16.12.1977
Efri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þáltill. á þskj. 115 verð ég að segja hv. 5. þm. Norðurl. e., að ég er ekki eins flinkur í orðaútskýringum og hann og á því nokkuð erfitt með að átta mig á hvað hv. þm. er að fara, þegar hann sagði í þingræðu sinni um fréttaflutning fjölmiðla, að þar bæri fréttamanninum að gæta þess fyrst og fremst að hafa heimildirnar í lagi og svo að verkstjórnin væri í lagi. Þetta taldi ég míg skilja, að heimild og verkstjórn ætti að vera í lagi. En ég leit svo á verkstjórn, að í þessu tilfeili væru það þeir, sem stjórnuðu fréttastofnunum, sem væru verkstjórnarmenn, en ekki útvarpsráð, nema kæmi þá til sérstakrar úrskurðunar eða kæru eða þess háttar frá hendi þeirra sem um hefðu fjallað. Ef þessi skilningur minn er á annan veg en mér virtist vera hjá hv. þm., þá gengur okkur víst erfiðlega að ná saman í þeim efnum. Og ég mundi ekki mæla með því, að útvarpsráð yrði dómandi eða stjórnandi undirmanna í útvarpinu, hversu gott sem útvarpsráðið kynni að vera. Þess vegna held ég að þarna verði að halda sig við skýringu hans í fyrra tilfellinu, að heimildirnar og verkstjórnin eigi að vera í lagi og fréttamaðurinn eigi að haga sér í samræmi við það.

Ég hefði haft hina mestu löngun til, áður en ég viki að þáltill. þeirri sem hv. 5. þm. Norðurl. e. og fleiri flytja, að gefa nokkrar skýringar á atriðum sem hv. þm. Jón Ármann spurði hér um í umr. í fyrrakvöld, en kann nú ekki við að gefa honum þær, þar sem hann er ekki í hv. d., og geymi mér það e.t.v. þar til síðar í því sem ég kann að segja, því að hann flutti ákveðnar spurningar. Ég vil ekki fara að lengja umr, með því að svara þessu nú.

Þarna kemur hv. þm. Jón Ármann, og mig langar til að gefa honum nokkrar upplýsingar út of kurteislegum spurningum, hv. 1. landsk., sem hann bar hér fram í fyrrakvöld. Það var út af því, við hvaða kjör þeir þyrftu að búa sem nú gerðust bændur, en hefðu ekki verið það áður.

Það mun jafnan hafa verið svo í landbúnaði og ég minnist þess frá því ég hóf búskap, að þá var allerfitt að hefja búskap og var ég þó leiguliði á jörð og þurfti ekki að kaupa jörðina. Þetta er enn þá erfiðara fyrir þann sem kaupir jörðina. Það, sem hefur verið gert á síðustu árum til þess að reyna að létta undir með þessu fólki, mér er fullkomlega ljóst, að það nægir ekki, eins og það nægir ekki heldur í öðrum atvinnugreinum, þegar út í slíka stofnun er farið, ef hlutaðeigandi á ekkert eigið fjármagn. Árið 1972 voru lánaðar 200 þús. úr veðdeild Búnaðarbanka Íslands til þess að kaupa jörð. Nú er þessi fjárhæð orðin 2 millj. kr. Ég vonast til að það verði hægt að ljúka því að afgreiða þau lán, sem sótt hefur verið um á þessu ári, og það verði gert nú fyrir áramótin.

Í öðru lagi hefur á þessu sama tímabili verið tekið upp að lána frumbýlingum bústofnslán. Það er til þess að kaupa búið og er þá miðað við hálft vísitölubú. Þetta var ekki fyrir þann tíma og hefur að sjálfsögðu létt undir með þeim sem kaupa áttu, þó að ég viti að ekki síst vegna verðlagsbreytinga hefur þetta reynst nógu erfitt þrátt fyrir þessa aðstoð. Þá hefur og á þessum tíma — og var það komið áður — verið lánað til þess að tæknivæða landbúnaðinn, t.d. heimilisdráttarvélar og þess háttar, sem hefur jafnan haft forgang þegar fjár hefur verið vant úr Stofnlánadeild landbúnaðarins, en í flestum árum hefur verið reynt að leysa úr því. En þetta, þótt gert hafi verið, hefur og gert það að verkum vegna verðbreytinganna, að fjármagnskostnaðurinn hefur orðið mikill, —- og það er eitt af þeim atriðum sem deilt er um nú í sambandi við verðlagningu á landbúnaðarvörum og deilt er um nú í sambandi við þann dóm sem nú er nýlega upp kveðinn þar að lútandi, — að það sé ekki nógu mikið tillit tekið til fjármagnskostnaðarins, ekki síst þegar á það er að líta að fjármagnskostnaðurinn í landbúnaði hefur eins og í öðrum þáttum okkar þjóðfélags vaxið mjög á síðustu árum, þar sem við höfum m.a.orðið að fá erlend lán til þess að lána í gegnum stofnlánadeildina eða verðtryggð innlend lán. Þetta hvort tveggja hefur haft geysilega mikið að segja í sambandi við fjármagnskostnaðinn og gerir það að verkum, að hann hefur ekki náð í gegnum verðlagið eins og raunverulega þarf að vera til þess að hægt sé að stofna til landbúnaðar og annarrar atvinnugreinar með lánum. Til þess þarf framleiðslan að geta borið fjármagnskostnaðinn.

Þessu til viðbótar er svo það, að á yfirstandandi ári hefur dregið úr sölunni. Að vísu hefur það ekki verið fyrr og ég kem að því síðar. En þetta hefur gert það að verkum, að þeir, sem byrja búskap núna, hafa auðvitað miklu verri aðstöðu heldur en þeir sem hafa byrjað búskap fyrir áratugum, vegna þess að þeirra fjármagnskostnaður er margfalt minni. Og svo hefur, eins og ég sagði áðan, tækni komið þarna til. Menn búa nú við rafmagn, þeir verða að greiða heimtaugagjöld og annað eftir því og yfirleitt er nú farið að nota blásara við heyþurrkun, þetta var óþekkt hér áður fyrr, svo að rekstrarkostnaður í landbúnaði hefur eins og annað í okkar þjóðfélagi orðið miklu meiri en áður. Hins vegar hefur þessi tækni dregið úr vinnuaflinu, svo að það þarf færri hendur nú til framleiðslunnar heldur en áður var, og auðvitað á tæknin að vega upp á móti þessu.

Ýmislegt hefur svo gerst á síðustu árum sem hefur orðið til þess að létta undir með bændum. T.d. hefur nú á síðustu árum verið tekin upp sérstök aðstoð við vatnsleiðslur heim á sveitaheimili, sem ekki var áður, en það hefur verið afar mikils virði, því að í þessum þætti voru bændur mjög illa settir og gátu enga aðstoð fengið frá ríkisins hálfu nema þeir hefðu félagsskap með sér, sem stundum gat verið mjög erfitt að koma við.

Þetta vil ég nú segja hv. 1. landsk. þm. um breytingar á þessum atriðum frá því sem áður hefur verið, og þessu til viðbótar get ég getið þess. að það er verið að kanna lausaskuldir bænda, hversu miklar þær séu, sérstaklega hjá þessum ungu mönnum. Um það, hvernig úr skuli leysa, get ég því miður ekki sagt á þessari stundu því að það er mál sem á eftir að vinna betur að. Mun ég nú láta þetta nægja og treysti því, að hv. þm. telji að ég hafi svarað honum eins og vera bar, því að spurningar hans vorn settar fram með þeim hætti, að það var vegna eðlis málsins sem ég taldi ekki ástæðu til að fara út í þetta þá, enda hillti þá undir umr. um þessa þáltill.

Kem ég þá að þáltill., sem er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta undirbúa frv. um breyt. á lögum nr. 101 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. er miði að því að Stéttarsamband bænda semji milliliðalaust við ríkisstj., a.m.k. til eins árs í senn um verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara og heildsöluverð þeirra og önnur mál, er varða réttindi og kjör bænda.

Gert skal ráð fyrir því, að bændur hafi óskoraðan samningsrétt um málefni sín til jafns við aðrar stéttir.

Frv. þetta skal lagt fyrir Alb. eigi síðar en í febrúarlok n.k. svo að tími gefist til að afgreiða það fyrir þinglok.“

Í tilefni af þessari þáltill. langar mig að víkja aðeins aftur í tímann og minna þá á það, að eitt af þeim fyrstu verkum. sem ég vann sem landbrh. var að láta endurskoða lög um framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég er hér með fyrir framan mig frv., sem var lagt fyrir 92. löggjafarþing, 1971– 1972. Þetta frv. var sú vinna, sem sú n., sem ég þá skipaði sem landbrh. í vinstri stjórn, lét vinna til úrlausnar á þessum málum. Og eitt af þeim atriðum, sem er að finna í þessu frv., eru samningar við ríkisstj.

Nú hafði ég nokkur kynni af þessum málum meðan ég átti sæti á aðalfundum Stéttarsambands bænda, en á þeim fundum sat ég sem fulltrúi, þ. á m. stofnfundi og alla fundi, meðan ég var bóndi að einum undanskildum, sem ég forfallaðist frá, það munu hafa verið einir 8 eða 9 fundir, sem ég var fulltrúi í hópi þeirra sem sátu stéttarsambandsfundina. Þessi mál voru farin að koma til umr. á þeim árum. Ég mætti svo síðar á þessum fundum og fylgdist með umr., þó að ég ætti þar ekki seturétt. Um það voru mjög skiptar skoðanir hjá bændum, hvort rétt væri að fara inn á þá braut að semja við ríkisvaldið, eða þau rök, sem komu fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. áðan, að með því að eiga samninga við neytendur væru möguleikar til þess að auka skilning á milli þessara stétta. Ég get sagt það sem mína persónulegu skoðun,að ég hafði þessa skoðun og hef ekki alveg kastað henni fyrir róða. Hins vegar taldi ég mér skylt að fara inn á þá stefnu sem bændasamtökin mótuðu með þessu frv., jafnvel þó að ég sjái á því ýmsa vankanta. Og ég verð að segja það, að eftir að hafa þó setið í ríkisstj. í sjö ár með þrem flokkum fyrir utan okkar eigin flokk, þá er mér það ljóst, að þó að inn á þessa breytingu væri farið er ekki allt fengið með því. Hins vegar er það svo með mörg kerfi, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að þau ganga sér til húðar á vissum tíma, og það á við, sem Tryggvi heitinn Þórhallsson var talinn hafa að orðtaki, en hann heyrði ég aldrei mæla, sá hann ekki heldur, svo að ég veit ekki hvort rétt er með farið, að sagan endurtaki sig. Og sagan endurtekur sig á þann hátt, að það er breytileikinn sem gerir það að verkum.

Nú kom það fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., að með góðu samstarfi bænda og neytenda og þ. á m. alþýðusamtakanna, sem ég sagði áðan að ég hefði haft trú á, þá höfum við svo sem báðir orðið fyrir ýmsum áföllum með þessa hugsun. Fyrsta stórkostlega áfallið var það sem gerðist 1958, þegar vinstri stjórn sat að völdum sem studd var af flokkum þeim sem talið var að samtök þessi ættu mest fylgi í, þegar miðað er annars vegar við bændur og hins vegar alþýðusamtökin. Þá gerðist bað út af ákvæðum laga að það ætti að jafna það, að salan á erlendum markaði gæfi minni tekjur til hænda heldur en salan innanlands, með því að bæta því ofan á verðið innanlands sem talið var að mundi skorta á verðið á erlendum markaði. Þetta var framkvæmt 1958 gegn ákvörðun neytendanna og varð til þess að neytendur fóru í mál við framleiðendur út af þessu ákvæði. Þetta var fyrsta stóráfallið sem þessi grundvöllur hefur orðið fyrir. Ég segi ekki að þetta hafi sprengt vinstri stjórnina, því að það voru almennu efnahagsmál og fleiri atriði sem ég ætla ekki að fara út í hér, en þetta gerðist þá þrátt fyrir setu þessara flokka í ríkisstj. og þessi viðhorf framleiðenda og neytenda. Og það var upp úr því, sem neytendur hættu að láta fulltrúa sinn mæta. Nú finnst mér að í mínu minni sé það, að þeir hafi byrjað á þessu aftur, ég held að það sé rétt munað hjá mér, en man ekki atvikið sem gerði bað að verkum að þeir hættu síðar. En þessi átök milli neytenda og framleiðenda urðu til þess, að ákvæðin um útflutningsbætur voru tekin upp með samningum milli sex manna nefndar op þáv. ríkisstj., sem var sú stjórn sem við höfum kallað Viðreisn og kom til valda í árslok 1959. Þess vegna byrjar 12. gr. framleiðsluráðslaganna á því, að það er bannað að leggja á vörur, sem seldar eru innanlands, hallann af sölunni á erlendum markaði. Þetta er tekið fram vegna þess samkomulags sem var gert um að banna þetta, en verðið tryggt með því að útflutningsbætur skuli greiddar, þó þannig að þær séu ekki hærri en 10%. Þannig er grundvöllurinn að því að sá háttur er upp tekinn.

Það, sem ég var svo að fitla við þegar ég skipaði n. sem í voru valinkunnir menn að mínu mati og ég held þeirra sem tilnefndu, var að reyna að finna leið til þess að sameina þessi sjónarmið á þann veg, að það yrði þá ríkisvaldið sem færi með þessi mál í samningum við seljendur eða framleiðendur. Nú gerðist það mér til mikilla sárinda, og auðvitað hefur orðið að búa við það síðan, að ég kom frv. aldrei í gegn. Ástæðan var sú, að ég fékk ekki þá stuðningsflokka, sem studdu mig sem landbrh. og ríkisstj. í heild, til þess að fylgja frv. eftir. Það voru í hópi þeirra þm. sem vildu ekki samþykkja frv. Ég gerði tilraunir á þingunum síðar til þess að fá þá einhverjar breytingar á þessu til þess að hægt væri að koma því í gegn, en það tókst ekki.

Nú vil ég ekki halda því fram, að flokksmenn hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi verið þar einir að verki, þó að í þeim hópi væru þeir líka. Það voru líka í hinum stjórnarflokknum menn sem vildu ekki samþykkja frv. Þess vegna varð það ekki að lögum. Þar var m.a.gert ráð fyrir því að hækka prósentuna upp í 12% úr 10%. Hins vegar var ekki farið inn á þá leið, sem kemur fram í grg, með þáltill. þessari og ég skal víkja frekar að siðar. En ég vil segja það í sambandi við þetta mál, að haustið 1971 atvikaðist það svo, að ég fór á fund norrænna landbrh. og fleiri manna sem eru í norrænu samstarfi um landbúnað, þ. á m. eru ráðuneytisstjórarnir og fleiri embættismenn og líka fulltrúar frá félagssamtökum bænda í viðkomandi löndum, og á þennan fund fór ég til Noregs. Einn af þeim, sem sátu þennan fund, var formaður norsku bændasamtakanna. Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri Framleiðsluráðsins, sem er þessum málum mjög kunnugur í Noregi og líka persónulega kunnugur mörgum framámönnum í landbúnaði í Noregi vegna námsdvalar sinnar þar og þess kunningsskapar sem hann komst þá í í sambandi við þá aðila, var með í þessari ferð og fyrir hans tilverknað heimsótti ég þennan norska bónda til þess m.a. að fá hjá honum upplýsingar um norska sölukerfið í landbúnaði. Þetta sama haust fengum við hann líka til þess að koma hingað til Íslands til þess að geta kynnt hér hvernig Norðmenn vinna að þessum málum og kynna þeirra sölukerfi sem allra mest. Það var skoðun mín og hún er óbreytt, að við höfum unnið þarna rétt að máli og þessi norski maður hafi lagt gott til og margt hafi verið og margt sé í þessu frv. sem sé mjög gagnlegt og gott og mundi skapa miklu betra kerfi en við höfum nú.

Eitt af því sem kom í ljós, — og þetta kom líka fram í sumar þegar norski landbrh. var hér á ferðinni, þá fór hann nokkuð inn á það í viðtölum við blaðamenn, hvernig norska verðlagskerfið væri upp byggt og í hverju væri fólgin aðstoð við bændur, — það kom fram, að ef út í þetta yrði farið, ef samningar yrðu á milli bænda og ríkisvaldsins, þá mundi ekki eingöngu verða samið um verðlagskerfið eitt. Það kom mjög greinilega fram hjá bæði formanni bændasamtakanna norsku og eins hjá landbrh. Noregs í sumar, að það, sem fer fram í þessum samningum, eru landbúnaðarmálin yfirleitt og þ. á m. stefnan. Þar mundi t.d. ekki vera eins og hjá okkur jarðræktarstyrkur eða styrkur á vatnsveitur eða annað þess háttar sérstaklega, heldur væri þetta allt saman tekið inn í kerfið í samningunum, enn fremur útflutningsbætur á vissan hátt og niðurgreiðslur, en þetta er látið fylgjast að.

Það, sem hefur valdið okkur erfiðleikum nú á hinum síðari árum, er einmitt það, að Norðmenn hafa farið, vegna þess að þeir hafa búið við verðbólgu, þó ekki í eins ríkum mæli og við, þá hafa þeir farið inn á það að auka niðurgreiðslur á dilkakjöti í Noregi, og það hefur þýtt það að verð á dilkakjöti, sem við seljum þar, hefur lækkað og útkoman fyrir okkur hefur því orðið mun verri. Þetta höfum við rætt við þá nú á yfirstandandi ári, bæði við ráðh. í sumar, enn fremur fór framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs vegna þess starfa, sem hann vinnur í n. sem ég skipaði á þessu ári til þess að athaga markaðsmálin og verðlagsmál á erlendum grundvelli, og ræddi við landbrh. bæði Noregs og Svíþjóðar um þessi kaup þeirra á okkar dilkakjöti. Og á fundi þeim, sem ég fór til FAO, ræddi ég við alla ráðh. Norðurlandanna um þessi mál og sömuleiðis við aðalforstjóra FAO. Og ég tel brýna nauðsyn bera til þess að haldið verði áfram á þessari braut því að ég held eins og ég kem að síðar, að ljóst sé, að við verðum alltaf að gera ráð fyrir því að við höfum eitthvað af framleiðslu umfram neysluna hér innanlands og þar komi fleira til en hv. 5. þm. Norðurl. e. vildi n;t vera láta. Þess vegna þurfum við að huga að þessum málum meira en ég tel að gert hafi verið.

Út frá þessu, sem ég sagði áðan um þau átök sem urðu þarna, þá man ég ekki hvenær upp úr slitnaði aftur og fulltrúi Alþýðusambandsins hætti að mæta í sex manna nefnd. Ég hef það ekki í kollinum. (Gripið fram í: 1966.) 1966, já það má vel vera. Þá var líka offramleiðsla í okkar landi, ef ég man rétt. (StJ: Of lítil neysla.) Of lítil neysla, jú, eins og við getum orðað það líka. En eins og ég tók fram um daginn, þá munu það hafa verið bestu afkomuár fyrir bændastéttina, árin 1965 og 1966 og 1972, 1973 og 1974. Þetta tel ég mig hafa öruggar skýrslur um allt saman, en skal ekki fara út í það. En ég tel það ekki rétt með farið að fulltrúi sá, sem er í sex manna nefnd núna, sé umboðslaus, því að lögin mæla svo fyrir að ef aðili lætur ekki mæta, þá á ráðh. — í þessu tilfelli félmrh. — að skipa fulltrúa í n. og ég held að það muni enginn telja að störf Torfa Ásgeirssonar í n. séu með þeim hætti að hann telji sig umboðslausan eða hafi ekki unnið þar af mestu samviskusemi, enda veit ég að það er ekki verið að ræða um það. Mér er ljóst að það er álit allra. Hins vegar geta menn deilt um gerðir hans eins og annarra og skilning á málum, eins og fram hefur komið.

Ákvæðið um gerðardóminn, ef ekki yrði samið í sex manna nefnd, tel ég að muni hafa verið í lögunum frá upphafi. Og ég minnist þess líka frá þeim árum þegar ég var einn í hópi bænda og fulltrúi, að þá töldu bændur sig ekki vilja fá verkfallsrétt og hafa ekki talið sig vilja fá hann enn. Og þeir eru að því leyti ekki sambærilegir við launamanninn, að þeir bara gera verkfall við sjálfa sig. Þeir geta ekki hætt að mjólka kýrnar, það er útilokað mál. Þeir geta ekki heldur hætt að gefa kúnum, ef það er vetrartími. (Gripið fram í.) Það kemur fram síðar. Og þeir geta ekki heldur annað en sinnt þeim störfum sem þarf, hvernig sem ástandið yrði. Þetta er þeim ljóst, og þess vegna er það svo, að þeir hafa ekki viljað taka þennan rétt. Það er aftur þeirra mál hvort þeir skipta um skoðun í þeim efnum, en ég hygg að á því muni verða dráttur.

Út af því, sem hv þm. segir hér og flytjendur í grg. um að ekki hafi orðið aukning á framleiðslu á síðustu árum, þá er það ekki svo. T.d. mun vera meiri mjólkurframleiðsla á þessu ári heldur en nokkurn tíma hefur orðið. (Gripið fram í.) Já, en við tökum aftur frá 1960 til 1970, þá kemur árið 1965 með toppinn í mjólkinni, svo fer þetta að lækka 1966, það er sama 1967, svo heldur þetta áfram að lækka. Svo fer þetta aftur að aukast 1971 og 1974 er það mest, 1975 og 1976 dregst framleiðslan saman, enda eru þá hin miklu óþurrkasumur á Suður- og Vesturlandi. Ég man eftir því, að ég heyrði menn tala um það þá, að ekki yrði langt í það að hér yrði mjólkurskortur. Ég svaraði því til, að e.t.v. væri nú svo komið að ég væri orðinu svo fjarlægur landbúnaði að ég skildi ekki grundvallaratriði eins og það, hve mikil áhrif árferðið hefði á framleiðsluna. Sumur eins og 1975 og heyskapurinn þá voru ekki til að auka mjólkurframleiðsluna, nema síður væri, enda reyndist ekki svo. Sumarið 1976 var líka afleitt sumar. Þá dró úr mjólkurframleiðslu bæði sumar og vetur. Mjólkurframleiðslan var að vísu svipuð árið áður. En við sumarið í sumar og við heyin í haust eykst hún svo, að mér er sagt að það sé eitthvað á annan áratug síðan það hafi skeð, að mjólkurframleiðslan hafi aukist í nóvember, þangað til núna. Nú hefur hún aukist verulega í nóvember, og er talið að hún muni aukast um 6–7 millj. lítra á þessu ári. Þetta hefur að sjálfsögðu haft sitt að segja, og er ekki neitt undarlegt þó að svo sé. Þrátt fyrir það að bændum hafi fækkað, þá hefur tæknin og ræktunin gert það að verkum að búvöruframleiðsla hlýtur að aukast, enda hefur hver bóndi skilað það mikilli framleiðslu, að það, sem menn voru eitt sinn að tala um hér á hv. Alþ., sumir hv. alþm, og jafnvel ráðh. á þeim tíma, að bændur væru dragbítar á framleiðsluaukningunni er mjög fjarri sanni. Allt þetta er liðið hjá og tækni nútímans er orðin mikil í sveitum landsins. Ég heyrði haft eftir einum af okkar fremstu mönnum í landbúnaði sem þekkingarmanni á því sviði, ráðunautinum á Suðurlandi, að íslenskur landbúnaður væri einn best tæknivæddi landbúnaður í heimi. Nú þori ég ekki að segja hvort þetta stenst. Séra árni hefði bætt því við: þó víðar væri leitað, en ég læt mér nægja þetta. En þetta sýnir að bændur hafa verið ötullega að störfum og mikið hefur gerst í íslenskum landbúnaði á síðustu árum.

Þessi þáttur var um mjólkina, og þá er það kjötið, en þar hefur einnig orðið framleiðsluaukning. Á árunum 1962–1907 var kindakjötsframleiðslan mjög svipuð, hún var mest þá á síðasta áratug eða 13 500 tonn. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að hún verði um 15 þús. tonn. Aukningin er því um 9% frá því hún var mest, en aftur um 30% ef tekin eru s.l. 10 ár. Þetta segir það, að aukning hefur orðið í framleiðslunni bæði á sviði kjöts og mjólkur, og ber að hafa það í huga.

Í öðru lagi vil ég svo benda á það í sambandi við það, sem nú hefur gerst, þegar svokölluð K-vísitala var til hér á landi. Það var mikið og merkilegt fyrirbrigði, og ég man frá þeim árum sem ég var fjmrh., að þá var það K-vísitalan sem kom einna verst við hjartað á mér. Þá kom kindakjötið inn í K-vísitöluna, nautgripakjötið sama og ekki neitt. Þess vegna var farið í kindakjötið, þegar þurfti að fást við K-ið, og það greitt mest niður. Og það er sannast best að segja, að við niðurgreiðslurnar 1974, sem voru að mínu mati úr hófi fram, var farið í kindakjötið. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að þær sögur, sem sagðar voru, að sumir hefðu keypt sér frystikistur bara út á þetta, að eitthvað að þeim hefur verið satt, en megnið hefur verið ósatt. En þá var ekki verið að eiga við nautgripakjötið, því að það gerði sama og ekkert í vísitölunni. Þannig var nú farið að þá. Það, sem hefur hins vegar gerst núna, er að þessu var breytt. Það var breytt reglunum um nautgripakjötið, og svo er farið að nota núna framfærsluvísitölu í staðinn fyrir K-vísitölu og nautgripakjötið verkar álíka og kindakjötið. Þess vegna var farið að greiða niður nautgripakjöt, af því að það var orðin engin sala í nautgripakjöti og hér voru orðnar stórkostlegar birgðir af því. Þá var gripið til þess ráðs að hefja þar útsölu og síðan látin koma niðurgreiðsla. Þetta hefur auðvitað þýtt það, að niðurgreiðslan á dilkakjötinu hefur ekki orðið eins mikil og að öðrum kosti hefði verið. Þessu megum við ekki gleyma þegar við gerum samanburð á þessu. Og þessu til viðbótar vil ég svo segja það, að það, sem hefur aukist á síðustu árum þrátt fyrir kaupgetuna, er neyslan á dýrasta kjötinu, svínakjöti og fuglakjöti. Hún hefur aukist verulega á síðustu árum. Þýðir ekkert fyrir okkur að horfa fram hjá þessu, af því að við viljum blekkja okkur með hinu. Þess vegna er það staðreynd að því eru takmörk sett, hvað út færi af dilkakjötinu þótt við ykjum niðurgreiðsluna. Hins vegar er það staðreynd, að við jukum niðurgreiðslur á dilkakjöti í sumar og það kom mér á óvart, þegar var verið að ræða um það m.a.við ASÍ-samtökin, hvað voru fáir menn sem höfðu áhuga á því að auka niðurgreiðslurnar. Það voru þarna ágætismenn, sem ég þekkti að því að hafa áhuga fyrir slíku. — Ég verð að biðja hæstv. forseta að lofa mér að geyma mér ræðuna, því að ég er langt frá því að vera búinn. (Forseti: Já, það verður að sjálfsögðu orðið við ósk hæstv. ráðh., þó að ekkert væri til fyrirstöðu að hann héldi áfram ræðu sinni núna. En það verður orðið við óskum hans.) — [Frh.]