Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 632, 127. löggjafarþing 180. mál: girðingarlög (heildarlög).
Lög nr. 135 21. desember 2001.

Girðingarlög


1. gr.

     Markmið með þessum lögum er að fjalla um girðingar, hverjir fara með forræði yfir þeim og kostnaðarskiptingu við uppsetningu þeirra á landamerkjum.
     Lögin gilda um allar girðingar. Sérlög sem fjalla um girðingar halda gildi sínu en þó gilda ákvæði þessara laga og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim alltaf um gerð girðinga.

2. gr.

     Girðingar í lögum þessum, þegar ekki er annars getið, eru netgirðing, gaddavírsgirðing og rafgirðing. Einnig teljast til girðinga girðingar úr ýmsu efni, svo sem úr tré, steinsteypu, stáli, áli, plasti, grjóti og torfi og að auki aðrar girðingar sem teljast gripheldar að mati búnaðarsambands.

3. gr.

     Landbúnaðarráðherra setur almenna reglugerð sem kveður á um ýmsa staðla og orðskýringar. Í reglugerðinni skal kveðið á um það hvaða skilyrði girðing þarf að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir hverja búfjártegund. Í henni skal einnig mælt fyrir um hvernig háttað skuli undirbúningi, uppsetningu, gerð og tæknilegum frágangi girðinga, hliða o.fl. sem tengist þeim.

4. gr.

     Nú er jörð ekki í ábúð og/eða umráðamaður lands hefur ekki hug á að nota girðingu og skal þá láta girðinguna standa ef nágrannajörð eða jarðir geta haft not af henni eða hluta úr henni. Viðhaldsskyldan á þeim hluta færist yfir á ábúanda þeirrar jarðar, enda á hann rétt á að kaupa girðinguna eða þann hluta hennar er hann hefur gagn af, eftir mati úrskurðaraðila, sbr. 7. gr.

5. gr.

     Nú vill umráðamaður lands girða það og hefur hann þá rétt til að krefjast þess að sá eða þeir sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu að tiltölu við lengd girðingar fyrir landi hvers og eins og er það meginreglan. Þó er hægt að semja um aðra skiptingu nái aðilar um það samkomulagi. Eigi síðar en ári áður en verk er hafið skal sá er samgirðingar óskar hafa samráð við þann eða þá sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði og leggja fram tillögur um tegund girðingar. Hver aðili hefur rétt til að leggja fram efni, flutning og vinnu í hlutfalli við þátttöku í kostnaðinum. Neiti sá eða þeir er samgirðingar eru krafðir þátttöku í undirbúningi eða framkvæmd verksins getur sá er girða vill beint tilmælum til viðkomandi búnaðarsambands um að tilnefna fagaðila til að skera úr um ágreining, sbr. ákvæði 7. gr. Telji úrskurðaraðilar að sá sem girða vill eigi rétt á samgirðingu getur hann sett girðinguna upp og á hann þá kröfurétt á endurgreiðslu á þeim hluta kostnaðar er hinum ber að greiða, enda hafi ekki verið reist dýrari girðing en úrskurðaraðilar töldu nauðsynlegt.

6. gr.

     Vilji meiri hluti landeigenda sem eiga lönd er liggja að afrétti girða milli afréttar og heimalanda sinna skulu eigendur eða notendur afréttar greiða 4/ 5 hluta stofnkostnaðar girðingarinnar, en eigendur eða ábúendur hlutaðeigandi jarða 1/ 5. Þó er hægt að semja um aðra skiptingu kostnaðar nái aðilar um það samkomulagi. Ef forráðamenn sveitarfélaga ákveða einhliða að reisa slíka girðingu greiðir sveitarfélagið allan stofnkostnað girðingarinnar. Ef ágreiningur verður um framkvæmd verksins fer um það eins og segir í 5. og 7. gr. Um girðingarkostnað milli afréttarlanda gilda sömu reglur og um landamerkjagirðingar sé að ræða. Viðhaldskostnaður allra girðinga greiðist í sömu hlutföllum og stofnkostnaður, nema þeirra girðinga er Vegagerðin setur upp, sbr. vegalög, nr. 45/1994.
     Nú er landamerkjagirðing til staðar sem kostuð hefur verið eftir öðrum hlutföllum en um getur í 5. gr. og skal þá viðhald hennar falla undir fyrirmæli 5. gr. eftir að lög þessi hafa öðlast gildi, enda brjóti það ekki í bága við gildandi samninga.

7. gr.

     Nú verða aðilar ekki ásáttir um hvers konar girðingu skuli reisa, kostnaðarskiptingu eða um aðra framkvæmd verksins og skal þá viðkomandi búnaðarsamband tilnefna einn fagaðila til að skera úr um ágreining, sveitarfélag einn og sýslumaður einn. Liggi girðing á mörkum sveitarfélaga skal hvor aðili tilnefna aðila úr sínu sveitarfélagi til að jafna ágreininginn ásamt oddamanni frá hlutaðeigandi búnaðarsambandi. Liggi girðingin á mörkum stjórnsýsluumdæma tilnefna hlutaðeigandi sýslumenn sinn manninn hver, en stjórn Bændasamtaka Íslands tilnefnir oddamann/menn og skal afl atkvæða ráða úrslitum.
     Kostnað við matið greiða aðilar eftir sömu hlutföllum og girðingarkostnaðinn og ákveða úrskurðaraðilar hverju hann nemur.

8. gr.

     Nú eru lagðar girðingar á vegum ríkisstofnana, án framlags frá ábúendum eða eigendum viðkomandi jarða, og einstaklingum eða sveitarfélögum er gefinn kostur á því að eignast þær. Þá gilda sömu reglur um greiðslu á viðhaldi, eftir því sem við á, og um aðrar þær girðingar er lög þessi mæla fyrir um, en haldast skulu sérákvæði annarra laga um slíkar girðingar.
     Nú er ekki þörf á slíkri girðingu og enginn gefur kost á að halda henni við og er þá ríkinu skylt að láta taka hana upp. Hafi þessi skylda verið vanrækt í eitt ár eða lengur, eftir að lög þessi öðlast gildi, er viðkomandi sveitar- eða upprekstrarfélagi/félögum heimilt að láta taka girðinguna upp á kostnað ríkisins.

9. gr.

     Nú er girðing gerð á landamerkjum og skal hún þá svo reist að á hvorugan sé gengið sem land á að henni. Efni skal, eftir því sem með þarf, taka að jöfnu úr þeim löndum sem að henni liggja.
     Nú ræður landamerkjum krókóttur vatnsfarvegur eða merki liggja í smákrókum af öðrum ástæðum, en landeigandi vill girða beint og vill sá eigi samþykkja er á land á móti. Þá skal það þó heimilt ef úrskurðaraðilar, sbr. 7. gr., meta að eigi séu gildar ástæður til að banna girðinguna og skulu þeir þá ákveða girðingunni stað og skal það gert þannig að sem jafnast sneiðist bæði löndin. Nú fer þó svo að meira sneiðist annað landið og skal þá meta skaðabætur þeim er landið missir. Girðingarstæðið skal merkt inn á jarðakort. Það sama á við þegar náttúrulegar hindranir gera ókleift eða óhóflega dýrt að mati úrskurðaraðila, sbr. 7. gr., að girða á landamerkjum.
     Réttur til hvers konar hlunninda, jarðhita eða námuverðmæta, helst þó óbreyttur, nema samkomulag verði um að girðingin skipti löndum til fullnustu.

10. gr.

     Sé land í óskiptri sameign geta einn eða fleiri landeigendur því aðeins girt á því landi að allir sameigendur séu samþykkir girðingunni.
     Náist ekki samkomulag er því aðeins hægt að girða að landskipti hafi farið fram.

11. gr.

     Skylt er að halda öllum girðingum svo vel við að búfé eða öðrum stafi ekki hætta af þeim.
     Samgirðingu sem lögð er samkvæmt ákvæðum 5.–10. gr. er skylt að halda við, þannig að hún sé gripheld, svo fljótt sem verða má eftir að snjóa leysir og þar til snjó leggur. Vanræki annar hvor aðili viðhald hennar að sínum hluta er hinum heimilt, að höfðu samráði við viðkomandi búnaðarsamband, að gera við hana á kostnað eiganda. Nú sýnir eigandi samgirðingar stórfellt hirðuleysi í þessu efni svo að sameigandi hans í girðingunni eða annar aðili verður af þeim sökum fyrir sannanlegu tjóni og á hann þá rétt til bóta frá þeim sem olli.
     Valdi vanræksla í þessu efni skaða varðar það sektum og skaðabótum til tjónþola.
     Nú er hætt að nota samgirðingu og jafnframt að halda henni við og er þá girðingareigendum skylt að taka hana upp svo að hún valdi ekki tjóni.

12. gr.

     Þegar lögð er girðing af ábúanda fer um skyldur jarðeiganda við burtför ábúandans eftir sömu reglum og um hús á jörðinni sé að ræða, sbr. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976.
     Öllum umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burtu af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingarflækjur. Nú vanrækir umráðamaður lands þessi fyrirmæli í eitt ár eftir að lög þessi öðlast gildi og er þá sveitarstjórn skylt að framkvæma verkið á hans kostnað að fengnu mati búnaðarsambands og á sveitarstjórn þá lögveð í jörðinni fyrir greiðslu kostnaðar. Það sama gildir um eyðijarðir.

13. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða sektum.
     Með brot móti lögum þessum og samþykktum sem gerðar kunna að verða samkvæmt þeim skal farið að hætti opinberra mála.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt eru úr gildi felld girðingarlög, nr. 10/1965, ásamt síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2001.