16.12.1977
Efri deild: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

91. mál, matvælarannsóknir ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. þar sem við mæltum með þessu frv. Ég tel nauðsynlegt að lögfesta þessa stofnun sem þegar er starfrækt. Það er ekki annað en viðurkenning á því að hún sé til og annist þýðingarmikið starf, þar sem er þjónustustarf eins og hv. frsm. tók fram. Hins vegar benti hann réttilega á það, að rannsóknir á matvælum færu fram á þrem öðrum stöðum, þar ætti að vísu að vera um annars konar rannsóknir að ræða, þ.e.a.s. frumrannsóknir frekar, En þjónusturannsóknirnar, sem væru gerðar fyrir hina ýmsu aðila, heilbrigðisnefndir og ýmsa aðra, færu aftur fram í þessari stofnun sem við erum nú að ákveða að lögfesta.

Við vorum á því nokkrir í n., að það væri nauðsyn á samræmingu á öllum þessum málum, þannig að það væri ljóst að sömu aðilar væru ekki að fást við sama hlutinn, margir aðilar að fást við það sama, eins og æðioft vill við brenna hjá okkur, Og ég fékk einmitt meðan við vorum að fjalla um þetta frv. sönnun þess arna, þar sem ein þessara stofnana, sem hv, frsm. nefndi, var greinilega að framkvæma rannsókn eða athugun eða könnun á máli sem hefði hreinlega átt að vera í þessari stofnun sem við erum að lögfesta, Og ég hygg að það séu mörg dæmi um það, að margir aðilar séu þarna að fást við sama hlutinn.

Það er talað um að endurskoðun laga um matvælaeftirlit í heild fari fram. Það er gott og blessað ef það verður. Við höfum oft orðið að bíða nokkuð lengi eftir endurskoðun á ýmsum lögum, ekki síst hjá þessari hæstv. ríkisstj. sem lofaði endurskoðun, held ég, flestra laga í landinu, og við höfum fátt séð nýtilegt af því, svo að ég geri ekki ráð fyrir að það gerist a.m.k. í snarheitum hjá þessari hæstv. ríkisstj. En við skulum vona að það verði, því að ég hygg að á þessu sé hin mesta nauðsyn, eins og reyndar kom ljóslega fram hjá hv. frsm.

Það vakti einnig athygli okkar sumra í n., að þarna er verið að tala um fjölda deilda, að vísu eftir því sem fé er veitt til slíks á fjárl., og komu fram raddir um að þarna gæti orðið um nokkra útvíkkun að ræða eftir að stofnunin væri búin að fá löggildingu. En að vísu er það á valdi fjvn, hverju sinni eða á að vera. Það er kannske frekar fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem er eiginlega yfiraðili í þessum efnum, að því er manni helst skilst, að takmarka það nokkuð, þannig að þessi stofnun bólgni ekki út að óþörfu.

Ég tel hins vegar þessa stofnun mjög nauðsynlega og sjálfsagða, og það er ábyggilegt að hún fer ekki inn á verksvið þeirra stofnana sem eru að fást við matvælarannsóknir í landinu. Það er greinilegt. En ég kann þó illa við það, þegar ég sem fjvn.-maður er beðinn um að styrkja aukna fjárveitingu til matvælarannsókna hjá annarri stofnun, sem beinlínis eiga að vera þarna, en ekki hjá þeirri stofnun sem var að fara fram á aukið fé til sams konar starfsemi.