Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 954, 128. löggjafarþing 242. mál: íslenskur ríkisborgararéttur (tvöfaldur ríkisborgararéttur).
Lög nr. 9 24. febrúar 2003.

Lög um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952 (tvöfaldur ríkisborgararéttur).


1. gr.

     3. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 49/1982, orðast svo:
     Útlendingur sem hefur átt hér lögheimili og haft hér samfellda dvöl frá því að hann náði 11 ára aldri, eða frá 13 ára aldri sé hann ríkisfangslaus, öðlast íslenskan ríkisborgararétt með því að tilkynna dómsmálaráðuneytinu skriflega þá ósk sína eftir að hann hefur náð 18 ára aldri en áður en hann hefur náð 20 ára aldri.

2. gr.

     7. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 49/1982 og 9. gr. laga nr. 62/1998:
  1. Í stað orðsins „forseti“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: dómsmálaráðherra.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Dómsmálaráðherra úrskurðar hvort fullnægt er skilyrði 1. mgr. um dvöl hér á landi til að halda ríkisfanginu, leiki á því vafi.


4. gr.

     9. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 49/1982, orðast svo:
     Dómsmálaráðherra getur leyst þann sem búsettur er erlendis og er orðinn eða óskar að verða erlendur ríkisborgari undan íslensku ríkisfangi, enda sanni aðili að hann verði innan ákveðins tíma erlendur ríkisborgari, ef hann er ekki þá þegar orðinn það. Eigi hann lögheimili hér á landi verður hann eigi leystur frá íslensku ríkisfangi nema sérstakar ástæður séu til að mati dómsmálaráðherra.
     Eigi verður þeim neitað um að verða leystur undan ríkisfangi sem er erlendur ríkisborgari og á lögheimili erlendis.

5. gr.

     9. gr. a laganna fellur brott.

6. gr.

     3. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1998, orðast svo:
     Yfirlýsingu skv. 3. gr., 4. gr. og B- og C-lið 9. gr. b um að maður óski að verða íslenskur ríkisborgari getur aðeins sá aðili sjálfur gefið en ekki forsjármaður.

7. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Barn sem er fætt eftir 1. júlí 1964 en fyrir 1. júlí 1982 og hefði öðlast íslenskan ríkisborgararétt ef ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga þessara, sbr. lög nr. 49/1982, hefði verið í gildi er það fæddist öðlast íslenskt ríkisfang með því að tilkynna dómsmálaráðuneyti skriflega þá ósk sína, enda hafi móðir þess verið íslenskur ríkisborgari við fæðingu þess og til 1. júlí 1982.
     Sá sem óskar að öðlast íslenskt ríkisfang skv. 1. mgr. skal fullnægja ákvæði 8. gr. um lögheimili eða dvöl hér á landi fyrir 22 ára aldur.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Sá sem misst hefur íslensks ríkisfangs samkvæmt upphaflegum ákvæðum 7. gr. laga nr. 100/1952 en hefði haldið því ef greinin hefði verið fallin úr gildi á þeim tíma er hann missti íslenska ríkisfangið öðlast það að nýju með því að tilkynna dómsmálaráðherra skriflega þá ósk sína fyrir 1. júlí 2007 enda fylgi henni fullnægjandi gögn að mati ráðuneytisins.
     Sé viðkomandi háður forsjá annarra annast forsjáraðili tilkynninguna.
     Eigi sá sem öðlast íslenskt ríkisfang samkvæmt þessu ákvæði ógift börn undir 18 ára aldri sem hann hefur forsjá fyrir öðlast þau einnig ríkisfangið. Sé barnið orðið 12 ára og hafi erlent ríkisfang skal barnið veita samþykki sitt til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Samþykkis skal þó ekki krafist sé barnið ófært um að veita það sökum andlegrar fötlunar eða annars sambærilegs ástands.

Samþykkt á Alþingi 10. febrúar 2003.