Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1550, 122. löggjafarþing 445. mál: lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara (heildarlög).
Lög nr. 86 16. júní 1998.

Lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.


A. Grunnskólakennarar og stjórnendur grunnskóla.
I. KAFLI
Starfsheiti.

1. gr.

     Rétt til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla, sbr. lög nr. 66/1995, um grunnskóla, hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.

2. gr.

     Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
  1. prófi frá Kennaraskóla Íslands;
  2. B.Ed.-prófi eða hærri prófgráðu frá Kennaraháskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri;
  3. BA-prófi, BS-prófi eða hærri prófgráðu frá Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri í kennslugrein sinni/kennslugreinum sínum ásamt fullgildu námi í kennslu- og uppeldisfræði til kennsluréttinda;
  4. prófi frá tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík;
  5. prófi frá teiknikennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands;
  6. prófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands;
  7. prófi frá Hússtjórnarkennaraskóla Íslands;
  8. öðru jafngildu námi sem hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á grunnskólastigi.

     Heimilt er að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

3. gr.

     Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skilyrði tilskipunar 89/48/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

4. gr.

     Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. fullnægi skilyrðum 2. gr. skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
     Nám kennara skal metið í námseiningum og skal hver eining jafngilda námsvinnu einnar viku.
     Nánar skal kveðið á um starfshætti nefndarinnar í reglugerð.

II. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningarreglur.

5. gr.

     Til þess að verða ráðinn eða skipaður kennari við grunnskóla skal umsækjandi hafa lokið námi skv. 2. gr. og öðlast leyfi menntamálaráðherra til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr.
     Kennari, sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni grein, skal hafa forgang til kennslu í sinni grein/sínum greinum í 8.–10. bekk. Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar.

6. gr.

     Sveitarstjórn ræður og skipar kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra við grunnskóla.
     Heimilt er að skipa kennara sem starfað hefur í a.m.k. eitt ár við grunnskóla með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólastjóra og skólanefndar.
     Grunnskólakennari á rétt á fastráðningu með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti eftir tveggja ára starf nema verklok séu fyrir fram ákveðin. Heimilt er þó að ráða grunnskólakennara ótímabundið með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá fyrsta degi ráðningar. Skólastjórar ráða stundakennara, sbr. 9. gr., með samþykki skólanefnda.

7. gr.

     Til þess að verða ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal umsækjandi hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á grunnskólastigi.
     Heimilt er að skipa skólastjórnanda sem starfað hefur í a.m.k. tvö ár við grunnskóla, þar af eitt ár sem skólastjórnandi, með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólanefndar og sveitarstjórnar.
     Við ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra skal tekið tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjanda.

8. gr.

     Um ráðningu og skipun kennara og skólastjórnenda grunnskóla fer eftir ákvæðum laga þessara og laga nr. 66/1995, um grunnskóla, sbr. 2. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.
     Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar, og aldursstig nemenda. Nú er heimilt að ráða stundakennara skv. 9. gr. og getur skólastjóri þá ráðið grunnskólakennara án undangenginnar auglýsingar. Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
     Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.
     Samband íslenskra sveitarfélaga skal setja leiðbeinandi reglur um umsóknareyðublöð og meðferð umsókna um kennslu- og stjórnunarstörf.

9. gr.

     Kennsla skal falin kennurum sem ráðnir eru eða skipaðir eftir því sem við verður komið. Stundakennara má þó ráða:
  1. ef um er að ræða minna en hálfa stöðu;
  2. til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga;
  3. þann sem gegnir öðru launuðu aðalstarfi.

     Stundakennara skv. 1. og 3. tölul. skal ráða með ráðningarsamningi eigi lengur en til eins árs í senn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.

10. gr.

     Óheimilt er að ráða eða skipa aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara til kennslu við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla, sbr. lög nr. 66/1995, um grunnskóla.
     Nú sækir enginn grunnskólakennari samkvæmt lögum þessum um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og getur skólastjóri þá sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla við menntamálaráðuneytið um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úrskurðar hvort heimila skuli að lausráða tiltekinn réttindalausan umsækjanda til kennslustarfa.
     Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til menntamálaráðherra. Málskot til menntamálaráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
     Ef hvorki skólastjóri né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu grunnskólakennara í kennslustarf getur skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. leitað til undanþágunefndar grunnskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann.
     Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skv. 2. eða 4. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið grunnskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
     Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af Kennaraháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
     Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

B. Framhaldsskólakennarar og stjórnendur framhaldsskóla.
III. KAFLI
Starfsheiti.

11. gr.

     Rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við framhaldsskóla, sbr. 1. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra. Í leyfisbréfi skal tilgreina kennslugrein eða sérsvið viðkomandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

12. gr.

     Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 1l. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
  1. námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 90 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu eigi færri en 60 einingar vera í aðalgrein og 30 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 30 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda;
  2. námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 120 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu 60–90 einingar vera í aðalgrein og 30–60 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda;
  3. námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðngrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda, enda hafi viðkomandi starfsreynslu og hafi haft nema í samningsbundnu námi, annars komi 30 eininga nám í kennslufræði;
  4. öðru fagnámi sem menntamálaráðuneytið viðurkennir og miðast við kennslu í framhaldsskóla ásamt 30 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda;
  5. öðru jafngildu námi sem hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi.

     Þeir sem lokið hafa námi frá Kennaraskóla Íslands fullnægja kröfum um nám í kennslufræði til kennsluréttinda.
     Heimilt er að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

13. gr.

     Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skilyrði tilskipunar 89/48/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

14. gr.

     Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 11. gr. fullnægi skilyrðum 12. gr. skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Háskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
     Nám kennara skal metið í námseiningum og skal hver eining jafngilda námsvinnu einnar viku.
     Nánar skal kveðið á um starfshætti nefndarinnar í reglugerð.

IV. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningarreglur.

15. gr.

     Til þess að verða ráðinn til kennslu í framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Miða skal við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem hann er menntaður á, sbr. ákvæði 11. og 12. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skólameistara heimilt að ráða sérfræðing tímabundið til að kenna sína sérgrein enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum eða minna á viku.
     Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þar með talið um mat á menntun til kennslu í sérgreinum framhaldsskóla.

16. gr.

     Framhaldsskólakennarar skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Skal sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi.
     Heimilt er þó að ráða framhaldsskólakennara til starfa tímabundið og er unnt að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Tímabundin ráðning skal þó aldrei vara samfellt lengur en tvö ár.

17. gr.

     Við ráðningu í stjórnunarstörf við framhaldsskóla skal umsækjandi hafa kennsluréttindi. Tekið skal tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjanda.

18. gr.

     Um ráðningu skólastjórnenda og framhaldsskólakennara fer eftir ákvæðum laga þessara, laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal tilgreina í hvaða kennslugrein/kennslugreinum eða á hvaða sérsviði eru lausar stöður eða störf. Heimilt er þó að ráða framhaldsskólakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sérfræðinga, sbr. 2. mgr. 15. gr., án undangenginnar auglýsingar.
     Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
     Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.

19. gr.

     Kennsla skal falin kennurum sem ráðnir hafa verið, sbr. 16. gr., eftir því sem við verður komið. Stundakennara má þó ráða:
  1. ef um er að ræða minna en 1/3 hluta starfs;
  2. til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga skemur en eina önn;
  3. þann sem gegnir öðru aðalstarfi.

     Stundakennara skv. 1. og 3. tölul. skal ráða með ráðningarsamningi eigi lengur en til eins árs í senn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.

20. gr.

     Óheimilt er að ráða til kennslu við framhaldsskóla, sbr. 11. gr., aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara.
     Nú sækir enginn sem fullnægir ákvæðum þessara laga um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og getur skólameistari þá sótt um heimild til undanþágunefndar framhaldsskóla við menntamálaráðuneytið um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úrskurðar hvort heimila skuli að lausráða tiltekinn réttindalausan umsækjanda til kennslustarfa. Skólameistara er ekki skylt að leita til undanþágunefndar í slíkum tilvikum sé um að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum á viku eða minna, sbr. 15. gr.
     Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til menntamálaráðherra. Málskot til menntamálaráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
     Ef hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu framhaldsskólakennara í kennslustarf getur skólameistari þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. leitað til undanþágunefndar framhaldsskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.
     Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skv. 2. eða 4. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið framhaldsskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
     Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Háskóla Íslands og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
     Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

21. gr.

     Heimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara þegar um er að ræða kennslustörf í sérskólum í listum og í sérstökum listnámsdeildum framhaldsskólanna.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 48/1986.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1998.