Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 956, 123. löggjafarþing 323. mál: Lífeyrissjóður bænda (heildarlög).
Lög nr. 12 11. mars 1999.

Lög um Lífeyrissjóð bænda.


I. KAFLI
Heiti, hlutverk, aðild, iðgjöld og stjórn.

1. gr.

     Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður bænda. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
     Sjóðurinn starfar með því markmiði og skipulagi sem segir í lögum þessum og samþykktum sjóðsins.
     Heimilt er að skipta sjóðnum í deildir eftir því hvort lífeyrisréttindi eru í sameign eða séreign.
     Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum þessara laga og samþykkta sjóðsins.

2. gr.

     Sjóðfélagar skulu vera allir bændur og makar þeirra. Ef maki bónda er ekki aðili að búrekstri og á sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði er sjóðstjórn skylt að veita undanþágu frá sjóðsaðild að Lífeyrissjóði bænda óski viðkomandi þess. Bóndi í þessu sambandi, þar með talinn aðili að félagsbúi, einkahlutafélagi eða öðru lögformlegu búrekstrarformi, telst sá er stundar búskap á lögbýli þar sem hann á lögheimili, og búrekstur fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02, enda hafi hann náð sextán ára aldri.
     Launþegar er starfa við landbúnað skulu vera sjóðfélagar, enda hafi þeir náð sextán ára aldri og eigi ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði.
     Heimilt er stjórn sjóðsins að veita bændum sem stunda búrekstur utan lögbýla, svo og bændum sem ekki eiga lögheimili á bújörðum sínum, aðild að sjóðnum, enda sé um að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur meiri hluta tekna sinna af. Þá getur sjóðstjórn heimilað sjóðsaðild mökum og sambúðaraðilum, sbr. 1. mgr., þeirra aðila sem um ræðir í þessari málsgrein.
     Elli- og örorkulífeyrisþegar sjóðsins teljast sjóðfélagar.

3. gr.

     Iðgjaldsstofn bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri, skal vera reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Með búrekstri í þessu sambandi er átt við búrekstur samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Iðgjald þeirra bænda og maka þeirra sem reikna sér ekki laun heldur þiggja laun frá einkahlutafélagi eða öðrum lögaðila sem rekur bú, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa vegna búrekstrar.
     Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. mgr. 2. gr. skal vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal vera 50% hærra en iðgjald skv. 1. málsl. Mótframlag skal greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
     Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal halda eftir af þeim iðgjaldi þeirra sjóðfélaga sem beingreiðslna njóta fyrir það tímabil og skila því til sjóðsins. Nú nýtur bóndi ekki beingreiðslna og skal þá iðgjald innheimt samtímis og með búnaðargjaldi. Stofn til greiðslu upp í iðgjald skal vera reiknuð laun samkvæmt greinargerð um reiknað endurgjald í ársbyrjun eða áætlun um greidd laun yfirstandandi árs vegna búrekstrar. Liggi ekki fyrir upplýsingar um reiknuð laun eða áætlun um greidd laun yfirstandandi árs skal miðað við laun næstliðins tekjuárs. Iðgjöldum sem innheimt eru skv. 1. og 2. málsl. skal skilað til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að þau eru greidd og skulu þau sundurliðuð eftir sjóðfélögum.
     Greiðsla upp í iðgjald skv. 2. málsl. 3. mgr. skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum, mánuðina ágúst til desember á tekjuárinu. Gjalddagar iðgjaldagreiðslna skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember. Heimilt er sjóðnum að annast sjálfur innheimtu iðgjalda og framlaga skv. 2. mgr., sbr. 3. málsl. 1. mgr., og skal gjalddagi vera tíundi dagur næsta mánaðar eftir launatímabil. Greiði sjóðfélagi ekki iðgjald innan 30 daga frá gjalddaga eða sé það vangreitt skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga til greiðsludags.
     Frá greiðsluskyldu iðgjaldi skv. 2. mgr. skal draga þá fjárhæð sem greidd hefur verið upp í iðgjald skv. 3. mgr. Ef iðgjald er hærra en greiðsla upp í iðgjald skal því sem á vantar haldið eftir af beingreiðslu eða innheimt samhliða búnaðargjaldi, eftir því sem við á, og skal innheimtunni dreift á þá fimm gjalddaga sem eftir eru af tekjuárinu, sbr. 4. mgr. Sé iðgjaldið lægra en greitt hefur verið upp í iðgjald skulu vextir reiknaðir á endurgreiðslu samkvæmt vaxtalögum.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um iðgjaldagreiðslur, innheimtu, innheimtuþóknun, dráttarvexti og annað er varðar framkvæmd þessarar greinar.

4. gr.

     Nú hefur sjóðfélagi sem greiðir iðgjald skv. 1. mgr. 3. gr. atvinnutekjur af öðru en búrekstri og þessi störf veita ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði og er honum þá heimilt að greiða iðgjöld af slíkum tekjum til þessa sjóðs. Iðgjöld skulu vera 10% af tryggðum tekjum eða greiddum launum, þ.e. 4% iðgjald sjóðfélaga og 6% mótframlag vinnuveitanda.
     Iðgjöld launþega sem eru sjóðfélagar skv. 2. mgr. 2. gr. skulu vera 10% af heildarlaunum, þ.e. 4% iðgjald sjóðfélaga og 6% mótframlag vinnuveitanda.
     Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin mótframlagi.
     Gjalddagi iðgjalda og framlaga skv. 1. og 2. mgr. er tíundi dagur næsta mánaðar eftir launatímabil og eindagi 30 dögum síðar. Dragist greiðsla fram yfir eindaga skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga til greiðsludags.
     Launagreiðanda og sjálfstæðum atvinnurekanda ber að tilkynna sjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á iðgjöldum og framlögum til sjóðsins þar sem þeir hafi hætt starfsemi eða launþegar þeirra látið af störfum.

5. gr.

     Enginn greiðir iðgjöld til sjóðsins lengur en til 70 ára aldurs.
     Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

6. gr.

     Iðgjöld bónda og maka hans eða sambúðaraðila vegna búrekstrar, sbr. 3. gr., skulu skiptast jafnt milli þeirra. Hafi annað hvort þeirra atvinnutekjur af öðru en búrekstri, sem skapa ótvíræðan rétt til lífeyris í öðrum lífeyrissjóði, getur sjóðstjórn fallist á skriflega umsókn aðila um aðra skiptingu iðgjalda. Ef annar aðilinn er undanþeginn sjóðsaðild, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr., skal iðgjöldum ekki skipt.
     Iðgjöld skv. 3. og 4. gr. skulu hvert almanaksár umreiknuð í stig er mynda grundvöll lífeyrisréttinda.
     Til grundvallar stigaútreikningi er tiltekin fjárhæð fyrir hvern almanaksmánuð, í janúar 1998 51.113 kr., og skal hún breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 181,4 stigum miðað við janúar 1998.
     Stig ársins reiknast þannig að deilt skal í 25-föld ársiðgjöld sjóðfélaga með grundvallarlaunum ársins skv. 3. mgr. og skulu stig reiknast með þremur aukastöfum. Ekki skal reikna stig lengur en til loka þess mánaðar er 70 ára aldri er náð. Séu iðgjaldaár fleiri en 30 skal við framreikning vegna örorku- og makalífeyris reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann en að hálfu stig þeirra ára sem afgangs verða.

7. gr.

     Heimilt er að setja ákvæði í samþykktir sjóðsins um að lífeyrissjóðurinn megi taka við viðbótariðgjaldi sem greitt er umfram iðgjald skv. 3. og 4. gr. og að viðbótariðgjaldi þessu verði varið til ávinnslu réttinda hjá sjóðnum eftir nánari reglum í samþykktum.

8. gr.

     Fjármálaráðherra skal skipa stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skal stjórnin skipuð fimm mönnum. Skal einn þeirra tilnefndur af Hæstarétti og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Einn skal tilnefndur af landbúnaðarráðherra, tveir af stjórn Bændasamtaka Íslands en einn skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.

II. KAFLI
Lífeyrisréttindi.

9. gr.

     Hver sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins og er orðinn fullra 67 ára að aldri á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.
     Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris til 70 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris, sbr. 1. mgr., um tiltekið hlutfall, í samræmi við tryggingafræðilegt mat, fyrir hvern mánuð sem töku hans er frestað samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins.
     Stjórn sjóðsins er heimilt, ef forsendur skapast, að undangenginni tryggingafræðilegri úttekt á stöðu sjóðsins, að setja í samþykktir ákvæði um heimild til sjóðfélaga til að hefja töku lífeyris áður en hann nær 67 ára aldri, þó ekki fyrr en frá 65 ára aldri. Skal þá upphæð ellilífeyris lækka um tiltekið hlutfall, í samræmi við tryggingafræðilegt mat, fyrir hvern mánuð sem vantar á 67 ára aldur er taka hans hefst.

10. gr.

     Sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi sem trúnaðarlæknir sjóðsins metur 50% eða meira og hefur greitt til sjóðsins í a.m.k. tvö ár á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Heimilt er að fela tryggingayfirlækni mat á örorku fyrir sjóðinn og skal það nánar ákveðið í samþykktum sjóðsins.
     Örorkulífeyrir skal framreiknaður skv. 5. mgr., enda uppfylli sjóðfélaginn öll eftirtalin skilyrði:
  1. hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum fyrir orkutap og áunnið sér a.m.k. 0,4 stig hvert þessara þriggja ára,
  2. hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á undanförnum tólf mánuðum fyrir orkutap,
  3. hafi ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til notkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

     Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til sjóðsins.
     Hundraðshluta orkutaps og upphaf þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda, svo og að fengnu áliti trúnaðarlæknis sjóðsins, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. Örorkumat skal fyrstu þrjú árin miðast við vanhæfni sjóðfélaga til að stunda landbúnaðarstörf. Að því tímabili loknu skal hundraðshluti orkutaps ákvarðaður að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum. Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri meðan hann heldur óskertum þeim tekjum er hann hafði áður og aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. 12. gr. verða hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem hann hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Hafi sjóðfélagi verið öryrki áður en hann hóf greiðslur í sjóðinn er ekki um örorkulífeyrisrétt úr þessum sjóði að ræða vegna þeirrar örorku.
     Þegar skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma skv. 2. mgr. eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt að viðbættum lífeyri er svarar til þeirra réttinda sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér til loka þess mánaðar er hann nær 67 ára aldri, sbr. þó 3. málsl. 4. mgr. 6. gr., samkvæmt reglum sem nánar skal kveðið á um í samþykktum. Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Eigi sjóðfélagi ekki rétt á framreikningi miðast hámark örorkulífeyris við áunnin stig.
     Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó 1. mgr.
     Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Sé um tímabundna örorku að ræða í skemmri tíma en sex mánuði skal ekki greiða örorkulífeyri.
     Skylt er öryrkja sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að meta rétt hans til lífeyris.
     Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði á þeim tíma er örorkan óx.
     Örorkulífeyrir fellur niður við lok þess mánaðar er sjóðfélagi nær 67 ára aldri. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn í samræmi við áunnin réttindi. Sé um framreikningsrétt skv. 5. mgr. að ræða skal ellilífeyrir ákveðinn þannig að áætluðum réttindum skv. 5. mgr. skal bætt við áunnin réttindi. Hafi örorkulífeyrisþegi verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í þessum eða öðrum sjóði eftir að honum var úrskurðaður örorkulífeyrir í þessum sjóði skulu þau lífeyrisréttindi koma til frádráttar áætluðum réttindum við framreikning.

11. gr.

     Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjöld til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum eða öðlast rétt til framreiknings skv. 2. og 5. mgr. 10. gr. og á þá eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum í a.m.k. 24 mánuði eftir andlátið. Hafi makinn barn yngra en átján ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára skal makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir.
     Nú andast sjóðfélagi sem orðinn var sjóðfélagi fyrir árslok 1983 og skipti ekki réttindum sínum í árslok 1983 með maka sínum og á þá eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum að loknum þeim greiðslutíma sem kveðið er á um í 1. mgr. til æviloka. Slíkur réttur miðast þó einungis við áunnin réttindi í sjóðnum í árslok 1983 án framreiknings.
     Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða lífeyri skv. 1. og 2. mgr. til aðila sem sannanlega hefur annast heimili hins látna um árabil.
     Hámark makalífeyris miðast við 50% af hámarksörorkulífeyri, sbr. 5. mgr. 10. gr. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til loka þess mánaðar er hann hefði náð 67 ára aldri, í samræmi við ákvæði 10. mgr. 10. gr. Veiti dauðsfall eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði, vegna ókomins tíma, að hinn látni hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.
     Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.
     Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar en gengur aftur í gildi ef hjúskapnum, sambúðinni eða staðfestu samvistinni er slitið án réttar til lífeyris.

12. gr.

     Andist sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til framreiknings skv. 2. og 5. mgr. 10. gr. skulu börn hans og kjörbörn sem yngri eru en átján ára eiga rétt á lífeyri til átján ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris skv. 2. og 5. mgr. 10. gr. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt til þessa sjóðs.
     Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorkulífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir vera að lágmarki 7.500 kr. með hverju barni. Upphæðir þessar skulu breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg stig, áætluð í samræmi við 5. mgr. 10. gr., eru a.m.k. eitt stig. Séu áætluð árleg stig færri lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árlegur stigafjöldi er minni en 0,5 stig. Heimilt er að setja nánari ákvæði um upphæðir barnalífeyris í samþykktir sjóðsins.
     Fósturbörn og stjúpbörn sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti skulu eiga sama rétt og börn eða kjörbörn sjóðfélaga til barnalífeyris. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera þær sömu og ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.

13. gr.

     Grundvallarlaun lífeyris skv. 9., 10. og 11. gr. eru 51.113 kr. í janúar 1998, sbr. 3. mgr. 6. gr. Fjárhæðin breytist 1. janúar og 1. júlí ár hvert í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 181,4 stig.
     Upphæðir elli- og örorkulífeyris skv. 9. og 10. gr. eru hundraðshluti af grundvallarlaunum, sbr. 1. mgr., og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda, sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með margföldunarstuðli að lágmarki 1,4, samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Upphæðir makalífeyris skv. 11. gr. skulu reiknaðar á sama hátt en með margföldunarstuðli sem er 50% lægri.

14. gr.

     Verði breytingar gerðar á útreikningi lífeyrishlutfalls í samþykktum skal hlutfall lífeyris sem úrskurðaður hefur verið samkvæmt þessum lögum og I. kafla eldri laga breytast að sama skapi.

III. KAFLI
Eftirlaun til aldraðra í Lífeyrissjóði bænda.

15. gr.

     Þeim sem fæddir eru 1914 eða fyrr og hafa verið bændur á lögbýlum og átt þar lögheimili skal tryggður ellilífeyrir í samræmi við ákvæði 16. gr., enda eigi þeir að baki a.m.k. tíu ára réttindatíma, sbr. 3. mgr. Vanti mann sem látið hefur af búskap á árunum 1964–69 brot úr ári til að ná fullum tíu árum veldur það þó ekki réttindamissi ef hann hefur látið af búskap á tímabilinu frá fardögum til ársloka og hefði með búskap til loka þess árs náð fullum tíu árum.
     Nú andast maður sem öðlast hafði rétt til lífeyris skv. 1. mgr. eða var að ávinna sér slíkan rétt og hefði getað uppfyllt skilyrði 1. mgr. með áframhaldandi réttindavinnslu og skal þá eftirlifandi maki eiga rétt til makalífeyris skv. 16. gr., enda hafi hinn látni fallið frá eftir 31. desember 1964 og áunnið sér a.m.k. fimm ára réttindi, sbr. 3. mgr. Það er enn fremur skilyrði að hjónabandið hafi staðið a.m.k. í fimm ár og verið stofnað áður en sjóðfélaginn náði 60 ára aldri. Óvígð sambúð eða staðfest samvist veitir sama rétt og hjúskapur, enda hafi hún verið tilkynnt sjóðnum skriflega fyrir andlátið. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita aðila sem sannanlega annaðist heimili bónda hliðstæðan lífeyri að honum látnum, enda hafi bæði verið ógift.
     Til réttindatíma skal einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955 sem hlutaðeigandi hefur verið bóndi á lögbýli og átt þar lögheimili. Réttindatími manns sem ekki hafði náð 55 ára aldri í árslok 1954 reiknast frá 1. næsta mánaðar eftir að þeim aldri er náð. Réttindatími reiknast í heilum mánuðum en aldrei skal hann reiknast lengri en 20 ár.
     Heimilt er stjórn sjóðsins að víkja frá skilyrðum 1. mgr. um lögheimili ef hlutaðeigandi bóndi hefur haft meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu. Enn fremur er henni heimilt að víkja frá skilyrðinu um lögbýli ef um hefur verið að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur haft allar eða nær allar tekjur sínar af. Áður en umsókn frá umsækjanda utan lögbýlis er afgreidd skal leita álits stjórnar hlutaðeigandi búnaðarsambands á því hvaða býlum á sambandssvæðinu megi í þessu sambandi jafna til lögbýla.

16. gr.

     Fjárhæð elli- og makalífeyris sem veittur er skv. 15. gr. miðast við réttindatíma, sbr. 3. mgr. 15. gr. Makalífeyrir skal enn fremur miðast við 100% grundvallarlaun skv. 1. mgr. 13. gr. og sama gildir um ellilífeyri ef skilyrðum 2. mgr. 15. gr. um hjúskap, óvígða sambúð eða staðfesta samvist er fullnægt, en að öðrum kosti skal lífeyrir miðast við 20% lægri tekjur. Fyrir réttindatíma til ársloka 1980 skal ellilífeyrir nema 1,923% nefndra tekna fyrir hvert réttindaár en makalífeyrir skal til sama tíma nema 5,341%, að viðbættu 1,068% fyrir hvert réttindaár. Hafi sjóðfélagi áunnið sér meiri rétt samkvæmt ákvæðum eldri laga um Lífeyrissjóð bænda einstök réttindaár skal þó miðað við þann rétt þau ár og fyrir réttindatíma eftir árslok 1980 skal jafnan miðað við áunninn rétt hvert einstakt réttindaár eða meðaltal þriggja bestu áranna ef um er að ræða tíma eftir að gjaldskyldu til sjóðsins lauk.
     Hafi bóndi stundað búskap þar til hann lést og verið yngri en 67 ára skal við ákvörðun hundraðshluta makalífeyris, auk réttindatíma skv. 3. mgr. 15. gr., taka tillit til þess tíma sem eftir var til 67 ára aldurs bóndans.
     Lífeyrir skv. 9.–11. gr. kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslum samkvæmt þessari grein. Verði lífeyrir hærri skv. 9. og 11. gr. en elli- og makalífeyrir samkvæmt þessari grein verður ekki um lífeyrisgreiðslur að ræða samkvæmt þessari grein.
     Greiðslur úr öðrum lífeyrissjóðum og hliðstæðar greiðslur úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum koma til frádráttar greiðslum samkvæmt þessari grein. Hafi hlutaðeigandi gengið úr lífeyrissjóði eftir árslok 1969 og afsalað sér réttindum sínum þar skal sá lífeyrir sem hann ella hefði átt rétt á dragast frá á sama hátt. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda úrskurðar hvernig innstæða í lífeyrissjóði með séreignarskipulagi skuli metin til frádráttar.
     Eigi maður, auk réttindatíma sem bóndi, jafnframt að baki réttindatíma samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra skal taka tillit til samanlagðs réttindatíma og ákveða lífeyrisgreiðslur í hlutfalli við réttindatíma og fjárhæð sem hvor aðili hefði greitt ef réttindatími hefði verið óskiptur. Aldrei skal reikna sama tímabil sem réttindatíma hjá báðum aðilum. Stjórn sjóðsins skal hafa samráð við umsjónarnefnd eftirlauna um nánari tilhögun við úrskurð og greiðslu lífeyris samkvæmt þessari málsgrein.
     Makalífeyrir samkvæmt þessari grein til þeirra sem ekki hafa náð 75 ára aldri skerðist ef hlutaðeigandi hefur tekjur af vinnu sem nemur 1/ 4 af grundvallarlaunum eða meira á almanaksári, sbr. 3. mgr. 6. gr., og skal þá skerða lífeyrinn um 1/ 12 fyrir hvern 1/ 12 hluta viðmiðunarlauna. Skerðist lífeyrir með þessu móti um meira en 3/ 4 skal hann felldur niður með öllu.

17. gr.

     Útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna samkvæmt ákvæðum 15. og 16. gr. skulu borin af ríkissjóði.

18. gr.

     Þeir bændur sem telja sig eiga rétt til lífeyris skv. 16. gr. skulu senda stjórn sjóðsins umsókn um hann og láta í té allar upplýsingar sem sjóðstjórnin telur sig þurfa að fá. Stjórn sjóðsins úrskurðar lífeyri skv. 16. gr.
     Þeim er nýtur lífeyris skv. 16. gr. og uppfyllir skilyrði 2. mgr. 15. gr. um hjúskap, óvígða sambúð eða staðfesta samvist er skylt að tilkynna stjórn sjóðsins skriflega og án tafar ef maki eða sambúðaraðili fellur frá ellegar hjúskap, óvígðri sambúð eða staðfestri samvist er slitið. Í síðarnefnda tilvikinu skal ellilífeyri skipt að jöfnu.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

19. gr.

     Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð er lífeyrisréttur myndaðist og í síðasta sinn fyrir þann mánuð er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Aldrei skal þó sjóðstjórn skylt að úrskurða lífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár, reiknað frá byrjun þess mánaðar er umsókn berst sjóðnum.

20. gr.

     Við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar sem tilkynnt var til sjóðsins samkvæmt eldri lögum skal áunnum stigum sjóðfélaga, þau ár sem hjónabandið eða sambúðin stóð fram til ársloka 1983, skipt að jöfnu hafi þeim ekki áður verið skipt samkvæmt ákvæðum 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1984.

21. gr.

     Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að fjárhagur sjóðsins sé ótryggur og ætla megi að eignir muni ekki duga fyrir heildarskuldbindingum skal stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingafræðing, beita sér fyrir viðeigandi breytingum á lögum og/eða samþykktum sjóðsins, enda finnist ekki aðrar leiðir til að bæta hag sjóðsins.

22. gr.

     Setja skal nánari reglur um skipulag sjóðsins og starfsemi auk frekari ákvæða um lífeyri, svo sem fjárhæðir og útreikning lífeyris og skilyrði fyrir greiðslum, í samþykktir sem fjármálaráðherra staðfestir að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Sjóðurinn skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra, endurskoðanda og tryggingafræðingi.

23. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. júlí 1999 og frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Grundvallarlaun lífeyris sem úrskurðaður hefur verið skv. I. kafla laga nr. 50/1984 skulu frá 1. janúar 1999 breytast í samræmi við ákvæði 1. mgr. 13. gr. Hlutfall þess lífeyris skal frá 1. janúar 1999 lækkað hlutfallslega í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. og nánari ákvæði í samþykktum sjóðsins.
     Grundvallarlaun lífeyris sem úrskurðaður hefur verið skv. II. kafla laga nr. 50/1984 skulu frá 1. janúar 1999 breytast í samræmi við ákvæði 1. mgr. 13. gr. Hlutfall þess lífeyris skal frá 1. janúar 1999 lækkað um 19,88%.
     Lífeyrir samkvæmt eldri lögum skal eigi verða lægri en hann hefði orðið samkvæmt lögum nr. 50/1984.
     Ákvæði 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. um 25-föld ársiðgjöld sjóðfélaga skal taka gildi 1. janúar 2000. Fyrir árið 1999 skal miða við 24-föld iðgjöld sjóðfélaga.
     Örorkulífeyrir þeirra örorkulífeyrisþega sjóðsins sem ná 67 ára aldri á tímabilinu frá 1. janúar til 30. júní 1999 fellur niður 1. júlí 1999. Ellilífeyrir þeirra skal úrskurðaður frá 1. júlí 1999 en að öðru leyti í samræmi við ákvæði 10. mgr. 10. gr.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 1999.