Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1319, 125. löggjafarþing 567. mál: rannsókn sjóslysa.
Lög nr. 68 20. maí 2000.

Lög um rannsókn sjóslysa.


1. gr.

     Lög þessi taka til slysa og atvika til sjós, í lögum þessum nefnd sjóslys, svo og til köfunarslysa, sbr. 7. gr. laga nr. 31/1996.
     Með sjóslysarannsóknum er átt við þá sérstöku málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum þessum og alþjóðareglum sem Ísland hefur staðfest.
     Rannsóknir sjóslysa samkvæmt lögum þessum miða að því einu að koma í veg fyrir slys um borð í skipum og að öryggi til sjós megi aukast.
     Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við sjóslys fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, og er slík rannsókn óháð rannsókn samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

     Í lögum þessum merkir orðið sjóslys þann atburð sem leiðir til skaða á mönnum og tjóns á skipi og verðmætum í sambandi við rekstur skips. Ráðherra setur nánari reglur um skilgreiningu á hugtakinu sjóslysi með hliðsjón af skilgreiningum í alþjóðareglum.

3. gr.

     Samgönguráðherra skipar fimm manna nefnd kunnáttumanna til fjögurra ára í senn til að rannsaka sjóslys og skal einn þeirra vera formaður. Nefndarmenn skulu hafa menntun og starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við sjóslysarannsóknir.
     Samgönguráðherra ræður, að fenginni umsögn nefndarinnar, framkvæmdastjóra sem ræður annað starfslið í samráði við nefndina. Kostnaður við nefndina greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.

     Rannsóknarnefnd sjóslysa starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Nefndin ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar sjóslyss umfram það sem henni er skylt samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

     Lögsaga rannsóknarnefndar sjóslysa tekur til allra íslenskra skipa, svo og allra erlendra skipa í siglingum að og frá landinu þegar sjóslys varðar íslenska hagsmuni. Heimilt er nefndinni að rannsaka önnur slys eða atvik sem verða á erlendum skipum er koma til landsins eða í íslenska efnahagslögsögu ef nefndin telur ástæðu til þess eða þess er óskað af fánaríki.
     Nefndin skal m.a. rannsaka:
  1. sjóslys þar sem skráð skip eiga hlut að máli og sem verða á íslensku yfirráðasvæði,
  2. sjóslys þar sem skip skráð á Íslandi á hlut að máli, hvar sem það er statt í heiminum,
  3. slys og önnur atvik til sjós og á vötnum sem verða á óskráðum skipum, þ.m.t. skipum undir 6 metrum að lengd.

     Um skráningu sjóslysa sem verða um borð í íslenskum skipum af hvaða stærð sem er, svo og skráningu slysa og atvika sem verða á erlendum skipum sem nefndin tekur til skoðunar, skulu settar sérstakar reglur.

6. gr.

     Nú verður sjóslys, sbr. 1., 2. og 5. gr., og ber þá skipstjóra, útgerðarmanni, Tilkynningarskyldu íslenskra skipa, Landhelgisgæslu, lögregluyfirvöldum eða öðrum sem verða þess áskynja skylda til að tilkynna og ganga úr skugga um án undandráttar að rannsóknarnefnd sjóslysa fái vitneskju um slysið.
     Skipstjóra eða þeim er kemur í hans stað er skylt að annast skráningu og tilkynningu allra slysa á mönnum sem verða á skipi eftir nánari reglum er samgönguráðuneytið setur í samráði við Tryggingastofnun ríkisins. Skráningar- og tilkynningarskyldan tekur m.a. til hvers konar vinnuslysa á sjó, eitrana, atvinnusjúkdóma og annarra þeirra atvika sem þýðingu kunna að hafa í því sambandi.

7. gr.

     Hafi sjóslys orðið, sbr. 6. gr., má ekki breyta vettvangi fyrr en skoðun þar til bærra aðila hefur farið fram, þ.m.t. að taka til geymslu alla hluti sem hreyfðir verða og tengjast slysinu. Verði sjóslys á hafi úti, þar sem eigi verður komist hjá því að breyta vettvangi áður en formleg rannsókn fer fram, er skipstjóra og öðrum skipstjórnarmönnum skylt að gera ítarlega skýrslu um vettvang, tildrög slyss og hverjir voru á vettvangi við störf eða annað. Skipstjórnarmönnum er skylt að taka til varðveislu hvers konar hluti sem bila, svo sem blakkir, lása, víra, keðjur, tóg og veiðarfærahluta, og annað sem tengist slysinu. Verði slysið rakið til annars búnaðar, svo sem vél-, raf-, gufu-, hand- eða vökvaknúinna tækja, skal sá búnaður ekki notaður fyrr en rannsókn á honum hefur farið fram nema öryggi og framhald siglingar krefjist. Í þeim tilvikum þegar viðgerð á tæki úti á sjó er óumflýjanleg er skipstjóra og yfirvélstjóra skylt að sjá um að ítarleg skýrsla sé gerð um bilunina og viðgerðina og að allir hlutir sem taka þarf út og setja nýja í staðinn fyrir séu varðveittir. Slíkar skýrslur, svo og allir hlutir sem skylt er að taka til varðveislu um borð í skipi í sambandi við slys, skulu afhentar nefndinni við komu til hafnar.

8. gr.

     Við rannsókn sjóslyss getur nefndin óskað aðstoðar og upplýsinga frá öðrum opinberum aðilum.
     Rannsóknarnefnd sjóslysa og starfsmenn hennar skulu hafa óhindraðan aðgang að vettvangi sjóslyss, jafnvel þótt um staði í einkaeign sé að ræða. Nú fer jafnframt fram lögreglurannsókn á vettvangi og skulu þá aðilar hafa samráð um vettvangsskoðun.
     Nefndin og starfsmenn hennar hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi eftir eigin mati, sbr. 9. gr.

9. gr.

     Rannsóknarnefnd sjóslysa og starfsmönnum hennar er heimilt að krefjast framlagningar allra skjala er varða skip, svo sem leiðar-, dag- og véladagbókar, eftirlitsbókar, allra vottorða sem skylt er að hafa um borð í skipi, skráa yfir skipverja, útskrifta úr tölvum er varða siglingu og vélbúnað skips, svo og annarra gagna er ástæða þykir til, t.d. um fjarskipti og gögn sem varða rekstur og siglingu skipsins. Þeim er einnig heimilt að taka skýrslur af eiganda, notanda eða umráðanda skips, áhöfn þess og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyssins.
     Nefndin getur leitað aðstoðar rannsóknastofnana, innlendra eða erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er við rannsókn sjóslyss. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni þessa aðstoð.
     Rannsóknarnefnd sjóslysa er heimilt að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt.

10. gr.

     Rannsóknarnefnd sjóslysa getur haldið skipi eða hverjum hluta þess og búnaði sem er svo lengi sem hún telur þörf vegna rannsóknarinnar. Slíkri heimild skal þó ekki beita nema það teljist óhjákvæmilegt vegna rannsóknar málsins.
     Ágreining um hvort skip sé látið laust má bera undir dómara í varnarþingi þar sem skipið er statt.

11. gr.

     Rannsóknarnefnd sjóslysa er heimilt að hljóðrita skýrslur er varða rannsókn sjóslyss. Nefndin afritar það af upptökum sem hún telur máli skipta varðandi rannsókn máls, ella skulu aðalatriði skýrslu skráð.
     Aðila máls, fyrirsvarsmanni hans og öðrum þeim sem rannsóknarnefnd sjóslysa telur nauðsynlegt að gefi skýrslu til að upplýsa málið er skylt að koma fyrir nefndina til að svara spurningum sem til þeirra er beint.

12. gr.

     Skýrslum rannsóknarnefndar sjóslysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum, sbr. 4. mgr. 1. gr., enda er markmið sjóslysarannsókna samkvæmt lögum þessum að greina orsakaþætti sjóslysa í því skyni einu að koma í veg fyrir að slys af sömu eða sambærilegum orsökum endurtaki sig til sjós. Tilgangurinn er ekki að skipta sök eða ábyrgð. Skal þessa getið á forsíðu hverrar lokaskýrslu sem rannsóknarnefnd sjóslysa sendir frá sér.
     Ekki skal afhenda gögn með framburði skýrslugjafa fyrir nefndinni.

13. gr.

     Aðilar máls, eigandi, útgerðarmaður viðkomandi skips og flokkunarfélag þess, svo og Siglingastofnun Íslands, skulu eiga þess kost, á þann hátt sem rannsóknarnefnd sjóslysa ákveður, að tjá sig um drög að lokaskýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests áður en endanlega er gengið frá skýrslunni, sbr. 14. gr., enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða það sé augljóslega óþarft. Nú er gerð skrifleg krafa um að mega tjá sig áður en lokaskýrsla er gerð og skal þá verða við þeirri kröfu.

14. gr.

     Þegar rannsókn er lokið skal rannsóknarnefnd sjóslysa svo fljótt sem verða má semja skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyssins, auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um varúðarráðstafanir sem gera má til að afstýra frekari slysum af sama eða líkum toga. Skýrslan skal send samgönguráðherra, Siglingastofnun Íslands, siglingaráði og aðilum máls.
     Rannsóknarnefnd sjóslysa skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum til sjós eftir því sem rannsókn á orsökum sjóslysa gefur tilefni til. Siglingastofnun Íslands ber að sjá til þess að tillögur til úrbóta sem berast frá nefndinni séu teknar til formlegrar afgreiðslu hverju sinni. Siglingastofnun Íslands skal senda nefndinni niðurstöður slíkrar afgreiðslu.
     Nefndin skal í lok hvers starfsárs semja yfirlit um hvernig tillögum hennar hefur verið framfylgt og senda samgönguráðherra. Yfirlitið skal birta í heildarskýrslu nefndarinnar.
     Nefndin skal gefa út heildarskýrslu um störf sín ár hvert og afhenda ráðherra.
     Rannsóknarnefnd sjóslysa sér um að dreifa skýrslum nefndarinnar um einstök mál. Skýrslurnar skulu teljast opinber gögn. Skýrslur nefndarinnar má selja á kostnaðarverði.

15. gr.

     Rannsóknarnefnd sjóslysa getur endurupptekið þegar rannsakað mál, sbr. 13. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati. Mat nefndarinnar í þessu efni er endanlegt.

16. gr.

     Í reglugerð sem samgönguráðherra setur skal nánar kveðið á um störf rannsóknarnefndar sjóslysa, m.a. um samskipti við aðra rannsóknaraðila, skrifstofuhald, geymslu málsgagna, persónuskilríki um réttarstöðu nefndarmanna og heimildir þeirra í störfum, nauðsynlegan útbúnað og tæki nefndarinnar til vettvangsrannsókna og einstaka þætti málsmeðferðar eftir því sem þurfa þykir.
     Ráðherra er enn fremur heimilt að setja reglugerðir um rannsókn sjóslysa að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum.

17. gr.

     Brot á ákvæðum 6. gr. varðar sektum.

18. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2000.
     Með lögum þessum eru numin úr gildi ákvæði 230. og 231. gr. laga nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara fellur úr gildi skipun núverandi rannsóknarnefndar sjóslysa og skal ráðherra eftir gildistökuna skipa rannsóknarnefnd sjóslysa samkvæmt lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.