Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1400, 138. löggjafarþing 424. mál: stjórn fiskveiða (byggðakvóti).
Lög nr. 74 23. júní 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (byggðakvóti, ráðstöfun aflaheimilda).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, 3. málsl., svohljóðandi: Einnig er ráðherra heimilt að setja reglur um að ekki sé heimilt að úthluta aflaheimildum til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem fluttar hafa verið til skipanna á tilteknu fiskveiðiári.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Heimilt er að flytja aflamark einstakra fiskveiðiára sem úthlutað er samkvæmt þessari grein yfir á næsta fiskveiðiár og úthluta því með þeim aflaheimildum sem koma til úthlutunar á því fiskveiðiári. Aflamark sem er flutt frá eldra fiskveiðiári skal tilheyra aflamarki þess fiskveiðiárs sem hófst 1. september næst á undan úthlutun aflamarks.


2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur á fiskveiðiárunum 2009/2010, 2010/2011 og 2011/2012 bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsal eða önnur ráðstöfun þeirra út fyrir sveitarfélagið eða byggðarlagið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Handhafa aflahlutdeildar (aflaheimildar) ber að tilkynna Fiskistofu ef áformað er að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum frá sveitarfélagi eða byggðarlagi, innan mánaðar áður en umrætt framsal eða ráðstöfun á að fara fram. Fiskistofa skal þegar í stað tilkynna ráðherra ef framsal eða önnur ráðstöfun aflaheimilda fer yfir fimmtung eða meira. Ákvörðun ráðherra um að framsal eða önnur ráðstöfun sé óheimil skal tilkynnt handhafa aflaheimildar innan tveggja mánaða frá því að tilkynning barst Fiskistofu.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. júní 2010.