Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1091, 121. löggjafarþing 31. mál: helgidagafriður (heildarlög).
Lög nr. 32 14. maí 1997.

Lög um helgidagafrið.


I. KAFLI
Tilgangur laganna.

1. gr.

     Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum.

II. KAFLI
Um helgidagafrið og helgidaga þjóðkirkjunnar.

2. gr.

     Helgidagar þjóðkirkjunnar eru þeir sem nú skal greina:
  1. Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu.
  2. Föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur.
  3. Aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags.


III. KAFLI
Um helgidagafrið.

3. gr.

     Óheimilt er að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.

4. gr.

     Um starfsemi á helgidögum þjóðkirkjunnar gilda eftirfarandi reglur:
  1. Á helgidögum skv. 1. tölul. 2. gr. er öll almenn starfsemi heimil.
  2. Á helgidögum skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. er eftirfarandi starfsemi óheimil:
    1. Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.
    2. Markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi.


5. gr.

     Á helgidögum skv. 2. tölul. 2. gr. er eftirfarandi starfsemi undanþegin banni því er greinir í 4. gr.:
  1. Starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga. Hið sama gildir um gististarfsemi og tengda þjónustu.
  2. Íþrótta- og útivistarstarfsemi.
  3. Listsýningar, tónleikar, leiksýningar og kvikmyndasýningar eða sams konar sýningar. Einnig má halda og veita aðgang að sýningum er varða vísindi eða er ætlað að gegna almennu upplýsingahlutverki, svo og að hafa opin listasöfn og bókasöfn. Starfsemi þessi má ekki hefjast fyrr en kl. 15.00.
  4. Heimila má að dansleikir er hefjast að kvöldi laugardags fyrir páska eða hvítasunnu standi aðfaranótt páskadags og hvítasunnudags samkvæmt almennum reglum, þó eigi lengur en til kl. 3.00.

     Á helgidögum skv. 3. tölul. 2. gr. er starfsemi lyfjabúða, bifreiðastöðva, gisti- og veitingastarfsemi undanþegin því banni er greinir í 4. gr.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

6. gr.

     Lögreglustjóri getur, þegar sérstakar ástæður mæla með því, leyft að haldnar séu samkomur og sýningar eða að stofnað sé til svipaðrar starfsemi sem greinir í 5. gr. á þeim tíma sem helgidagafriður skv. 5. gr. á að ríkja.
     Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. tölul. 4. gr. er lögreglustjóra heimilt að veita leyfi fyrir einkasamkvæmi af sérstöku tilefni.

7. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða sektum.
     Brjóti handhafi opinbers starfsleyfis gegn lögum þessum er heimilt að svipta hann leyfinu tímabundið eða fyrir fullt og allt ef brot er ítrekað.

8. gr.

     Dóms- og kirkjumálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1997.