ári á ógæfuhliðina, þótt verst sé þetta ástand orðíð núna. Og þannig er nú um hnúana búið í sambandi við kjaramál bænda, að þeir eru í vitahring, og eftir þeim reglum, sem nú er starfað, eftir því kerfi, sem nú er viðhaft, virðist vera ógerlegt fyrir þá að ná launum viðmiðunarstéttanna. Lengdur vinnudagur dugar ekki til, aukin framleiðsla nægir ekki til að þeir geti náð þessum kjörum. Eina sýnilega leiðin virðist vera sú, að bændur efli stéttarsamtök sín og hefji síðan í krafti þeirra samninga við ríkisvaldið, ekki bara um verðlagsmálin sem slík, heldur um kjaramál sín yfirleitt, þannig að jöfnuði verði náð. Það þarf að tryggja það að bændur nái kjörum viðmiðunarstéttanna. Það verður ekki gert með því að telja úr þeim kjarkinn og segja: Nú skuluð þið, góðir vinir, reyna að bæta kjör ykkar og hag landbúnaðarins með því að draga úr framleiðslu. — Það er ekki hægt að segja slíkt við íslenska bændur þegar það er ljóst, að ef sæmilega væri búið að launastéttunum í landinu um kjör og verðlagsmálum bænda haldið í eðlilegu horfi, þá mundi framleiðsla bænda nú ekki gera betur en svo að nægja handa landsfólkinu til framfæris, til neyslu.

Jú, hv. þm. Ingi Tryggvason vakti athygli á þessu í gær, hversu mjög mundi nú á það skorta, eins og horfði, að mjólkurafurðir seldust upp innanlands. Við hljótum að reikna með því, að í meðalári verði ætíð nokkur umframframleiðsla af mjólk og kjöti í landinu. Við hljótum að miða við það, að í góðæri verði hún töluverð, til þess að mæta þörfinni fyrir landbúnaðarafurðir í slöku meðalári og í slæmum árum. Við verðum að tryggja það, að á landi hér verði framleitt nóg af kjöti og mjólk handa þessari blessuðu þjóð til næringar.

Ég vil ekki í þessari framsöguræðu minni með þáltill. um nýtt skipulag á verðlagsmálum landbúnaðarins fara út í það að gera grein fyrir þeim hlutverkum sem íslenskra bænda bíða í sambandi við fjölbreyttari framleiðslu og aukna framleiðslu frá því sem nú er á ýmsum sviðum. Það verður að bíða betri tíma. En á hitt vil ég leggja áherslu, að nú er fremur þörf að stappa stáli í bændastéttina, að hún láti nú ekki deigan síga og telji sér trú um það, að hún sé orðin baggi á þjóðinni, telji sér trú um það, að ástæðan fyrir því, að neysla á dilkakjöti dregst saman eða kjör launafólks eru rýrð, samtímis því sem verðlag á dilkakjöti er hækkað með opinberum aðgerðum, sé sú, að þeir framleiði of mikið, — og sama gildir um mjólkurvörurnar, að bændur láti erindreka sína, sem jafnframi eru forsvarar núv. hæstv. ríkisstj., telja sér trú um það að ástæðan fyrir því að dregur úr smjörsölu, þegar verð á smjöri er stórhækkað samtímis því sem kaupgeta launastéttanna er rýrð, sé sú, að þeir framleiði of mikið af smjöri. Nú er þörf á því að brýna það umfram alla hluti fyrir bændum, hversu hagsmunir þeirra og hagsmunir launastéttanna eru samantvinnaðir, hvílík höfuðnauðsyn það er að bændastéttin gangi til liðs við verkamenn og aðrar deildir launþegasamtakanna um að aflétta af þessari blessuðu þjóð, sem vill borða dilkakjöt, af því að það er gott og hollt, og vill borða smjör ofan á brauðið sitt, af því að það er gott og hollt, vill miklu heldur nota smjör ofan á brauðið sitt heldur en Sólblóma, m.a.vegna þess að sannað má kalla að smjörlíki getur verið krabbameinsvaldur, — það er höfuðnauðsyn að bændastéttin gangi til liðs við launastéttirnar í þeirri baráttu sem fram undan er til þess að létta af landsfólkinu þeirri eymdarstjórn sem komið hefur kjaramálum bænda í það óskaplega horf sem þau eru í nú. Og til þess að slíkt samstarf geti tekist á milli bændastéttarinnar og launafólksins, sem við skulum kalla neytendur landbúnaðarafurða í þessu tilfetli, þá má helst ekki mistúlka fyrir hændum af opinberri hálfu ástæðurnar fyrir því, að nú hafa safnast saman í landinu birgðir af búvörum.