Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 950, 112. löggjafarþing 241. mál: kyrrsetning, lögbann o.fl. (heildarlög).
Lög nr. 31 23. apríl 1990.

Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Samkvæmt því sem mælt er fyrir í lögum þessum má til bráðabirgða kyrrsetja fjármuni, taka fjármuni í löggeymslu eða leggja lögbann við athöfn.

2. gr.

     Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra fara með kyrrsetningar-, löggeymslu- og lögbannsgerðir.
     Um hæfi sýslumanna og fulltrúa þeirra til að fara með gerðir samkvæmt lögum þessum fer eftir reglum laga um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við getur átt. Ekki veldur það þó vanhæfi sýslumanns að hann annist innheimtu kröfu ef krafist er kyrrsetningar eða löggeymslu fyrir henni.
     Ef sýslumaður er vanhæfur til að fara með gerð samkvæmt lögum þessum setur dómsmálaráðherra annan löghæfan mann til að vinna verkið. Þóknun hans greiðist samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra úr ríkissjóði.

3. gr.

     Að því leyti, sem fyrirmæli laga þessara heimila að ágreiningur um gerð verði borinn undir héraðsdómstól, án þess að um mál sé að ræða til staðfestingar gerðinni, á úrlausn hans undir héraðsdómstólinn sem hefur dómsvald í umdæmi þess sýslumanns sem fer með gerðina.

4. gr.

     Sýslumaður færir gerðabók um þær gerðir sem lög þessi taka til, en um form hennar fer eftir reglum sem dómsmálaráðherra setur.
     Um framlagningu gagna við gerðina og varðveislu þeirra, efni bókunar sýslumanns um hana í gerðabók og undirritun og viðurvist votts við hana skal farið eftir fyrirmælum 32. gr., 2. og 3. mgr. 33. gr., 34. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga um aðför.

II. KAFLI
Kyrrsetning.

5. gr.

     Kyrrsetja má eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri.
     Ekki er það skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.

6. gr.

     Kyrrsetningarbeiðni skal vera skrifleg. Í henni skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
  1. hver sé gerðarbeiðandi og hver gerðarþoli, ásamt kennitölum þeirra og upplýsingum um heimilisföng þeirra eða dvalarstaði.
  2. hver sú fjárhæð sé, sem kyrrsetningar er krafist fyrir, og hvernig hún sundurliðist.
  3. á hverju gerðarbeiðandi byggi heimild sína til kyrrsetningar.

     Þau gögn skulu fylgja kyrrsetningarbeiðni sem kröfur gerðarbeiðanda styðjast við.

7. gr.

     Að jafnaði skal kyrrsetningarbeiðni beint til sýslumanns í því umdæmi þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing. Heimilt er þó einnig að beina kyrrsetningarbeiðni til sýslumanns í einhverju því umdæmi sem hér segir:
  1. þar sem rökstudd ástæða er til að ætla að gerðarþoli muni hittast fyrir þegar til framkvæmdar gerðarinnar kemur.
  2. þar sem gerðarþoli rekur atvinnustarfsemi ef krafa gerðarbeiðanda á rætur að rekja til hennar. Fari atvinnustarfsemi gerðarþola fram í fleiri umdæmum en einu skal að jafnaði beiðst kyrrsetningar þar sem aðalstöðvar hennar eru, nema krafa gerðarbeiðanda eigi rætur að rekja til starfseminnar á öðrum stað og gerðarbeiðandi kjósi þann stað fremur.
  3. þar sem eignir gerðarþola er að finna ef hann á ekki skráð heimili hér á landi.

     Ef kyrrsetningarbeiðni er beint til sýslumanns í öðru umdæmi en þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing skal ástæðu þess getið í beiðninni.

8. gr.

     Þegar kyrrsetningarbeiðni hefur borist sýslumanni kannar hann hvort hún sé í lögmæltu horfi og hvort hún hafi komið fram í réttu umdæmi. Ef svo er getur sýslumaður ekki synjað um kyrrsetningu af sjálfsdáðum, nema hann telji bersýnilegt að skilyrðum 5. gr. sé ekki fullnægt.
     Ef einhverjir þeir annmarkar eru á málstað gerðarbeiðanda sem í 1. mgr. getur endursendir sýslumaður honum kyrrsetningarbeiðnina og fylgigögn hennar ásamt stuttum rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.
     Áður en frekari aðgerðir fara fram vegna kyrrsetningarbeiðni er sýslumanni rétt að setja það skilyrði að gerðarbeiðandi setji tiltekna tryggingu til bráðabirgða eftir ákvörðun hans fyrir greiðslu bóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til vegna beiðninnar eða meðferðar hennar, nema líklegt sé þá þegar að tryggingar verði ekki þörf vegna fyrirmæla 3. mgr. 16. gr. Sýslumaður skal, ef með þarf, tilkynna gerðarbeiðanda með sannanlegum hætti ákvörðun sína um að tryggingu þurfi að setja og getur hann þá veitt gerðarbeiðanda tiltekinn frest til þess, að því viðlögðu að beiðni hans skoðist annars fallin niður.
     Um aðrar upphafsaðgerðir kyrrsetningargerðar, þann stað sem gerð má byrja og ljúka og viðurvist málsaðila eða málsvara þeirra við hana skal farið eftir fyrirmælum 20.–24. og 35. gr. laga um aðför.

9. gr.

     Í upphafi gerðar skal sýslumaður kynna gerðarþola eða málsvara hans málavexti og fyrirliggjandi gögn og skal hann inntur álits á þeirri kröfu sem kyrrsetningu er ætlað að tryggja. Ber sýslumanni í þeim efnum sem endranær við framkvæmd gerðarinnar að veita gerðarþola eða málsvara hans nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu hans við gerðina og um efni kröfu gerðarbeiðanda, á sama hátt og dómara í einkamáli ber að leiðbeina ólöglærðum málsaðila. Komi ekki fram athugasemdir af hálfu gerðarþola sem sýslumaður telur varða stöðvun á framgangi gerðarinnar eftir ákvæðum 13. gr. leiðbeinir hann gerðarþola eða málsvara hans um að varna megi kyrrsetningu með greiðslu eða tryggingu, sbr. 10. gr., en sinni gerðarþoli eða málsvari hans því ekki skal gerðinni fram haldið eftir því sem hér á eftir segir.

10. gr.

     Heimilt er gerðarþola að afstýra kyrrsetningu ef hann setur þegar í stað nægilega tryggingu fyrir greiðslu kröfu gerðarbeiðanda, að meðtöldum vöxtum til áætlaðs greiðsludags, málskostnaði og áföllnum kostnaði af gerðinni. Um form tryggingar gilda ákvæði 4. mgr. 16. gr., eftir því sem við getur átt, nema gerðarbeiðandi samþykki annað, en leiki vafi á verðgildi hennar skal hún metin með sama hætti og eignir yrðu annars metnar til kyrrsetningar. Með sama hætti skal að einhverju leyti eða öllu fella niður kyrrsetningu sem þegar hefur átt sér stað ef gerðarþoli býður síðar fram nægilega tryggingu fyrir kröfum gerðarbeiðanda.
     Sýslumaður varðveitir skilríki fyrir tryggingu gerðarþola eða hana sjálfa ef því er að skipta, en afhenda skal hann þau eða hana hlutaðeiganda þegar af einhverju eftirtalinna atvika verður:
  1. að krafan falli niður sem tryggð er.
  2. að gerðarbeiðandi höfði ekki mál til staðfestingar tryggingunni eða sátt er ekki gerð um málefnið samkvæmt ákvæðum VI. kafla.
  3. að gerðarþoli sé sýknaður í dómsmáli af kröfu gerðarbeiðanda um staðfestingu tryggingarinnar.
  4. að dómur gangi um lausn tryggingarinnar.
  5. að gerðarbeiðandi öðlist rétt til umráða tryggingarinnar á grundvelli fjárnáms fyrir kröfu sinni.
  6. að annar hvor málsaðila lýsi yfir fyrir sýslumanni að hann samþykki að hinn fái umráð tryggingarinnar.


11. gr.

     Gerðarþola eða málsvara hans er skylt að segja satt og rétt frá öllu sem sýslumaður krefur hann svara um við framkvæmd gerðarinnar og máli skiptir um framgang hennar. Heimilt er sýslumanni að neyta úrræða 29.–31. gr. laga um aðför við gerðina, ef gerðarbeiðandi krefst, með sömu skilyrðum og þar greinir.

12. gr.

     Frestir skulu að jafnaði ekki veittir meðan á kyrrsetningargerð stendur, nema málsaðilar séu á það sáttir.
     Ef gerðarþoli eða sá sem málstað hans tekur við gerðina krefst að henni verði frestað, en gerðarbeiðandi fellst ekki á þá kröfu, skal sýslumaður ákveða þegar í stað hvort hann heldur gerðinni áfram eða hvort henni verði frestað til tiltekins tíma. Að öðru jöfnu skal ekki fresta gerðinni gegn andmælum gerðarbeiðanda, nema tryggt megi telja að gerðarþoli hafist ekkert það að sem spillt gæti rétti gerðarbeiðanda.

13. gr.

     Ef gerðarþoli eða sá sem málstað hans tekur mótmælir réttmæti kröfu gerðarbeiðanda, rétti hans til að gerðin fari fram eða hún fari fram með þeim hætti sem gerðarbeiðandi krefst skal sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda ákveða þegar í stað hvort gerðin fari fram eða hvort henni verði fram haldið og eftir atvikum með hverjum hætti. Gegn andmælum gerðarbeiðanda skal sýslumaður að jafnaði ekki stöðva framgang gerðarinnar vegna mótmæla gerðarþola, nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau af öðrum sökum valda því að óvíst sé að skilyrði séu fyrir að gerðin nái fram að ganga eða að hún fari þannig fram sem gerðarbeiðandi krefst.
     Ákveði sýslumaður vegna mótmæla gerðarþola eða málsvara hans að stöðva framgang gerðar að nokkru leyti en ekki öllu er gerðarbeiðanda rétt að krefjast þess að gerðinni verði þegar fram haldið að því leyti sem sýslumaður hefur ákveðið þótt hann beri enn fremur synjun sýslumanns undir héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum V. kafla.

14. gr.

     Ef gerðin gæti ranglega skert rétt þriðja manns er honum heimilt að afstýra gerðinni með sama hætti og segir í 10. gr. eða að krefjast frestunar hennar eða mótmæla framgangi hennar að því leyti sem hún varðar rétt hans. Farið skal með slíkar kröfur eða slík mótmæli eins og um væri að ræða kröfur eða mótmæli gerðarþola skv. 12. eða 13. gr.

15. gr.

     Um þær eignir, sem kyrrsettar verða, virðingu þeirra og rétt málsaðila til að vísa á þær og um heimildir til að ljúka kyrrsetningargerð án árangurs gilda ákvæði 36.–50. gr., 2. mgr. 51. gr., 62. og 63. gr. laga um aðför.

16. gr.

     Þótt sýslumaður hafi ekki krafið gerðarbeiðanda um tryggingu til bráðabirgða skv. 3. mgr. 8. gr. má hann með sama hætti og sömu afleiðingum og þar greinir setja að skilyrði fyrir frekari framkvæmd gerðar að slík eða aukin trygging verði sett hvenær sem er meðan á gerðinni stendur.
     Þegar vísað hefur verið á eignir til kyrrsetningar fyrir kröfu gerðarbeiðanda eða fram er komin trygging af hendi gerðarþola skv. 10. gr. skal sýslumaður taka endanlega ákvörðun um þá tryggingu sem gerðarbeiðanda kann að verða gert að setja fyrir kyrrsetningu. Við þá ákvörðun er sýslumaður óbundinn af ákvörðun sinni um tryggingu til bráðabirgða. Setji gerðarbeiðandi ekki fullnægjandi tryggingu innan frests sem sýslumaður ákveður skal gerðin felld niður.
     Heimilt er sýslumanni að kröfu gerðarbeiðanda að ljúka kyrrsetningargerð án tryggingar úr hendi hans ef einhverju eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
  1. að krafist sé kyrrsetningar fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfi, víxli eða tékka hafi gerðarþoli ekki haft uppi mótmæli við gerðina gegn kröfunni sem komið verður að í dómsmáli um hana.
  2. að gerðarþoli hafi afsalað sér tryggingu fyrir sýslumanni.
  3. að gerðarþoli hafi viðurkennt réttmæti kröfunnar fyrir sýslumanni eða dómi og að skilyrði séu til kyrrsetningar fyrir henni.
  4. að dómsúrlausn hafi gengið um kröfu gerðarbeiðanda, en aðfararfresti er ólokið.
  5. að krafa gerðarbeiðanda sé annars með þeim hætti að sýslumaður telji réttmæti hennar og gerðarinnar tvímælalaust í ljósi atvika.

     Ef tryggingu þarf að setja og aðilar lýsa sig ekki sammála um annað skal hún að jafnaði vera í formi peninga, en annars í sambærilegu formi, þannig að greiðslu megi fá í skjóli hennar án fullnustugerða. Sýslumanni er rétt að hafna tryggingu ef telja verður form hennar óviðunandi eða vafa leika á um verðmæti hennar.
     Við ákvörðun um fjárhæð tryggingar skal sýslumaður einkum hafa hliðsjón af því að hverju marki kyrrsetning kunni að hefta athafnir gerðarþola honum til tjóns, hvort líklegt megi telja að gerðin eða beiðnin um hana spilli lánstrausti hans eða viðskiptahagsmunum og hvort hann hafi haft uppi athugasemdir um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda og gerðarinnar. Skal einnig tekið tillit til kostnaðar sem gerðarþoli kynni síðar að hafa af rekstri dómsmála í tengslum við gerðina.

17. gr.

     Sýslumaður varðveitir skilríki fyrir tryggingu af hendi gerðarbeiðanda eða hana sjálfa ef því er að skipta, en þeim eða henni skal skila gerðarbeiðanda að fullnægðu einhverju eftirtalinna skilyrða:
  1. að kyrrsetning hafi verið staðfest með dómi eða sátt verið gerð um gildi hennar sem fullnægja má með aðför.
  2. að gerðarþoli höfði ekki mál til heimtu bóta innan frests skv. 43. gr.
  3. að gerðarbeiðandi sé sýknaður í dómsmáli af bótakröfu gerðarþola.
  4. að gerðarþoli lýsi yfir fyrir sýslumanni að hann samþykki að tryggingunni verði skilað.

     Ef sýslumaður hefur krafið gerðarbeiðanda um hærri tryggingu til bráðabirgða en hann ákveður að endingu skal því skilað sem umfram er.

18. gr.

     Þegar gerðarbeiðandi hefur sett nægilega tryggingu skv. 16. gr., ef hún er áskilin, kyrrsetur sýslumaður þær eignir sem vísað hefur verið á við gerðina og lýkur þannig gerðinni. Sýslumaður skal leiðbeina gerðarþola eða þeim, sem tekið hefur málstað hans við gerðina, um réttaráhrif hennar. Hafi enginn verið við gerðina af hálfu gerðarþola skal sýslumaður tilkynna honum um hana og réttaráhrif hennar ef vitað er hvar hann er niður kominn.

19. gr.

     Hafi peningar verið kyrrsettir tekur sýslumaður þá til varðveislu á bankareikningi þar til gerðarbeiðandi öðlast rétt til afhendingar þeirra á grundvelli fjárnáms fyrir kröfu sinni eða gerðarþoli hefur verið sýknaður af kröfu gerðarbeiðanda í dómsmáli um hana.
     Hafi viðskiptabréf verið kyrrsett eða skuldakrafa tekur sýslumaður bréfið eða skilríki fyrir kröfunni til varðveislu, ef gerðarbeiðandi krefst, fram til þess tíma sem í 1. mgr. getur. Berist sýslumanni greiðsla slíkrar kröfu skal hún varðveitt með sama hætti og kyrrsettir peningar. Heimilt er sýslumanni að kröfu gerðarbeiðanda og á kostnað hans að fela öðrum manni innheimtu kyrrsettrar kröfu.
     Aðrar kyrrsettar eignir en þær, sem ákvæði 1. og 2. mgr. taka til, skulu framvegis vera í vörslum gerðarþola eða annarra sem hann hefur falið þær. Þó getur sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda tekið slíka eign úr umráðum gerðarþola eða annars vörslumanns og annast hana sjálfur á kostnað gerðarbeiðanda eða falið hana öðrum manni þann tíma sem í 1. mgr. segir ef hagsmunir gerðarbeiðanda verða taldir í brýnni hættu að óbreyttum umráðum, enda standi réttur þriðja manns þeirri ráðstöfun ekki í vegi. Ber sýslumanni að krefja gerðarbeiðanda um sérstaka tryggingu við slíka umráðatöku vegna spjalla eða afnotamissis gerðarþola og kostnaðar af varðveislu eignarinnar. Fyrirmæli 3. mgr. 16. gr. eiga ekki við um slíka tryggingu.

20. gr.

     Óheimilt er gerðarþola eða öðrum eiganda kyrrsettrar eignar að ráðstafa henni með samningi þannig að í bága fari við rétt gerðarbeiðanda, enda er gerðarbeiðandi ekki bundinn gagnvart þriðja manni af slíkri ráðstöfun.
     Þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. vinnur grandlaus þriðji maður rétt yfir fasteign eða skrásettu skráningarskyldu skipi, hafi kyrrsetningu ekki verið þinglýst, og yfir viðskiptabréfi hafi það ekki verið áritað um kyrrsetningu. Þá losnar skuldari undan kröfu sem kyrrsett hefur verið hafi hann greitt gerðarþola kröfuna, afborgun af henni eða vexti, ef honum hefur ekki verið tilkynnt um gerðina eða mátt vera kunnugt um hana af öðrum sökum eða viðskiptabréf, sem krafan styðst við, hefur ekki verið áritað um kyrrsetninguna. Þriðja manni, sem varðveitir kyrrsetta eign, er og rétt að afhenda hana gerðarþola hafi honum ekki verið tilkynnt um kyrrsetningu og hann er grandlaus um hana.
     Óheimilt er gerðarþola að nýta eða fara með kyrrsetta eign, sem hann heldur umráðum yfir, á nokkurn hátt sem farið gæti í bága við rétt gerðarbeiðanda. Gerðarþola er þó heimilt að nýta fylgifé fasteignar, skips eða loftfars sem kyrrsett hefur verið með slíkri eign, að því leyti sem nauðsynlegt er til eðlilegra nota hennar.

21. gr.

     Kyrrsetning víkur fyrir fjárnámi í kyrrsettri eign.
     Kyrrsetning fellur niður ef nauðasamningur milli gerðarþola og lánardrottna hans hlýtur staðfestingu, ef bú gerðarþola er tekið til gjaldþrotaskipta eða ef dánarbú gerðarþola er tekið til skipta án ábyrgðar erfingja á skuldbindingum þess.

22. gr.

     Gerðin skal tekin upp á ný ef allir málsaðilar eru á það sáttir eða til skila á tryggingu samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 10. gr. eða 17. gr.
     Eftir kröfu gerðarbeiðanda verður gerð endurupptekin:
  1. ef hann telur nauðsyn bera til umráðasviptingar samkvæmt ákvæðum 2. eða 3. mgr. 19. gr.
  2. ef hann vill að einhverju leyti eða öllu falla frá réttindum sínum samkvæmt gerðinni.
  3. ef hann krefst að kyrrsettar eignir verði skrásettar með nánara hætti en í upphafi var gert.
  4. ef kyrrsetningargerð var áður lokið án árangurs að einhverju leyti eða öllu og hann telur unnt að vísa á eignir til kyrrsetningar.

     Eftir kröfu gerðarþola verður gerð endurupptekin:
  1. ef hann hefur ekki verið staddur við gerðina og eign hefur verið kyrrsett sem heimild brast til eða mátti undanþiggja.
  2. til að setja tryggingu til að fá gerð, sem þegar hefur farið fram, fellda niður að einhverju leyti eða öllu.
  3. ef krafa gerðarbeiðanda er fallin niður, gerðarþoli hefur verið sýknaður í dómsmáli af kröfu gerðarbeiðanda eða staðfestingarmál hefur ekki verið höfðað innan frests skv. 36.–38. gr., enda þyki gerðarþoli hafa hagsmuni af að gerðin verði endurupptekin af þeim sökum.
  4. ef gerðarbeiðandi heldur ekki fram dómsmáli til staðfestingar gerðinni með eðlilegum hraða.

     Þriðja manni, sem telur gerðina fara í bága við rétt sinn, er heimilt að krefjast endurupptöku hennar hafi hann ekki átt þess kost að koma fram mótmælum gegn henni meðan á gerðinni stóð.
     Beiðni um endurupptöku skal beint til þess sýslumanns sem lauk gerðinni, en farið skal með hana eftir þeim reglum sem almennt gilda um framkvæmd gerðar, eftir því sem við getur átt. Sýslumaður er óbundinn af fyrri ákvörðunum sínum að því leyti, sem þær geta komið til endurskoðunar við endurupptöku.

III. KAFLI
Löggeymsla.

23. gr.

     Taka má eignir skuldara í löggeymslu til tryggingar kröfu um greiðslu peninga samkvæmt dómi eða úrskurði sem skotið hefur verið til æðra dóms ef annars hefði þegar mátt fullnægja kröfunni með aðför.
     Ákvæði 6.–20. og 22. gr. gilda um löggeymslu eftir því sem við getur átt, sbr. þó 3. og 4. mgr.
     Sá sem löggeymslu krefst verður ekki krafinn um tryggingu vegna beiðni sinnar eða gerðarinnar.
     Löggeymsla gengur fyrir fjárnámi sem síðar er gert í sömu eign.
     Mál skal ekki höfðað til staðfestingar löggeymslugerð, en heimilt er að bera ágreining um hana undir héraðsdóm eftir reglum XV. kafla laga um aðför.

IV. KAFLI
Lögbann.

24. gr.

     Lögbann má leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.
     Lögbann verður ekki lagt við stjórnarathöfn þess sem fer með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags.
     Lögbann verður ekki lagt við athöfn:
  1. ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
  2. ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.


25. gr.

     Við lögbannsgerð má sýslumaður eftir kröfu gerðarbeiðanda leggja fyrir gerðarþola að leysa af hendi tiltekna athöfn ef hún er þess eðlis að annar maður gæti þá þegar leyst hana af hendi í hans stað og sýnt þykir að hún sé nauðsynleg til að tryggja að gerðarþoli hlíti lögbanninu. Fari gerðarþoli ekki að fyrirmælum sýslumanns getur hann falið öðrum manni að framkvæma athöfnina á kostnað gerðarbeiðanda eða leyst hana af hendi sjálfur.
     Við lögbannsgerð getur sýslumaður eftir kröfu gerðarbeiðanda tekið muni úr vörslum gerðarþola og varðveitt þá á kostnað gerðarbeiðanda uns dómur eða sátt kveður á um réttindi málsaðila hafi munirnir verið nýttir eða bersýnilega verið ætlaðir til nota við þá athöfn sem lögbann er lagt við, enda þyki sýnt að brýn hætta sé á að gerðarþoli muni nýta þá til að brjóta lögbannið ef hann heldur vörslum þeirra.

26. gr.

     Beiðni um lögbann skal annaðhvort beint til sýslumanns í því umdæmi, sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing, eða í því umdæmi þar sem athöfn, sem lögbanns er beiðst við, fer eða mun fara fram. Í beiðninni, sem skal vera skrifleg, skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
  1. hver gerðarbeiðandi sé og gerðarþoli, ásamt kennitölum þeirra og upplýsingum um heimilisföng þeirra eða dvalarstaði.
  2. hver sú athöfn sé sem lögbanns er krafist við.
  3. rökstuðningur gerðarbeiðanda fyrir því að hann telji skilyrðum 24. gr. fullnægt.

     Þau gögn skulu fylgja lögbannsbeiðni sem gerðarbeiðandi byggir kröfur sínar á.
     Um upphafsaðgerðir sýslumanns að fram kominni lögbannsbeiðni skal farið eftir fyrirmælum 8. gr., eftir því sem við getur átt. Þó má lögbannsgerð byrja á þeim stað þar sem athöfnin, sem hún beinist að, fer eða mun fyrirsjáanlega fara fram.

27. gr.

     Með sama hætti og mælt er fyrir um í 9. gr. skal sýslumaður í upphafi lögbannsgerðar kynna gerðarþola eða málsvara hans kröfur gerðarbeiðanda og veita honum leiðbeiningar. Komi ekki fram athugasemdir af hálfu gerðarþola sem sýslumaður telur varða stöðvun á framgangi lögbannsgerðar, sbr. 3. mgr. 29. gr., skorar hann á gerðarþola að láta af þeirri athöfn sem lögbanns er krafist við. Verði gerðarþoli eða málsvari hans ekki við þeirri áskorun skal gerðinni fram haldið eftir því sem hér á eftir segir.
     Ákvæði 11. gr. og 1. mgr. 16. gr. taka til lögbannsgerða.

28. gr.

     Nú býður gerðarþoli eða málsvari hans fram tryggingu til að afstýra lögbanni skv. 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. og skal þá sýslumaður inna gerðarbeiðanda álits á því boði. Samþykki gerðarbeiðandi þau málalok eða fallist sýslumaður að öðrum kosti á kröfu gerðarþola skal sýslumaður þegar ákveða fjárhæð tryggingarinnar, form hennar og frest handa gerðarþola til að setja hana ef því er að skipta. Ef sérstaklega stendur á getur gerðarþoli með sama hætti óskað eftir að niður verði fellt lögbann sem þegar hefur verið lagt á.
     Um form tryggingar skv. 1. mgr. skal farið eftir fyrirmælum 4. mgr. 16. gr.
     Beita má ákvæðum 2. mgr. 29. gr. ef gerðarþola er veittur frestur til að setja tryggingu. Ef trygging er ekki sett innan frestsins skal gerðinni þegar fram haldið að honum loknum er gerðarbeiðandi krefst.
     Um varðveislu og skil á tryggingu skv. 1. mgr. gilda ákvæði 2. mgr. 10. gr.

29. gr.

     Frestir skulu að jafnaði ekki veittir meðan á lögbannsgerð stendur, nema málsaðilar séu á það sáttir.
     Taki sýslumaður til greina kröfu gerðarþola um frestun gerðarinnar gegn andmælum gerðarbeiðanda getur hann að kröfu gerðarbeiðanda sett það skilyrði fyrir fresti að gerðarþoli láti af athöfn sinni meðan á fresti stendur.
     Rísi annar ágreiningur við framkvæmd lögbannsgerðar eða hafi þriðji maður uppi kröfur við hana skal farið eftir fyrirmælum 13. og 14. gr.

30. gr.

     Þegar sýslumaður hefur ákveðið að lögbann verði að einhverju leyti eða öllu lagt við athöfn skal hann taka endanlega ákvörðun um þá tryggingu sem gerðarbeiðanda kann að verða gert að setja fyrir lögbanni og er hann þá óbundinn af fyrri ákvörðun sinni um tryggingu til bráðabirgða. Setji gerðarbeiðandi ekki fullnægjandi tryggingu innan frests sem sýslumaður ákveður skal gerðin felld niður.
     Heimilt er sýslumanni samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda að leggja á lögbann án tryggingar af hans hendi ef svo stendur á sem í 2., 3. eða 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. segir.
     Um form lögbannstryggingar gilda ákvæði 4. mgr. 16. gr.
     Við ákvörðun um fjárhæð lögbannstryggingar skal sýslumaður einkum hafa hliðsjón af því hverju beinu og afleiddu tjóni og hverjum miska gerðarþoli kunni að verða fyrir af stöðvun athafna sinna, hvort gerðarþoli hafi haft uppi athugasemdir um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda og gerðarinnar og hvern kostnað gerðarþoli kynni síðar að hafa af rekstri dómsmála í tengslum við gerðina. Hafi gerðarbeiðandi krafist að munir verði teknir úr umráðum gerðarþola skv. 2. mgr. 25. gr. skal áskilin sérstök trygging sem ákvörðuð verður eftir fyrirmælum 3. mgr. 19. gr.
     Um varðveislu og skil lögbannstryggingar skal farið eftir ákvæðum 17. gr.

31. gr.

     Þegar gerðarbeiðandi hefur sett nægilega tryggingu skv. 30. gr. ef hún er áskilin leggur sýslumaður lögbann við þeirri athöfn sem um ræðir og gerir eftir atvikum aðrar ráðstafanir, sbr. 25. gr., og lýkur þar með gerðinni. Skal bókað svo skýrlega sem verða má í gerðabók hver sú athöfn er sem lögbann er lagt við. Um leiðbeiningar af hendi sýslumanns og tilkynningar skal farið eftir ákvæðum 18. gr.
     Taka má upp lögbannsgerð þegar svo stendur á sem í 1. mgr., 2. tölul. 2. mgr., 2.–4. tölul. 3. mgr. og 4. mgr. 22. gr. segir. Við endurupptöku skal farið eftir 5. mgr. 22. gr., eftir því sem við getur átt.

32. gr.

     Skylt er sýslumanni að kröfu gerðarbeiðanda að gera ráðstafanir til að halda uppi lögbanni. Ber lögreglumönnum að veita aðstoð í þeim efnum eftir ákvörðun sýslumanns.
     Brjóti gerðarþoli af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögbann má dæma hann í máli, sem gerðarbeiðandi höfðar, til greiðslu sektar, sem renni í ríkissjóð, eða í varðhald. Hið sama á við um aðra menn sem vísvitandi liðsinna gerðarþola í broti á lögbanni.
     Brjóti gerðarþoli eða einhver á hans vegum lögbann af ásetningi eða gáleysi ber þeim að bæta gerðarbeiðanda það tjón sem brotið bakar honum. Sækja má bótakröfu í refsimáli skv. 2. mgr.
     Fresta má refsi- eða bótamáli vegna brots á lögbanni þar til dómur hefur gengið í máli til staðfestingar á lögbanninu.

V. KAFLI
Meðferð mála fyrir héraðs dómi til úrlausnar ágreinings um undirbúning, framkvæmd eða endurupptöku gerðar.

33. gr.

     Gerðarbeiðandi getur krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar, stöðvun gerðar eða synjun kröfu hans um endurupptöku hennar með því að tilkynna það sýslumanni innan viku frá því honum verður sú ákvörðun kunn.
     Heimilt er gerðarbeiðanda að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðrar ákvarðanir sem sýslumaður tekur um undirbúning, framkvæmd eða endurupptöku gerðar samkvæmt lögum þessum ef hann hefur þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina.

34. gr.

     Meðan gerð samkvæmt lögum þessum er ólokið getur gerðarþoli því aðeins krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar að gerðarbeiðandi mótmæli því ekki, enda hafi gerðarþoli þá kröfu sína uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina. Gerðarþola er þó ávallt frjálst að hafa kröfur uppi fyrir dómi um atriði sem gerðarbeiðandi krefst úrlausnar um skv. 33. gr.
     Gerðarþola er heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um synjun sýslumanns á kröfu hans um endurupptöku gerðar ef hann hefur þá kröfu uppi við sýslumann innan viku frá því honum verður synjunin kunn.
     Að því leyti, sem þriðji maður getur haft hagsmuni af ákvörðun sýslumanns um gerð samkvæmt lögum þessum, er honum heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um hana með sama hætti og gerðarþola.

35. gr.

     Ákvæði 86.–91. gr. laga um aðför taka að öðru leyti til mála samkvæmt kafla þessum.
     Ákvarðanir sýslumanns um kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, sem ekki hafa verið bornar undir héraðsdóm samkvæmt framansögðu, verða það ekki síðar nema í máli til staðfestingar gerðinni.

VI. KAFLI
Mál til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni.

36. gr.

     Eftir að kyrrsetningar- eða lögbannsgerð hefur verið lokið skal gerðarbeiðandi fá gefna út réttarstefnu til héraðsdóms til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni, nema gerðarþoli hafi lýst yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Ef mál um kröfu gerðarbeiðanda verður jafnframt sótt á hendur gerðarþola fyrir dómstól hér á landi skal réttarstefna gefin út í staðfestingarmáli innan viku frá lokum gerðar og gilda þá ákvæði 2.–5. mgr.
     Hafi mál ekki áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda skal í einu lagi höfða mál um hana og til staðfestingar gerðinni.
     Hafi mál áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda, en dómur hefur ekki gengið um hana í héraði, skal staðfestingarmál sameinað því með endurupptöku þess ef með þarf.
     Nú hefur héraðsdómur gengið um kröfu gerðarbeiðanda þegar staðfestingarmál er þingfest og dóminum er eða hefur verið skotið til æðra dóms og má þá héraðsdómari fresta meðferð staðfestingarmáls uns fengin er úrlausn æðra dóms.
     Þegar svo stendur á sem í 2. mgr. segir má sækja mál í þinghá þar sem gerðinni var lokið ef gerðarþoli verður annars sóttur til sakar hér á landi. Staðfestingarmál skv. 3. og 4. mgr. skal sækja í þinghá þar sem mál um kröfu gerðarbeiðanda er eða var rekið.

37. gr.

     Ef sækja verður mál um kröfu gerðarbeiðanda fyrir dómstól í öðru ríki skal hann fá útgefna réttarstefnu til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni innan þriggja vikna frá lokum gerðar í þeirri þinghá sem henni var lokið, nema gerðarþoli lýsi yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Hafi mál ekki áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda í öðru ríki skal það gert innan sama frests.
     Ef dómur um kröfu gerðarbeiðanda, uppkveðinn í öðru ríki, yrði aðfararhæfur hér á landi skal héraðsdómari fresta meðferð staðfestingarmáls uns dómur er genginn um kröfuna.

38. gr.

     Fyrirmæli 36. og 37. gr. gilda einnig um staðfestingu tryggingar ef kyrrsetningu eða lögbanni hefur verið afstýrt eða gerðin felld niður með tryggingu úr hendi gerðarþola. Frestur til málshöfðunar telst frá þeim tíma sem sýslumaður tekur við tryggingu eða skilríkjum fyrir henni.

39. gr.

     Ef mál er ekki höfðað með þeim hætti sem áskilið er í 36.–38. gr. fellur kyrrsetning eða lögbann sjálfkrafa úr gildi frá þeim tíma sem gerðarbeiðandi mátti í síðasta lagi fá gefna út réttarstefnu í málinu.
     Þótt synjað sé um staðfestingu gerðar í héraðsdómi stendur hún í þrjár vikur frá dómsuppsögu. Að loknum þeim fresti fellur gerðin niður, nema gerðarbeiðandi fái áður gefna út stefnu til æðra dóms til að fá héraðsdómi hrundið. Ef æðri dómur staðfestir ákvæði héraðsdóms um synjun um staðfestingu gerðar fellur hún úr gildi frá dómsuppsögu þar.
     Ef staðfestingarmál verður ekki þingfest gerðarbeiðanda að vítalausu, því er vísað frá dómi eða það er hafið með samkomulagi málsaðila stendur gerðin í eina viku frá því honum urðu þau málalok kunn. Að loknum þeim fresti fellur gerðin sjálfkrafa úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni. Aðeins má þó eitt sinn fara þannig að, nema það verði talið gerðarbeiðanda óviðráðanlegt að máli hans hafi lokið á ný með þeim hætti.

40. gr.

     Þriðji maður, sem telur rétti sínum hallað í sambandi við kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, getur haft uppi kröfur sínar í staðfestingarmáli með meðalgöngu eða sótt þær í sérstöku máli, hvort sem er til niðurfellingar gerðar eða til skaðabóta vegna hennar.

41. gr.

     Í máli skv. 36.–38. gr., sbr. 40. gr., má hafa uppi málsvarnir um kröfu gerðarbeiðanda, hvort sem þær eru eldri eða yngri en gerðin og hvort sem þeim var hreyft við framkvæmd hennar eða ekki. Með sama hætti má hafa uppi varnir um gildi gerðarinnar að því leyti sem héraðsdómur hefur ekki leyst úr þeim í máli samkvæmt ákvæðum V. kafla.
     Samkvæmt kröfu gerðarþola er héraðsdómara heimilt að ákveða að skipta sakarefni þannig að staðfestingarmál verði fyrst í stað aðeins sótt og varið um atriði sem varða skilyrði eða framkvæmd gerðarinnar sjálfrar.
     Heimilt er málsaðilum að ljúka dómsmáli með réttarsátt um staðfestingu kyrrsetningar eða lögbanns.

VII. KAFLI
Skaðabætur vegna kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar.

42. gr.

     Nú fellur kyrrsetning, löggeymsla eða lögbann niður vegna sýknu af þeirri kröfu sem gerðinni var ætlað að tryggja og skal þá gerðarbeiðandi bæta þann miska og það fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, sem telja má að gerðin hafi valdið. Heimilt er að dæma skaðabætur eftir álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess.
     Ef sýknað er vegna atvika sem fyrst urðu eftir lok gerðar skulu bætur þó aðeins dæmdar ef ætla má að gerðarbeiðandi hafi ekki átt þá kröfu sem gerðin átti að tryggja.
     Ef sýknað er að nokkru leyti en ekki öllu af kröfu gerðarbeiðanda og gerðin fellur niður að því marki skal gerðarbeiðandi bæta það tjón sem ætla má að hlotist hafi af því að gerðin hafi verið umfangsmeiri en efni voru til.
     Ef synjað er um staðfestingu kyrrsetningar eða lögbanns vegna annmarka á gerðinni sjálfri eða henni hefur ekki verið réttilega haldið til laga samkvæmt fyrirmælum VI. kafla skal gerðarbeiðandi bæta tjón með þeim hætti sem í 1. mgr. segir ef talið verður að ekki hafi verið tilefni til gerðarinnar. Hið sama á við ef löggeymslugerð er felld úr gildi í máli skv. 5. mgr. 23. gr. vegna annmarka á henni sjálfri.
     Fyrirmæli 1.–4. mgr. taka til skaðabóta ef gerðinni hefur verið afstýrt með tryggingu úr hendi gerðarþola.
     Hafi krafa gerðarbeiðanda um kyrrsetningu, löggeymslu eða lögbann ekki náð fram að ganga fer um bætur eftir 1.–3. mgr., að því leyti sem beiðni um gerðina eða ráðstafanir vegna hennar hafa valdið tjóni.

43. gr.

     Bótakröfu skv. 42. gr. má hafa uppi í staðfestingarmáli til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms.
     Höfða má sjálfstætt mál til heimtu skaðabóta skv. 42. gr. innan þriggja mánaða frá því þeim, sem bóta krefst, varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, um niðurstöðu staðfestingarmáls eða um niðurfellingu gerðar af öðrum sökum. Slíkt mál má höfða í þeirri þinghá sem gerðinni var lokið eða hennar var beiðst.
     Kröfu um miskabætur samkvæmt fyrirmælum laga þessara má framselja hafi hún verið dæmd eða viðurkennd. Gengur hún að arfi með sama skilorði, svo og ef mál hefur verið höfðað til heimtu hennar fyrir lát tjónþola.

VIII. KAFLI
Gildistaka, brottfallin lög o.fl.

44. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirfarandi lög og ákvæði laga:
  1. Lög um kyrrsetningu og lögbann, nr. 18 22. mars 1949.
  2. 3. mgr. 209. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936.
  3. 93. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20 8. mars 1954.
  4. Í 4. málsl. 26. gr. laga um prentrétt, nr. 57 10. apríl 1956, orðin „nr. 18/1949“.
  5. 5. tölul. 4. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54 6. apríl 1971.
  6. 2. mgr. 15. gr. þinglýsingalaga, nr. 39 10. maí 1978.
  7. 2. gr. laga um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana, nr. 12 30. apríl 1981.
  8. 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26 14. apríl 1982.
  9. 2. mgr. 39. gr. hafnalaga, nr. 69 28. maí 1984.
  10. 2. mgr. 31. gr. laga um viðskiptabanka, nr. 86 4. júlí 1985.
  11. 2. mgr. 35. gr. laga um sparisjóði, nr. 87 4. júlí 1985.


45. gr.

     Hafi kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerð byrjað fyrir gildistöku laga þessara, en er ólokið á því tímamarki, fer um framhald hennar eftir fyrirmælum þessara laga. Á það og við um skilyrði fyrir gerðinni, hvort sem skilyrði hafi verið fyrir henni eða ekki eftir fyrirmælum eldri laga.

46. gr.

     Fyrirmæli laga þessara um varðveislu og skil á tryggingu, sem málsaðili setur, skulu frá gildistöku þeirra taka til tryggingar sem sett hefur verið fyrir gerð eftir eldri lögum.

47. gr.

     Beitt skal ákvæðum 19. gr. um vörslur eigna og umráðasviptingu þótt gerð hafi farið fram fyrir gildistöku laga þessara.
     Fyrirmæli 25. gr. og 1. mgr. 32. gr. gilda um ráðstafanir til að halda uppi lögbanni sem lagt hefur verið á fyrir gildistöku laga þessara.

48. gr.

     Um heimildir til endurupptöku gerðar, sem farið hefur fram fyrir 1. júlí 1992, skal farið eftir fyrirmælum eldri laga þótt endurupptöku sé beiðst eftir þann tíma, en um framkvæmd hennar skal farið eftir ákvæðum 5. mgr. 22. gr., eftir því sem við getur átt.

49. gr.

     Fyrirmæli 32. gr. um refsingu og skaðabætur vegna brota á lögbanni taka til athafna sem eiga sér stað eftir gildistöku laga þessara þótt lögbann hafi verið lagt á í gildistíð eldri laga.

50. gr.

     Ef ágreiningsmál er rekið fyrir fógetarétti um kyrrsetningu, löggeymslu eða lögbann við gildistöku laga þessara eða ákvörðun hefur verið tekin um rekstur slíks máls fyrir þann tíma skal málið sjálfkrafa sæta áframhaldandi meðferð fyrir þeim héraðsdómi sem tekur við lögsögu í umdæminu. Meðferð slíks máls skal lokið eftir þeim reglum sem giltu fyrir 1. júlí 1992.
     Atriði varðandi kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerð, sem upp hafa komið fyrir gildistöku laga þessara, verða ekki borin undir héraðsdóm eftir fyrirmælum 5. mgr. 23. gr. eða V. kafla.

51. gr.

     Mál til staðfestingar kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, sem lokið hefur verið fyrir gildistöku laga þessara, skal höfðað og rekið eftir reglum eldri laga.

52. gr.

     Fyrirmæli VII. kafla um skaðabætur taka aðeins til atvika við kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerð sem fara eftir fyrirmælum þessara laga. Gilda fyrirmæli eldri laga um bætur vegna gerðar sem farið hefur eftir þeim.

Samþykkt á Alþingi 10. apríl 1990.