Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1029, 113. löggjafarþing 320. mál: fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri (heildarlög).
Lög nr. 34 25. mars 1991.

Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.


1. gr.

     Lög þessi gilda um hvers kyns fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi nema annað leiði af ákvæðum annarra laga eða reglum settum samkvæmt þeim.

2. gr.

     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
      Erlendur aðili: Einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili, sem á heimili erlendis, erlent ríki og ríkisfyrirtæki, svo og atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis eða á þar heimili samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili erlendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt samþykktum sínum.
      Íslenskt atvinnufyrirtæki: Atvinnufyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi og á heimili hér á landi, án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi viðkomandi atvinnufyrirtækis er háttað. Atvinnufyrirtæki telst eiga heimili hér á landi ef það er skráð hér á landi, ef það telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi.
      Atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum: Íslenskt atvinnufyrirtæki þar sem erlendur aðili eða aðilar eiga meiri hluta fyrirtækisins, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki.
      Fjárfesting: Fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut sem fyrir er í atvinnufyrirtæki.
      Erlend fjárfesting: Fjárfesting erlends aðila í atvinnurekstri hér á landi, án tillits til þess hvort um er að ræða nýtt framlag eða endurfjárfestingu á úthlutuðum arði eða hlut eða söluandvirði vegna fyrri fjárfestingar hér á landi.

3. gr.

     Erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum sem í þessum lögum eða sérlögum greinir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og að fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt enda njóti íslenskir aðilar ekki lakari réttar til fjárfestingar í heimaríki hlutaðeigandi aðila.

4. gr.

     Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
  1. Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt lögum nr. 33 19. júní 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi.
  2. Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi, en með vinnslu sjávarafurða er hér átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
  3. Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.
  4. Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki, sem stundar flugrekstur hér á landi, má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%.
  5. Erlendir aðilar mega eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka sem rekinn er af hlutafélagi.
  6.      Frá 1. janúar 1992 er erlendum hlutafélagsbönkum, sem eru skráðir erlendis og eiga þar varnarþing, heimilt að starfrækja rekstur útibúa hér á landi að fengnu leyfi viðskiptaráðherra.
  7. Fjárfesting erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
  8. Fari heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi fram úr 250 milljónum króna á einu almanaksári skal fjárfesting umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk háð sérstöku leyfi viðskiptaráðherra. Viðmiðunarmörkin miðast við lánskjaravísitölu í júní 1990, 2887 stig, og breytist í samræmi við breytingar sem verða á henni til hækkunar eða lækkunar. Fjárfesting erlends aðila telst eiga sér stað í skilningi þessa töluliðar þegar tilkynningarskylda stofnast, sbr. 5. gr. Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskiptaráðherra. Með heildarfjárfestingu í atvinnugrein er átt við áætlaða fjárfestingu í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar.
  9. Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
    1. Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi, nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra, enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum.
    2. Um rétt hlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög.
    3. Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum sem heimili eiga erlendis leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. b-lið hér að framan. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins.
  10. Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
  11.      Ef erlendur aðili sem veðhafi eignast fasteign hér á landi við útgáfu uppboðsafsals eða með samningum til lúkningar veðskuldar og veðhafinn hefur eigi eignarhaldsrétt samkvæmt lögum nr. 19/1966 skal hann selja eignina svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að eignin komst í hans eigu. Sama gildir um erlendan veðhafa sem eignast á sama hátt eignarréttindi sem honum er óheimilt að eiga skv. 4. gr.


5. gr.

     Tilkynna ber Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirliti, alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og nauðsynleg teljast að mati Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands gerir viðskiptaráðherra jafnharðan grein fyrir þeim tilkynningum um erlenda fjárfestingu sem gjaldeyriseftirlitinu berast. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki, en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.
     Seðlabanki Íslands skal fyrri hluta hvers árs birta opinberlega upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan ásamt upplýsingum um heildarfjárfestingu erlendra aðila eftir atvinnugreinum.
     Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila.

6. gr.

     Erlendum aðila, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal frjálst að flytja í því skyni til landsins erlendan gjaldmiðil, enda sé slíkur fjármagnsflutningur tilkynntur gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands. Um skilaskyldu slíks gjaldmiðils skal fara samkvæmt almennum reglum. Sé um að ræða erlendan gjaldmiðil sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna gengisskráningu á skal hinn erlendi aðili eiga rétt á að fá hinum erlenda gjaldmiðli skipt í íslenskar krónur.

7. gr.

     Erlendur aðili, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal eiga rétt á að fá yfirfært í hvern þann erlenda gjaldmiðil, sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna skráningu á, móttekinn arð eða annan hagnaðarhlut og söluandvirði fjárfestingar.

8. gr.

     Í íslenskum atvinnufyrirtækjum skulu framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna vera búsettir hér á landi óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Viðskiptaráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

9. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með leyfisveitingar samkvæmt lögum þessum og annast eftirlit með framkvæmd þeirra að svo miklu leyti sem tiltekið eftirlit eða leyfisveitingar eru ekki samkvæmt ákvæðum laganna faldar öðrum.
     Viðskiptaráðherra getur bannað erlendum aðila fjárfestingu í atvinnurekstri hér á landi ef hann hefur verið sviptur réttindum til atvinnurekstrar með dómi í öðru ríki.

10. gr.

     Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal vera viðskiptaráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar samkvæmt lögum þessum og umsagnaraðili um einstök mál. Nefndin skal skipuð fimm mönnum kosnum hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Viðskiptaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi hinna þingkjörnu nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Viðskiptaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.
     Nú telur nefndin að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins, skerði verulega samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein eða sé á annan hátt til þess fallin að hafa óæskileg áhrif á atvinnulíf í landinu og getur viðskiptaráðherra þá stöðvað viðkomandi fjárfestingu enda kunngjöri hann þá slíka ákvörðun innan átta vikna frá því að Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirliti, berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 5. gr.

11. gr.

     Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

12. gr.

     Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Mál út af brotum á lögum þessum fara að hætti opinberra mála.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Takmarkanir þær, sem lög þessi setja fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, skulu ekki ná til fjárfestingar erlends aðila sem átt hefur sér stað fyrir gildistöku laga þessara samkvæmt heimildum í eldri lögum. Tilkynna ber slíka fjárfestingu til Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirlits, sbr. 5. gr., innan þriggja mánaða frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 1991.