Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1323, 125. löggjafarþing 530. mál: stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
Lög nr. 98 22. maí 2000.

Lög um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.


1. gr.

     Stofna skal hlutafélag um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Nafn félagsins skal vera Samábyrgðin hf. Hlutverk hlutafélagsins er að hafa á hendi þá starfsemi sem vátryggingafélögum er heimil samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.
     Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til hlutafélagsins. Við stofnun hlutafélagsins skal allt hlutafé vera í eigu ríkissjóðs. Samábyrgðin hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum.

2. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni hf.
     Ráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í félaginu við stofnun þess. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár á stofnfundi félagsins nemi eigi lægri fjárhæð en 75% af eigin fé Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum eins og það er samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi fyrir árið 1998. Hlutafé getur þó tekið breytingum til hækkunar.
     Ráðherra ákveður skiptingu hlutafjár í hluta.
     Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gildir ekki um innborgun hlutafjár. Þá gilda ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. þeirra laga ekki um fjölda stofnenda og hluthafa.

3. gr.

     Allir starfsmenn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, sem taka laun samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skulu eiga kost á sambærilegu starfi hjá Samábyrgðinni hf. eftir yfirtöku hennar á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
     Nú tekur maður, sem gegnir starfi hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, við starfi hjá Samábyrgðinni hf. og skal hann á því tímamarki njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Réttur hans til launa hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum fellur niður er hann tekur við starfinu.

4. gr.

     Hinn 1. júlí 2000 tekur Samábyrgðin hf. við starfsemi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Á því tímamarki er Samábyrgð Íslands á fiskiskipum lögð niður. Starfsleyfi það er Samábyrgð Íslands á fiskiskipum hefur færist þá sjálfkrafa til Samábyrgðarinnar hf.
     Viðskiptaráðherra skipar þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnunar félagsins og fyrirhugaðrar starfrækslu og ekki falla undir valdsvið stjórnar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.
     Kostnaður af stofnun hlutafélags greiðist af Samábyrgðinni hf.

5. gr.

     Berist sameiginlegt tilboð frá öllum bátaábyrgðarfélögunum í eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni hf. er viðskiptaráðherra heimilt að selja þeim sameiginlega eignarhlutinn fyrir verð er nemur að lágmarki 85% af reiknuðu upplausnarvirði félagsins eins og það er á stofndegi þess.
     Hafi sameiginlegt tilboð allra bátaábyrgðarfélaganna ekki borist ráðherra fyrir 1. september 2000 og samningaviðræðum lokið fyrir 1. nóvember 2000 skal ráðherra bjóða hlutaféð til sölu á almennum markaði eða leysa upp félagið.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Hinn 30. júní 2000 falla úr gildi lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 37/1978, með síðari breytingum. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um bátaábyrgðarfélög, nr. 18/1976, með síðari breytingum. Núgildandi lögmæltar húftryggingar fiskiskipa gilda út umsamið vátryggingartímabil. Vátryggingartakar skulu tilkynna vátryggjanda sínum í síðasta lagi mánuði fyrir lok vátryggingarinnar hyggist þeir segja vátryggingunni upp.
     Um Samábyrgðina hf. og starfandi bátaábyrgðarfélög gilda, að öðru leyti en leiðir af ákvæðum laga þessara, ákvæði laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum. Ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum, eiga einnig við um Samábyrgðina hf., eftir því sem við á.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.