Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1506, 132. löggjafarþing 788. mál: vinnumarkaðsaðgerðir (heildarlög).
Lög nr. 55 14. júní 2006.

Lög um vinnumarkaðsaðgerðir.


I. KAFLI
Gildissvið og markmið.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um vinnumarkaðsaðgerðir.
     Með vinnumarkaðsaðgerðum er átt við vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem eru til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda.
     Atvinnuleitandi í skilningi laga þessara er hver sá sem sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
     Þá er lögum þessum ætlað að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.

3. gr.

Yfirstjórn.
     Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt lögum þessum.

4. gr.

Vinnumálastofnun.
     Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga þessara í umboði félagsmálaráðherra. Ráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag. Vinnumálastofnun annast jafnframt önnur þau verkefni sem henni eru falin með sérlögum.
     Félagsmálaráðherra skipar forstjóra Vinnumálastofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og ber lagalega og rekstrarlega ábyrgð á henni gagnvart ráðherra. Hann skal annast gerð starfs- og fjárhagsáætlunar stofnunarinnar og leggja hana fyrir stjórn hennar til samþykkis eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs.
     Vinnumálastofnun skal reka þjónustustöðvar. Félagsmálaráðherra ákveður hvar á landinu þær skulu vera að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar stofnunarinnar.
     Kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar vegna framkvæmdar á lögum þessum greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Leita skal eftir samstarfi við aðra aðila um fjármögnun, svo sem lífeyrissjóði.
     Félagsmálaráðherra getur með reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, falið stofnuninni önnur verkefni en kveðið er á um í lögum þessum.

5. gr.

Stjórn Vinnumálastofnunar.
     Félagsmálaráðherra skipar tíu manna stjórn Vinnumálastofnunar að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn. Tveir stjórnarmenn skulu tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndur af fjármálaráðuneyti, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Ráðherra skipar tvo stjórnarmenn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnar stofnunarinnar og hinn varaformaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Stjórn Vinnumálastofnunar skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Stjórninni er meðal annars ætlað að fjalla um og samþykkja starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar sem forstjóri leggur fyrir hana eigi síðar en í desember vegna komandi rekstrarárs. Enn fremur skal hún árlega leggja fram tillögur til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um fjármagn til greiðslu atvinnuleysisbóta og umsýslu Vinnumálastofnunar fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi. Stjórn stofnunarinnar skal jafnframt annast faglega stefnumótun á sviði vinnumarkaðsaðgerða og gera félagsmálaráðherra grein fyrir atvinnuástandi og árangri vinnumarkaðsaðgerða í skýrslu í lok hvers árs. Skal stjórnin hafa reglulegt samráð við vinnumarkaðsráðin, sbr. 6. gr., við mat á atvinnuástandi á hverju svæði.
     Forstjóri Vinnumálastofnunar skal sitja fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt.
     Stjórnarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu í stjórninni og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af stjórnarsetu.
     Félagsmálaráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.

6. gr.

Vinnumarkaðsráð.
     Félagsmálaráðherra skipar sjö manna svæðisbundin vinnumarkaðsráð. Í hvert vinnumarkaðsráð skulu tveir ráðsmanna tilnefndir af samtökum launafólks á hverju svæði og tveir ráðsmanna tilnefndir af samtökum atvinnurekenda. Jafnframt skal einn ráðsmanna tilnefndur af menntamálaráðherra, einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og einn tilnefndur af sveitarfélögum á hverju svæði. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Félagsmálaráðherra skipar formann og varaformann vinnumarkaðsráðs úr hópi þeirra sem tilnefndir hafa verið sem aðalmenn.
     Náist ekki samkomulag um tilnefningu skv. 1. mgr. úrskurðar félagsmálaráðherra um hver skuli tilnefna fulltrúa í ráðið með hliðsjón af því hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru og að fenginni umsögn viðkomandi heildarsamtaka.
     Félagsmálaráðherra ákveður staðsetningu vinnumarkaðsráða að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar Vinnumálastofnunar.
     Vinnumarkaðsráð á hverju svæði skal skila skýrslu til stjórnar Vinnumálastofnunar um stöðu atvinnumála í nóvember ár hvert ásamt tillögum um þær vinnumarkaðsaðgerðir sem mælt er með að lögð verði áhersla á árið eftir. Enn fremur skulu vinnumarkaðsráðin vera hlutaðeigandi þjónustustöð Vinnumálastofnunar til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum.
     Félagsmálaráðherra getur falið vinnumarkaðsráðum önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið laganna að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar.

7. gr.

Umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
     Atvinnuleitendum á aldrinum 16 til 70 ára er heimilt að sækja um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skulu fylgja nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar, svo sem vottorð sérfræðilæknis þegar um skerta vinnufærni er að ræða. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær studdar fullnægjandi gögnum. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður hans samþykkja umsóknina með undirritun sinni.
     Umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum felur í sér skráningu hjá vinnumiðlun Vinnumálastofnunar og beiðni um aðstoð ráðgjafa stofnunarinnar við atvinnuleit.
     Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum frá öðrum aðilum vegna einstakra umsókna þegar ástæða er til að mati hennar.

8. gr.

Tilkynning um að atvinnuleit sé hætt.
     Sá sem hefur sótt um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og notið þjónustu Vinnumálastofnunar í atvinnuleit samkvæmt lögum þessum skal tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Tilkynningin skal gerð með sannanlegum hætti og skal taka fram ástæðu þess að atvinnuleit var hætt.

9. gr.

Kæruheimild.
     Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Um málsmeðferð fer skv. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

III. KAFLI
Vinnumarkaðsaðgerðir.

10. gr.

Vinnumiðlun.
     Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir laus störf sem í boði eru á landinu öllu enda er landið eitt atvinnusvæði. Þar skal meðal annars koma fram í hverju starf er fólgið, hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda og annað er máli skiptir. Vinnumálastofnun annast enn fremur vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     Vinnumálastofnun skal aðstoða alla á aldrinum 16 til 70 ára sem hafa heimild til að ráða sig til starfa hér á landi án takmarkana við atvinnuleit. Stofnunin skal miðla upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda og veita þeim aðstoð við að finna störf við hæfi. Þegar talið er að atvinnuleitandi uppfylli skilyrði starfslýsingar á lausu starfi skal Vinnumálastofnun veita aðstoð við að koma á sambandi milli atvinnuleitanda og þess atvinnurekanda sem óskar eftir starfsmanni.
     Vinnumálastofnun skal jafnframt aðstoða atvinnurekendur sem leita eftir almennum upplýsingum um framboð á vinnuafli eða aðstoð við ráðningu starfsfólks.

11. gr.

Mat á vinnufærni atvinnuleitanda.
     Þegar atvinnuleitandi sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum fer fram mat á vinnufærni hans hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Atvinnuleitandi skal leggja fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans svo að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í einstökum vinnumarkaðsúrræðum. Með samkomulagi við atvinnuleitandann er síðan gerð áætlun um atvinnuleit hans og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum á grundvelli matsins. Jafnframt skal leiðbeina atvinnuleitanda um aðra þjónustu verði talin þörf á að hann leiti sér aðstoðar í öðrum opinberum þjónustukerfum áður eða samhliða þeirri þjónustu sem veitt er samkvæmt lögum þessum.
     Þjónusta ráðgjafa Vinnumálastofnunar skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins atvinnuleitanda. Enn fremur skal miða við atvinnuhorfur í landinu á hverjum tíma. Þegar atvinnuleitandi er yngri en 18 ára skal hafa hliðsjón af ákvæðum barnaverndarlaga og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum við gerð áætlunar um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum.
     Heimilt er að binda þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum við það skilyrði að hann leiti sér fyrst eða samhliða aðstoðar annarra þjónustuaðila.

12. gr.

Skipulag vinnumarkaðsúrræða.
     Vinnumálastofnun annast skipulag vinnumarkaðsúrræða sem skiptast í eftirfarandi flokka:
  1. einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni,
  2. starfsúrræði, þ.e. starfskynning, starfsþjálfun og reynsluráðning,
  3. ráðgjöf samhliða námskeiðsþátttöku og reynsluráðningu,
  4. námsúrræði,
  5. atvinnutengd endurhæfing, og
  6. atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa.

     Vinnumálastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga um þátttöku atvinnuleitenda í einstökum vinnumarkaðsúrræðum sem aðrir þjónustuaðilar annast framkvæmd á.
     Félagsmálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipulag vinnumarkaðsúrræða að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, svo sem hvers konar námskeið skuli haldin og hvaða nám teljist til vinnumarkaðsaðgerða.

13. gr.

Þátttaka atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum.
     Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

14. gr.

Eftirlit með þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum.
     Ráðgjafar Vinnumálastofnunar skulu hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. Skulu þeir boða atvinnuleitendur reglulega í viðtöl eftir þörfum hvers og eins atvinnuleitanda. Skal þá fara yfir áætlun um atvinnuleit og þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsúrræðum og hún endurskoðuð eftir þörfum hverju sinni. Geta þeir óskað eftir gögnum frá atvinnuleitanda er færir sönnur á atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum þegar þörf krefur.
     Heildarendurskoðun á aðstæðum atvinnuleitanda skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir að hann sótti fyrst um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og hann er enn án atvinnu.
     Vinnumálastofnun er heimilt að synja atvinnuleitanda um þjónustu samkvæmt lögum þessum þegar hann fylgir ekki eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, þar á meðal ítrekað hafnar þátttöku í einstökum vinnumarkaðsúrræðum, sinnir því ekki að leita sér aðstoðar hjá öðrum þjónustuaðilum, sbr. 3. mgr. 11. gr., eða lætur hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína eða þær breytingar er kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

15. gr.

Samstarf við aðra þjónustuaðila.
     Ráðgjafar Vinnumálastofnunar skulu leita eftir samstarfi við aðra þjónustuaðila í samráði við atvinnuleitanda þegar atvinnuleitandi þarf á þjónustu annarra fagaðila að halda til að ná árangri við að bæta vinnufærni sína í því skyni að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.
     Enn fremur skulu ráðgjafar Vinnumálastofnunar starfa náið með öðrum þjónustuaðilum þegar atvinnuleitandi nýtur þjónustu þeirra eða aðrir þjónustuaðilar leita eftir liðsinni þeirra.
     Ráðgjafar Vinnumálastofnunar skulu tilkynna um tilvik þar sem atvinnuleitendur fylgja ekki eftir áætlun þeirra um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum til hlutaðeigandi þjónustuaðila þegar um slíkt hefur verið samið á grundvelli þjónustusamninga.

16. gr.

Þjónusta án endurgjalds.
     Þjónusta Vinnumálastofnunar skal vera atvinnuleitendum og atvinnurekendum að kostnaðarlausu.

IV. KAFLI
Könnun á aðstæðum á vinnumarkaði.

17. gr.

Öflun upplýsinga um atvinnuástand í landinu.
     Vinnumálastofnun skal reglulega afla upplýsinga um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur frá einstökum landshlutum. Jafnframt skal hún fylgjast með samsetningu vinnuaflsins í landinu.
     Vinnumálastofnun skal jafnframt reglubundið kanna mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum þannig að meta megi atvinnumöguleika námsmanna eftir námsleiðum og efla ráðgjöf við nemendur í framhalds- og háskólanámi þar að lútandi.

18. gr.

Miðlun upplýsinga um atvinnuástand í landinu.
     Vinnumálastofnun skal gefa út skýrslu í byrjun hvers árs um stöðu mála á innlendum vinnumarkaði þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um atvinnuleysi, atvinnuhorfur og mannaflaþörf innan tiltekinna starfsgreina og útgáfu atvinnuleyfa til erlendra starfsmanna.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.

19. gr.

Einkareknar vinnumiðlanir.
     Fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum er heimilt að annast milligöngu um ráðningar, enda sé það gert á kostnað atvinnurekenda.
     Mál vegna brota skv. 1. mgr. skulu varða sektum sem renna skulu í ríkissjóð. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

20. gr.

Reglugerðarheimild.
     Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, um nánari framkvæmd laga þessara.

21. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Enn fremur falla úr gildi lög nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.